Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1997/Lítil saga um kristilegan platta

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


LÍTIL SAGA UM KRISTILEGAN PLATTA


Þann 17. desember 1984 gerðist það óhapp að Sæbjörg VE 56 strandaði í Hornvík austan við Stokksnes eftir að skipið hafði orðið fyrir vélarbilun. Vel gekk að bjarga skipverjum í land, enda björgunarsveit vel búin tækjum og þrautþjálfuðum mönnum. Ekki tókst að ná skipinu af strandstað þar sem það var mjög laskað eftir að hafa velst lengi í fjörunni.
Þann 28. maí 1985 sendi Heimir Þór Gíslason fréttamaður Sjónvarpsins á Höfn í Hornafirði Theódór Ólafssyni vélstjóra og útgerðarmanni Sæbjargar eftirfarandi línur skrifaðar aftan á kristilegan platta sem var um borð í skipinu þegar það strandaði:
„Sunnudaginn 27. janúar 1985 var ég undirritaður fréttamaður Sjónvarps að sniglast um borð í Sæbjörgu VE þar sem hún var búin að veltast í briminu í Hornvík Í 41 dag. Allt var þar á tjá og tundri og flest brotið eða horfið út í buskann. En platti þessi var þó heill innan um drasl á brúargólfinu.
Einhver myndi halda að hér hefði guðleg forsjón haldið hlífiskildi yfir dauðum hlut"

Heimir Þór Gíslason,
sími 97-8426 Höfn

E.s. Finnst þér ekki einkennilegt að 50 árum áður fórst bátur hér á svipuðum slóðum sem hét Sæbjörg. og 20 árum þar áður fórst einnig bátur hér úti fyrir sem líka hét Sæbjörg.

Heimir