Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1998/ Hugleiðingar sjómannskonu
Hugleiðingar sjómannskonu
Margar bækur og langar blaðagreinar hafa verið skrifaðar um íslenska sjómenn, hetjudáðir þeirra og baráttu við óblíð náttúruöfi í stríði og friði. Frækileg björgunarafrek tíunduð og sagðar sögur og sungin ljóð um aflakónga og sjómenn sem einir standa vaktina og hugsa heim.
Færri sögum fer hins vegar af ástvinunum heima. Ekki hefur miklum pappír verið eytt í sögur af sjómannskonum sem þó hafa staðið við hlið þessara manna í blíðu og stríðu og gengið með þeim í gegn um lífið. Komið börnunum til manns og séð um að allt gengi fyrir sig á sjómannsheimilunum líkt og á öðrum heimilum. Ekki má heldur gleyma því að allir sjómenn hafa átt mæður sem oftar en ekki hafa verið sjómannskonur.
En flestar þessar bækur eru skrifaðar af karlmönnum og það sem þeim þykir merkilegt í raunveruleikanum þykir þeim líka merkilegt í bókmenntum. Þess vegna er reynsluheimur venjulegra kvenna að þeirra áliti ekki til þess fallinn að vera færður til bókar. Fæstar konur hafi upplifað neitt merkilegt. Þær stússist bara heima, eða vinni einhver nauðaómerkileg störf utan heimilisins og hver hefur svo sem áhuga á slíku? Sjómannskonurnar eru oftast afgreiddar með: „Það hefur ekki alltaf verið auðvelt að vera ein heima og sinna öllu sem sinna þurfti." Eða einhverju álíka.
Auðvitað er ekki hægt að setja allar sjómannskonur undir einn hatt. Þær eru eins ólíkar innbyrðis og annað fólk, og aðstæður þeirra ólíkar. En sameiginlega eiga þær biðina og vonina um að fá alla heila heim. Ætli allar þekki það ekki að standa á bryggjunni og horfa á eftir skipi fjarlægjast með ástvin þeirra um borð, kvíðnar fyrir framtíðinni, einmanaleikanum og daglegu amstri hversdagsleikans sem framunda er? Ég þekkti sjómannskonu sem gjarnan raulaði þetta erindi eftir Davíð
Stefánsson fyrir munni sér.
Ég horfi ein
á eftir þér,
og skipið ber
þig burt frá mér.
Ég horfi ein
við ystu sker,
því hugur minn
er hjá þér bundinn og
löng er nótt
við lokuð sundin.
Þetta stutta erindi finnst mér að gæti vel verið nokkurs konar samnefnari fyrir okkur sjómannskonurnar. Þessi kona, sem ég nefndi, var ekki ein af þeim heppnu, hennar bið endaði aldrei. Skipið hennar kom ekki aftur til hafnar og alla ævi hélt hún áfram að vera sjómannskona, án þeirrar ánægju sem vonin veitir og þeirrar spennu sem fylgir því að fá manninn heim eftir langa fjarveru.
Heimsstyrjaldirnar tvær eru sérstakur kapítuli í lífi íslensku þjóðarinnar. Og þá ekki síst sjómannsfjölskyldnanna. Seinni heimsstyrjöldin 1939-45 var háð af miklum ofsa á hafinu allt í kring um landið, oft á siglingaleið íslenskra skipa, og tundurduflum var miskunnarlaust lagt í sjóinn. Radarar voru ekki komnir í önnur skip en herskip og mjög erfitt að varast þessar vítisvélar. Veðurfregnir í útvarpi voru með öllu bannaðar, einnig öll samtöl við einstaklinga í landi. Nú, á tímum fullkomnunar í fjarskiptum, er erfitt að gera sér í hugarlund hvernig þessir tímar hafa verið og hvernig fjölskyldur sjómanna hafa afborið biðina, þessa þöglu bið eftir því hvort skipin kæmu til hafnar eða ekki. Á fjórða hundrað íslenskir sjómenn fórust á þessum árum og má nærri geta að mörg heimili áttu um sárt að binda.
Og hvernig menn voru það sem komu heim eftir að hafa horft á skipið sitt skotið í kaf og félaga sína drukkna fyrir augunum á sér án þess að geta nokkuð að gert? Þá var ekkert til sem í dag er kallað áfallahjálp. Þessir menn vora ekki samir eftir. Þetta þekkja margar konur, og því miður gerast slysin enn í dag, ekki þarf styrjaldarátök til, önnur en átökin við Ægi konung sem verða háð á meðan skip láta úr höfn.
Í bókinni Virkið í norðri eftir Gunnar M. Magnúss segir Ingólfur Kristjánsson frá því þegar hann heimsótti kunningjakonu sína sem átti manninn sinn á Goðafossi. Honum var sökkt út af Garðskaga 1944. Vitað var að einhverjir höfðu komist af, en ekki hverjir, og björgunarbátanna er beðið:
„Konan bar angist sína ótrúlega vel. Æðruorð heyrði ég hana ekki mæla, en oft fór hún í símann og talaði við þjáningarsystur sínar, konur, sem eins var ástatt um og hana sjálfa og áttu menn sína eða syni eða aðra ástvini með Goðafossi. Ég heyrði það á samtölunum, að konurnar leituðust við að hughreysta hver aðra. Hún sagði eftir eitt samtalið: „Það sæti illa á mér að æðrast, þetta er í fyrsta sinn sem ég bíð. Hugsið ykkur hana G, það þrek og þá stillingu sem hún býr yfir. Hún á næstelsta son sinn á Goðafossi, fyrir þrem árum missti hún elsta son sinn í sjóinn og rúmu ári áður fórst maðurinn hennar í sjóslysi." Fyrr um kvöldið, þegar ég kom í þetta hús, sat konan við prjóna sína inni í setustofu. Nú var hún enn að prjóna. Hún prjónaði úr hvítum lopa og kepptist við, svo að glamraði í prjónunum, hver hönkin eyddist upp af annarri. Hún leit varla upp frá prjónunum nema þegar hún fór í símann. Þegar hún hafði lokið símtalinu, tók hún prjónana á ný. „Hvað ertu að prjóna?" spurði ég eitt sinn. „Ég er að prjóna" sagði hún og leit á hendur sínar, svo brosti hún lítið eitt og sagði: „Ja, þegar ég fitjaði upp, hugsaði ég mér að prjóna trefil, en hann er nú ef til vill orðinn nokkuð langur." Já, trefillinn hennar var víst orðinn nokkuð langur. Prjónið hringaðist niður við fætur hennar og lá eins og lyppa á gólfinu. Það voru að minnsta kosti orðnar góðar þrjár trefillengdir."
Þessi frásögn finnst mér vera mjög myndræn og lýsa vel því æðruleysi sem mörgum sjómannskonum er gefið, eins og þær geti hert sig gagnvart því sem þær óttast mest í undirvitundinni. Það er talað um að sjómennskan sé í blóðinu, getur ekki eins verið í blóði íslenskra kvenna að taka á móti áföllunum og stíga ölduna í óeiginlegri merkingu. Eitthvað í genunum sem heldur þeim uppi á óvissutímum. Það er ekki alltaf auðveldara hlutskipti að bíða frétta af stríðinu en að standa í eldlínunni.
Að mér skuli vera þessi frásögn og stríðsárin yfirleitt svo ofarlega í huga stafar af því að ég fæddist í þessum hildarleik og faðir minn drukknaði af völdum stríðsins þegar ég var sjö mánaða gömul. Hann var bátsmaður á m.s. Heklu. Skipið var á leið til Halifax í Nova-Scotia. Þetta var fyrsta íslenska skipið sem var skotið niður á þessari siglingarleið og jafnframt það stærsta til þess tíma. Það var ekki fyrr en þrem vikum eftir að Hekla lagði úr höfn að útgerðin, Kveldúlfur hf., fékk skeyti frá bresku flotastjórninni á Íslandi um að skipinu hefði verið sökkt með tundurskeyti, en kanadískt herskip hefði bjargað sjö mönnum af fleka. Ekki fylgdu fréttinni nánari skýringar, né nöfn þeirra sem björguðust.
Ekki var um annað að ræða en tilkynna aðstandendum allra skipverja um atburðinn. Óvissunni var ekki lokið eftir þriggja vikna bið. Vonin, sem kviknað í brjósti fólksins, varð að vissu eða vonbrigðum daginn eftir þegar nöfn þeirra, sem komust af, voru birt.
Við bjuggum í Reykjavfk, en þegar þetta gerðist var mamma komin norður í Svarfaðardal með okkur tvær systurnar. Foreldrar hennar og systkini vildu hafa hana í skjóli sínu á hvorn veginn sem færi. Það kom því í hlut nývígðs sóknarprests, séra Stefáns Snævars, að tilkynna henni að maður hennar hefði ekki verið einn af þeim sem komust af. Hann sagði okkur systrunum löngu seinna, þegar við vorum orðnar fullorðnar konur, að þetta hefði verið eitt af sínum fyrstu prestverkum og í fyrsta skipti sem hann hefði þurft að tilkynna mannslát. Hann var að vonum kvíðinn. en hann sagði að kvíði sinn hefði verið ástæðulaus, hann hefði farið styrkari af þeirra fundi en til hans. Bætur voru greiddar með okkur systrunum til sextán ára aldurs. Þær voru lagðar á reikninga og ekki snertar fyrr en við fórum í fyllingu tímans í húsmæðraskóla. Ekki dugði þó fjárhæðin fyrir náminu í einn vetur. Ekkjubætur eða lífeyri í einhverri mynd fékk móðir mín aldrei. Pabbi og mamma voru aðeins búin að vera gift í þrjú ár og þar af sigldi hann milli hafna í Miðjarðarhafinu í heilt ár. Hann var hættur á Heklu, kominn í land og ætlaði að helga sig fjölskyldu sinni. En fyrir þrábeiðni skipstjórans fór hann í þessa einu ferð.
Snemma lærðist okkur systrunum að tala ekki um pabba. Það særði mömmu bara og hún talaði ekki um hann, nema þegar hún var að siða okkur til. Til dæmis áttum við ekki að blístra af því að pabbi hafði ótrú á því og svo hafði honum heldur ekki fundist það kvenlegt. Við máttum heldur ekki fara út á bryggju þegar skip voru þar, það gerðu bara götustelpur eins og hún orðaði það. Þessu var svolítið erfitt að framfylgja því að ég var oft send út á bryggju þegar bátarnir komu að til þess að kaupa í soðið. Ég flýtti mér alltaf eins og ég ætti lífið að leysa og var með hálfgert samviskubit þangað til að ég kom upp á götu.
Mamma var lærð saumakona og hafði ofan af fyrir okkur með þeirri iðn, auk þess sem hún var í síldinni á sumrin. Stundum hélt hún saumanámskeið. Það fannst mér gaman. Undir stóra sníðaborðinu hennar var hilla, þar voru geymd efni, tískublöð og fleira. Þarna átti ég mér ágætis fylgsni og heyrði margt sem gaf mér ærið umhugsunarefni og mér var áreiðanlega ekki ætlað að heyra. Á þessi námskeið komu konurnar úr þorpinu sem flestar voru sjómannskonur. Þær sprettu upp jökkum, frökkum og kápum sem voru orðin snjáð, sneru þeim við og mamma sneið fyrir þær dýrindis flíkur á börnin. Á þessum árum var engu hent, enda lítið til í búðunum. Svo var farið að sauma og á meðan voru málin rædd, aðallega voru það dægurmálin í þorpinu og margar sögur voru sagðar frá gömlum tíma. Sumar þessara kvenna voru hafsjór af fróðleik. Þær töluðu líka um einkahagi sína og sinna. Þetta var þeim áreiðanlega kærkomið tilefni til að komast út af heimilinu og gleyma önnum þess. Þessar konur þræluðu myrkranna á milli, flest heimilin voru með einhvern smá búskap, kú, kindur, og allir voru með kartöflu- og kálgarð. Það kom í þeirra hlut að annast þessi búdrýgindi. Þær saumuðu og prjónuðu úr ullinni af rollunum, gengu frá kjötinu og slátrinu til vetrarins, suðu niður og sultuðu ber og grænmeti, og það kom í þeirra hlut að annast gamla fólkið þegar það gat ekki lengur bjargað sér sjálft. Sumir mennirnir áttu sína báta sjálfir og þá þurftu konurnar að stokka upp línuna þegar þeir komu í land og beita hana meðan þeir fengu sér kríu. Sérstaklega var annasamt hjá þeim á vorin þegar þorskurinn gekk í fjörðinn. Minnisstætt er mér hve þessar konur voru ósjálfstæðar í peningamálum. Það voru þær sem komust í síldina á sumrin sem eignuðust smá aura til eigin þarfa. En einhvern veginn finnst mér að þær hafi alltaf verið að safna til þess að gefa einhverjum öðrum eitthvað. Þær stóðu líka saman þegar á bjátaði.
Mér finnst ljóðið hans Jóns úr Vör, úr ljóðflokknum Þorpið, minna mig á þessar vinkonur mínar.
Konur sem bera nýmjólkurkönnu undir
svuntunni sinni í hús nágrannans,
þegar börnin eru veik, konur, sem lauma í rökkrinu
nýskotnum fugli eða fiskspyrðu inn um
eldhúsgætt grannkvenna sinna ef farið
hefur verið á fjörð, ...konur, sem rífast síðan næsta dag út af
hænsnunum eða börnum sínum og sættast
á morgun,
góðar konur.
Sumrin færðu okkur Norðlendingum fleira en síldina, með henni komu líka sjómennirnir. Sætu strákarnir að sunnan, og svo fór að ég kynntist einum þeirra og fylgdi honum suður eins og það var kallað. Ég hafði verið harður andstæðingur hjónabanda og ætlaði alls ekki að gifta mig. Svo mikið hafði ég lært af veru minni undir sníðaborðinu hennar mömmu að ég taldi það betra hlutskipti að róa ein á bæði borð en að deila hlut mínum með öðrum. Ég hafði heldur aldrei hugsað mér að fara frá Dalvík. Þar var allt sem mér þótti vænst um. Fallegu fjöllin mín, bærin hans afa og hennar ömmu að ógleymdri fjörunni sem var leikvöllur minn alla mína æsku. Þar voru líka frændfólk mitt og vinir.
Við settumst að í Keflavík við Stakksfjörð. Þangað höfðu foreldrar mannsins míns, Sævars Brynjólfssonar, flutt með þrjá syni sína frá Ísafirði þegar hann var aðeins níu ára gamall. Þessir þrír synir urðu allir skipstjórar. Dæturnar tvær voru giftar skipstjórum og dóttursonur þeirra, sem þau ólu upp, varð líka skipstjóri. Annar dóttursonur þeirra á Ísafirði er skipstjóri og sonarsynirnir hafa stundað sjóinn meira og minna. Ekki þarf að leiða Iíkum að því um hvað var rætt þegar fjölskyldan kom saman. Mér fannst þetta svolítið einhæft og skrítið að geta ekki talað um neitt nema veiðarfæri, báta, fiskimið og allt sem því viðkom. En þetta voru áhugamenn um atvinnu sína og það þýddi ekkert annað en að reyna að setja sig inn í það.
Þegar Sævar lauk sjómannaskólanum réð hann sig um vorið sem stýrimann á humarbát, Tý, sem Einar Sigurðsson átti og gerður var út frá Keflavík. Þeir lönduðu tvisvar í viku í Litlumiljón, en það var hraðfrystihús Einars í Keflavík kallað. Ég hafði nóg að gera, enda búin að eignast dóttur. Fljótlega veiktist skipstjórinn og Sævar tók við stjórn bátsins. Þetta fannst var mér dálítið áfall. Mér fannst ábyrgðin mikil og hann aðeins nýorðinn tvítugur. En þetta blessaðist allt. Um sumarið var hann stýrimaður á Steingrími trölla á síld fyrir norðan. Á þessum árum hófust síldveiðarnar um og eftir miðjan júní og stóðu fram í ágústlok. Ég fór norður á Dalvík til sumardvalar. Síldveiðarnar gengu vel þetta sumar. Á mánuði landaði Steingrímur trölli þrettán sinnum á Hjalteyri. Jafnoft setti ég dóttur mína í barnastólinn í aftursætinu á Moskanum og ók þessa þrjátíu kílómetra til Hjalteyrar til þess að horfa á elskuna mína standa í klofbússum í lönduninni og fá kannski að smella á hann einum áður en „Tröllinn" setti aftur á fullt út Eyjafjörð. Um haustið tók Sævar Kóp VE 11 og fór beint á síldveiðar í Faxaflóa. Kópurinn landaði oftast í Vestmannaeyjum, það var ekki nema það væri bræla eða eitthvað bilaði sem hann kom til Keflavíkur. Þá voru engin helgarfrí og engir afleysingarmenn. Um jólin og áramótin var gefið frí á síldinni, en eftir jólin var síldin komin austur í Meðallandsbugt og það var ekki fyrr en undir vor að hún fór að veiðast fyrir vestan Eyjar og Kópurinn fór að landa í Litlu-miljón á ný. Þetta var alveg ný reynsla fyrir mig, ég fann mjög fyrir ábyrgðinni sem hvíldi á Sævari og reyndi af fremsta megni að fylgjast með starfi hans á sjónum. Ég sofnaði gjarnan út frá þessum hugsunum og dreymdi oft fyrir fiskiríi og fyrir bilunum, eða svoleiðis réð ég draumana. Eitt af því minnisstæðasta frá þessum vetri er svokallað páskaveður. Það skall fyrirvaralaust á þriðjudaginn fyrir páska 1963.
Síldarflotinn var á veiðum fyrir sunnan Reykjanes. Litlar fréttir voru af flotanum, en þó fréttist að einhverjir hefðu lagt af stað og ætluðu að freista þess að komast fyrir Garðskaga. Þá kvisaðist út að skip hefði fengið á sig brotsjó og væri að farast. Seinna kom í ljós að þetta var Súlan frá Akureyri. Henni hvolfdi úti af Reykjanesi og fórust þar fimm af ellefu manna áhöfn.
Þennan sama dag fórust fimm bátar fyrir Norðurlandi, þar af fjórir frá Dalvík, og með þeim sjö menn. Allt vinir og kunningjar. Daginn eftir bárust fréttir af Kópnum. Hann hafði haldið sjó og allt var í lagi um borð.
Ekki er að orðlengja það, árin liðu. Sævar sótti sjóinn á stærri og stærri bátum. Sumarsíldveiðarnar lengdust sífellt í báða enda og síldin var elt lengra og lengra norðaustur í haf. Sjómannadagurinn var meira að segja færður fram í maí vegna þess að allir síldarbátarnir voru farnir um mánaðamót maí-júní. Síldarvertíðin stóð oftast framundir jól. Síðan byrjaði loðnuvertíðin um mánaðamótin janúar-febrúar og stóð fram í apríl, síðan síldin að nýju í maí. Það var dálítið um að konurnar færu austur á land og dveldust þar um einhvern tíma með börnin, eða færu út á sjó með mönnum sínum einn túr eða svo. Þessar ferðir voru kallaðar alls konar nöfnum og oftast klúrum, það var lítill skilningur á því að þetta voru einu tækifæri okkar til að vera samvistum við eiginmennina, burt séð frá öllu ástalífi. Eina sambandið sem við gátum haft við þá var síma- eða talstöðvarsamband og gátu allir landsmenn hlustað á hvert orð. Einkalífið einskorðaðist því við þessa „kannski" þrjá mánuði á ári sem stoppað var á milli úthalda. Ég fór einu sinni eða tvisvar út á sjó á síld. Eitt haust fór ég til Vopnafjarðar með börnin og bjó þar í heimavistarskóla. Eftir mánuð gafst ég upp því Sævar kom aldrei í land.
Fljótlega eftir að ég fluttist til Keflavíkur fann ég að ég gat ekki bara setið og beðið eftir að eiginmaðurinn kæmi heim. Það tíðkaðist ekki á þessum árum að sjómannskonur með börn ynnu úti.
Ég fór að leika með Leikfélagi Keflavíkur og fyrr en varði var ég komin á kaf í alls konar félagsvesen. Það líkaði mér ágætlega, en ég hætti ekki að öfunda vinkonur mínar þegar þær voru að fara á árshátíðir með mönnunum sínum. Einu skiptin, sem ég fór á böll, var þegar tengdaforeldrar mínir tóku mig með sér á Sólarkaffi Ísfirðingafélagsins.
Það má nærri geta að mikið var um að vera þegar von var á bátunum heim. Það var bakað og húsin tekin í gegn eins og jólin væru að koma. Börnin trylltust af spenningi, en þegar pabbinn loksins birtist urðu þau feimin og þau minnstu þekktu ekki þennan mann sem hreiðraði um sig í rúminu hennar mömmu. Þegar stoppið var stutt var kannski enginn tími til að tala um vandamálin sem safnast höfðu upp, eða konan var ekkert að ergja manninn með þeim. Oft hefur mér fundist að sjómenn séu forréttindastétt, eða hver vildi ekki getað lokað útihurðinni á eftir sér þegar kallið kemur um að róa og skilið vandamál heimilisins eftir inni? Eitt af þessum síldarárum byggðum við okkur hús. Sævar tók sér þá frí allan desembermánuð til þess að við gætum flutt inn fyrir jólin. Það er eina fríið sem ég man eftir að hann tæki á þessum árum. Við eignuðumst þrjú börn, það kom alltaf í hlut tengdapabba að sækja okkur á fæðingardeildina. Þá var nú ekki til siðs að feðurnir væru viðstaddir fæðingar, hvað þá að konunum væri vorkennt að taka við heimilinu og krökkunum strax og þær kom heim.
Um eða upp úr 1966 fóru nótaskipin að stunda veiðar í Norðursjó á sumrin. Sævar var þar í tvö sumur. Mér er minnisstætt annað sumarið af því að þá náðist aldrei símasamband við skipin vegna óhagstæðra skilyrða. Árið 1968 réðst Sævar í vesturvíking eins og það var kallað í blöðunum. Hann fór með öðrum orðum á síldveiðar til Norður-Ameríku með Örn RE 1. Þeir fóru í nóvember og áætlaður siglingartími til Gloster í Massachusetts voru tíu sólarhringar. Mér leist nú ekki meira en svo á þetta tiltæki. Ég sá bara ísjaka og tíu metra öldur á siglingarleiðinni, en þeir komust heilir á leiðarenda. Fyrir jólin flugu þeir heim og héldu hátíðirnar heima, en fóru svo aftur í byrjun janúar. Veiðarnar gengu ekki vel framan af vetrinum, en glæddust um vorið.
Þessi vetur fannst mér vægast sagt ömurlegur. Sævar hringdi tvisvar heim allan veturinn, það var óheyrilega dýrt að hringja frá Amríku, en hann var nokkuð duglegur að skrifa. Veikindi herjuðu á okkur heima, svo sem hettusótt sem ég fékk með börnunum. Mamma var flutt til okkar, farin að heilsu og var mjög asmaveik þennan vetur. Að endingu varð ég að leggjast á sjúkrahús og dúsa þar í þrjár vikur. Ofan á allt þetta bættist að við fengum enga peninga frá útgerðinni. Ég fékk enga skýringu á því aðra en þá að mennirnir þyrftu sína tryggingu úti. Það voru aðeins fjórir fjölskyldumenn um borð. Að endingu varð Sævar að senda okkur peninga frá Ameríku. Á þessum árum var greidd einhver kauptrygging, mig minnir mánaðarlega, en ég man ekki hve há. Annars var bara gert upp eftir hvert úthald.
Vantaði mann peninga þess á milli var oft spurt hvað maður ætlaði að gera með þá, jafnvel þó að maður ætti inni. Það var mjög niðurlægjandi.
Það hafði verið um talað að ég kæmi út seinnipart vetrar, en vegna veikindanna gat ekkert orðið af því. Búið var að útvega okkur íbúð og fóru tvær af konunum út í apríl. En það var ekki fyrr en í júní sem ég fór með börnin mín tvö. Þetta varð algert draumasumar sjómannsfjölskyldunnar. Við leigðum stórt hús við ströndina sem við kölluðum Fitjakot. Þar var oft glatt á hjalla. Ekki færri en fimm fjölskyldur bjuggu þarna um lengri eða skemmri tíma og svo strákarnir af skipunum ef þeir urðu veikir eða þurftu að vera í landi af einhverjum ástæðum. Eftir því sem leið á sumarið fjölgaði íslensku skipunum og að endingu vom þau orðin fimm. Veiðamar voru aðallega stundaðar á nóttunni. Skipin komu í land snemma á morgnana og fóru út á kvöldin. Á sunnudögum var svo frí yfir sumarmánuðina. Það var því hægt að flatmaga á ströndinni eða skreppa eitthvað og skoða sig um. 1 október flugum við aftur heim á klakann. Örninn kom heim í nóvember eftir árs fjarveru.
Eftir þetta langa úthald var Sævar búinn að fá nóg af fjarverum í bili. Hann keypti Skagaröst KE 34 og gerðist útgerðarmaður á vertíðarbát. Þá kynntist ég því fyrst að þurfa að læðast um húsið á kvöldin og sussa á börnin svo að pabbi þeirra gæti sofið af því að hann þurfti að fara á sjóinn um miðjar nætur. Einn veturinn fór hann meira að segja á loðnu á þessum sextíu tonna pung. Það var á meðan loðnan var úti fyrir Suð-Vesturlandi og í Faxaflóanum. Þá lá ég í símanum og reyndi að selja loðnuna í frystingu. Þetta eru árin sem mér fannst Sævar vera heima.
Ég sagði stundum að ég hefði verið heppin að alast upp á karlmannslausu heimili og vera vön að ganga í það sem gera þurfti. Eitt sinn var barið að dyrum hjá mér, úti stóð krakkahópur sem bað mig að bjarga ketti sem hafði dottið niður í reykháfinn á nærliggjandi húsi sem var í byggingu. Ég var satt að segja dálítið upp með mér af því að þau skyldu ekki leita til einhvers pabbans.
Eftir fimm ár seldum við helminginn í útgerðinni og Sævar varð skipstjóri á Hrönn RE 10, u.þ.b. sjöhundruð tonna togara. Þetta voru mikil viðbrigði auk þess sem hann hafði aldrei komið um borð í togara, hvað þá meir. Nú byrjuðu fjarverurnar aftur, túrarnir voru venjulega tólf til fjórtán dagar og mánuður þegar siglt var með aflann, sem var oft. Fríin voru þrjátíu og sex tímar eftir venjulegan veiðitúr, en fjörutíu og átta tímar eftir siglingu.
Eftir fjögurra ára vera á Hrönn réð Sævar sig á Breka frá Vestmannaeyjum. Hann byrjaði um áramótin 1978-79 á loðnuvertíð. Eftir það var hann með Breka á togveiðum.
Mér hafði aldrei dottið í hug að flytjast frá Keflavík. Sævar hafði alla tíð, að undanteknum Skagarastarárunum, stundað sjóinn fjarri heimilinu. En samkvæmt lögum bar honum að vera búsettur í Vestmannaeyjum og það var lagt hart að honum að flytja. Það var um þrennt fyrir mig að gera. Skilja við hann, heimta að hann hætti á Breka eða flytja — og það varð ofan á.
Í annað skiptið á ævinni tók ég saman pjönkur mínar og fluttist með honum suður.
Þegar ég féllst á að segja eitthvað frá lífi íslenskrar sjómannskonu var ekki meiningin að ég skrifaði æviminningar mínar. Heldur ætlaði ég að reyna að draga upp svolitla mynd af lífshlaupi venjulegrar konu, og hvort sem það hefur tekist eða ekki þá tel ég mig þekkja líf sjómannskonunnar nægilega vel frá flestum hliðum. Ég hef af eigin raun kynnst því hvernig það er að hafa manninn sinn á síldveiðum langt frá landi, á togveiðum á Halanum um hávetur, á landleið með drekkhlaðið loðnuskip í misjöfnum veðrum, í söluferðum í erlendum höfnum, á siglingu í Norðursjónum þar sem brimið verður eins og í suðupotti þegar hvessir. Ég veit hvernig er að hafa hann úti á sjó um jólin og síðast en ekki síst að ganga í takt við hann þegar hann að lokum fer að rifa seglin og vera meira heima.
Ingibjörg Hafliðadóttir.