Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1998/3400 ára skipsflak fundið við Tyrklandsstrendur

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Sigurður Sigurðsson
3400 ára skipsflak fundið við Tyrklandsstrendur

Ef einhver þjóð á upphaf sitt og tilurð að þakka nýrri tækni í samgöngum þá eru það við Íslendingar. Þær framfarir, sem urðu í skipasmíði á Norðurlöndum upp úr árinu 600, skópu grundvöll fyrir landafundum Norðmanna í vesturátt: Færeyjar, Hjaltland og Ísland; og seinna frá Íslandi: Grænland, Helluland, Markland og Vínland sem reyndist svo vera Vesturheimur. Leifur heppni var þarna 500 árum á undan Kólumbusi. Tilviljun réð því svo að Kólumbus fékk ekki nafn sitt fest við þessa nýju heimsálfu heimsálfu heldur ritari hans og kortagerðarmaður, Americo að nafni, og þaðan er nafnið Ameríka komið. Súðbyrta víkingaskipið, þetta létta fagra fley, var hins vegar eins konar guðfaðir þessar þjóðar. Örlögin höguðu því svo til að á Íslandi uppfæddist sá maður sem átti eftir að reisa óbrotgjarnan minnisvarða um þetta landafundatímabil. Heimskringla og Gylfaginning Snorra Sturlusonar eru heillegustu verk um norræna goðafræði og mannlíf þessa tíma.

Það skipsflak, sem hér verður sagt frá, var þegar orðið 2000 ára gamalt þegar víkingatímabilið hófst. Flakið fannst fyrir tilviljun er tyrkneskir svampkafarar voru kanna svæðið árið 1982. Á 50 metra dýpi rákust þeir á undarlega hluti. Þetta svæði, sem kallast Ulu Burun, er um 200 km norðvestur af eyjunni Kípur, rétt við tyrknesku ströndina. Skipið mun hafa verið um 16 metrar að lengd, kantsett og vandað að allri gerð. Skipið hefur sokkið á tíma Tutank Amons faróa Egiftalands, um líkt leyti og Troja fellur eftir umsátur sem frægt er í sögunni. Líklega hefur skipið verið í fraktsiglingum, siglt milli hafnarborga við austanvert Miðjarðarhaf. Þeir byrjuðu venjulega hjá Egiftum, en síðan var siglt að ströndum þess lands sem nú er Ísrael, þaðan til Kíprar, þá Tyrklands, Krítar og aftur til Egiftalands.
Um borð í skipinu voru koparsteypublokkir, 200 stk., 30 kg hvert, samtals um 6 tonn. Þessar blokkir voru með fjórum handföngum. Steypumót fyrir slíkar blokkir hafa aðeins fundist í borginni Ugarit á strönd Sýrlands. Tin í koparinn til að gera brons mun hafa verið numið í Englandi, Kína og Tælandi. Margir þeirra leirmuna, sem fundust í flakinu, voru augljóslega af kanangerð (sbr. landið í Biblíunni). Um borð fannst harður svartviður (ebony; eðlisþyngd 1,2). Þarna fannst einnig raf (steingerð trjákvoða) sem notað er í skrautmuni og er ættað frá ströndum Eystrasaltslanda. Farmur skipsins kemur því frá sjö menningarsvæðum, Grikklandi, Kananslandi, Kípur, Egiftalandi, Assiríu og Núpíu. Þarna um borð voru einnig ilmolíur, vín, kaðlar, blátt gler sem ætlað var til að bræða saman við annað gler, að ógleymdum fagurlega gerðum gullmunum.

Þessar stórmerku rannsóknir á flakinu við Ulu Burun voru gerðar af Tyrkjum með hjálp og undir leiðsögn Georges Bass, fornleifafræðings á vegum National Geographic tímaritsins. Gaman er að velta fyrir sér, í tilefni af þessum fundi, þýðingu á fornri leirtöflu sem fannst við Tel el Amarna í Egiftalandi og er frá sama tímabili en áletrunin hljóðar svo: „Ég færi yður að gjöf 200 talentur kopars." Hún er frá konungi Alesíu (Kípur?) til faróa Egyptalands. Talentan var 30 kg gulls og silfurs. Einn denari var 17 grömm. Denari var daglaun verkamanns. Ein talenta var því 6 árslaun verkamanns og 200 talentur því 1200 árslaun verkamanns! Var það þessi gjöf sem lenti á hafsbotni? Að mestu endursagt úr Alþjóða landfræðitímaritinu.

Sigurður Sigurðsson frá Vatnsdal