Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1998/ Flöskupóstur

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Haraldur Guðnason

Flöskupóstur

Talið er að um 80 þúsund flöskuskeyti (bréfaflöskur) fljóti um heimshöfin. Hafrannsóknir víða um heim senda út flöskur í vísindaskyni. Margar týnast, brotna á skípum og klettum.
Landkönnuðir sendu flöskuskeyti. Eitt slíkt fannst eftir 45 ár, sendandi þá allur í flösku, sem rak á suðurströnd Englands, óskaði sendandi hjónabandstilboða! Hann fékk svo mörg að valið varð erfitt. Dæmi eru um flöskuhjónabönd.

Í apríl 1977 kastaði maður út flöskuskeyti í Biscayflóa. Fjórum mánuðum síðar kom svar frá sjómanni í Boston: „Ég fann bréfið þitt í maga hákarls. Við veiddum hákarlinn 29. apríl úti fyrir Falmouth. Við skárum skepnuna og mikil var undrun okkar er við fundum bréfið í maga hennar." Meðan menn bjuggu á St. Kildu sendu þeir flöskupóst eins og Vestmanneyingar sem oft komst til réttra viðtakenda. Þá var notað lítið hylki sem var fleytt aftan í trébát. Smurt var yfir með tjöru svo að ekki læki.
Ef til vill hefur það flöskuskeyti velkst lengst í hafi sem fannst árið 1956 en dagsett í júlí árið 1750! Skip brann í hafi, en 12 menn, sem komust í björgunarbát, sendu skeytið en þeir kvaðust vera dauðans matur.
Í nóvember 1968 fann Árni Sveinsson í Borgarfirði eystri flösku rekna. Í henni var bréf frá kanadískum leiðangursmönnum á Norðurpól 1967. Flaskan hafði verið skilin eftir á ísnum. Merkilegt að flaskan skyldi berast til Íslands því að árin 1967 og 1968 voru mikil ísár. Spurning þá m.a. hvort ís frá Norðurpól gæti hafa borist til landsins.

Flöskupóstur úr Eyjum
Í 1. árg. Náttúrufræðings 1931 skrifar Guðmundur G. Bárðarson grein um flöskupóst í Vestmannaeyjum. Höfundur telur að flöskusendingar hafi byrjað árið 1870 og megi rekja til Þorsteins Jónssonar (1840-1908). Þessar „póstsendingar" hófust miklu fyrr. Póstur til Eyja var sendur austur í Landeyjar. Árið 1850 var póststöð á Önundarstöðum. Þessi skipan hélst alveg til aldamóta. Póstur var sóttur á áraskipi upp í Landeyjarsand. Þetta voru stundum svaðilfarir og lá við slysum. Árið 1870 komst póstur ekki til skila frá september fram í mars 1871.
Var oft gripið til þess ráðs að senda skilaboð í flöskum sem stundum fóru rétta leið en týndust stundum.
Þá er séra Jón Arason á Ofanleiti dó 10. sept. 1810 var látið bréf í stokk og kastað í sjóinn. Í Tíðavísum Jóns Hjaltalíns (1836) stendur:

Arasonur séra Jón
sagt er fengi ævitjón.
Í Vestmannaeyjum þó
öndu hniginn þáði ró.

Kannski er fyrsta prentuð heimild um flöskubréf frá Eyjum um lát séra Jóns en frá því segir í Annál 19. aldar (I. b. 135). Oddný Guðmundsdóttir, Stórólfshvoli, segir frá því að Oddný Jónsdóttir (1857-1887) fann bréfaflösku á Bakkafjöru sem þeir Þorsteinn Jónsson læknir og Páll Pálsson „jökull" sendu. Í henni voru nokkur sendibréf, kvartalin af rullu (skro) handa finnanda og tvær vísur sem Páll orti:

Flaskan þessi ef finnast kann,
feginn vil ég biðja
kónginn jafnt sein kotbóndann
kviðinn hennar ryðja.

Svo útbýta bleðlunum,
brátt svo ýtar fái
sjá hvað nýtt í seðlunum
sendist nú frá Eyjum.

Talið var best að senda bréfin í kampavínsflöskum því þær voru sterkar og holar í botninn, en vindur stóð í botnholið og þeytti þeim áfram.

Björgun og flöskupóstur
Þegar mikið lá við var gott að geta sent flöskuskeyti.
Í bókinni „Þorlákshöfn" segir Sigurður Þorsteinsson frá sjóhrakningunum miklu á vertíð 1883 er skipverjar Þorkels í Óseyrarnesi björguðust í franska skútu við illan leik og voru fluttir til Vestmannaeyja.
„Í Þorlákshöfn var áhöfnin talin af. Sigurður Sigurfinnsson bauð nafna sínum. Sigurði frá Flóagafli, með sér inn á Eiði og sjá þegar hann færi að senda póstinn. Pósturinn var flaska með nokkrum bréfum í og nokkrum aurum til finnandans. Frá tappanum var vel gengið og lakkað yfir stútinn. Bréfin voru flest til nafngreindra manna, en eitt var til finnanda flöskunnar og var á þessa leið:
„Hér kom í gær frakknesk fiskiskúta með Þorkel frá Óseyrarnesi og alla skipshöfn hans heila á húfi, er hún hafði fundið úti á hafi og bjargað. Þetta er finnandinn vinsamlegast beðinn að hlutast til um, að verði tafarlaust til kynnt hlutaðeigendum."
Á leiðinni inn á Eiði mættum við nokkrum mönnum er voru að koma frá því að senda sams konar póst og höfðu orð á því við Sigurð að hann væri orðinn of seinn, en hann tók því rólega og sagði að þeir síðustu yrðu stundum fyrstir og varð það orð að sönnu í þetta sinn því að einmitt þessi flaska fannst daginn eftir á fjöru nálægt Skúmstöðum í Vestur-Landeyjum og var Sigurður Magnússon dbrm. og bóndi þar forgöngumaður þess að fregnin færi í allar áttir með ótrúlegum hraða á þeim tíma. T.d. kom fregnin heim til foreldra minna sunnudagskvöldið 8. apríl, eða daginn eftir að flaskan fannst, og höfðum við þá verið taldir dauðir í 10 daga."

Í Eyjum biðu þeir 12 daga eftir leiði. Þriðjudaginn 17. apríl kom loks leiði í Landeyjarsand. Tveim dögum síðar, sumardaginn fyrsta, komu þeir til Eyrarbakka, réttum þrem vikum eftir að þeir lentu í hrakningunum.
Skipshöfnin: Þorkell formaður og Símon Guðmundur Guðnason Arabæ, Flóa, Páll Pálsson, Odda, Rangárvöllum, Jóhann Erlendsson, Haga, Holtum, Guðjón Björnsson, Flagveltu, Landi, Sigurður Þórðarson, Simbakoti, Eyrarbakka, Sigurður Ísleifsson, Velli (síðar Merkisteini, Vestm.), Þorleifur Nikulásson, Efra-Hvoli (síðar bóndi Miðhúsum, Hvolhreppi), Runólfur Jónsson, V.-Garðsauka, Einar Einarsson, Háholti, Gnúpv., Sveinn Sveinsson, Einarshöfn, Jón Jónsson, Þurá, Ölfusi, Sigurður Þorsteinsson frá Flóagatli.

Flöskupóstur á Alþingi
Þorsteinn Jónsson héraðslæknir í Eyjum 1865-1905 var alþingismaður Eyjamanna 1887-1890. Þá sagði Þorsteinn af sér þingmennsku. Hann var hreppsnefndaroddviti í Eyjum 1874-1902 og oft settur sýslumaður. Hann var nefndur „Eyjajarl".
Á þingi 1887 ræddi Þorsteinn um einangrun Eyjamanna og vondar samgöngur. Þá sagði hann meðal annars: „Vér fengum septemberpóstinn í mars, þar á meðal áríðandi embættisbréf."
Þá nefndi Þorsteinn dæmi þess að flöskubréf frá Eyjum gæti í hagstæðri átt verið rekið á t]öru á Bergþórshvoli næsta dag.
„Það er hinn algengi vetrarpóstur Vestmanneyinga til meginlandsins."
Þá kom til álita að sameina sýslumannsembættið í Eyjum og Rangárvallasýslu. Þorsteinn læknir sýndi fram á að það væri fjarstæða. Oft væru engar samgöngur við land í 3-5 mánuði sem fyrrnefnt dæmi sýndi. Flöskupósturinn einn tiltækur til að koma boðum til lands. Ekkert varð úr sameiningunni.

Stjórnvöld um flöskupóst „Ísland Suðuramt og Vesturamt.
Reykjavík 25. marz 1889.
Landshöfðinginn hefur í brjefi 21. þ.m. að boði ráðgjafans fyrir Ísland, eftir tilmælum sendiherra hins frakkneska þjóðveldis í Kaupmannahöfn, skorað á amtið að hlutast til um, að flösku og hylki, sem erfðaprinsinn af Monaco hefur nú af nýju kastað í Golfstrauminn, verði, ef þær reka upp við strendur Íslands, teknar upp með varkárni, og skjöl þau. sem í þeim eru, send utanríkisráðgjafanum danska eða utanríkisráðgjafanum frakkneska í París, ásamt skýrslu um hvar og hvenær flöskurnar eða hylkin fundust og hvernig þau voru þá sig komin.
Með skírskotun til brjefa amtsins 27. apr. og 24. maí 1886, skal jeg því hjermeð samkvæmt fyrirmælum landshöfðingjans, leggja fyrir yður, herra sýslumaður, að gjöra almenningi í yðar lögsagnarumdæmi kunnugt það, er að framan er sagt, og sjá um, að skjölin úr þessum nýju flöskum eða hylkjum verði annaðhvort send hingað áleiðis til landshöfðingja, eða til ofangreindra ráðgjafa ásamt þeim skýrslum, er æskt hefur verið.
E. Jónassen.
Til sýslumannsins í Vestmannaeyjum."

Fréttir af sjóslysi
Blaðið Norðurljósið í Reykjavfk 15. apríl 1893: Hinn 28. f.m. fórst róðraskip undir Vestmannaeyjum með 14 manna áhöfn er það fór í róður í annað sinn þann dag. Samkvæmt flöskubréfi sem kom upp í Landeyjar nokkru síðar.
Daginn eftir rak skipið á Eyrarbakka.
Jón Brandsson var kominn um sextugt og hafði verið framúrskarandi duglegur formaður, en þótti oft nokkuð í djarfara lagi. Búmaður var hann góður, vel látinn og ráðvandur og flestum mönnum áreiðanlegri í viðskiptum.
Þjóðólfur 14. apríl:
„Skiptapi kvað hafa orðið í Vestmannaeyjum 28. f.m. Hafði sú frétt borist til lands í flöskubréfi úr Eyjum (til séra Halldórs á Bergþórshvoli), að þann dag hefði Jón bóndi Brandsson frá Hallgeirsey í Landeyjum, vertíðarmaður þar í Eyjunum, róið tvisvar við 14. mann, en hafði ei komið að landi aftur, enda veður illt."
Ofsagt mun að veður hafi verið illt, en farið að bæta í vind.
Bréf Tomasar Brynjólfssonar, Sitjanda undir Eyjafjöllum (drukknaði veturinn 1913):
„Götu (Vm.) 14. febrúar 1913.
Kæri vin!
Jeg læt fáar línur til þín í flöskuna, svo vona ég að þú finnir hana. Héðan er ekkert að frétta nema aldrei verður komið á sjó og er margur farinn að hugsa íllt með það.
Jeg er óráðinn ennþá því Höydal var hættur við allt.
Vel líður öllum þeim sem þér koma við. Bærilega gekk okkur, við vorum alveg mátulegir. Það mátti ekki verra vera í flóanum. Þú færð nánari fréttir hjá mömmu því ég skrifa henni líka.
Ég bið kærlega að heilsa til þín, sjálfan þig kveð ég með óskum um allt gott.
Tómas E. Brynjólfsson."

Sagt var að flöskubréfin úr Eyjum hefðu verið óþörf þegar síminn kom 1911. En árið 1913 var sími ókominn undir Eyjafjöllum. Tómas var frá bænum Sitjanda, A.-Eyjafjöllum. Hann hefur ráðið sig á lítinn árabát hjá Halldóri Runólfssyni í Björgvin. Bátur þeirra fórst 9. apríl 1913. Undir nón fór að hvessa af suðaustri. Líklegt þótti að báturinn hefði farist í straumálnum suðvestan af Bjarnaerey. Þá fórst Ólafur D. Ólafsson frá Bjargi og Jón Jónsson frá Ráðagerði. Einn háseta, Jóhann Stefánsson, var of seinn til skips. Lík Tómasar rak á áttunda degi fram undan Eyvindarhólum. Var Tómas jarðsunginn frá Eyvindarhólakirkju. Hann var í björgunarbelti. Hann var búinn að segja fyrir um drukknun sína og að hann mundi hljóta leg í Eyvindarhólakirkjugarði.

Til eru skráðar frásagnir um fyrirburði í sambandi við þetta sjóslys í þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar og Sögum og sögnum úr Vestmannaeyjum eftir Jóhann Gunnar Ólafsson.
Synir Halldórs í Björgvin voru tveir, formenn á litlum bátum. Þeir fórust báðir á sjó. Ekki er vitað hver átti að fá flöskuskeytið hans Tómasar, en hins vegar sýnt að hann hefur fundið það rekið eða einhver annar, og þá afhent það réttum viðtakenda.

Flöskubréf frá Eyjum 1968 Bjarni Guðmundsson póstmaður í Reykjavfk skrifaði mér bréf, dags.15. október 1968. Bjarni hafði af tilviljun séð greinina í Náttúrufræðingnum frá 1931 um flöskupóstinn. Áhugi hans vaknaði á þessu sérkennilega póstmáli. Einhverjar samantektir mínar sendi ég Bjarna.
Annað tveggja hefur Bjarni beðið mig að senda sér flöskubréf eða ég hef gert það að eigin frumkvæði. Í bréfi til Bjarna 8. des. 1968 skrifa ég að flöskubréf til hans sé tilbúið og þar stendur:
,,Ég ætlaði að kasta því út af Eiðinu í dag, en þótti svo ekki næg sunnanátt. Viðbúið er, að bréfið komist ekki til skila, því menn eru hættir að ganga fjörur eins og í gamla daga."

Ég man að ég og Ille kona mín gengum inn á Eiði nefndan dag. Ef ég man rétt barst flaskan jafnóðum til lands eftir að vera varpað út. Nokkrum dögum seinna fórum við með flöskuna austur á Urðir. Bjóst eins við að hún mundi brotna þar við klettana.
Bréfið hljóðar svo:

„Vestmannaeyjum 8. des. 1968.
Hr. Bjarni Guðmundsson póstmaður,
Grenimel 26,
Reykjavík.

Liðin eru 150 ár síðan flöskubréf, er rak á suðurströndina, flutti þá frétt að séra Jón Arason sóknarprestur í Vestmannaeyjum væri látinn. Í tilefni þess sendi ég þér þetta flöskubréf, sem verður kastað í sjóinn út frá Þrælaeiði að kvöldi dags, sunnudaginn 8. desember 1968.
Með bestu kveðju,
Haraldur Guðnason."

Einu eða tveim árum síðar gekk Guðjón Jónsson bóndi og hreppstjóri í Hallgeirsey fjörur. Með honum var sonur hans ungur, Jón, nú bóndi í Hallgeirsey. Hann sá af tilviljun stút á flösku sem var grafin í sand. Í flöskunni var bréf það sem hér að ofan er skrifað.
Þetta flöskubréf komst til viðtakanda. Frá þessu er sagt í Morgunblaðinu en því hef ég glatað.
Lýkur þar ágripi af langri sögu.

Haraldur Guðnason