Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1997/Stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum '95-'96
Skólaslit voru 25. maí 1996. Níu nemendur stunduðu nám í 1. stigi og fimm í 2. stigi. Hæstur í 1. stigi var Bjarni Halldórsson, Vestmannaeyjum, með meðaleinkunn 9,17 og annar var Tómas Kárason frá Neskaupstað með 8,69 í meðaleinkunn.
Í 2. stigi var hæstur Sindri Óskarsson, Vestmannaeyjum, með meðaleinkun 9,52 og annar var Kjartan L. Guðmundsson frá Egilsstöðum með meðaleinkunn 8,93.
Sindri Óskarsson fékk loftvog í verðlaun fyrir hæstu einkunn í 2. stigi frá Sigurði Einarssyni forstjóra Ísfélags Vestmannaeyja, og sjónauka fyrir hæstu enkunn í siglingafræði frá Útvegsbændafélagi Vestmannaeyja. Hann fékk einnig vandað armbandsúr, Verðandaúrið, frá Verðanda.
Kjartan L. Guðmundsson fékk bókaverðlaun fyrir hæstu einkunn í íslensku frá Rotary-klúbbi Vestmannaeyja. Einnig bókaverðlaun frá Bjarna Jónassyni veðurfræðikennara fyrir góðan árangur í veðurfræði. Kjartan fékk einnig bókaverðlaun fyrir hæstu einkunn í dönsku frá danska sendiráðinu.
Tómas Kárason fékk bókaverðlaun frá Eyjabúð fyrir ástundun og reglusemi.
Eins og áður hefur komið fram í þessu blaði var setttur upp nýr fjarskiptabúnaður, GMDSS, í skólanum árið 1995 og luku Litskriftarnemendur 2. stigs þess árs námi í notkun hans og veitti það þeim ótakmörkuð réttindi talstöðvarmanns eins og kveðið er á um í prófkröfum. Nemendur 2. stigs 1996 hafa að sjálfsögðu öðlast sömu réttindi. Einnig voru haldin tvö námskeið fyrir starfandi skipstjórnarmenn á þessi nýju tæki á skólaárinu 1995-1996. Hlutu þeir sem þau sóttu sams konar skírteini. Einnig hafa verið haldin tvö námskeið fyrir þessa menn á skólaárinu 1996-1997 þegar þetta er skrifað.
Stöðugt eru uppi hugmyndir i menntamálaráðuneytinu um að breyta skipstjórnarnáminu. Það sem helst er á döfinni nú er að stofna skipstjórnarbrautir við framhaldsskólana. Það er talað um að þetta verði fjögurra anna nám sem grunnur að skipstjórnarnámi. Fyrsta- og annarsstigs námið í stýrimannaskólanum verði aukið með ýmsum nýjum greinum sem koma þar í staðinn fyrir kjarnafögin sem nemendur hafa lokið á skipstjórnarbrautum framhaldsskólanna.
Það er svo sannarlega von undirritaðs að breytingar, sem gerðar verða á skipstjórnarnáminu, verði til þess að efla það og styrkja. Og það sem mest er um vert að útskrifaðir skipstjórnarmenn verði sem hæfastir til þess ábyrgðarmikla starfs sem skipstjórn er. Ekkert er mikilvægara en huga vel að því.
Á hátíðisdegi sjómanna sendum við í Stýrimannaskólanum bestu kveðjur til allra sjómanna og aðstenda þeirra. Siglið ávallt heilir í höfn.