Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1997/Vinnslustöðin h.f. 50 ára

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


VINNSLUSTÖÐIN HF. 50 ÁRA


Laugardaginn 14. des 1996 var þess minnst að 50 ár voru liðin frá stofnun Vinnslustöðvarinnar en hún var stofnuð í Samkomuhúsinu 30. des. 1946 af 105 útgerðarmönnum í Vestmannaeyjum.
Starfsfólki og gestum var af þessu tilefni boðið til mikillar veislu í Týsheimilinu og voru þar yfir fjögur hundruð manns saman komin. Sighvatur Bjarnason framkvæmdastjóri og Geir Magnússon stjórnarformaður ávörpuðu gesti, og voru félaginu færðar gjafir á þessum tímamótum og gestir fluttu ávörp. Boðið var upp á mat og drykk ásamt skemmtiatriðum og að sjálfsögðu var dansað á eftir fram á morgun. Í tilefni afmælisins veitti Vinnslustöðin hf. þrjá styrki, samtals 1,5 milljónir kr. Geir Magnússon afhenti styrkina en þeir komu í hlut knattspyrnuráðs ÍBV, kvenfélagsins Líknar og félags foreldra krabbameinsveikra barna.
Vinnslustöðin hf. er eitt stærsta fiskvinnslufyrirtæki landsins eftir að það sameinaðist Meitlinum í Þorlákshöfn, en hjá fyrirtækinu vinna milli 400-500 manns að sögn Sighvats Bjarnasonar. Saga fyrirtækisins verður ekki rakin hér að þessu sinni, en benda má á afmælisgrein í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja 1986 þar sem saga fyrirtækisins var rakin á 40 ára afmæli þess.
Myndimar hér á opnunni eru teknar í veislunni og af tilefni afmælisins.