Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1998/ Sjómannslíf, sjómannslíf ástir og ævintýr
„Sjómannslíf, sjómannslíf, ástir og ævintýr"
Margir af þeim dægurlagatextum, sem við heyrum í ljósvakamiðlum, fjalla um sjómannslífið. Þar er lífsspekin fremur einföld, sjómenn eru kaldir karlar sem kalla nú ekki allt ömmu sína, eða eins og segir í texta Ása í Bæ ,,....Og enn þeir fiskinn fanga við Flúðir, Svið og Dranga, þótt stormur strjúki vanga, það stælir karlmannslund."
Einnig er sungið um það hversu frjálsir sjómennirnir eru og engum háðir. Í ástarmálunum fara þeir sínar eigin leiðir, huga fyrst og fremst að eigin vilja og taka ekki tillit til tilfinninga annarra, sbr. dægurlagatextann eftir Loft Guðmundsson „....Við stelpurnar segi ég ástarljúf orð, einn, tveir, þrír kossar svo stekk ég um borð. Ship o-hoj, ship o-hoj, mig seiðir hin svala dröfn. Ship - hoj, ship o-hoj, og svo nýja í næstu höfn."
Þegar ég fluttist til Vestmannaeyja og fór að þjóna sem prestur komst ég að því að stærsti hluti sjómanna var ósköp venjulegir heimilisfeður með þá ábyrgð og gleði sem því fylgir. Ég hafði verið alin upp í sveit og þekkti því ekki mikið til þess lífs að eiga allt undir fiskinum í sjónum, ég þekkti aðallega það að elta rollur og taka upp kartöflur. Ég verð nú að viðurkenna að mér létti stórum að sjá þessa sjójaxla taka sér frí öðru hvoru af sjónum og skokka um með barnavagn eða sækja barnið sitt af leikskólanum.
En ég komst einnig að því að það eru samt mörg séreinkenni á sjómannafjölskyldum. Ég hef verið svo lánsöm að taka þáttt í foreldrafræðslu á heilsugæslu Vestmannaeyja og geta þar rætt um hjónabandið og það að stofna fjölskyldu. Þar hef ég oft átt gagnlegar umræður við þá sem eiga maka á sjó. Ég hef í raun komist að því að hjónabönd sjómanna þurfa að vera betri og traustari en önnur vegna tíðrar fjarveru eiginmannsins. Hjónabandið er gjöf og köllun Guðs. Hjóna¬bandið er einnig sáttmáli karls og konu fyrir augliti Guðs. Sá sáttmáli fjallar um ævarandi tryggð, ást og virðingu. Heimilislíf okkar þarf að mótast af virðingu og nærgætni. Við þurfum að standa saman að skýrum reglum og svo þurfa samskiptin að vera hreinskiptin og kærleiksrík. Stundum hafa sjómannskonur orðað það við mig að ástin blómstri meira hjá þeim en öðrum konum. Makar þeirra séu oft á tímum lengi út á sjó og komi svo nokkra daga heim og þá sé allt svo spennandi og gaman. Þá er konan oft búin að undirbúa heimkomuna á allan hátt svo hægt sé að láta sér líða vel meðan stoppað er í landi, þá er ekki verið að eyða tímanum í þras og strit, heldur nýtur fjölskyldan samvista til hins ýtrasta.
En það eru gryfjur sem hægt er að falla í. Fólk gerir sig gjarnan sekt um að geyma það sem veldur óþægindum allt of lengi í sálartetrinu því að það vill ekki valda hvort öðru vanlíðan í fjarvistunum. Það hefur borið á því að hjónabandserfiðleikar hafa komið upp hjá sjómannskonum þegar eiginmaðurinn kveður sjómannslífið því að þá þurfa hjónin að byggja upp allt öðruvísi lífsmunstur. Þá fer fólk oft að gera út um vandamál sem hafa verið geymd lengi. Oft vill það einnig gerast að konan hefur miklu fleiri áhugamál og meiri félagsleg tengsl en eiginmaðurinn. Hann hefur átt erfitt með að taka þátt í félagsstörfum vegna atvinnu sinnar og þeir sem hann hefur tengst vináttuböndum eru kannski áfram á sjónum. Það er mjög mikilvægt að sjómenn eigi sér áhugamál sem þeir njóti í fríum svo að þeir hafi að einhverju að hverfa þegar þeir hætta vegna aldurs.
Einnig þurfa sjómannshjón að setja mjög markvisst upp sameiginlegar reglur á heimilinu fyrirfram hvað varðar uppeldi barna vegna þess að faðirinn er ekki alltaf til staðar. Það á ekki að vera mamman sem setur upp öll boðorðin og stjórnar.
Þegar börnin eiga að fara eftir reglunum eru það skilaboð frá báðum foreldrunum, þetta séu þeirra sameiginlegu ákvarðanir sem beri að virða. Eitt sinn heyrði ég það haft eftir sjómanni að þegar konan var að bera sig upp við hann vegna einhverra erfiðleika hjá börnunum þá hafi viðkvæði hans verið þetta: „Já, þú ólst þau upp." Þrátt fyrir miklar fjarverur er ábyrgðin á heimilinu jafnt eiginmanns sem eiginkonu.
Við skulum öll muna sem þetta lesum að gott hjónaband kemur ekki af sjálfu sér. Það krefst aðhlynningar, umhyggju og ræktar. Í hjónabandinu eigum við að standa saman og mæta því sem að höndum ber í lífsins ólgusjó.
Svo óska ég öllum Vestmanneyingum til hamingju með sjómannadaginn og megi góður Guð blessa framtíð ykkar allra.
Jóna Hrönn Bolladóttir prestur.