Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1998/ Hannes Jónsson lóðs, Vestmannaeyjum – Minning

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Hannes Jónsson

Lóðs, Vestmannaeyjum - Minning -

Um feðranna dáðir á óblíðri öld
er efni sem huga minn greip.
Þeir börðust með árum við bálveður köld
svo brakaði í súðum og keip.
Í Eyjum var Hannes með fríðasta far
og foringi löngum á sjó.
Fjörtíu árin hann formaður var
og fiskinn úr hafinu dró.

Hann byrjaði snemma á áraskips öld
og ungur við formennsku tók,
en hart var þá barist og kjör voru köld,
það kjarkinn og hugrekkið jók.
Þeir sóttu á miðin með sigrandi ró
í særoki, frosti og byl.
Þeir kunnu að sigla og krusa um sjó
en karlmennsku þurfti þar til.

Er vélbátaöldin var gengin í garð
hann gegnt hafði lóðsstarfi um skeið.
Þá Hannes þeir fengu, hann hafnarlóðs varð
og hetjuverk mikið hans beið.
En ekki er vitað í afrekaskrá
um annan eins hafnsögumann
og hlaut hann því verðugan heiður að fá
sem hetja er sigurinn vann.

Ég sá hann, hér fyrrum, í Eyjunum oft
en aldraður Hannes þá var.
Þó sjór væri úfinn og sæi ekki í loft,
hans sjómennska brást ekki þar.
Í hálfa öld sigldi hann heilum í höfn
hafskipum áfallalaust.
En fáir það leika er ferðast um dröfn
og fékk hann því virðingu og traust.

Þrekinn á velli og þéttur í lund
það mátti segja um hann.
Hann minnti á fornmann á farsælli stund er frama og afrekin vann.
Það var eins og öryggið einkenndi hann
og áranna volkið á sjó.
Það hafði ei bugað hinn hugprúða mann
né haggað hans gleði og ró.

Í friði hann sefur er sigldi um dröfn
og sigur hans stórbrotinn var.
En andi hans lifir og heilan í höfn
himneska fleyið hann bar.
Þar gleðst hann um eilífð með góðvinum þeim
er greiddi hann leiðina fyrr.
Þeir fagna nú allir og færa hann heim
um fegurstu eilífðardyr.

Benedikt Sæmundsson.