Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1998/ Vandaður til munns og handa

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Þorsteinn Gunnarsson
Vandaður til munns og handa

Rætt við Hermann Pálsson, fyrrum háseta og stýrimann, um sjómannsferil hans og samferðarmenn Háseti og svo stýrimaður. Að endingu vörubílstjóri hjá Ísfélaginu. Hann er einn af þessum rólegu og yfirveguðu mönnum sem eru lítt gefnir fyrir sviðsljósið, býr í sínu koti með kellu sinni, börnin flogin úr hreiðrinu fyrir löngu. Hann er hættur að vinna og segist kunna því vel að vera ellilífeyrisþegi. Snyrtilegt og vel við haldið húsið á Vallargötunni ber vitni um hinn innri mann. Innanhúss, þar sem eiginkonan ræður ríkjum, eru sömu huggulegheitin. Landakirkja og minnisvarðinn um drukknaða sjómenn blasir við út um eldhúsgluggann.

Hann heitir Hermann Pálsson, orðinn 72 ára, og var til sjós í 31 ár. Hæverska hans kemur fram í því að hann segir við blaðamann að hann hafi ekki frá neinu að segja. Eiginkona hans, Margrét Ólafsdóttir, yfirleitt kölluð Maggý, tekur einnig á móti blaðamanni. Það er grunnt á húmornum í Hermanni og þann tíma sem ég var í húsi hjá þeim hjónum talar hann ekki illa um nokkum mann. Við setjumst inn í smekklega stofuna og Hermann byrjar á því að draga fram mikil plögg um ætt og uppruna sinn sem hann fékk hjá Torfa ættfræðiáhugamanni Haraldssyni á vigtinni.

Missti snemma föður sinn Hermann er fæddur í Sjavarborg í Vestmannaeyjum 23. janúar 1926. Foreldrar hans voru Páll Gunnlaugsson, sjómaður í Sjávarborg, og Ingveldur Pálsdóttir, fædd í Kerlingardal. Börn Hermanns og Margrétar eru þrjú, Ólafur, Ingveldur og Guðbjörg. Barnabörnin eru orðin fjögur. Blaðamaður hefur orð á því að Hermann hafi fengið eldgosið í afmælisgjöf á sínum tíma. Hermann segist heldur hafa viljað vera laus við þá gjöf. Gosárið, fyrir 25 árum, var Hermann stýri¬maður hjá Boga í Laufási. Hafði gert vitlaust veður og var flotinn í landi yfir gosnóttina. Hermann segist hafa rumskað um miðnætti og fannst hann vera farinn að lygna og átti alveg eins von á ræsi á hverri stundu. Tveimur tímum síðar vaknaði hann við símhringingu. Bogi var vissulega að ræsa stýrimanninn sinn en það fylgdi skilaboðunum að það væri hafið eldgos og þeir þyrftu að drífa sig niður í bát. Hermann fæddist í Eyjum. Þegar hann var nýorðinn fjögurra ára missti hann föður sinn og átti það eftir að hafa mikil áhrif á hann. Páll drukknaði 24. janúar 1930, í blóma lífsins, á mótorbátnum Ara. Hermann segist hafa fregnað það löngu síðar að faðir hans hefði ekki ætlað að róa á bátnum. Samgöngur milli lands og Eyja á þessum árum voru auðvitað nokkuð stopular og beið skipstjórinn eftir manni ofan úr sveit í hásetapláss. Vegna veðurs tafðist hann og fékk skipstjórinn þá Pál til þess að hlaupa í skarðið í nokkra túra. „Pabbi fór í afleysingatúr á Ara en kom aldrei heim. Mamma talaði aldrei um þetta og var ekkja alla tíð. Við systkinin vorum tvö og á þessum árum var ekkert félagslegt kerfi til að styðja við bakið á ungum ekkjum. Eftir fráfall föður míns var móður minni nauðugur einn kostur að senda mig í Kerlingardal til Andrésar Pálssonar, móðurbróður míns. Hjá honum var ég til tíu ára aldurs. Þá fluttist ég aftur til Eyja og settist á skólabekk en á sumrin fór ég aftur í sveitina alveg til 16 ára aldurs. Mamma hafði lifibrauð af því að vera með sjómenn í fæði. Þegar vertíðin var á enda á vorin var ég sendur í sveit," segir Hermann.

Góðir skipstjórar laða til sín góða áhöfn Á sautjánda ári byrjaði Hermann að vinna á netaverkstæði Veiðarfæragerðarinnar. Þar var hann ekki lengi því að fljótlega fór hann á sjó, vertíðina 1943. Fyrsta plássið var hjá Ella í Varmadal á Gulltoppi VE sem var 22 tonna bátur og með þeim stærri á þessum árum. ,,Þá voru engin frystihús heldur bara unnið í saltfisk og umhverfið allt öðruvísi eins og fólk á mínum aldri man eftir. Ég var þrjár vertíðir á Gulltoppi og líkaði vel. Þaðan fór ég á gamla Ísleif þar sem skipstjóri var Einar á Velli. Ég fór svo á Ísleif II, skipstjóri var Guðmar Tómasson. Í tíu ár var ég á Erlingi II og III með Sighvati í Ási en lengst var ég með Boga í Laufási á Stíganda VE. Allir þessir skipstjórar voru sómamenn, hver á sinn hátt. Bogi var einn vandaðasti maður sem ég hef kynnst. bæði til munns og handa. Hann sagði aldrei eitt einasta styggðaryrði um nokkurn mann," segir Hermann sem í raun og veru gæti verið að lýsa sjálfum sér. „Sighvatur var einnig vandaður maður sem stóð við allt sem hann sagði. Hann var mikill skapmaður, var snöggur upp og tók alla í gegn í einu. En um leið og við komum niður í lúkar var eins og ekkert hefði í skorist. Þetta var búið um leið. Sighvatur sótti stíft og var alla tíð við toppinn. Allir þessir karlar áttu það sameiginlegt að vera gætnir enda lenti ég aldrei á mínum sjómannsferli í sjávarháska. Góðir skipstjórar laða til sín góða áhöfn og alltaf var úrvalslið um borð í þessum bátum" segir Hermann með áherslu.

Síldarævintýrið í Hvalfirði
Hermann var einnig tvö sumur á síld fyrir norðan á Álsey með Óskari Gíslasyni. Þetta var gömul skúta frá Færeyjum sem var búið að gera upp. „Eitt mesta ævintýri, sem ég lenti í, var síldarævintýrið í Hvalfirði. Þá voru engar nælonnætur heldur hampnætur og vandamálið að fá nógu lítið magn í nótina til þess að hún spryngi ekki. Þetta var feikna mikil vinna, ég tala nú ekki um í lönduninni. Fyrst var síldinni mokað í mál og híft á eigin spili en síðar komu kranakjaftar og það varð mikil bylting.
Landlegurnar í Hvalfirði voru oft skrautlegar. Stundum var fjögurra til fimm sólarhringa löndunarbið. Þá vorum við ungir og sprækir menn sem skemmtu sér meira en góðu hófi gegndi. Þegar loksins kom að því að landa voru stundum fengnir til þess menn úr landi af því að skipverjar voru of ryðgaðir. Reglan var sú að þeir sem lönduðu fengu helming af hlut hinna. Því var ansi dýrkeypt að hella of mikið í sig. Þegar mokað var í málin tók um 30 klukkutíma að landa. Allt var handunnið. Við vomm á tveggja báta nót og bátarnir reru í hring. Það var gaman að fá að upplifa þetta ævintýri," segir Hermann með bros á vör.

Í Stýrimannaskólann
Hermanni verður tíðrætt um handbrögðin og vinnulagið í gamla daga. Þegar hann byrjaði að róa á Gulltoppi voru bjóðin keyrð á handvögnum. Aflinn var goggaður upp með stingum úr lestunum. Stórþorskur var til vandræða og þá var útbúinn millipallur þaðan sem þorskurinn var goggaður upp á dekk, síðan upp á bryggjukant og svo loks upp á vörubíl. Ekki var hægt að sturta úr vörubílunum og því þurfti að koma aflanum með stingjum aftur inn í hús.
Eftir 15 ár sem háseti skellti Hermann sér á skólabekk í Stýrimannaskólanum, haustið 1958. Hann tók fyrsta bekk og lauk náminu í febrúar. Fékk Hermann 200 tonna réttindi út á það. Þegar hann kom úr skóla var hann um tíma stýrimaður hjá mági sínum, Karli Guðmundssyni á Tjaldi VE.
„Ég réð mig svo sem stýrimann á Ísleif II og hjá Boga í Laufási. Ég var lengst af með Boga til sjós. Ég var einmitt á Ísleifi II þegar Surtsey reis upp úr hafinu 1963. Óli Vestmann var þá á baujuvakt en allir hinir sofandi í koju. Þegar Óli sá einhvern bjarma á hafinu vakti hann skipstjórann og hélt þá að kviknaði hefði í bát. Við sigldum eins nærri og við þorðum en sáum þá að þarna var eldgos hafið. Óli var mikið í fjölmiðlum í kjölfarið enda hafði hann séð eldgosið koma upp úr hafinu fyrstur manna," segir Hermann.
Aldrei var hann spenntur fyrir því að verða skipstjóri. Það átti ekki við hann. „En mér líkaði vel á sjónum og var þar í 31 ár, eða til ársins 1974. Þegar ég var orðinn 48 ára fékk ég þá tilfinningu að ég ætti að hætta til sjós. Ég sá fram á að geta ekki verið endalaust til sjós og vildi fá vinnu þar sem ég gæti verið eitthvað lengur á vinnumarkaðnum. Ég frétti af því að það vantaði bílstjóra í Ísfélagið og þar fékk ég strax vinnu," segir Hermann en í seinni tíð muna flestir eftir honum undir stýri á Ísfélagsvörubílnum. Sem bílstjóri starfaði Hermann til loka ársins 1996 og þar var ferill hans jafngiftusamur og á sjónum.

Lífið er ljúft
Í stað þess að sækja böllinn eins og í gamla daga fer Hermann í kirkju og undantekningarlaust á sjómannadaginn. „Brennivínið eldist af manni eins og allt annað," segir hann og hlær.
Að viðtali loknu setjumst við inn í eldhús hjá Maggý sem býður upp á dýrindis bakkelsi. Þar berst talið að kvótakerfinu, félagslegu íbúðakerfi, Svíþjóð þar sem Guðbjörg dóttir þeirra býr og svo að tónlist. Ekki fer á milli mála að þetta eru hjón sem eru mjög sátt við lífið og tilveruna. Þau segja að lífið hafi reynst þeim ljúft og þau ætli að njóta ævikvöldsins út í ystu æsar.
ÞoGu