Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1998/ Minningarljóð um skipshöfnina á Ara VE 235
Minningarljóð um skipshöfnina á Ara VE
Þann 24. janúar 1930 fórst mótorbáturinn Ari VE 325 í vitlausu veðri suðaustur af Bjarnarey. Báturinn var í línuróðri þegar slysið varð og fórust allir skipverjar. Frá þessu slysi er sagt í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja 1971. Blaðinu hefur borist minningarljóð um þá menn sem þarna fórust en þeir voru: Matthías Gíslason formaður frá Byggðarenda við Brekastíg, Páll Gunnlaugsson Ráðagerði, Baldvin Kristinsson vélstjóri Syðri-Osi Hofshreppi, Eiríkur Auðunsson frá Svínhaga á Rangárvöllum og Hans Andersen frá Færeyjum.
Minningarljóð það, sem hér fer á eftir er að öllum líkindum eftir Unu Jónsdóttur skáldkonu frá Sólbrekku en undirskriftin er upphafsstafirnir U.J.D. Það hefur líklega verið flutt við minningarathöfn um þessa sjómenn.
Lag: Ó, blessuð stund er burtu þokan líður.
Nú sælir vinir blunda hafs í bárum,
en blessuð lifir minning þeirra kær,
þó öll við berum sorg með tregatárum,
því takmörk setur drottinsnáðin skær.
En konur, mæður, börn og systkin blíða
og bljúga kveðju senda af einum hug,
og vona um eilífð sæla anda svífa
um sólarlönd við dýrðlegan fögnuð.
Þau öll nú þakka ást og tryggðir veittar
og allt það sem þeim létu falla í skaut,
því öll þau vona, óska, biðja og treysta,
þið öðlist sælu lífs á helgri braut.
Og liðnir vinir líta á ástmenn sína
og ljúfar kveðjur einnig senda heim.
Þeir óska að huggun skært þeim megi skína
og skuggi sorgar hverfi burt frá þeim.
Ég sé í anda unaðsgeisla hlýja,
sem ofan streyma þeirra bænum frá,
þeir veita hjörtum hugarsvölum nýja
Sem hugsa um guð og þrá hans dýrð að sjá.
En þegar ævikvöldin koma eiga,
og kallar drottinn sínar hjarðir heim,
þar vinir hittast allir aftur mega,
sem engin mæða framar grandar þeim
.
U.JD.
Frá vandamönnum og vinum.