Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1997/Vélstjórnarbraut FÍV 1996-1997

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


GYLFI ANTON GYLFASON


VÉLSTJÓRNARBRAUT FÍV 1996-1997


Starf vélstjórnarbrautar við Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum hófst með formlegum hætti þann 2. sept. en skólinn var settur þann 30. ágúst. Kennarar í faggreinum vélstjóra voru á haustönn þeir Jón Ingi Sigurðsson og Karl Marteinsson. Alls voru skráðir tíu nemendur í 1. stigi sem tekur eina önn og fjórir til náms í 2. stigi.
Á vorönn hófst starfið 6. jan. með því að vélstjóraefnin fóru á námskeið hjá Slysavarnaskóla sjómanna áður en þeir settust aftur á skólabekk eftir hátíðirnar. Þar voru mættir sjö af þeim sem luku við I. stig á haustönn í áframhaldandi nám og einn sem er að ljúka 2. stigi nú á vorönn.
Um áramótin fór fram afhending á vélstjóraúrinu, en það er veitt þeim útskriftarnemanda af 2. stigi sem bestum árangri hefur náð í faggreinum vélstjóra. Að þessu sinni hlaut úrið Freyr Atlason, en hann er nú starfandi vélstjóri á Kap VE 4.
Þá varð sú breyting á vorönn að Jón Ingi Sigurðsson hélt á brott til starfa hjá Útgerðarfélagi Skagfirðinga á Sauðárkróki og undirritaður tók við hans störfum.
Það hefur verið vani nú seinni ár að nemendur, sem eru að ljúka 2. stigi við vélstjórnarbrautina, haldi í víking norður til Akureyrar. Þar er þeim gert kleift að nýta sér þá möguleika sem vélhermir Verkmenntaskólans á Akureyri býður upp á. Sú var og raunin á liðinni haustönn en þá héldu þeir fjórir sem luku við námið nú á skólaárinu norður ásamt kennara sínum, Jóni Inga, og dvöldust þar yfir eina helgi í góðu yfirlæti. Þegar þetta er skrifað benda þó líkur til að þessi ferð hafi verið sú síðasta sem farin er til Akureyrar, a.m.k. í þessum tilgangi. Ástæðan er sú að uppi eru áætlanir um kaup á vélhermi til skólans. Búnaðurinn sem um ræðir er nokkuð minni en búnaður Akureyringa, en hentar engu að síður mjög vel til kennslu á 1. og 2. stigi. Um kaupin á búnaðinum hefur tekist samstarf með þremur öðrum fjölbrautaskólum sem hafa verið með kennslu í vélstjórn að gera, en til stendur að allir skólarnir kaupi eina samstæðu hver. Skólarnir eru Fjölbrautaskóli Suðurnesja, Framhaldsskóli Vestfjarða og Verkmenntaskóli Austurlands. Með því að standa saman að kaupunum fá skólarnir búnaðinn á töluvert lægra verði.
Ef af kaupunum verður má segja að aðstaða til kennslu í vélstjórn við skólann batni verulega, en umfram þjálfun í meðferð á venjulegum dísil-atlvélum veitir hermirinn nemendum meiri sýn á þá samvirkni sem þarf að vera milli vélar og þess búnaðar sem hann tengist, s.s. drifbúnaðar, skrúfu, smurkerfis, forþjöppu, útblásturskerfis ofl. Því til viðbótar er hægt með herminum að líkja eftir flestum gerðum bilana á vélbúnaði sem að öðrum kosti er ekki hægt og greinir kerfið þá hvort rétt er brugðist við bilunum.
Það er því ljóst að með kaupunum á slíku tæki yrði rennt styrkari stoðum undir áframhaldandi starfsemi vélstjórnarbrautar við skólann. Vel búinn skóli hlýtur að virka sem hvatning á að menn leggi út í að stunda nám í sinni heimabyggð. Og ekki veitir af því að menntun í sérgreinum sjómanna hefur í auknum mæli verið að flytjast til Reykjavíkur. Ég hvet því menn til að halda vöku sinni og standa saman um að efla og styrkja vélstjórnar- og iðnmenntun við Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum.
Með kveðju til sjómanna og fjölskyldna þeirra.

Gylfi Anton Gylfason vélfræðingur