Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1997/Upphaf stálfiskiskipasmíði

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search


FYRSTU STÁLBÁTARNIR


Þann 17. febr. 1955 kl. 6 að morgni, kom til Vestmannaeyja fyrsti fiskibátur úr stáli smíðaður fyrir Íslendinga. Hann hét M Ófeigur III. VE 325. Hann var smíðaður í Hardinxveld Hollandi 1954. Eigendur Þorsteinn Sigurðsson forstjóri Blátindi og Ólafur Sigurðsson skipstjóri frá Skuld. Báturinn var 66 tonn að stærð með 220 hestafla Grenaa vél. Lengd var 19,56 m., breidd 5,65 m og dýpt 2,49 m. Ófeigur var eini báturinn af þessari gerð sem smíðaður var fyrir Íslendinga og hafði þessa vélartegund. Allir hinir bátarnir, sem voru fjölmargir, voru búnir Kromhout 240 hestafla vélum.
Ófeigur III. var alla tíð gerður út frá Vestmannaeyjum og reyndist í alla staði góður fiskibátur og fiskaði ávallt vel. Hann strandaði við Hafnarnesvita við Þorlákshöfn 20. febr. 1988. um kl. 6 um morguninn. Þyrla Landhelgisgæslunnar bjargaði áhöfn bátsins. Báturinn eyðilagðist á strandstað. Hann hafði þá verið gerður út frá Vestmannaeyjum í 32 ár, nánast upp á dag.
Myndirnar hér á opnunni eru teknar árið 1955 þegar íslenskir útvegsmenn kynntu sér smíði stálfiskibáta í boði Kromhout díselvélaverksmiðjanna og Holland Launch, Amsterdam. Þarna er í smíðum Arnfirðingur RE 212 sem löngu síðar var keyptur til Vestmannaeyja og hét þá Nanna VE 294, eigandi Leó Óskarsson skipstjóri og útgerðarmaður. Báturinn fórst í illviðri út af Vík í Mýrdal 7. mars 1989 og var áhöfn Nönnu bjargað um borð í Þórunni Sveinsdóttur VE 401.