Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1997/Minning látinna

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


MINNING LÁTINNA


Guðni Grímsson
F. 15. janúar 1904 - D. 9. maí 1996
Guðni Grímsson var fæddur að Nýborg á Stokkseyri 15. janúar 1904. Hann hafði því lifað nær alla þessa miklu umbrota- og athafnaöld, mundi vel tímana tvenna og var gaman að heyra hann rifja upp mannlífssögurnar frá fyrri tíð.
Foreldrar Guðna voru Grímur Bjarnason og Helga Þorsteinsdóttir. Hann ólst upp í föðurhúsum ásamt fjórum systkinum, sem upp komust, og var hann næstyngstur. Aðeins eitt þessara systkina er nú eftirlifandi. Þegar Guðni var 12 ára deyr Helga móðir þeirra og olli það að sjalfsögðu miklum erfiðleikum. Þá var Guðna komið í fóstur að Jórvík í Sandvíkurhreppi og var hann svo lánssamur að Ienda hjá ágætis fólki. Fimmtán ára gamall er hann fyrst ráðinn til sjós og þá á áraskip í Þorlákshöfn. Gengu þeir saman þrír félagar úr sveitinni í verið, en það fyrsta sem þeir þurftu að gera er þangað kom var að moka snjó út úr þeirra væntanlega heimili, verbúðinni. Þrátt fyrir kuldalega aðkomu og eflaust mikla vosbúð átti sjómennskan vel við Guðna og næstu árin rær hann úr ýmsum verum, m.a. frá Skálum á Langanesi, frá Ísafirði og Seyðisfirði, svo það er óhætt að fullyrða að hann hafi á sínum unglingsárum kynnst bæði íslensku athafnalífi og mannlífi eins og það gerðist á þeim tíma.
Árið 1926 kemur hann fyrst á vertíð hingað til Eyja, er þá ráðinn á Gídeon hjá Gísla frá Arnarhóli. 1927 sest hann á skólabekk og tekur skipsstjórnarpróf og á vertíðinni 1928 hefst skipsstjórasagan, en þá er hann formaður á Svani, 10 tonna bát sem Ögmundur á Litlalandi og fleiri áttu. Hann er tvær vertíðar með þann bát og síðan eina með Hansínu, en 1931 kaupir hann, ásamt Ársæli bróður sínum og Sigurði tengdaföður sínum frá Skuld, 17 tonna bát sem skírður er Maggý í höfuðið á dóttur Ársæls og þar með hefst útgerðarsagan. Nokkru síðar eignast Guðni þennan bát einn og er með hann til 1952, en þá kaupir hann ásamt Sigurði syni sínum, sem þá hafði öðlast skip-stjómarréttindi, stærri bát frá Danmörku. Var sá 43 tonn og hélt hann Maggýjarnafninu. Þennan bát gera þeir út saman og stjórna til skiptis til ársins 1965, en þá var Maggý seld til Eyrarbakka og þar með lýkur útgerðarsögunni. 1938 fórst Svanurinn, báturinn sem Guðni hóf sinn formannsferil á, en þeir á Maggý, sem Guðni stýrði þá, voru svo lánsamir að bjarga skipshöfninni, fimm mönnum. Eftir það varð Ögmundur, sem átti Svaninn, vélstjóri hjá Guðna í 10 ár.
Skömmu eftir að Guðni kom hingað til Eyja kynntist hann ungri og glæsilegri konu, Lovísu Sigurðardóttir. frá hinu stóra og merka heimili Skuld. Þau felldu hugi saman og 3. desember 1927 stíga þau það gæfuspor að bindast í heilögu hjónabandi. Þau hetja búskap á Sunnuhvoli hér en kaupa síðan Helgafellsbraut 8 og búa þar fram að gosi. Þeim varð tveggja barna auðið, en þau eru Kristín Inga, en hún lést 30. desember 1967, og Sigurður, en hann býr að Herjólfsgötu 15 hér í bæ ásamt Lilju Ársælsdóttur eiginkonu sinni. Guðni og Lúlla urðu eins og aðrir Vestmanneyingar að yfirgefa Heimaey gosnóttina, en það var vel tekið á móti þeim á fastalandinu eins og raunar allflestum flóttamönnum frá Eyjum. Þau dvöldust fyrst hjá Stefaníu systur Lúllu og Árna Andréssyni eiginmanni hennar og þar fór vel um þau, en síðar leigðu þau íbúð að Kleppsvegi 32 í Reykjavík.
Árið 1975 flytjast þau aftur heim til Eyja, voru þau fyrst hjá Sigga og Lilju sem áttu nýtt hús að Herjólfsgötu 15. en fljótlega var hafist handa og farið að byggja og voru þau svo lánssöm að fá lóð á Herjólfsgötu 14, beint á móti syninum og fjölskyldu hans og þar var í snarheitum byggt einbýlishús af norskri gerð og fluttust þau fljótlega þangað. 18. júlí 1979 bregður skugga á líf Guðna, þau eru á sumarferðalagi í Borgarfirði er Lúlla verður bráðkvödd. Var nú stórt skarð fyrir skildi hjá Guðna, hann orðinn 75 ára gamall og skyndilega orðinn einn. Nú kom vel í Ijós hversu forsjál þau höfð verið að byggja á næstu lóð við son og tengdadóttur því að frá því svona var komið var hann í fullri umsjá Lilju og Sigga, því þó hann byggi áfram í sínu húsi varð það oft lítið meira en svefnstaður, en á síðasta vetri finnst Guðna að hann eigi orðið samleið með vistmönnum á Hraunbúðum, það er sótt um dvöl fyrir hann þar og 1. mars fluttist hann þangað. Ég heimsótti hann nýlega þangað og lét hann mjög vel af dvölinni og sagði að þó hann væri góðu vanur findist sér að hér væri einnig vel hugsað um fólk og hrósaði hann bæði herbergisfélaga sínum og starfsfólki Hraunbúða fyrir vináttu, ljúfmennsku og góða umönnun.
Kynni okkar Guðna voru bæði löng og ljúf. Síðustu tíu árin, sem hann var skipstjóri á Maggý, var ég við sömu iðju á öðrum báti en á sömu miðum, stundum þurfti því að ræða málin, einnig vorum við báðir virkir félagar bæði í S.S. Verðandi og Útvegsbændafélagi Vestmannaeyja og hittumst þar oft á fundum. Í ársbyrjun 1968 ræður Guðni sig sem netamann við útgerð okkar Theódórs Ólafssonar og starfar hjá okkur til ársins 1984 og er síðasti vinnudagur hans hjá okkur skráður 25. júlí 1984, svo ekki var nú snemma sest í helgan stein. Gosveturinn 1973, þegar við urðum að landa í Þorlákshöfn og selja fiskinn á Stokkseyri, var Guðni í Reykjavík en hann tók sig upp og kom sér fyrir á Stokkseyri til þess að geta hugsað um netin okkar.
Á þessum árum varð kunningsskapur okkar Guðna að mikilli vináttu sem hélst þó samstarfi lyki. Það er ekki hægt að hugsa sér vandaðri starfsmann, hann gekk um þessar eigur okkar sem væru þær hans, allt var þar í röð og reglu og hver hlutur átti sinn stað. Eg veit að þegar mest var um að vera á sjónum leið honum ekki alltaf of vel, þegar hann óttaðist að hann yrði ekki tilbúinn með þann netafjölda sem við vildum fá þegar að landi kæmi. Þá var dagurinn oft tekinn snemma og ekki hirt um hvað klukkan sló þegar vinnu lauk. Hann þurfti helst að fá yfirlit að kvöldi um það hvernig gengið hefði þann daginn og fagnaði ekki síður en við þegar vel gekk. 16 ára starf hans hjá okkur Theódór einkenndist af samviskusemi, trúmennsku og dugnaði og hafi hann mikla þökk fyrir.
Það er alveg óhætt að fullyrða að Guðni hafi verið hvers manns hugljúfi. Aldrei heyrði ég hann tala illa um aðra og það sem meira er, engan hitti ég á allri vegferðinni sem hallmælti Guðna Gríms, enda var hann alveg einstakt prúðmenni bæði til orðs og æðis. Ég votta öllum hans nánustu mína dýpstu samúð og kveð þig, kæri vinur, með miklu þakklæti fyrir sérstaka vináttu og tryggð.

Hilmar Rósmundsson


Gunnar Kristberg Sigurðsson
F. 9. ágúst 1914. - D. 7. maí 1996
Faðir minn var fæddur á Seyðisfirði. Foreldrar hans voru hjónin Guðbjörg Ingveldur Eyjólfsdóttir og Sigurður Gunnarsson. Systkinin voru tíu, það yngsta nýfætt er faðir þeirra fórst í sjó. Systkinunum var komið í fóstur, öllum nema yngsta barninu sem varð eftir hjá móðurinni.
Pabbi var á þriðja ári þegar hann var fluttur hingað til Eyja til ömmu sinnar, Sigríðar Sigurðardóttur og fóstra síns, Guðlaugs Bjarnasonar, sem þá bjuggu í Hruna. Sigríður Iést 29. maí 1918. Eftir lát ömmu sinnar var hann einn með fóstra sínum. Guðlaugur byggði þeim hús við Hvítingaveg 12. Þá var pabbi á 13. ári. Vann pabbi með fóstra sínum að byggingunni og nefndu þeir húsið Happastaði. Þeir fluttu inn 1926 og átti pabbi heima þar upp frá því.
Ungur gerðist hann sjómaður, tekur vélstjórnarpróf hið minna í Reykjavík (mótoristapróf) 1936 og yfirvélstjórapróf fékk hann 1948. Var hann um árabil vélstjóri á bátum hér. Ég man eftir honum á Gottu með Bjarna Jónssyni, Vini með Áma Finnbogasyni og síðast með Sigurjóni á Erninum svo að einhverjir séu nefndir.
Þann 19. apríl 1943 giftist hann móður minni Sigurbjörgu Sóleyju Böðvarsdóttur frá Bólstað í Mýrdal. Hafði hún áður eignast soninn Kjartan Hrein Pálsson. Við systkinin vorum aðeins tvö.
Um fertugt hættir pabbi til sjós og hefur störf við húsamálun, fyrst hjá Ragnari Guðmundssyni frá Lyngbergi, seinna hjá Gísla og Ragnari Engilbertssonum þar sem hann fór á samning. Að loknum tilskildum prófum varð hann sveinn í iðn sinni 1964 og loks meistari 1972. Við húsamálun starfaði hann sjálfstætt meðan heilsan leyfði.
Tómstundargaman hans var myndlistin en hann hafði farið í Myndlistaskólann hér heima. Á efri hæðinni á Happó hafði pabbi komið sér upp innrömmunarverkstæði en innrömmun var aukabúgrein hans til margra ára. Þar áttu barnabörnin margar góðar stundir með afa sínum. Þar kenndi hann þeim að teikna og fara með liti og voru „listaverkin" þeirra innrömmuð og hengd þar upp á vegg.
Sumarið 1993 fékk pabbi heilablóðfall og lamaðist vinstra megin, náði hann sér þó furðulega og gat með dyggri aðstoð mömmu verið heima á Happó allt fram í byrjun árs 1994 að hann varð að leggjast inn á Sjúkrahúsið hér og þaðan átti hann ekki afturkvæmt.
Nú er eitt ár liðið síðan pabbi dó. Við fjölskyldan söknum hans sárt, en eigum margar góðar og fallegar minningar um hann til að ylja okkur við.

Guðlaug Sigr. Gunnarsdóttir


Þórður Matthías Jóhannesson
F. 10. febr. 1907 - D. 13. okt. 1994
Mig langar með fáum orðum að minnast vinar míns, Þórðar M. Jóhannessonar frá Neðri-Lág í Eyrarsveit. Við sjómenn þekktum hann sem trúboða sem setti á hverju ári blaðið „Vinur sjómannsins" og önnur kristileg rit um borð í skipin okkar. Einnig gaf hann og dreifði biblíum í skip.
Ég kynntist Þórði þegar ég var stýrimaður á Herjólfi, en hann ferðaðist með skipinu þegar hann kom í trúboðsferðir sínar til Vestmannaeyja. Hann skildi þá eftir kristileg rit til aflestrar fyrir áhöfn og farþega. Einnig heimsótti hann mig nokkrum sinnum á heimili mitt og voru það skemmtilegar samverustundir þar sem við ræddum ýmis mál, ekki hvað síst áhugamál hans sem voru trúmál og líknarmál. Hann vann mikið að líknarmálum, ekki einungis hér á landi heldur styrkti hann einnig börn og fjölskyldur á Indlandi.
Ég heimsótti Þórð nokkrum sinnum á Fálkagötu 10 í Reykjavík þar sem Kristilegt sjómannastarf er til húsa. Þá færði ég honum frá sjómannadagsráði Sjómannadagsblað Vestmannaeyja sem hann og fleiri menn sem þarna komu höfðu gaman af að lesa.
Síðast hitti ég hann fyrir framan hús Slippfélagsins í Reykjavík í júní 1994. Hann var þá á leið niður á bryggju, leiddi hjólið sitt og hafði gömlu snjáðu handtöskuna sína, fulla af kristilegu efni, á stýrinu. Hann sagði um leið og við heilsuðumst að nú hefði Guð leitt okkur saman. Og kannski var það rétt því þetta var í síðasta skipti sem ég sá þennan heiðursmann. Hann andaðist á Landspítalanum 13. október 1994.
Blessuð sé minning þessa góða manns sem helgaði líf sitt kristilegu sjómannatrúboði og þjónustu við þá sem minna mega sín.

Sigmar Þór Sveinbjörnsson.


Þórarinn Torfason
F. 30. sept. 1926 - D. 10 okt. 1996
Þórarinn Torfason stýrimaður var fæddur í Áshól í Vestmannaeyjum 30. sept. 1926 og hann lést 10. okt. 1996.
Foreldrar hans voru Torfi Einarsson skipstjóri og útgerðarmaður í Áshól, hann var frá Varmahlíð undir Eyjafjöllum, og Katrín Ólafsdóttir frá Lækjarbrekku í Mýrdal. Systkini Þórarins eru Ása, Einar og Björgvin sem látinn er fyrir nokkrum árum.
Eiginkona Þórarins varð Sigurlaug Ólafsdóttir frá Miðgarði í Vestmannaeyjum. Þau byggðu sér myndarlegt einbýlishús að Illugagötu 29 og eru böm þeirra: Unnur Katrín, húsmóðir og starfar í Sparisjóði Vestmannaeyja. Ólafur, íþróttakennari í Hafnarfirði, og Torfhildur, sjúkraþjálfari á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja.

Ungur að árum, í upphafi árs 1942, hóf Þórarinn sjómennsku á Gulltoppi VE og varð sjómennskan að mestu ævistarf hans. Hinu meira fiskimannaprófi lauk hann frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1953. Hann var hér á nýsköpunartogurunum, háseti á Elliðaey og stýrimaður hjá Einari bróður sínum, skipstjóra á Bjarnarey. Áður hafði hann verið á togurum frá Hafnarfirði. Síðan lá leiðin á ýmsa báta, en þó var hann lengst stýrimaður á tveimur skipum Rafns Kristjánssonar skipstjóra og félaga hans sem báru nafnið Gjafar. Eftir það stýrimaður hjá undirrituðum í sex ár á Sindra og Mars. Síðan var hann stýrimaður hjá Hannesi Haraldssyni á Baldri til síðla árs 1981. Þar lauk hann sjómennskustörfum sínum eftir 40 ár. Það leika það ekki allir eftir að vinna á dekki eins og Þórarinn allan þennan tíma, alltaf á óyfirbyggðum skipum og við miklu erfiðari og meiri vinnu en nú þekkist. Hann hélt því vel út, sterkur og heilsuhraustur lengst af. Hann var hörkuduglegur, góður netamaður og allt var í góðri röð og reglu hjá honum. Þegar hann kom í land starfaði hann hjá Skipaviðgerðum hér í Vestmannaeyjum við ýmis störf. Árið 1989 fluttist hann til Reykjavíkur og fór að vinna á netaverkstæði Kristjáns Skagfjörðs. Það varð síðasti vinnustaður hans.
Fyrir þremur árum veiktist Þórarinn og bjó eftir það á Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund, en áður hafði hann verið í eigin íbúð. Hann átti eftir það góða daga í faðmi bama sinna og fjölskyldna þeirra. Skömmu eftir að hafa haldið upp á sjötugsafmælið sitt fékk Þórarinn heilablóðfall sem dró hann til dauða fáum dögum síðar.
Með þessari minningargrein vil ég heiðra minningu Þórarins Torfasonar og senda aðstendum öllum dýpstu samúðarkveðjur.

Friðrik Ásmundsson


Kristján Rafnsson
F. 9. júlí 1948 - D. 3. sept. 1996
Kristján Sigurður Rafnsson fæddist að Faxastíg 5 í Vestmannaeyjum 9. júlí 1948. Foreldrar hans voru hjónin Pálína Sigurðardóttir frá Hruna í Vestmannaeyjum og Rafn Kristjánsson frá Flatey á Skjálfanda. Rafn var á sinni tíð í röð aflasælustu skipstjóra í Vestmannaeyjum, en hann gerði út í félagi við aðra þrjá báta er allir báru nafnið Gjafar VE 300.
Kristján (Kiddi) var elstur í hópi sex systkina, en yngri voru Hugrún, Vigdís, Rafn, Páll og Sigmar. Kristján ólst upp í Eyjum og lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja og síðar atvinnuflugmannsprófi frá Flugskóla Helga Jónssonar árið 1968.
Kiddi hóf sjómennsku með föður sínum 14 ára gamall og fór í byrjun til síldveiða fyrir Norður- og Austurlandi. Á námsárum sínum stundaði hann ávallt sjóinn á Gjafari og einnig að loknu flugnámi í nokkurn tíma á milli þess sem hann vann við flugkennslu.
Kiddi var góður félagi og það var gott að vera í návist hans. Hann var hreinlyndur og kom ávallt til dyranna eins og hann var klæddur. Hann var hraustur sem unglingur og snjall í íþróttum og hljóp hraðar en flestir okkar. Margar fjallgöngurnar áttum við saman félagarnir upp á Heimaklett, Klif eða Dalfjall. Undantekningarlaust var Kiddi fyrstur á toppinn og hann var tvímælalaust einn af öflugustu piltunum í sínum aldursflokki.
Kiddi hafði yndi af músik og hafði góða söngrödd. Því var oft tekið lagið í góðra vina hópi. Hann var einnig góður dansari og sýndi meiri hæfileika í þeim efnum en flestir jafnaldrar hans.
Hann hafði mikinn áhuga á útgerð föður síns og á unglingsárunum var oft farið niður á bryggju til að taka á móti Gjafari VE 300 og glaðst yfir góðum afla.
Kiddi kvæntist 6. janúar 1969 eftirlifandi eiginkonu sinni Árnýju Árnadóttur frá Þórshöfn. Árný og Kiddi voru jafnaldrar og skólasystkin, en Árný var að miklu leyti alin upp í Eyjum. Þau bjuggu fyrst í Eyjum en fluttust til Reykjavíkur árið 1966. Þau voru samt af og til í Eyjum meðan Kristján stundaði sjóinn með föður sínum.
Þau eignuðust þrjá syni: Rafn, kona hans er Jóhanna Birgisdóttir og börn þeirra Margrét Rut og Jóhann Rafn, Árni, kona hans er Áslaug Líf Stanleysdóttir og dóttir Árna frá fyrri sambúð er Árný Björg; Guðmar, kona hans er Guðrún I. Blandon.
Árin 1972 til 1983 vann Kiddi við leirkerasmíði hjá Glit hf. og sinnti jafnframt sölu- og verslunarstörfum fyrir O.M. Ásgeirsson og Sund hf. Með þessum störfum gerði hann út sendibíl frá Nýju-sendibflastöðinni í Reykjavík.
Árið 1983 hóf Kiddi rekstur heildverslunarinnar Gjafar sem hann rak i nokkur ár þar til veikindi hans ágerðust og aðstæður breyttust.
Kristján veiktist af liðagigt á meðan þau bjuggu í Garðabæ, en þar höfðu hjónin byggt sér raðhús. Þrátt fyrir að hann bæri sig ávallt vel fór heilsu hans hrakandi með hverju árinu. Þau fluttust aftur til Reykjavíkur árið 1987 og eftir það gat Kiddi lítið sem ekkert unnið. Hann stundaði ýmiss konar söfnun sér til hugarhægðar í veikindum sínum og vann m.a. á eigin vegum að útgáfu upplýsinga- og heimildarits um menningu og félagsstarfsemi í Vestmannaeyjabæ fyrr og nú.
Kiddi var alla tíð mjög greiðvikinn og vildi allra vanda leysa og er mér kunnugt um það að þrátt fyrir fötlun sína síðustu árin reyndi hann að aðstoða frændfólk og vini af sama krafti og áhuga sem fyrr.
Kristján andaðist á Landspítalanum 3. september 1996. Útför hans var gerð frá Háteigskirkju 11. september að viðstöddu fjölmenni. Hann var lagður til hinstu hvílu í kirkjugarðinum í Hafnarfirði.
Ég kveð góðan vin með söknuði og þakklátum huga fyrir órofa vináttu. Blessuð sé minning hans.

Gísli Jónatansson


Logi Snædal Jónsson
F. 21. júlí 1948. D. 15. okt. 1996.
Hann Logi var barn síns tíma, fæddur 21. júlí 1948 og ólst upp í braggahverfi í Kleppsholtinu. Hann fór nokkur sumur í sveit vestur í Dali á aldrinum sex til tíu ára. Þar sem barnahópurinn var stór og hermannabraggar voru ekki nein öndvegishíbýli má búast við því að Logi hafi alist upp við þröngan kost.
Foreldrar Loga voru Helga Steinunn Hansen Guðmundsdóttir og Jón Evert Sigurvinsson.
Systkin Loga eru: Ruth, Hlynberg, Ægir og Guðmundur, en sammæðra háfsystkin eru: Gunnar Marinó, látinn 13. júní 1993, Hrafn, látinn 16. mars 1972 og Guðrún Alísa. Samfeðra hálfsyskin Loga eru Stefán Gunnar, Katrín Elsa, Kristján Eðvarð, og Sigurbjörg Salla.
Logi gekk í Langholtsskólann, en lauk skyldunámi frá Laugarnesskólanum 1963. Ekki var verið að drolla við hlutina því daginn sem prófum lauk var haldið á Grænlandsmið á togarnum Þormóði goða á salt. Logi var sjóveikur í einn sólarhring og þar með var það búið. Það var harður skóli fyrir 14 ára strák að fara í slíka veiðiferð, en það var nóg að borða, enda tók Logi vel við sér. Hann var næst minnstur þegar hann mætti til skips, en þriðji stæstur þegar túrnum lauk þremur mánuðum síðar. Næstu árin var Logi á ýmsum Reykjavíkurtogurnum.
Vorið 1965 fór Logi til Vestmannaeyja, en þar átti hann góðan vin, Kristján Kristjánsson, sem hann hafði kynnst í Kleppsholtinu. Logi fór að vinna í saltfiski hjá Ársæli Sveinssyni. Oft hittust þeir vinirnir Kiddi og Logi í kjallaranum á Fögrubrekku og nú hafði Arnar Einarsson bæst í hópinn. Þar var setið og spjallað yfir kaffibolla, spilaðar plötur og skipulagðir balltúrar þegar dýrin gengu enn laus.
Brátt kom að því að Logi fór að vera á Sælabátunum og þeir félagar, sem fyrr eru nefndir, voru saman á Ísleifi 111 um tíma. Síðar var Logi í tvö ár á Suðurey VE 20 með Adda á Gjábakka.
Logi var öllum kostum búinn til geta unnið stórvirki þar sem hann beitti sér. Það hlaut því að fara svo að Logi Ieitaði sér menntunar, en Addi hafði hvatt hann til að fara í stýrimannaskóla.
Það var samstilltur hópur átta manna sem settist í Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum haustið 1967. Fimm voru fæddir 1948 en tveir 1949. Á fimm ára fresti hafa þessir menn hist þegar aðstæður hafa leyft, en nú er Loga sárt saknað, þó sérstaklega af sessunaut hans, Sigurði Helga Sigurðssyni.
Logi útskrifaðist 1969 og gerðist stýrimaður á Hellisey. Síðan var hann á nokkrum bátum, með ýmsum framsæknum skipstjórum, eins og á Gullbergi með Guðjóni Pálssyni, á Eyjaver og á Viðey með Erlingi Péturssyni.
Árið 1972 byrjaði Logi á Surtsey þegar hún kom ný, ýmist sem stýrimaður eða skipstjóri, en skipsstjóri eingöngu eftir 1975. Eftir að Surtsey var seld héðan til Stokkseyrar fékk hún nafnið Stokksey og var Logi með bátinn í einhver ár eftir það. Árið 1983 kemur Smáey VE 144 til sögunnar og eftir það var Logi þátttakandi í útgerðinni og skipstjóri til dauðadags.
Öllum má ljóst vera að Logi átti glæsilegan feril sem farsæll stjórandi, stundað sjóinn fast og færði mikla björg í bú þessa byggðarlags.
Jórunn konan mín og Halla Jónína Gunnarsdóttir, kona Loga, eru bræðradætur og uppeldissystur og hafa haldið góðu sambandi alla tíð. Því hlaut að koma að því að við Logi kynntumst. Það var í afmælum, útskriftarveislum og jólaboðum sem mannskapurinn hittist og var þá skrafað og skeggrætt um allt milli himins og jarðar. Það fylgdi Loga glaðværð og hann var yfirleitt hrókur alls fagnaðar, en það er ekki þar með sagt að hann hafi ekki verið alvarlega hugsandi og ábyrgur maður. Hann var reyndar áhyggjufullur um hvert stefndi í málefnum fiskvinnslu og útgerðar í landinu og bar þá hag landsbyggðarinnar fyrir brjósti. Hann var t.d. lítt hrifinn af því hve fiskveiðiheimildirnar voru að færast á fáar hendur og sér ekki fyrir endann á þeirri óheillaþróun.
Hann var heldur ekki sáttur við hve sjaldan hann hafði hitt sum systkini sín og ættmenni, „Ætli það verði fyrren við næstu jarðarför" sagði Logi við mig eitt sinn. Hvort hann var að huga um sína eigin jarðarför, þegar þessi orð féllu, skal ósagt látið.
Ekki kom á óvart að fundum þeirra Höllu og Loga bar saman á Þjóðhátíð 1965. Hún var alin upp við það að taka þátt í því sem upp á er boðið og að vera ekki neinn félagsskítur, enda er faðir hennar, Gunnar, landsþekktur fjörkálfur og húmoristi. Þá hefur móðir Höllu, Sigrún, aldrei látið sitt eftir ligga þegar eitthvað stóð til. Logi hefur séð sér leik á borði til að sletta ærlega úr klaufunum á nefndri Þjóðhátíð vænti ég.
Þau Halla og Logi gengu í hjónband á annan í jólum 1970. Börn þeirra eru Jón Snædal, fæddur 1971, og er hann í sambúð með Berglindi Kristjánsdóttur. Þau eiga dótturina Höllu Björk sem er fædd 1993. Sigrún Snædal er fædd 1973 og er í sambúð með Þorsteini Waagfjörð. Yngst er Sæbjörg Snædal, fædd 1977.
Þó að Logi væri mjög bundinn við sitt starf sem skipstjóri og útgerðarmaður gaf hann sér samt tíma til að taka þátt í veiðimennsku í Elliðaey. Logi var í Hrekkjalómafélaginu og setti jafnan svip á þeirra stórbrotna skemmtanahald.
Logi átti það til að renna austur í Öræfi til að taka þátt í búskapnum eða til að dytta að gamla bænum á Litla-Hofi og njóta sveitarómantíkurinnar í faðmi fjölskyldunnar.
Hann var um tíma í stjórn skipstjóra- og stýrimannafélagsins Verðandi.
Logi Snædal Jónsson varð bráðkvaddur um boð í bát sínum 15. október s.l., en útför hans fór fram frá Landakirkju 25. október.
Það segir kannski meira en margir dálksentimetrar í minningargreinum og verður ekki með orðum lýst að vera viðstaddur þegar ástsæl og vinmörg manneskja, sem hrifin hefur verið brott í einu vetvangi, er kvödd hinstu kveðju. Útför Loga var magnþrungin athöfna og ef hægt er að tala um hugarorku þá hlýtur hún að vera til staðar þegar hundruð manna sameinast í sorg og söknuði. Aldrei hef ég séð slíkan fjölda syrgjenda saman kominn í Landakirkjugarði og þegar Logi var borinn til grafar.
Ég vil af veikum mætti votta Höllu, börnum Loga og öðrum aðstandendum samúð.

Bjarni Jónasson


Sveinbjörn Snæbjörnsson
F. 25. ágúst 1920. D. 18. des. 1996.
Sveinbjörn Snæbjörnsson var fæddur 25. ágúst 1920 í Tannanesi við Tálknafjörð. Foreldrar hans voru Snæbjörn Gíslason frá Barðaströnd og Margrét Jóna Guðbjartsdóttir frá Ísafirði. Í hópi systkina sinna var Sveinbjörn yngstur. Látin eru Lilja. Guðbjartur. Kristín, Guðrún, Magnús og Gísli, auk tveggja barna sem dóu í frumbernsku. Tvö systkini eru á lífi, Bergsteinn, sem búsettur er á Patreksfirði, og Sólveig sem býr í Hafnarfirði.
Margrét og Snæbjörn bjuggu á Lambeyri í Höfðadal við Tálknafjörð. Þau fluttust síðar til Patreksfjarðar þegar Sveinbjörn var 12 ára gamall. Hann fékk ekki mikla skólagöngu á sínum æskuárum frekar en mörg önnur börn sem voru að alast upp á þessum tíma. Hann var 14 ára þegar hann byrjaði sjómennsku á fimm tonna trillu frá Patreksfirði. Að hans sögn gekk þetta þannig fyrir sig í þá daga að eftir að búið var að veiða fiskinn var gert að honum, hann flattur og saltaður og síðan seinna sólþurrkaður. Sveinbjörn var á Patreksfirði hjá foreldrum sínum til 15 ára aldurs. Þá fluttist hann til Bíldudals til að vinna, stundaði hann þar m.a. sjómennsku. Hann fór einnig suður til Grindavíkur og var þar tvær vertíðir á sjó.
Sveinbjörn fluttist til Vestmannaeyja 1940 og bjó í Vestmannaeyjum eftir það, fyrst i húsinu Hvíld við Faxastíg og síðan hjá þeim Þorsteini Sigurðssyni á Blátindi og Önnu konu hans. Hann átti góðar minningar frá veru sinni þar.
Á fyrstu árum sínum í Vestmannaeyjum var Sveinbjörn, eða Bjössi Snæ eins og hann var oftast kallaður hér í Eyjum, m.a. til sjós með Angantý Elíassyni skipstjóra. Tókst með þeim og konu Angantýs, Sigríði Björnsdóttur, traust vinátta. Mat Sveinbjörn þau hjón mikið og hélst vinátta þeirra alla tíð, en Angantýr lést fyrir nokkrum árum.
Eftir að Sveinbjöm kom til Vestmannaeyja stundaði hann sjómennsku lengst af og var það hans aðalstarf, en hann var einnig laginn smiður þó hann lærði ekki þá iðn. Vann hann oft á sumrin og haustin við smíðar. Þó að Bjössi væri ekki hár í loftinu var hann duglegur til vinnu, harður og seigur starfskraftur og sérlega samviskusamur. Hann var því ávallt í góðum skipsrúmum. Lengst var Sveinbjörn með Óskari Matthíassyni skipstjóra og útgerðarmanni á bátunum Nönnu, Leó og á Þórunni Sveinsdóttur VE 401. Var hann hjá þessari útgerð að segja má mest allan sinn starfsaldur. Hann byrjaði með Óskari árið 1946 og var með honum meira og minna til ársins 1957 en á þessum árum vann hann stundum í landi hluta úr ári við smíðar eins og áður sagði. Árin 1958 til 1964 var hann m.a. á Gullborgu með Benóný Friðrikssyni og nokkur ár með mágum sínum, Ingólfi og Sveini Matthíassonum, á Haferni. Hann byrjaði aftur hjá Óskari 1965 og var á Leó VE 400 og Þórunni Sveinsdóttur VE 401 til ársins 1972 en þá hætti hann til sjós og fór að vinna í landi. Seinustu árin vann hann mest við veiðarfæri og fleira sem til féll við útgerð Óskars Matthíassonar og Sigurjóns Óskarssonar og fjölskyldna þeirra.
Sveinbjörn hafði mjög gaman af hestum og kindum og reyndar öllum dýrum. Eftir að hann kom í land gafst honum tækifæri til að láta þann draum sinn rætast að kaupa sér hesta og kindur. Hann kom sér upp góðri aðstöðu í Norðurgarði þar sem fór vel um dýrin. Með hjálp góðra manna gekk þetta upp og þetta gaf honum mikla ánægju og lífsfyllingu að umgangast þessar skepnur.
Árið 1945 kynntist hann Matthildi Þ. Matthíasdóttur frá Byggðarenda við Brekastíg 15. Þau byrjuðu sinn búskap á efri hæð í Eyvindarholti, Brekastíg 7b, í húsi sem mágur hans, Óskar Matthíasson, og Þóra voru nýbúin að kaupa. Þar bjuggu þau í þrjú ár. Síðan keyptu þau 1948 sitt eigið hús, Reynivelli, sem er við Kirkjuveg 66, og bjuggu þar æ síðan, og Bjössi til dauðadags.
Sveinbjörn og Matthildur áttu fimm börn. Elstur er Sigmar Þór sem vegna berklaveiki Matthildar var í barnæsku alinn upp hjá ömmu sinni, Þórunni Sveinsdóttur frá Byggðarenda og síðar frá 14 ára aldri hjá Gísla Sigmarsyni og Sjöfn Benónýsdóttur; hann er giftur Kolbrúnu Ósk Óskarsdóttur. Næstur er Grétar Snæbjörn sem býr í Noregi, giftur Lilleba Sveinbjörnsson; þá Guðbjartur Bjarki sem einnig býr í Noregi, giftur Hjördísi Sveinbjörnsson. Fjórða er Hafdís Sólveig sem býr í Vestmannaeyjum, gift Guðna Hjartarsyni, og yngst er Þórunni Sveins Sveinsdóttir sem var ættleidd og ólst upp hjá Maríu Pétursdóttur og Sveini Matthíassyni, bróður Matthildar. Hún býr nú í Danmörku. Matthildur andaðist í nóvember 1986.

S.Þ.S.

Bergsteinn Jónasson
F. 17. des. 1912. - D. 2. júlí 1996
Bergsteinn Jónasson frá Múla lést á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja 2. júlí s.l. Hann var fæddur að Múla 17. des 1912, sonur hjónanna Kristínar Jónsson húsmóður og Jónasar Jónssonar útgerðarmanns. Hann var tvíburi en bróðir hans, Kjartan, lést úr spönsku veikinni 1918. Hann átti þrjá hálfbræður samferða. Jón. Kristján og Karl.
Bergsteinn kvæntist Sveu Maríu Norman árið 1938. Þau eignuðust fjögur börn, Kjartan Þór, f. 1938, Margréti Höllu. f. 1941, Jónas Kristinn, f. 1948 og Vilborgu Bettý, f. 1950. Einnig ólu þau upp sonardótturina Kristínu Kjartansdóttur.
Steini var einn af máttarstólpum þessa bæjar um árabil. Hann var verkstjóri og hafnarvörður í 37 ár, á árunum 1938 - 1975. Undir hans handleiðslu voru bæði Nausthamarsbryggja og Friðarhöfn þiljaðar. Mikil umsvif voru í höfninni á þessum árum, yfir hundrað bátar sem koma þurfti fyrir við bryggurnar. Það þurfti mikla útsjórnarsemi og stjórnunarhæfileika til að púsla bátunum við bryggjurnar. Oft lágu bátarnir við keðjur hver utan á öðrum og reyndi á hæfileika hans að raða þeim öllum niður. Sér til aðstoðar hafði hann aðeins einn eða tvo menn. Þá var kannski vakað allan sólarhringinn þegar hæst lét á vertíð. Steini var stjórnsamur, þótti hann hafa einstakt lag á að fá menn til að vinna með sér.
Steini var mikill baráttumaður. Hann gekk ungur að árum í íþróttafélagið Þór. Hann var sterkur bakvörður og voru löngu spörkin hans landsfræg. Hann var í tugi ára í forystusveit Þórs og heiðursfélagi þess. Dugnaður hans og forystuhæfileikar voru annálaðir. T.d. var í minnum haft er hann tók við gjaldkerastarfi félagsins nánast févana, en skilaði af sér 5000 kr. þegar hann hætti. Það voru geysimiklir peningar í þá daga. Hann var og drifkraftur Þjóðhátíðar til fjölda ára.
Steini var Akógesi bestu ár ævi sinnar eða þar til hann fluttist héðan nauðugur í gosinu.
Í forystusveit Sjálfstæðisflokksins var hann til fjölda ára, þegar vegur flokksins stóð í blóma með Guðlaugi í Geysi, Jóni lóðs, Malla í Höfn. Gísla Gísla, Bjössa á Barnum og Páli Scheving, svo að einhverjir séu nefndir, en flokkurinn stjórnaði bænum í blóma samfellt í 12 ár.
Hann var stofnandi Starfsmannafélags Vestmannaeyja og var heiðursfélagi þess. Hann var og heiðursfélagi Björgunarfélags Vestmannaeyja. Einnig var hann í slökkviliðinu árum saman.
Að Múla var gott að koma þar sem bæjar- og heimsmálin voru kryfjuð til mergjar. Þar sem Steini var bæði vinmargur, ljúfur, greiðvikinn og gestrisinn var ótrúlega gestkvæmt hjá þeim hjónum. Pönnukökur og alls konar bakkelsi á boðstólum. Hann skaffaði vel eins og þá var sagt. Vildi hafa góðan og kjarnmikinn mat, ekkert gras eins og hann sagði.
Þetta voru erfið en ánægjuleg ár. Börnin, Kjartan, Halla, Jónas, Vilborg og sonardóttirin Kristín uxu úr grasi, öll mannvænleg, fóru að búa eins og gengur nema Vilborg sem bjó með þeim alla tíð.
Hinn 23. jan. 1973 fór að gjósa í Vestmannaeyjum og allir flúðu til lands. Steini og Svea komu sér vel fyrir að Reynigrund í Kópavogi ásamt Vilborgu dóttur sinni. Hann vann þó í gosinu við sitt starf og alveg til ársins 1975, en þannig æxlaðist þó að þau fluttust ekki aftur heim. Fjöldi fólks, 50 ára og eldri, treysti sér ekki til að flytjast aftur til Eyja. Það hafði komið sér fyrir uppi á landi, hafði ekki kjark til að endurreisa húsin sem annaðhvort voru horfin eða full af vikri. Lái þeim hver sem vill, en þeirra var sárt saknað. Bærinn varð ekki samur aftur. Þar vantaði alltof mikið af máttarstólpum bæjarins. Um langan tíma vantaði heila kynslóð í bæjarlíf Vestmannaeyja.
Í Kópavogi undu þau sér vel. Steini vann hjá Skeljungi sem lagermaður í Skerjafirði til 1987. Vilborg var þeim stoð og stytta alla tíð. Á hún mikla þakkir skildar fyrir umhyggjuna. Þegar Svea var orðin mikið veik lagðist hún inn á Sjúkrahús Vestmannaeyja og andaðist þar í júní 1994. Þau voru gift í 56 ár.
Eftir dauða hennar hvarf öll lífslöngun Steina. Varð hann ekki samur eftir það. Sl. vetur veiktist hann og dró smá saman af honum uns hann lést 2. júlí, saddur lífdaga.
Blessuð sé minning hans.

Sigurbjörg Axelsdóttir


Kristmann Magnússon
F. 2. okt. 1899. - D. 29. des. 1996
Kristmann Magnússon var fæddur að Heydalsá, Kirkjubólshreppi í Strandasýslu. Foreldrar hans voru hjónin Bjarnína Guðrún Kristmannsdóttir frá Miðhúsum í Kollafirði og Magnús Jónsson frá Gestsstöðum, Tungusveit í Strandasýslu. Alls áttu þau hjón fimm börn og var Kristmann þeirra elstur.
Ævistarf Kristmanns var mest framan af við vinnumennsku á ýmsum bæjum í Strandasýslu og víðar. Einnig fékkst hann við sjómennsku og ýmsa vertíðarvinnu. Ungur að árum fór hann að Marðareyri í útróðra. Sagði hann okkur frá því þegar hann átti þess kost að komast með ms. Goðafossi heim, en það var mikill munur á að stíga um borð í annað eins glæsiskip eða svo þau för sem hann var vanur.
Árvisst upp úr þessu fór hann ýmist til róðra í Bolungarvík, að Marðareyri eða í Hnífsdal, en þar réri hann á Skektu frá Fæti með þeim Guðmundi Guðfinnssyni og Sigurgeir Sigurðssyni. Síðar lá leið hans á Siglufjörð og Grindavík til róðra.
Árið 1933 fer hann í sína fyrstu ferð af mörgum til Vestmannaeyja á vertíð. Þá var enga ferð að hafa með skipi að norðan svo að hann fór gangandi í Borgarnes og tók sú ferð fjóra daga, en þaðan fékk hann far með Suðurlandinu á áfangastað.
Haustið 1939 flyst hann búsferlum til Vestmannaeyja. Þegar þangað er komið vinnur Kristmann jöfnum höndum við sjómennsku, aðgerð og saltfiskvinnslu. Vorið 1942 hóf hann störf í Slippnum við smíðar og var þar í fimm ár. Árin 1947—53 er hann til sjós og í Vinnslustöðinni. Tvær vertíðir á Sjöfninni og eina á síld. Einnig var hann á Helga gamla, Þorgeiri Goða, Stóra-Helga og Baldri. Árið 1953 byrjaði hann aftur í Slippnum og vann þar þar til hann lét af störfum 1977, þá 77 ára gamall. Hann var laghentur smiður og stundaði þá iðju, bæði við húsbyggingar og þó aðallega við skipaviðgerðir.
Eftir að Kristmann lét af störfum gaf hann sig allan að áhugamáli sínu en það var að smíða og skera út ýmsa smáhluti, svo sem aska, prjónastokka, tígulstokka ásamt ótal fleiri handverksmunum og stundaði hann það allt fram á síðasta ár, en á Hraunbúðum hafði hann smáaðstöðu fyrir sig til þeirra verka.
Í Vestmannaeyjum kynntist hann konuefni sínu, heimasætunni á Skjaldbreið, Sigríði Rósu Sigurðardóttur, og varð þeim átta barna auðið: 1) Hólmfríður, bóndi á Vopnafirði; 2) Guðrún, í Vestmannaeyjum: 3) Kristmann, múrarameistari í Vestmannaeyjum; 4) Ómar, skipstjóri í Vestmannaeyjum; 5) Magnús, húsasmíðameistari í Reykjavík; 6) Ólafur, húsasmíðameistari í Reykjavík; 7) Birgir, málarameistari í Reykjavík; 8) Ásta, í Vestmannaeyjum.
Kristmann dvaldist á Hraunbúðum síðustu árin og lést þar 29. desember sl. Blessuð sé minning hans.

Ó.S.B.

Þórarinn Jónsson
F. 26. des. 1930. - D. 17. júní 1996
Þórarinn Jónsson var fæddur 26. des. 1930 á Siglufirði. Hann var sonur hjónanna Sigrúnar Ólafíu Markúsdóttur og Jóns Þórarinssonar. Þórarinn byrjaði ungur að stunda sjóinn, aðeins 14 ára gamall, og varð sjómennskan ævistarf hans.
Tuttugu og fimm ára gamall fluttist hann til Vestmannaeyja og bjó eftir það í Eyjum mestan hluta ævi sinnar.
Árið 1959 giftist Þórarinn Huldu Hallgrímsdóttur sem þá bjó í Bjarma og var kennd við það hús. Eignuðust þau þrjú börn en Þórarinn átti eina dóttur fyrir. Hulda var ekkja, hafði misst mann sinn í sjóslysi, og átti fjórar dætur af fyrra hjónabandi. Gekk Þórarinn þeim í föðurstað.
Ég kynntist Þórarni, eða Tóta í Bjarma eins og hann var alltaf kallaður, árið 1972 er ég kom sem stýrimaður á Álsey VE 502, en þar var Tóti kokkur. Við vorum saman á Álsey til áramóta, en þá tók ég við Heimaey VE 1. Leiðir okkar lágu aftur saman í apríl 1978, en þá kom Tóti til mín og var hann kokkur hjá mér í tíu ár, eða þangað til að Tóti hætti til sjós vegna heilsubrests, eftir nær 33 ára samfellda sjómennsku.
Ekki gat Tóti alveg slitið sig frá sjónum, þótt í land væri kominn. Hann lét nú gamlan draum rætast og fékk sér trillu til að stunda sjóróðra á í ellinni.
Hann missti Huldu, konu sína, 15. des. 1988. Fluttist hann upp úr því á ný til æskustöðvanna á Siglufirði. Árið 1991 giftist Þórarinn eftirlifandi eiginkonu sinni, Kristínu Jónsdóttur frá Siglufirði.
Þegar Tóti fluttist norður hafði hann trilluna sína með sér, en hann gat lítið stundað trilluna vegna veikinda. Hann seldi því trillluna og fluttist til Mosfellsbæjar þar sem hann bjó til dauðadags. Hann lést 17. júní 1996. Hann var jarðsettur frá Lágafellskirkju í Mosfellsbæ.
Þegar ég kveð nú gamlan vin og félaga er mér ofarlega í huga sú tryggð og það umburðarlyndi sem Tóti hafði til að bera. Hann kom um borð til mín sem gamalreyndur sjómaður en ég var að byrja minn skipstjóraferil, og eins og ungra manna er háttur eru hlutirnir oft gerðir meira af kappi en forsjá, sem reynslan síðar kennir manni. Það kom sér stundum vel fyrir ungan mann að vera með góðan vin sem kokk um borð. Eg er þakklátur Tóta kokk fyrir samstarfið og áralanga vináttu og tryggð.
Guð blessi minninguna um Þórarinn Jónsson.

Sveinn Rúnar Valgeirsson


Kristinn Kristinsson
F. 11. mars 1933 - D. 1 jan. 1997
Það var mjög sérstök tilfinning á nýársdagsmorgun, þegar hringt var heim til að óska sínum nánustu árs og friðar erlendis frá, að fá í sömu andrá þá fregn að Kristinn frændi minn í Brekkuhúsi væri allur. Ég vissi að Kiddi hafði um árabil átt við vanheilsu að stríða, en þetta grunaði mig ekki er við kvöddumst vikunni áður.
Kiddi var borinn og barnfæddur í Vestmannaeyjum. foreldrar hans voru Kristinn Ástgeirsson frá Litlabæ og Jensína María Matthíasdóttir frá Kvívík í Færeyjum. Þau eignuðust níu syni og var Kiddi þeirra yngstur. Hér í Eyjum kynntist Kiddi eftirlifandi konu sinni, Jóhönnu Kolbrúnu Jensdóttur, og eignuðust þau þrjú börn, Kristinn Jens, sem býr í Noregi. Báru og Sigríði sem búa hér í Eyjum.
Sjómennsku byrjaði Kiddi snemma, fór að fara í róðra með pabba sínum á trillunni Gæfu sem barn. 15 ára að aldri réðst hann á togarann Bjarnarey VE. Togarasjómennska átti ekki alls kostar við hann því stuttu seinna var Kiddi kominn norður á síld með Kristni á Berg VE. Þegar Guðjón bróðir hans byrjaði sinn skipstjórnarferil á Sæbjörginni (Haunkinni) réðst hann þar um borð og var með Gauja næstu 15 árin á ýmsum bátum, s.s. Kára, Metu og síðast Hrauney VE 80 að undanskildum tveim árum er hann, Tryggvi bróðir hans og Björn á Kirkjubæ keyptu og gerðu út bát sem Bára hét.
Kiddi fór í land 1968 og vann í hraðfrystistöðinni á vertíðum sem matsmaður ásamt ýmsu öðru. Var hann Iengi í beitningu á haustin og veiddi lunda á sumrin. En vinnan í landi átti ekki við hann því strax eftir gosið var hann mættur til sjós á ný, var meðal annars á Breka VE með Matta bróðursyni sínum, á Skuld VE með Begga í Hlíðardal, Hvítingi með Óla Tótu frænda sínum og síðustu tíu vertíðirnar sínar með undirrituðum á ýmsum bátum. Að síðustu sá hann um beitningu og ýmislegt annað tengt útgerðinni á Gæfu VE. Svo segja má að hann hafi endað þar sem hann byrjaði.
Kiddi átti mörg áhugamál, var mikill radíóamatör og var þekktur víða um veröld sem 1169 (númer hans hjá Fél. farstöðvareigenda). Var oft gaman að hlusta á hann tala út í heim á sinni kjarnyrtu hlaðbæjarensku. En veiðimennskan átti hug hans allan þá í hvaða mynd sem var. Gæsaveiðar voru í sérlegu uppáhaldi, silungsveiðar, bæði í net og á stöng. Veiðivötnin voru þar efst í huga. Eggjataka var stunduð þar til þrek brast, en lundaveiðin var sérstakur kapítuli. Í lunda fór hann á hverju sumri eins lengi og heilsan leyfði. Einnig sáu þau hjónin um að reyta allan fugl sem veiddist, og var oft ótrúlegt að sjá afköstin hjá þeim saman.
Matur var sérgrein Kidda enda listakokkur. Honum var sérlega sýnt um að tilreiða fisk og fugl í reykkofanum, kæsa og verka skötu, salta fisk og allt þess háttar, enda leið honum aldrei betur en þegar frystikistan var full. Minnisstætt er mér atvik sem skeði úti á sjó. Við ætluðum að skutla höfrung í soðið. Þar sem ég er að láta vaða kallar hann upp: „Taktu þennan þarna." Ég spyr afhverju þennan? Þá svaraði Kiddi. „Ég sé það strax, hann passar alveg í kistuna!"
Við leiðarlok er þakklæti efst í huga og ósk um farsæla ferð yfir móðuna miklu. Megi farsæld bíða hans þar.
Guð blessi miningu frænda míns.

Ólafur Guðjónsson

Páll Eydal Jónson
F. 8 des. 1919 - D. 27 okt. 1996
Páll Eydal fæddist að Garðstöðum í Vestmannaeyjum 8. des. 1919. Foreldrar hans voru Guðrún Eyjólfsdóttir og Jón Pálsson ísláttarmaður. Móður sína missti Páll þegar hann var fjögurra ára gamall. Seinni kona Jóns var Margrét Sigurþórsdóttir. Páll ólst upp í stórum barnahóp að Garðstöðum bæði við leik og störf, lífsbaráttan hófst snemma.
Páll fór ungur til sjós, bæði á vertíðir héðan frá Eyjum og einnig til síldarveiða fyrir Norðurlandi. Einnig var Páll góður beitningarmaður. Þegar hlé varð á sjósókn vann Páll ýmis störf í landi og var þá oft með föður sínum við ísláttarstörf í slippnum. Starf ísláttarmanna er vandasamt, þar verður vandvirkni og útsjónarsemi að ráða. Þessa hæfileika hafði Páll. Öll þau störf sem hann tók að sér einkenndust af ábyrgð og trúmennsku.
Þeim fer óðum fækkandi þeim mönnum sem til verka kunna við viðhald og viðgerðir tréskipa. En minningin um leikni Páls með ísláttarkjulluna og járnin er alveg einstök.
Árið 1957 hætti Páll sjómennsku og hóf störf hjá Skipasmíðastöð Vestmannaeyja sem ísláttarmaður og síðar meir sem slippstjóri. Frá árinu 1963 starfaði hann hjá Skipaviðgerðum hf. er það fyrirtæki fór að annast viðgerðir og nýsmíði tréskipa í slippnum. Árið 1993 hætti Páll störfum fyrir aldurssakir.
Páll kvæntist árið 1941 Ragnheiði Valdórsdóttur frá Reyðarfirði. Páll og Ragnheiður voru ákaflega samhent hjón og báru gagnkvæma virðingu hvort fyrir öðru. Þau byggðu glæsilegt íbúðarhús að Boðaslóð 14. Þar stóð heimili þeirra til ársins 1995 er þau fluttust að Áshamri 57. Börnin urðu þrjú: Borgþór Eydal, fæddur 1941, Guðrún fædd 1949 og Bjarney fædd 1961.
Páll var mikill fjölskyldumaður og var annt um velferð hennar. Þegar rætt var um börnin, að maður tali nú ekki um barnabörnin eða barnabarnabörnin, þá ljómaði Páll. Hann var einstakt snyrtimenni og var sérstaklega til þess tekið hve vel hann bjóst upp að loknum vinnudegi.
Íþróttaáhugi Páls var mikill. Hann gerðist ungur félagi í Iþróttafélaginu og stundaði þar íþróttir í fjölda ára undir merki Þórs. Einnig starfaði hann fyrir hönd félagsins að málefnum ÍBV. Árið 1988 var Páll gerður að heiðursfélaga Þórs.
Páll var léttur í lund og hafði gaman af að slá á létta strengi, hitta fólk og skiptast á skoðunum. Spjallið í kaffistofu slippsins verður sennilega aldrei skráð. Þar var oft mannmargt á árum áður og fá málefni sem menn höfðu ekki skoðanir á.
Í stuttu greinarkorni verður ævi Páls ekki rakin, en ég veit að gamlir starfsfélagar Páls minnast hans með söknuði og þökk.
Guð blessi minningu Páls Eydals. Ragnheiði og fjölskyldu votta ég mín dýpstu samúð.

Kristján G. Eggertsson


Fannberg Jóhannsson
F. 14. sept. 1915 - D. 23. okt. 1996
Fannberg Jóhannsson fæddist í Ólafsfirði 14. sept. 1915 að sögn móður hans, en í kirkjubókum stendur 30. sept. sama ár og við það situr. Hann var áttunda barn af þréttán barna hópi. Foreldrar hans voru Sigríður Guðmundsdóttir og Jóhann Kristinsson frá Sundakoti á Hofsósi. Fannberg ólst upp hjá foreldrum til 4 ára aldurs en var þá sendur í fóstur vegna veikinda móðurinnar, lengst af hjá „Jóa og Leifu" á Krossi og í Langhúsum við Hofsós.
Þegar Fannberg var 15 ára kom hann til Vestmannaeyja og til foreldra sinna og systkina í Vinaminni, en sum þeirra sáu hann þá í fyrsta skipti. Stundaði hann sjómennsku hér. 1933 fluttist hann síðan til Ólafsfjarðar ásamt foreldrum. Þar var sjómennskan hans aðalstarf. Fljótlega eftir komuna til Ólafsfjarðar kynnist hann Petreu Guðmundsdóttur, frænku sinni, og giftust þau 14. jan. 1937 og varð þeim 10 barna auðið.
Á stríðsárunum réri hann á Gróttu, Dagnýju og Tvæsystkin en þeir bátar sigldu á England. Það má nærri geta að eftir að bátarnir létu úr höfn í Vestmannaeyjum var sambandslaust við þá meðan á siglingunni stóð. Í tvígang var hann talinn af enda oft siglt á hættuslóð. Helst voru hætturnar tundurdufl og kafbátar en oft var hann var við slíkt. Eitt sinn er hann var að fara framhjá St. Kilda sá hann kafbát koma upp í kjalsogi bátsins og honum létti ósegjanlega þegar hann reyndist vera breskur.
Í myrkri og dimmviðri var hann við stjómvölinn á Tvæsystkin þegar skútan kom að Suðurströndinni úr einni Englandsferðinni. Ekki var auðvelt að vita um nákvæma staðsetningu skipsins þar til allt í einu að Fannberg tók eftir hvítri línu er myndaðist rétt framan við stefnið. Reyndist það vera hafrótið að brotna við fjörusandinn. Fannberg hafði rétt handtök og snarventi skipinu upp í vindinn. Hann sagðist aldrei hafa upplifað annað eins högg með braki og brestum þegar sló í bakseglin og siglingin stöðvaðist á punktinum enda vöknuðu allir um borð. Það var öruggt að þarna bjargaði árvekni hans skipi og áhöfn.
Hann var aflasæll og útsjónarsamur fiskimaður, bæði sem nótnabassi, en það þýddi að hann stjórnaði veiðunum, á Millí, Skipaskaga og fleiri bátum, og svo seinna sem útgerðarmaður á Ingólfi, Freydísi og Freymundi.
Hann fluttist aftur til Vestmannaeyja árið 1968 og keypti sér hús við Bakkastíginn og leigði seinna á Bröttugötu. Í gosinu 1973 þurfti hann að flytjast til Keflavíkur og þaðan til Ólafsfjarðar þangað til hann kom alkominn til Vestmannaeyja 1983. Þau keyptu sér hús við Sólhlíð 3 og bjuggu þar í 10 ár að þau fluttust á Hraunbúðir. Hann missti Petreu konu sína í okt. 1994 en hann lést þann 23. okt. 1996.
Eftirlifandi börn hans eru: Erna, f. 1938, Bragi, f. 1944, Jónína, f. 1945, Freydís, f. 1951, og Emelía, f. 1955. Öll búa þau í Vestmannaeyjum nema Freydís sem býr í Reykjavík.

Bragi Fannbergsson


Björn Kristjánsson
F. 4. des. 1911 - D. 21. júní 1996
Björn Kristjánsson fæddist að Núpi á Berufjarðarströnd, Suður-Múlasýslu, 4. des. 1911. Foreldrar hans voru Kristján Eiríksson frá Holti á Mýrum, A-Skaftafellsýslu, og Guðný Eyjólfsdóttir frá Volaseli í Lóni, A-Skaftafellsýslu. Þau bjuggu fyrst á Núpi en síðan í Norðurkoti á Vatnsleysuströnd.
Björn var næstyngstur í hópi sjö systkina. Hann lauk skyldunámi í Barnaskólanum á Berufjarðarströnd 1924. Snemma fékk hann áhuga fyrir ýmsum tækninýjungum og vélbúnaði sem leiddi til þess að hann ákvað að læra til vélstjóra og kom því til Eyja þar sem hann lauk vélstjórnarprófi 1938. Um þetta leyti kynntist hann ungri stúlku, Guðbjörgu Þorsteinu, dóttur Gunnlaugs Sigurðssonar skipstjóra frá Gjábakka og konu hans Elísabetar Arnoddsdótttur. Hann kvæntist síðan Guðbjörgu 1941 og eignuðust þau fjögur börn: Gunnlaug sem var kvæntur Árnýju Kristinsdóttur, tvíburana Guðnýju, gifta Þórarni Inga stýrimanni, og Kristjönu, gifta Matthíasi Sveinssyni vélstjóra, og Eygló, gifta Friðriki Jóhannssyni húsasmið.
Framan af starfsævinni starfaði Bjössi sem sjómaður og vélstjóri, var meðal annars á Geir goða, Skaftfellingi, Sídon og á sumarsíld fyrir norðan á Skógarfossi. Í byrjun stríðsins fór hann til Danmerkur að sækja Metuna og var á henni um tíma eftir það. Um 1945 varð hann að hætta sjómennsku vegna veikinda í baki og nýrum, og fór þá að vinna í Steinasmiðju við Urðaveginn um nokkurra ára skeið þar til hann gerðist vélstjóri í Þurkhúsinu austur á Urðum. Þar var hann til ársins 1965, en þá gerðist hann viktarviðgerðarmaður hjá frystihúsunum í Vestmannaeyjum og starfaði við það þar til hann lét af störfum vegna aldurs 1982.
Björn og Guðbjörg bjuggu m.a. í Litla-Reykholti, en síðar byggðu þau sér myndarlegt hús við Bakkastíg þar sem þau bjuggu fram að gosi, en þá urðu þau að flytjast brott eins og allir aðrir Eyjamenn. Húsið þeirra við Bakkastíg fór undir hraun.
Þau fluttust til Eyrarbakka og starfaði Björn þar í frystihúsinu og hjá „viktareftirlitinu" sem nú er Löggildingarstofa, þar til hann fluttist aftur til Eyja.
Bjössi var góður eiginmaður. faðir og afi, hann var glaðvær og viðræðugóður. Í góðra vina hópi var hann oftast hrókur alls fagnaðar, sló á létta strengi og gantaðist við náungann. Hann fylgdist vel með því sem var að gerast í kringum hann og hafði ákveðnar skoðanir á mönnum og málefnum. Oft tókum við létt spjall saman þegar hann bjó í kjallaranum á Strembugötunni hjá þeim systkinum, Sigga og Öllu frá Kirkjubæ.
Hann var einn af stofnendum Vélstjórafélags Vestmannaeyja, sat í stjórn þess um árabil og var formaður félagsins 1953-54.
Árið 1968 var þeim hjónum þungbært og fékk mjög á þau þegar þau misstu son sinn. Gunnlaug, sem drukknaði þegar Þráinn fórst með allri áhöfn austan við Eyjar. Einnig tók mjög á Björn þegar kona hans veiktist og lést síðan 1983.
Síðustu árin tók Björn virkan þátt í starfi eldriborgara hér í Eyjum. Þá eignaðist hann góða vinkonu, Snjólaugu Baldvinsdóttur frá Eyrarlandi í Eyjafirði, og var gaman að sjá hversu glöð og ánægð þau voru þegar þau voru að fara í bíltúr á Skodanum. Í göngutúr eða skemmtanir hjá eldriborgurum. Hún varð svo sambýliskona hans þegar þau ákváðu bæði að flytjast á Hraunbúðir.
Björn lést á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja sunnudaginn 21. júní 1996.
Vil ég að leiðarlokum þakka honum fyrir brautryðjendastarf í þágu Vélstjórafélagsins í Vestmannaeyjum. Mesi Guð geyma góðan dreng.

G.S.E.