Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1999/ Erum orðnar talsverðir sjóarar í okkur
Erum orðnar talsverðir sjóarar í okkur
-segja sjókonurnar Lilja Matthíasdóttir og Sæbjörg Logadóttir hásetar á Vestmannaey VE
Þó ekki sé algengt að finna konur sem starfa við sjómennsku þá eru samt nokkrar konur sem lagt hafa sjómennskuna fyrir sig. Reyndar er ekki nýtt að konur stundi sjó því þekkt eru nöfn sjókvenna frá fyrri árum en yfirleitt liggur starfsvettvangur kvenna á öðrum slóðum en til sjós. Með tilkomu frystitogara varð þó breyting á þessu og á flestum frystitogurum starfar kvenfólk um borð.
Á Vestmannaey VE hafa verið konur frá því skipinu var breytt í frystiskip, tvær til fjórar í senn. Sumar hafa starfað um skamman tíma en aðrar hafa enst betur í starfinu og eru orðnar hagvanar um borð.
Sjómannadagsblaðið mælti sér mót við sjókonurnar, Lilju Matthíasdóttur og Sæbjörgu Logadóttur, sem eru hásetar á Vestmannaey, til að heyra hvernig þeim líkar sjómennskan og hvernig það er að vera kona í því karlasamfélgi sem áhafnir skipa eru yfirleitt.
Það var ekki auðvelt að finna lausan tíma til að spjalla við sjókonurnar en þær gáfu sér þó tíma af dýrmætri inniverunni til að setjast niður á Caffi Maríu laugardagssíðdegi í byrjun mars. Verið var að sjóbúa Vestmannaey fyrir næsta túr, rallið svokallaða, sem halda átti í um miðnætti. Sæbjörg ætlaði í frí fyrri hluta rallsins en Lilja var á leiðinni á sjó um kvöldið. Það lá létt í stelpunum. Sæbjörg var búin að setja stefnuna á skemmtanalíf Eyjamanna um kvöldið en Lilja sagði það ekkert pirra sig þó farið væri af stað í túr um miðnætti á laugardagskvöldi, inniveran væri bara búin.
Sjómennskan í blóð borin
Lilja var 20 ára þegar hún hóf störf á Vestmannaey haustið 1991 og hefur starfað þar síðan en Sæbjörg var 18 ára þegar hún byrjaði á Vestmannaey haustið 1996. Þær koma báðar frá sjómannsheimilum svo þær tengdust sjómennskunni óneitanlega og kannski hefur sjómennskan verið þeim í blóð borin. „Það hafði alltaf blundað í mér að fara á sjóinn. Ég vildi alltaf verða sjómaður eins og pabbi," segir Lilja.
„Það var svo vinkona mín, sem var búin að vera um borð í Vestmannaey, sem ýtti undir og hvatti mig til að sækja um pláss og það gerði útslagið á að ég ákvað að skella mér á sjóinn," bætir hún við. „Ég ætlaði nú aldrei að fara á sjó og fannst alveg nóg að kynnast sjómennskunni í gegnum pabba. Samt lá leið mín á sjóinn og ég er nú búin að vera um borð í Vestmannaey í nærri þrjú ár," segir Sæbjörg. „Sigrún systir var búin að vera um borð í Vestmannaey og það hefur kannski orðið til þess að ég ákvað að prófa þetta. Mér fannst allt í lagi að prófa að breyta til og þess vegna skellti ég mér á sjóinn. Mér fannst líka ágætt að fara á sjóinn á meðan ég væri að átta mig á hvað ég ætlaði að gera í framtíðinni. Ég var sjóveik fyrstu tímana en síðan hef ég ekki fundið fyrir því," segir Sæbjörg.
Þær segja báðar að þeim hafi fljótt líkað vel við starfið. Reyndar segist Lilja hafa verið rosalega sjóveik fyrst. „Ég var hryllilega sjóveik fyrst. Alveg að drepast og var ákveðin i því að á sjó færi ég aldrei aftur. Smám saman komst ég svo yfir sjóveikina í þessum fyrsta túr og þegar hún var að baki, fór að verða virkilega gaman að starfa. Ég hugsaði með mér að ágætt væri að vera á sjónum í eitt til tvö ár og fara þá í land en ég er enn þá að þó það séu að verða átta ár frá því ég byrjaði," segir Lilja.
Karlarnir tuða minna
Starf sjókvennanna um borð í Vestmannaey snýr að flestu sem gera þarf um borð. „Við vinnum við nánast allt sem til fellur nema að fara á dekk og taka trollið. Þetta er ekki bara starf við snyrtingu og pökkun eins og í frystihúsi heldur þurfum við að ganga í öll störf. Við sláum úr, förum í lest og vinnum bara öll þau verk sem til falla."
Á Vestmannaey eru staðnar sex tíma vaktir en síðan er frí í sex tíma. Þær segja að oftast sé unnið alla vaktina og fyrir komi að staðnar séu frívaktir en reyndar komi líka fyrir, þegar lítið aflast, að rólegt sé á vaktinni. Þær segjast kunna því vel að vinna með körlunum, sem eru í miklum meirihluta um borð, og segjast lítið njóta þess að vera konur, þeim sé ekkert hlíft og séu látnar ganga í öll störf. „Það er miklu skárra að vinna með körlum en kvenfólki. Þeir tuða ekki nærri því eins mikið og kerlingarnar," segir Sæbjörg og Lilja tekur undir með henni. „Við erum alveg jafningjar strákanna um borð og það eina sem við fáum kannski umfram þá er að stundum leyfa þeir okkur að sofa aðeins lengur ef ekkert er að gera." segja þær og hlæja.
Hljómsveit um borð
Túrarnir hjá Vestmannaey eru yfirleitt þriggja til fjögurra vikna langir og segjast þær lítið finna fyrir lengd þeirra meðan þær eru úti á sjó en segja að þegar komið sé í land eftir langan og erfiðan túr þá fyrst finni þær fyrir þreytunni. Hún komi ekki fram fyrr en í land sé komið. „Tíminn er yfirleitt fljótur að líða og túrinn er búinn fyrr en varir svo það er varla tími til að láta sér leiðast. Mórallinn um borð er mjög góður og áhöfnin er bara eins og ein stór fjölskylda. Það er því sjaldan sem við finnum fyrir leiða úti í sjó. Svo er líka hljómsveit um borð hjá okkur. Hún heitir Hlerarnir og er Obbi hljómsveitarstjórinn. Það eru gítarar, harmonika og hljómborð sem spilað er á í Hlerunum og svo er auðvitað sungið með. Hljómsveitin heldur tónleika um borð og eru bæði flutt frumsamin lög og þekktir slagarar. Svo er Obbi kominn með tónlistarskóla um borð og farinn að kenna áhöfninni á gítar."
Sjö peysu Smugutúr
Þær segja ýmislegt gert til að drepa tímann um borð bæði á frívaktinni og eins ef lítið fiskast og rólegt er í vinnslunni. ,,Það er spiluð gúrka, póker eða eitthvað annað." segja þær. „Ég hef nú farið í fatapóker líka." bætir Sæbjörg við og skellir upp úr. „Svo er prjónað og ég kom til dæmis með sjö peysur heim eftir einn Smugutúrinn." segir Lilja. ,,Þá er líka stundum gripið í litabókina og litað ef leiðindin eru alveg að gera út af við okkur en það er frekar sjaldan. Þá er stundum flakkað á milli skipa ef verið er að veiðum í úthafinu. Farið í heimsókn til nærstaddra skipa í kaffi og spjall. Það getur verið fín tilbreyting og hressir alla upp." „Ég lenti nú einu sinni í því þegar við vorum að fara í heimsókn um borð í Ránina. Verið var að hífa okkur um borð þegar vírinn í krananum slitnaði og ég lenti í sjónum. Ég náðist þó fljótt um borð enda var ég í flotgalla en það var gaman að þessu óhappi og það situr í minningunni," segir Sæbjörg.
Konur skapa betri umgengni um borð
Þær Lilja og Sæbjörg segjast kunna vel við sig í karlasamfélaginu og segjast ekki telja að andinn sé öðruvísi um borð í skipi þar sem kvenfólk er við störf en þar sem eingöngu eru karlar. „Við erum bara eins og strákarnir og stöndum alveg uppi í hárinu á þeim. Þeir vaða ekkert yfir okkur og við höfum munninn fyrir neðan nefnið. Annað þýðir ekki. Það þýðir ekkert að láta valtra yfir sig. Maður verður bara að standa fyrir sínu og á sínu annars fær maður bara að finna fyrir því. Strákarnir eru ekkert öðruvísi í talsmáta þó við séum nærri og þeir láta allt flakka. Þeir eru ekkert feimnir við okkur og við ekki við þá. Við erum bara hluti af hópnum um borð og föllum inn í samfélagið."
„Það eina sem ég held að sé öðruvísi þar sem konur eru um borð er umgengnin. Ég held að vera kvenna um borð í skipi bæti umgengnina og reki á eftir strákunum að þrífa betur eftir sig og ganga betur um." segir Lilja og Sæbjörg jánkar því til samþykkis.
Góð laun og samstaðan um borð heldur í okkur
Þær eru sammála um að það sé ekki fyrir alla að vinna á frystitogara og eigi það bæði við um karla og konur. Sumir geti einfaldlega ekki sætt sig við þetta líf en þær eru báðar mjög sáttar við starfið og líkar vel. „Okkur líkar vinnan vel og svo eru launin ágæt og það heldur líka í mann. Það er gaman að koma í land og eiga eitthvað af peningum og geta leyft sér að eyða slatta af þeim í það sem mann langar. Svo er það samstaðan um borð sem hefur líka mikil áhrif á hvað okkur líkar vel."
Ekki segjast þær reikna með að eyða allri starfsævi sinni til sjós og eru báðar ákveðnar í að fara ekki í stýrimannaskóla og ná sér í skipstjórnarréttindi. „Ég mundi nú ekki nenna að sitja á rassgatinu þarna uppi í brú allan daginn. Ég myndi drepast úr leiðindum að hanga svona. Ég vildi þá frekar vera vélstjóri og hafa eitthvað að gera," segir Sæbjörg.
Langar að komast aftur um borð eftir frítúra
Þær eru báðar sáttar við að hafa prófað sjómennskuna og sjá ekki eftir þeim tíma sem þær hafa verið á sjó. „Þó að okkur finnist inniveran milli túra yfirleitt alltof stutt og fljót að líða þá erum við orðnar það miklir sjóarar í okkur að þegar við erum búnar að vera í frítúr þá er okkur farið að langa að komast aftur um borð og á sjó. Þetta er kannski skrítið en svona er þetta bara og segir kannski mest um hvernig okkur líkar að vera sjókonur," segja þær Sæbjörg Logadóttir og Lilja Matthíasdóttir hásetar á Vestmannaey.
Grímur Gíslason vélstjóri