Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1997/ Enn þeir fiskinn fanga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson


ENN ÞEIR FISKINN FANGA


Langt er um liðið síðan „amma hafði á öldunni gát og aflann úr fjörunni dró“ eins og Ási í Bæ segir í kvæðinu Heima. Enn er þó róið til fiskjar og sjómenn dáðadrengir sækja björg í bú eins og verið hefur um aldir og ekki líkur á öðru en að áfram verði haldið svo lengi sem byggð er í þessu landi. Hvað sem líður virkjunum og stóriðju þá mun fiskurinn í sjónum verða grundvöllurinn að afkomu þessarar þjóðar um ókomna framtíð.
En margt hefur breyst á langri leið og kaflaskil urðu þegar vélbátaútgerð hófst í upphafi aldarinnar og núna á allra síðustu áratugum með framúrskarandi tækni og stærri og öflugri bátum.
Oft hefur verið á það minnst að sjóferðarbænir lögðust af með tilkomu vélbátanna. „Nú get ég sjálfur“ -viðhorfið kom í stað þess að fela allt sitt ráð Guði almáttugum. En auðvitað vitum við mæta vel að Drottinn vék ekki úr því sæti sem honum einum ber með tilkomu vélbátanna. Ekki mun Guði verða rutt úr vegi með nýjustu og öflugustu tölvum nútímans eða framtíðar. Guð er sá sem er — hvernig svo sem allt veltist í veröldinni. ,,Þótt himinninn farist og hrapi vor storð og hrapi hver stjarna þá varir hans orð.“ Það er orð Drottins sem best dugar til sjávar og sveita og er sá leiðarsteinn sem hverjum manni er hollast að fylgja á siglingu sinni um lífsins ólgusjó.
Það er nánast sama hversu óvandað rafmagnstæki við kaupum, það fylgir því leiðarvísir þar sem tíundað er í smáatriðum hvernig á að nota tækið rétt. Það er krafist námskeiða og menntunar á öllum sviðum ef við viljum vera gjaldgeng úti á vinnumarkaðnum. En svo er bent á að enginn leiðarvísir fylgir nýju barni sem kemur í heiminn og ekki er krafist neinnar sérhæfingar til að stunda það vandasama starf að ala upp barn. Margir myndu taka slíkum bæklingi tveim höndum en því er ekki að heilsa að upp á það sé boðið.
En gáum að því að við höfum leiðarvísi, guðs orð, sem varir að eilífu og bendir og kennir hvernig við eigum að lifa þessu lífi þannig að það verði gott líf og blessað líf bæði fyrir einstaklinga og samfélag. En leiðarvísirinn, heilög ritning, kastar ljósi á líferni okkar með þeim hætti að við verðum að ganga inn í okkur sjálf og vera heiðarleg. Þegar við viljum fylgja þeirri leiðsögn, sem við höfum í biblíunni, hljótum við að spyrja okkur þeirrar spurningar hvort við séum sátt við það hvernig við komum fram við aðra, bæði okkar nánustu og aðra sem eru samferða okkur á vegferðinni. Við verðum einnig að skoða hvort við séum sátt við það hvernig við verjum fjármunum okkar og möguleikum í lífinu.
Handbók Drottins um lífið hvetur okkur til þess að bera hvert annars byrðar. Við eigum að koma þeim til hjálpar sem eiga erfitt. Við eigum í öllu að reyna að vera endurskin af þeim kærleika sem Drottinn Guð birtir okkur í Jesú Kristi. En um leið og við eigum að vera ábyrg og áreiðanleg þá réttir Drottinn fram höndina og vill styðja og leiða hvern þann sem finnur vanmátt sinn og að við erum öll veikleika vafinn.
„Herra, bjarga þú, vér förumst.“ Þannig báðu lærisveinarnir þegar þeir lentu í haugasjó og það gekk yfir bátinn. Þeir voru óttaslegnir en um borð var sá sem hafði valdið til að hasta á vindinn þannig að það varð stillilogn. Það gengur á ýmsu í lífi okkar. Stundum er stillilogn en fyrr en varir dregur ský fyrir sólu og það verður þungur sjór og þrútið loft. Ef til vill stöndum við frammi fyrir sjálfum lífsháskanum og okkur verður órótt. Þá er gott að vita að Drottinn er um borð. Hann er ekki fjarlægur og ósnertanlegur. Hann segir: Óttastu ekki, ég mun vera hjá þér og leiða þig í friðarhöfn. Við hvílum örugg í trúnni á Drottin því að orð hans varir um allar aldir.
Ég óska sjómönnum giftu og gæfta og óska þeim og fjölskyldum þeirra til hamingju með sjómannadaginn. Því að

„Enn þeir fiskinn fanga
við Flúðir, Svið og Dranga
þótt stormur strjúki vanga
það stælir karlmannslund.“