Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1998/ Síðasta sjóferð Skaftfellings VE 33
Síðasta sjóferð Skaftfellings VE 33
Ég las í Fréttum sl. haust viðtal við Sigrúnu Jónsdóttur frá Vík í Mýrdal um eitt helsta hugðarefni hennar, hinn fornfræga bát Skaftfelling VE 33, en hann hefur legið í niðurníðslu í austurslippnum í 35 ár.
Í viðtalinu kom fram að fjarlægja þurfi bátinn fyrir 1. júlí nk. vegna kaupa bæjarins á slippnum. Ekki veit ég hvort hann endar austur í Vík eða uppi í Sorpu, en það ætti að koma í ljós fljótlega.
Mér datt í hug að rifja upp síðustu sjóferð þessa gamla báts. Það var í nóvember 1962 að mb. Skaftfellingur lá ferðbúinn við norðurkant Friðarhafnarbryggju neðan við Vinnslustöðina með svo að segja fulla lest af fiski og var áætlað að sigla með aflann til Þýskalands. Á dekkinu voru einar 10-12 olíutunnur fullar af olíu. Þurfti að dæla úr þeim jafnóðum á olíutankana í bátnum því að þeir dugðu ekki fyrir olíu í svona langa sjóferð. Einu siglingartækin í stýrishúsinu voru Atlas, dýptarmælir, segulkompás og stýrisrattið.
Faðir minn, Sigurður Tryggvason, var einn úr áhöfninni og var hann munstraður 2. vélstjóri. Aðrir í áhöfn voru: Páll Kristinn Lárusson skipstjóri, Reykjavík, Ólafur Petersen matsveinn frá Sandgerði, Hjálmar Jónsson frá Enda var stýrimaður og Jón Markússon 1. vélstjóri. Jón var þekktur trillukarl hér í Eyjum á árum áður. Hjalli frá Enda var eftirsóttur í siglingar og þá sérstaklega til Þýskalands því að hann talaði þýsku eins og innfæddur. Ég spurði föður minn um þessa ferð og mundi hann þetta allt mjög vel. Mér datt í hug að gaman væri að setja þetta á prent og sérstaklega nú þegar Skaftfellingur hefur verið svo mikið í umræðunni.
Ekki sáu þeir á Skaftfellingi um að fiska í hann sjálfir, heldur voru tveir af bátum Helga Benediktssonar fengnir til þess. Það voru þeir Hildingur og Gullþórir. Auk þeina gerði Helgi út Skaftfelling, Frosta VE 363, Fjalar VE 333, Mugg VE 322, Helga Helgason VE 343 og Hringver VE 393.
Allir þessir bátar voru búnir June Munktell vélum. Helgi hélt líka sérstaklega upp á töluna 3, og voru allir bátar hans með þá tölu í einkennisnúmeri. June Munktell vélin í Skaftfellingi var 225 hestafla og gekk hann ekki nema 7 mílur við bestu skilyrði. Þegar þessi sjóferð var farin var Skaftfellingur orðinn bæði gamall og lúinn, enda smíðaður árið 1917. Skömmu áður en látið var úr höfn hitti pabbi mann sem spurði hvort hann væri að verða vitlaus að fara að sigla yfir hafið á þessu gamla fúarúffi þegar komið væri harðahaust, auk þess sem hann ætti barnshafandi konu og börn heima. Faðir minn sagðist treysta bátnum fullkomlega í þessa ferð. Þó að báturinn hafi verið orðinn lúinn og gengi ekki mikið var hann hörkugott sjóskip.
Lagt var úr höfn 15. nóvember. Fékk báturinn á sig leiðinda brælu sem hélst á annan sólarhring. Síðan var ágætisveður það sem eftir var siglingarinnar. Eftir rúman sólarhring í Norðursjónum stöðvaðist skrúfan. Kom í ljós að skiptiteinninn, sem er inni í skrúfuöxlinum, var slitinn í sundur. Því urðu þeir að láta draga sig til hafnar. Haft var samband í land og beðið um aðstoð. Var þeim þá sagt að íslenskur togari væri á leið í söluferð og mundi taka þá í tog. Biðu þeir a Skaftfellingi á reki í tæpan sólarhring.
Þá sáu þeir skip nálgast. Þetta reyndist vera Sigurður IS 33. en hann var eitt nýjasta og glæsilegasta fiskiskip Íslendinga. Hann var í eigu Einars ríka Sigurðssonar. Skipverjar á Skaftfellingi ætluðu að setja drattartaug fasta á hvalbakinn en Hjálmar sagði að það væri ekki þorandi. „Þeir kippa hvalbaknum af ef þið setjið fast þarna!" Dráttartaugin var sett í gegnum ankerisklussið og beint inn á spilið. Hélt það vel.
Síðan héldu þeir áfram. Eitthvað þótti þeim skipverjum á Sigurði spaugilegt að sjá þennan gamla og litla bát þarna, þrælsiginn. enda með rúm 35 tonn í lestinni. Stóð hópur manna aftan á Sigurði bendandi og flissandi og sumir meira að segja skellihlæjandi að þessari sjón.
Sigurður dró Skaftfelling til hafnar í Cuxhaven. Þar var hann tekinn í slipp og öxuldreginn og þurfti að smíða nýjan skiptitein í Hamborg. Biðu skipverjar þarna í góðu yfirlæti og þegar aurar fóru að minnka gekk Hjálmar upp í banka með bankabók upp á vasann og tók út peninga sem hann hafði lengi átt þar.
Heimferðin var tíðindalítil og skilaði Skaftfellingur sér aftur heim til Eyja með sóma. Ég man vel eftirvæntinguna og spenninginn þegar von var á pabba aftur heim. Kom hann með alls kyns dót, svo sem Mackintoch, lakkrískonfekt og niðursoðna ávexti sem þekktust ekki hér heima. Einnig kom hann heim með stórt beikonstykki sem átti eftir að verða afdrifaríkt fyrir mig eftir að Nínon-bræður komust í það og þótti svo mikið um að þeir juku við nafn mitt heiti þessarar kjöttegundar! Þegar hingað heim var komið hafði ýmislegt breyst, m.a. hafði fæðst sonur rétt áður en pabbi kom heim. Nú er þessi bróðir minn. Andrés Þorsteinn (Addi Steini), 1. stýrimaður á Sigurði sem ber einkennisstafina VE 15 og er enn eitt af okkar glæsilegustu nótaskipum.
Meðan á heimsiglingunni stóð hafði bátur frá Eyjum sokkið. Það var Bergur VE 44. Sem betur fer bjargaðist öll áhöfnin en á þeim báti var einmitt maðurinn sem varaði pabba við að sigla með Skaftfellingi yfir hafið.
Eftir að báturinn kom heim lá hann inni í Friðarhöfn fram á vor. Þá var hann tekinn í slipp í Dráttarbrautinni þar sem hann var dreginn út á garðana og stendur enn.
Lítið hefur farið fyrir Skaftfellingi sl. 36 ár. Þó komst hann í fjölmiðla á áttunda áratugnum þegar ung stúlka sendi skipstjóranum á Skaftfellingi ástarkveðju í óskalagaþætti sjómanna „Á frívakt¬inni". Ágiskun blaðamanna var sú að líklega hefði stúlkan verið dregin á tálar þar sem báturinn hafði legið í slipp ónýtur langalengi. Maðurinn, sem fékk kveðjuna og er raunar góður kunningi minn, hefur aldrei verið skráður skipstjóri þar um borð, enda barn að aldri þegar bátnum var lagt.
Skrifað í síðara sjómannaverkfalli í mars 1998.
Sjómenn, til hamingju með daginn!