Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1997/Stiklað á stóru í hartnær 60 ára sögu Veiðarfæragerðar Vm.

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


GRÍMUR GÍSLASON


STIKLAÐ Á STÓRU Í HARTNÆR 60 ÁRA SÖGU VEIÐARFÆRAGERÐAR VM.


Veiðarfæragerð Vestmannaeyja er eitt af elstu starfandi fyrirtækjum í Vestmannaeyjum. Saga fyrirtækisins spannar nær sextíu ár og hefur það allan þann tíma verið í eigu sömu fjölskyldna. Upphafið að stofnun fyrirtækisins var samstarf þeirra svila, Magnúsar Magnússonar og Þórðar Gíslasonar. Þeir höfðu um nokkurra ára skeið unnið saman í veiðarfærum, m.a. fyrir mág sinn, Þorvald Guðjónsson útgerðarmann, er þeir ákváðu að setja á stofn netaverkstæði. Netaverkstæðið stofnuðu þeir formlega árið 1939 og nefndu það Netagerð Magnúsar og Þórðar.
Netagerðin var fyrst til húsa á Strandvegi, þar sem nú er Eyjabúð, en síðan fluttu þeir starfsemina á efri hæðina að Heiðarvegi 3 þar sem HB-pöbb er nú til húsa á neðri hæð. Greinilegt er að þeir Magnús og Þórður hafa verið í húsnæðishraki með fyrirtæki sitt því næst fluttu þeir sig á efri hæðina að Strandvegi 77 þar sem skrifstofur Vélsmiðjunnar Magna voru síðar til húsa og loks fengu þeir aðstöðu í veiðarfærahúsi Leós að Skildingavegi 8 sem Þorvaldur Guðjónsson mágur þeirra átti, en í því húsi er Vélaverkstæðið Fjölverk nú.

Veiðarfæragerð Vestmannaeyja stofnuð.
Næg verkefni voru fyrir hendi hjá Netagerð Magnúsar og Þórðar og fljótlega voru þeir komnir með mannskap í vinnu. Synir þeirra Magnúsar og Þórðar, Guðjón, Kristleifur og Hallgrímur, hófu fljótt störf hjá feðrum sínum og umsvif fyrirtækisins jukust smám saman. Svo fór að ákveðið var að synirnir gerðust meðeigendur í fyrirtækinu og 5. ágúst 1948 var stofnað hlutafélag um reksturinn og um leið var nafni fyrirtækisins breytt í Veiðarfæragerð Vestmannaeyja.
Veiðarfæragerðin festi strax kaup á húsnæði undir starfsemina. Skuldarhúsið, veiðarfærahús Skuldar VE, að Skildingavegi 8 var keypt. Húsið var lágreist og því akváðu þeir að hækka undir loft og beittu til þess nýstárlegum aðferðum. Þakið var losað í heilu lagi ofan af veggjunum og það tjakkað upp með glussatjökkum og veggirnir síðan hækkaðir upp þar til lofthæðin var orðin næg. Síðan stækkuðu þeir húsið, byggðu það fram, með hleðslusteini og var viðbyggingin hlaðin á nokkrum dögum af eigendunum sjálfum.

Konur og karlar unnu við veiðarfæragerð.
Mikill uppgangur hafði verið hjá Netagerð Magnúsar og Þórðar mánuðina áður en Veiðarfæragerðin var stofnuð. Stafaði það fyrst og fremst af komu nýsköpunartogaranna, Elliðaeyjar og Bjarnareyjar, sem Bæjarútgerðin keypti. Togararnir komu til Eyja í árslok 1947 og í upphafi árs 1948 og eins og gefur að skilja skapaði koma þeirra mikla vinnu við troll hjá Netagerðinni. Fjöldi manns vann hjá fyrirtækinu, bæði karlar og konur, en 20 til 25 manns unnu þá í fullu starfi hjá Veiðarfæragerðinni, í þá daga var allt trollið unnið á staðnum. Konurnar hnýttu stykki, vængi, undirbyrði, belgi og poka, en netagerðarmennirnir saumuðu síðan stykkin saman og útbjuggu trollin. Einnig tóku togararnir með varastykki, sem konurnar höfðu hnýtt, til að bæta með úti í sjó. Hallgrímur og Guðjón, ef til vill betur þekktir sem Grímur Þórðar og Gaui Manga, segja að geysilega líflegt hafi verið í netagerðinni á þessum árum og að koma togaranna hafi verið mikil lyftistöng. Grímur sagði að togararnir hefðu verið óhemjufrekir á veiðarfæri og sagðist muna dæmi þess að sett hafi verið sjö troll um borð í annan togarann fyrir eina veiðiferð. Langmest vinna var við troll í Veiðarfæragerðinni á þessum árum en einnig var talsvert um uppsetningu á snurvoð. Þá hannaði Magnús stórtogaratroll fyrir Elliðaey, sem var algjörlega frábrugðið öðrum trollum, svokallað flottroll sem reyndist mjög vel.
Togaraútgerð Bæjarútgerðarinnar stóð til ársins 1955 en þá hafði hallað verulega undan fæti hjá útgerðinni. Annar togarinn hafi verið seldur árið 1953 og sá seinni fór frá Eyjum árið 1955. Þrátt fyrir að mikil vinna hafi fylgt togurunum í Veiðarfæragerðinni varð ekkert lát á þrátt fyrir brotthvarf þeirra.

Magnús kallaður austfirskur konsúll.
Eftir að togararnir voru seldir frá Eyjum jókst vinna við þorskanet hjá Veiðaifæragerðinni en einnig sáu þeir um troll fyrir marga báta. Á þessum tíma réru margir bátar af Austfjörðum frá Eyjum yfir netavertíðina. Allir þessir bátar voru í viðskiptum hjá Veiðarfæragerðinni sem stafaði líklega af tengslum Magnúsar við Austfirði en þar hafði hann verið margar sumarvertíðir frá 14 ára aldri.
Þá voru einnig margir netabátar frá Eyjum í viðskiptum hjá Veiðarfæragerðinni svo að atvinna var næg. Bæði var skorið af netum og þau felld og fjöldi manns vann til miðnættis hvert kvöld. Margt fólk var þá í íhlaupavinnu við netaafskurð. Meðal annars nefna þeir Gaui og Grímur karlana af grafskipinu og bílstjóra af Bílastöðinni sem komu í vinnu til þeirra á kvöldin.
Magnús var á þessum árum kallaður „austfirski konsúllinn" í Eyjum enda sá hann um að redda ýmsu fyrir Austfirðingana. Meðal annars sá hann um fjárreiður í Eyjum fyrir þá og greiddi körlunum á bátunum út laun og greiddi fyrir þá reikninga.

Reynt að góma innbrotsþjófa.
Á þessum árum setti Magnús á fót litla verslun í einu horninu á jarðhæð Veiðarfæragerðarinnar. Þar seldi hann sjófatnað og fleira ásamt gosdrykkjum og sælgæti. Gaui og Grímur segja að oft hafi verið líflegt á þessum tíma í Veiðarfæragerðinni því að þar hafi verið nokkurs konar samkomustaður fyrir Austfirðingana og oft hafi húsið verið fullt af fólki sem kom til að spjalla og spekúlera.
Þeir segja að eftir að sjoppan var sett upp í horninu hafi farið að bera á innbrotum í fyrirtækið og sérstaklega hafi verið sóst eftir sælgæti og gosi. Hafi kveðið svo rammt að þessu að þeir hafi ákveðið að reyna að standa þjófana að verki. Hugmyndina hafi þeir fengið á Iaugardagskvöldi, eftir að þeir voru búnir að fá sér smá tár til hressingar. Þeir hafi þá farið niður í Veiðarfæragerð fyrir miðnætti á laugardagskvöldinu og komið sér fyrir uppi á Iofti þar sem þeir ætluðu að bíða þjófanna. Þar hírðust þeir í myrkrinu og létu lítið fyrir sér fara. Ekkert bólaði þó á þjófum og þegar klukkan var farin að halla í fimm um morguninn hafi þeir gefist upp á að bíða, vissir um að úr því yrðu engir þjófar á ferð. Þeir héldu því heim og lögðu sig. Þegar þeir vöknuðu síðan á sunnudagsmorgun var það fyrsta sem þeir fréttu að brotist hefði verið inn í sjoppuna í Veiðarfæragerðinni og miklu stolið. Þjófarnir höfðu greinilega vitað af vaktmönnunum og biðu þar til þeir fóru af vaktinni og létu þá til skarar skríða. Reyndar fannst góssið nokkrum dögum síðar, vafið innan í sjóstakk í Hundraðsmannahelli, og síðar komst upp hver hafði framið innbrotið en þessi vökunótt segja þeir að sitji ofarlega í minningunni.

Aldrei unnið við nætur í Veiðarfæragerðinni.
Talsverð umsvif voru hjá Veiðarfæragerðinni, allt fram að gosi, og hjá fyrirtækinu störfuðu margir menn. Viðgerðir og uppsetning trolla fyrir smærri báta í Eyjum ásamt afskurði og fellingu neta var áfram kjarninn í vinnu Veiðarfæragerðarinnar en þeir fóru aldrei út í viðgerðir á nótum. Þeir segja að ágæt samvinna hafi verið milli þeirra og strákanna í Net hf. Þeir hafi komið í vinnu til þeirra þegar á þurfti að halda og eins gripu þeir í nótavinnuna með þeim í Net ef þannig stóð á hjá þeim.
Þegar synir Gríms og Gaua, Þórður, Halldór og Birgir, fóru að vinna hófu þeir störf í Veiðarfæragerðinni og allir lærðu þeir netagerð. Fyrir gos voru bæði Þórður og Birgir komnir í fulla vinnu hjá Veiðarfæragerðinni með feðrum sínum og Halldór farinn að grípa í sumarvinnu en talsvert löngu fyrir þann tíma höfðu Þórður og Magnús látið af störfum hjá fyrirtækinu.

Í Þorlákshöfn í eldgosinu 1973.
Í eldgosinu 1973 fluttust Grímur og Gaui með fjölskyldur sínar upp á land eins og aðrir Vestmanneyingar en strax á fyrstu dögum eftir að gosið hófst fóru þeir að huga að hvernig þeir gætu komið fyrirtækinu af stað á ný. Þar sem flestir viðskiptabáta fyrirtækisins réru frá Þorlákshöfn eftir gosið ákváðu þeir að hetja starfsemi fyrirtækisins þar og fluttu allan búnað af verkstæðinu í Eyjum til Þorlákshafnar. Þak Veiðarfæragerðarinnar í Eyjum hrundi undan öskuþunga fljótlega eftir að gosið hófst en þrátt fyrir það náðu þeir að bjarga öllum tækjum úr húsinu. Tækin voru síðan flutt til Þorlákshafnar með Danska-Pétri og komið fyrir í húsnæði sem Guðni Sturlaugsson leigði Veiðarfæragerðinni. Þar hófu þeir síðan reksturinn að nýju og fyrstu vikurnar bjuggu þeir uppi á lofti í Veiðarfæragerðinni í Þorlákshöfn og sváfu í kojum sem þar voru. Gaui og Grímur, ásamt Þórði og Birgi, bjuggu í Þorlákshöfn en konurnar og aðrir í fjölskyldunni bjuggu í Reykjavík fyrstu vikurnar. Með þeim feðgum starfaði Kristján Einarsson einnig í Veiðarfæragerðinni í Þorlákshöfn og skömmu síðar bættist Magnús Grímsson, Maggi á Felli, í hópinn og allir bjuggu þeir saman á loftinu. Einnig var Grímur, tangdapabbi Gauja, með þeim og sá um að hella upp á kaffið fyrir þá, sem hann gerði reyndar einnig í Veiðarfæragerðinni við Skildingaveg, alla daga, eftir að þeir fluttust til Eyja á ný eftir gos. Lífið í Þorlákshöfn var hálfgert verbúðarlíf fyrstu vikurnar. Gaui sagðist hafa séð um matseldina fyrir hópinn og oft hafi verið glatt á hjalla. Þeir minnast eins kvöldverðartímans sérstaklega, Gaui hafði tilkynnt að boðið yrði upp á tvíréttaðan veislukvöldverð, aðalrétt og eftirrétt. Þegar sest var að borðum bauð Gaui upp á bjúgu í aðalrétt og síðan dreifði hann karamellum á mannskapinn í eftirrétt og þótti flestum eftirrétturinn minni kræsing en þeir höfðu ráðgert.
Þegar leið á veturinn fengu þeir húsnæði í Þorlákshöfn og fluttust fjölskyldur þeirra þá austur. Mikið var að gera meðan Veiðarfæragerðin var starfrækt í Þorlákshöfn og unnið fram eftir kvöldum alla daga. Veiðarfæragerðin var rekin í Þorlákshöfn fram á haustið 1973 en þá voru hjól atvinnulífsins aftur byrjuð að snúast í Eyjum.

Flutt í skyndingu til Eyja á ný.
Guðjón og Grímur voru búnir að svipast um eftir húsnæði í Eyjum fyrir Veiðarfæragerðina þar sem húsnæðið á Skildingavegi 8 hafði hrunið og var ónýtt. Úr varð að þeir gerðu samkomulag við Vestmannaeyjabæ og Viðlagasjóð um að hafa makaskipti á rústum gömlu Veiðarfæragerðarinnar að Skildingavegi 8 og húsi sem bærinn átti að Skildingavegi 6.
Gaui segir að flutningur frá Þorlákshöfn hafi síðan verið ákveðinn í skyndingu. Danski-Pétur hafi komið til Þorlákshafnar og þeir feðgar Jóel og Malli hafi komið til sín og spurt hvernig væri með þá, hvort þær ætluðu ekki heim aftur. Gaui sagðist hafa sagt þeim að þeir væru ákveðnir í að fara til Eyja á ný með fyrirtækið og þá spurðu þeir eftir hverju væri verið að bíða, allt væri komið á fullt í Eyjum og þá vantaði orðið veiðarfæraþjónustu þar. Það var því ákveðið að drífa í flutningi. Tækjum og tólum Veiðarfæragerðarinnar í Þorlákshöfn var pakkað saman, sett um borð í Danska-Pétur og siglt með til Eyja. Þar var dótinu komið fyrir í nýja húsnæðinu og byrjað að nýju í Eyjum, nánast á sömu torfunni og Veiðarfæragerðin hafði staðið á áður. en nú í öðru húsnæði. Húsnæðið að Skildingavegi 6 var óeinangrað og ópússað að innan sem utan og því þurftu þeir að taka til hendinni við að gera það að vistlegum vinnustað. Sjálfir einangruðu þeir það, pússuðu og máluðu og standsettu fyrir starfsemina.

Þrír starfsmenn í dag
en voru allt að 25 á árum áður.
Í dag er Veiðarfæragerð Vestmannaeyja enn í þessu húsi en umsvif fyrirtækisins hafa minnkað mikið frá því það var á blómaskeiði sínu. Þar vinna nú þrír starfsmenn, Gaui, Grímur og Birgir og höfðu þeir á orði að meðalaldurinn hefði hækkað mikið hjá starfsmönnum fyrirtækisins frá því sem áður var. Vinnan í Veiðarfæragerðinni fellst aðallega í fellingu þorskaneta og öðru sem að netum lýtur. Segja þeir að vinna við netin hafi breyst ótrúlega mikið á þeim tíma sem þeir hafa starfað við þetta. Nú sé vinnan leikur einn miðað við það sem áður var, engin grjót eða flotkúlur sem þarf að eiga við eins og áður og nú taki ekki nema tvo tíma að laga bauju sem hafi tekið sex til átta tíma áður.
Mikil breyting hefur orðið á umsvifum Veiðarfæragerðarinnar þar sem sterfsemin hefur dregist mikið saman og segja Gaui og Grímur að það megi rekja til breytinga á bátatlotanum. Uppistaða viðskiptavina þeirra var einkaútgerðin, litlu trollbátarnir sem nú hafa flestir horfið. Einnig hafi útgerðarfyrirtæki nú komið upp eigin netaverkstæðum í stað þess að kaupa vinnuna út og þessir þættir hafi valdið samdrætti hjá þeim. Þeir segjast þó hafa nóg að gera, enda séu þeir komnir á efri ár og standi ekki fram eftir öllum kvöldum nú eins og áður fyrr en Birgir taki kúfinn af vinnunni að sér þegar mikið er að gera.

Sprenging varð í fyrirtækinu með hönnun og framleiðslu á nýju trolli.
Þegar þeir líta til baka segja þeir að tvö tímabil standi upp úr í minningunni. Annars vegar sé það sá tími þegar nýsköpunartogararnir komu til Eyja á árunum 1948 til 1953 enda hafi þá verið mikill uppgangur, mikið að gera og tjöldi manns í vinnu.
Hitt tímabilið. sem þeir segjast einnig minnast, séu árin milli 1965 og 1970. Þá hafi orðið sprengin í vinnu hjá þeim. Ástæða þess var sú að þeir hönnuðu nýja útfærslu á fiskitrolli. Siggi Vídó, á Lundanum, var fenginn til að fara með trollið og prófa það og fiskifræðingur frá Hafrannsóknastofnun fór með í reynsluferðina ásamt Gauja. Trollið reyndist mjög vel og megintilgangurinn, sem var að auka opnun þess, tókst. Í reynsluveiðiferðinni kom fram að opnunin var 5,5 til 6,5 metrar sem var um tveimur metrum meira en áður hafði þekkst. Vel veiddist í trollið og Morgunblaðið sagði frá þessari nýju hönnun með frétt og viðtali við fiskifræðinginn sem fór í tilraunatúrinn. Það varð til þess að mikil eftirspurn varð eftir trollinu og segja þeir að síminn hafi vart stoppað. Hringt var allsstaðar að af landinu til að spyrjast fyrir um þetta veiðarfæri og pöntunum rigndi inn. Þeir segja að enn séu svipuð troll og þeir hönnuðu á þessum tíma í notkun og nefna svokallaðan Gulltopp sem dæmi um troll sem er mjög svipað því sem þeir settu á markaðinn.
Þeir segja að meðan þeir voru á kafi í trollbransanum hafi þeir alltaf gert mikið af því að prófa nýjungar í samvinnu við útgerðarmennina og skipsstjórana og margt hafi verið prófað í þeim efnum og sýndu þeir ýmsar teikningar sem þeir eiga af trollum sem þeir settu upp á þessum tíma.

Eftirminilegustu fastagestirnir.
Í Veiðarfæragerðinni hefur Stýrimannaskólanemum um áratugaskeið verið kennd netavinna og einnig var sjóvinna gagnfræðaskólanema kennd þar í nokkur ár.
Veiðarfæragerðin hefur alltaf verið vinsæll viðkomustaður þeirra sem við höfnina vinna. Margir hafa alltaf komið við í kaffisopa og spjall og í kaffitímum hefur oft verið glatt á hjalla og dægurmálin krufin. Þeir segja að enn séu átta til tíu manns fastagestir í hverjum kaffitíma og margt sé spjallað. Þegar þeir líta til baka segjast þeir minnast margra góðra fastagesta en þeir sem efstir eru í huga þeirra eru Siggi Valda á Grafaranum, sem var daglegur gestur hjá þeim, og svo auðvitað Axel Vigfússon, Púlli frá Holti, sem var fastagestur hjá þeim fyrir gos. Kom hann margar ferðir á dag, blessaður, í heimsókn og átti oft með þeim skemmtilegar stundir í líflegum galsa í Veiðarfæragerðinni.
Oft er glatt á hjalla í Veiðarfæragerðinni og undanfarin ár hefur skapast sú hefð að halda þar svokallað ,,Desemberfest". Þá koma saman starfsmenn Veiðarfæragerðarinnar og sjómenn af þeim bátum sem eru í viðskiptum hjá þeim og eiga saman skemmtilega stund. Húsnæðið er þá skreytt á margvíslegan hátt, snæddur er kvöldverður og síðan sungið og spjallað fram eftir nóttu.
Frá 1973 hefur Veiðarfæragerðin gegnt lykilhlutverki í undirbúningi þrettándans í Eyjum því þar hafa flest þau kynjadýr og forynjur, sem taka þátt í gleðskapnum, fæðst svo saga Veiðarfæragerðarinnar tengist fleiru en bara atvinnusögu Eyjanna gegnum tíðina.

Sáttir og fara ekki að skipta
um vinnustað úr þessu.
Gaui og Grímur segjast sáttir þegar þeir líta til baka. Samstarfið hafi gengið vel og frá Veiðarfæragerðinni eigi þeir margar góðar minningar. Samstarfsmenn og viðskiptavinir hafi margir orðið góðir vinir þeirra og í netum og trollum hafi þeir hrærst í áratugi. Veiðaifæragerðin hafi verið þeirra vinnustaður lengst af gegnum lífið og þeir fari trúlega ekki að skipta um vinnustað úr þessu.