Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1999/ Í sumarferð á Stórhöfða 1954
Í sumarferð á Stórhöfða 1954
Það var ekki algengt árið 1954 að menn ættu fólksbíla í Vestmannaeyjum, svo að stundum var farið í fjölskylduferðir út á eyju á vörubílum sem útgerðarmenn áttu. Meðfylgjandi mynd er tekin í einni slíkri ferð uppi á Stórhöfða. Ferðin var farin sumarið 1954. Teppi voru sett á spallinn á V 30 og öllum þessum hópi komið fyrir sitjandi á pallinum. Bíllinn var í eigu útgerðar Leó VE 294, en bátinn áttu útgerðarmennirnir Óskar Matthíasson Eyvindarholti og Sigmar Guðmundsson Byggðarenda. Boðið var upp á kaffi fyrir fullorðna og djúss fyrir börnin ásamt kexi og bakkelsi. Eitt er þó sérstaklega minnisstætt frá þessari ferð. Á þessum tíma var mikið um melgresi á Stórhöfða. Eins og sjá má á myndinni eru nokkrir með melgresi, sem tínd voru á Stórhöfða, í höndum. Ætluðu menn að búa til úr þessu puntstrá eins og algengt var á þessum tíma. Ekki var vitavörðurinn ánægður með það og fékk fullorðna fólkið skömm í hattinn fyrir að vera að slíta þessi strá upp án leyfis, enda hafði hann sjálfsagt sín rök fyrir því. Þó þarna hafi verið gott veður er það nú ekki alltaf þannig í Vestmannaeyjum.
Í bókinni Vitar Íslands í 50 ár (árin 1878-1928) er sagt að rúður Stórhöfðavitans séu svo illa farnar eftir sandfok að ljósið a vitanum sé gagnslaust.
Þá er einnig eftirfarandi sagt um Stórhöfða: „Stórhöfði er með veðraverstu vitastöðum á landinu og kringum vitann hefur landið verið að blása upp. Þetta var mjög bagalegt, bæði að graslendið kringum vitann var að eyðast, og svo hitt, að sandfokið á rúðurnar var svo mikið, að þær gjöreyðilögðust á einu eða tveimur árum. Eftir leiðbeiningum Kofoed Hansen skógræktarstjóra og síðan með aðstoð Búnaðarfélags íslands, voru því settir upp garðar, og melkorni og grasfræi sáð í versta svæðið, og hefur það stórlega dregið úr rúðuskemmdunum." Þó þarna hafi verið liðin 26 ár frá því að þetta var skrifað, var þarna enn mikið af melgresi og svæðið nær allt uppgróið. Það var því eðlileg skýring á því að vitavörðurinn vildi ekki að melgresisstráin væru slitin upp. Þetta sannar líka þá kenningu að melgresi stoppar gróðureyðingu og með tímanum tekur grasið venjulega við. Þetta er einmitt það sem gerst hefur í Stórhöfða. Þó má segja að sandfoks hafi gætt fram yfir eldos, en þá var áburði dreift á svæðið austan og sunnan við vitann. Síðan hefur sandfoks ekki gætt. Vitavörður í Stórhöfða á þessum árum var Sigurður V. Jónatansson, faðir Óskars J. Sigurðssonar núverandi vitavarðar.
Eldingu laut niður í vitann í óveðri miklu 12. mars 1921 kl. 11.30 að kvöldi. Lá við miklu slysi af þessu, þar sem fólkið í húsinu virtist hafa misst meðvitund um tíma, en þegar það rankaði við sér aftur var allt í björtu báli í vitanum. Sem betur fór varð eldsins vart áður en hann náði til olíunnar, en stiginn og þilið í varðklefanum og anddyrinu brunnu. Að sjálfsögðu var ekki hægt að kveikja á vitanuin næstu kvöld, en skaðinn var brátt bættur og eldingavari settur á vitann. Þetta mun vera í eina skiptið sem eldingu hefur lostið niður í vita hér á landi, segir í bókinni Vitar Íslands í 50 ár.
Sigmar Þór Sveinbjörnsson,
starfsmaður Siglingamálastofnunar