Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1997/Línuveiðar við Vestmannaeyjar fyrr og nú

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


STEFÁN BIRGISSON


LÍNUVEIÐAR VIÐ VESTMANNAEYJAR FYRR OG NÚ


Frá fyrstu tíð voru eingöngu stundaðar handfæraveiðar frá Vestmannaeyjum. Einu bátarnir sem róið var á voru árabátar og voru allt upp í 20 manns á bát. Það var ekki fyrr en á seinni hluta 19. aldar að lína, eða lóðin eins og hún var nefnd, kom til sem nokkuð afgerandi veiðarfæri.
Vestmanneyingar voru nokkuð seinir til í þessu sambandi, og var það ekki fyrr en á vetrarvertíðinni 1897 að þrír formenn gerðu tilraun með línu-veiðar. Voru það þeir Magnús Guðmundsson á Vesturhúsum, Gísli Lárusson í Stakkagerði og Hannes Jónsson á Miðhúsum. Það var tilviljun sem réð því að farið var út í línuveiðar á þessari vertíð. Árið 1896, í ágústmánuði, strandaði enskur línuveiðari, sem nýkominn var frá Englandi, á Urðunum norðan við Miðhúsaklett. Bjargaðist allt úr skipinu, bæði áhöfn og veiðarfæri, sem var lína og allt sem henni fylgdi. Keyptu þrír áðurgreindir formenn öll veiðarfæri skipsins á opinberu uppboði sem haldið var á öllu sem úr skipinu hafði bjargast.
Það var lítil þekking á línuveiðum í þá daga. Var talið að línan væri alltof kostnaðarsamt veiðarfæri miðað við handfærin. Aðeins einn þessara formanna, Magnús á Vesturhúsum, þekkti nokkuð til línuveiða en hann hafði tvö undanfarin sumur verið aflasæll formaður austur á Mjóafirði og fiskaði þar með línu. Hvorki Gísli né Hannes höfðu nokkurn tíma stundað línuveiðar. Það var farið að Ieita að hæfum mönnum sem stundað höfðu línuveiðar áður. Hannes réð háseta sem hét Þorsteinn og bjó hann í Laufási. Þorsteinn í Laufási var þá aðeins 16 ára gamall. Hann hafði stundað sjóróðra sumarið 1896 á Austfjörðum þar sem lína hafði verið notuð. Fól formaður honum að sjá um uppsetningu línunnar ásamt öðrum manni, Jóni Jónssyni frá Dölum, sem einnig hafði kynnst línuveiðum á Austfjörðum.
Það er talið að fyrsti línuróðurinn hafi verið farinn 10. apríl frá Eyjum á vetrarvertíðinni 1897. Daginn áður hafði verið ördeyða á handfærin, aðeins einn í hlut af þorski samkvæmt róðratali Magnúsar á Vesturhúsum, og var hann þó talinn með mestu aflamönnum a þeim árum. En svo snögglega skipti um að daginn sem hann dró línuna í fyrsta sinn varð aflahluturinn 21 af þorski og tveir af ýsu. Varð þetta til þess að línan varð nær allsráðandi veiðarfæri í Vestmannaeyjaflotanum.
Línuveiðar voru eingöngu stundaðar á árabátum. Þegar línan var lögð reru menn rólega og Iínan handlögð; það er að segja það þurfti að taka í hvern taum og leggja hann í sjóinn. Engin spil voru í bátnum þannig að það varð að draga línuna með höndunum. Afli var það góður á línuna að frá þessum tíma hefur enginn þurft að líða skort sem heilbrigði og vilja höfðu til að sjá sér og sínum borgið. Fram að þessum tíma hafði skortur verið árviss vágestur.
Það sem háði útgerðinni mest fyrstu árin eftir að línuveiðar hófust var beituskortur. Var fyrst framan af eingöngu notast við svokallaða ljósbeitu. þ.e. hrogn, niðurskorna ýsu og smálúðu. Reyndist oft mikill hörgull á þessari beitu ef menn komust ekki á sjó vegna veðurs til að afla hennar. Aðstaða til að geyma beituna var engin fyrstu árin og varð þá hver að bjarga sér sem best hann gat. Helstu úrræðin voru að ná í snjó. En sá gallinn var á að oftast sást hann hér hvergi þó að hávetur væri. Æði oft kom það fyrir að kapphlaup voru háð ef snjór sást á fjöllum. Rifu menn þá með sér poka og hlupu eins og þeir gátu, tróðu eins miklu af snjó í pokana og þeir náðu. Pokann settu þeir svo á bak sér og báru þá á stað þar sem þeir komu handkerru að.
En það var ekki hægt að treysta á þessa kæliaðferð. Næst voru grafnir kofar inn í holt og hæðir sem snjó var safnað í. Þó komu svo snjóléttir vetur að ekki var hægt að safna nógu af þessu dýrmæta hnossi. Hver útgerðarmaður átti sér svona kofa og var þetta heldur óhentugt.
Það var ekki fyrr en sunnudaginn 15. september 1901 sem Magnús Jónsson sýslumaður og Árni Filuppusson verslunannaður, sem síðar var kenndur við Ásgarð, efndu til almenns fundar til að ræða hvernig koma mætti upp sameiginlegu íshúsi. Árangur fundarins var sá að ákveðið var að ráðast í slíka byggingu og var hún fullgerð þegar í september árið eftir. Til smíði hússins var fenginn maður úr Reykjavík, Friðrik Bjarnason, en hann hafði áður unnið að íshússmíði Jóhannesar Nordals í Reykjavík. Ishúsið í Reykjavík hafði þá sérstöðu að það gat birgt sig upp með ís af Tjörninni þar sem það stóð á bakka hennar. En aðstaðan í Eyjum var allt önnur og verri. Aðeins voru tvær tjarnir, Vilpan og tjörnin inni í Herjólfsdal. Þangað var mestur hluti af ísnum sótttur. Báðir voru þessir staðir, sérstaklega Daltjörnin, alllangt frá íshúsinu sem stóð þar sem síðar var húsið Ingólfshvoll við Landagötu. Var ruddur vegur kominn upp að Landakirkju en þaðan aðeins troðningur inn í Herjólfsdal.
Félagsmenn fengu geymd bjóð sín í íshúsinu og beitu. Var nú farið að flytja inn síld frá Reykjavík þar sem aðstaða var komin til að geyma hana. Henni var þó beitt í mjög lítið til að byrja með. Síðar var farið að veiða síld til beitu eftir að Vestmanneyingar höfðu aflað sér neta til þess og jókst notkun hennar mjög við það.
Um aldamótaárið 1900 fluttist til Eyja færeyskur skipasmiður, Jakob Biskopsto. Hóf hann smíði á vertíðarskipum af stærri gerðinni með hinu svokallaða færeyska lagi. Þetta voru gangmiklir bátar og Iéttir undir árum sem var mjög þýðingarmikið eftir að Iínuveiðarnar hófust. Þá hafði róðrartíminn verið ákveðinn þannig að skip máttu ekki hefja róður fyrr en á ákveðnum tíma að nóttunni og gaf það gangbetri skipum nokkurn forgang á hin fengsælli fiskimið með línuna.
Á vetrarvertíðinni 1906, sem telja verður síðustu vertíð áraskipanna í Eyjum, réru þaðan 28 skip. Það var einnig 1906 sem byrjað var á nýrri ísstöð þar sem frost var framleitt með vélum. Svo rösklega var gengið til verks í málinu að aðeins rúmu hálfu öðru ári seinna var hið nýja vélvædda hús tekið til starfa. Þar var beitu- og bjóðageymsla og einnig var ávallt á boðstólum nægileg beitusíld sem farið var að nota í enn ríkara mæli en áður. Voru Vestmannaeyingar þar með orðnir brautryðjendur hvað þetta snerti.
Högni Sigurðsson í Vatnsdal var fyrsti verkstjóri hins nýja frystihúss.
Fljótlega eftir að línuveiðar hófust var farið að nota ljós svo eitthvað sæist um borð þegar Iínan var lögð. Þetta var ekki mjög fullkomin lýsing, einungis kertaljós. Kassinn utanum kertið var úr tré með gleri a hverri hlið og það þétt að kertaljós gat logað í þeim. Þetta var að sjálfsögðu mjög ófullkomin lýsing en annað betra var ekki fyrir hendi.
Árið 1912 var sett línuspil í vélbatana og var þá engum erfiðleikum bundið að stunda línuveiðar á stærri bátum.
Það var ekki fyrr en vetrarvertíðina 1928 að Emma hóf vertíðina að fullu raflýst.
Eftir 1910 fóru fyrstu vélbátarnir að koma.
Það var mikið vandaverk að vera við lagningu línunnar. Það var yfirleitt valinn laginn og handfljótur maður. Var hann með prik og lyfti hverjum taum yfir borðstokkinn. Ef menn voru góðir í þessu var hægt að leggja hraðar. Lagningsmennirnir voru mjög eftirsóttir og fengu þeir oftast aukagreiðslu fyrir starf sitt.
Þórður Jónsson á Bergi mun manna fyrstur hafa gert tilraun árið 1926 með hina svokölluðu línurennu er hann hafði smíðað á bát sinn. En ekki heppnaðist það sem skyldi og ekki heldur þær tilraunir sem gerðar voru á vertíðinni 1927. Stafaði það að mestu leyti af því að þá var enn mikið beitt af hrognum og annarri ljósbeitu og vildi sú beita síga niður línuásinn og línan fara ógreidd í sjóinn. Á vertíðinni 1928 hafði línurennan enn verið endurbætt og var nú nær eingöngu beitt síld sem reynsla hafði fengist fyrir. Það hentaði betur þegar renna var notuð. Var nú ekkert því til fyrirstöðu að leggja línuna þó bátarnir keyrðu á nær fullri ferð. Varð þetta til þess að hver bátur sem línurennu hafði gat lagt mun lengri línu en áður og hafði því meiri aflavon. Jók það einnig aflann að síldin reyndist betri beita en hrogn og önnur beita sem áður var notuð. Tóku yfirleitt allir bátar þessa nýjung upp þegar að vertíðinni 1928 lokinni.
Það var lítil sem engin breyting á búnaði til línuveiða næstu 20 árin. Bátarnir stækkuðu og menn fóru samferða því að vera með sterkari línu. Sverleiki á línunni var 5-6 mm. Það var ekki fyrr en upp úr 1950 að það bættist ein nýjung við. Það var hin svokallaði keilubani. Það var mikil keiluveiði á þessum tíma og keilan kokgleypti yfirleitt línukrókinn. Slitnaði þá taumurinn af línunni þegar maðurinn á goggnum goggaði fiskinn af línunni. Keilubaninn var þannig útbúinn að lína var dregin í gegnum tvö kefli sem staðsett voru fyrir innan borðstokkinn. Í staðinn fyrir að rífa keiluna af fyrir utan var henni hjálpað inn fyrir borðstokkinn og dróst síðan af keilubananum. Þá dróst öngulinn upp úr henni. Með tilkomu keilubanans sparaðist mikið af ábót og léttist vinnan við beitninguna í landi.
Ölduljón VE 130, sem Sigurður Þórðarson átti, var fyrstur allra báta í Eyjum sem var bæði með kæli og frysti um borð. Það kom sér sérstaklega vel að vera með kæli því það var mjög gott fiskerí fyrir austan. Þá var hægt að taka þrjár setningar með og setja alla bala inn í kæli. En fljótlega var farið að taka beitningarmenn með um borð og fara á útilegu. Beita var geymd í frystinum þannig að hún var fersk og góð og tekin út eftir hendinni. Það var hægt að vera að mest allan sólarhringinn. Dekkliðið stóð vaktir en beitningarmennirnir beittu visst á dag og voru þeir ekki öfundsverðir af þeirri vinnu.
Það var ekki fyrr en 1981 sem Þórður Rafn Sigurðsson kaupir Ölduljónið. Skýrir hann bátinn upp og heitir hann nú Dala-Rafn. Rabbi var fyrstur manna hér í Eyjum til að reyna beitningarvél. Vélin var norsk og heitir „Mustard Autoline System". Þetta var algjör bylting. Nú var hægt að draga allt að 30 þúsund króka á dag, allt að helmingi meira en með gamla laginu með sömu áhöfn.
Nokkru áður en komið er á miðin lætur skipstjórinn taka beituna úr frystiklefanum og setja hana í sjó og verður að passa vel upp á hana því hún þarf að vera alveg mátulega þiðin í skurðarvélina. Þegar lagt er er beitan sett í beitningarvélina. Línan fer þar í gegn og beitningarvélin tvíkrækir beitunni á krókinn. Hraðinn er slíkur að vélin getur beitt allt að 4 króka á sek. allt eftir ferð skipsins. Það er einn maður fyrir framan lagningsvélina sem færir stokka til sem línan er höfð á. Hver stokkur tekur 450 króka og fylgjast þarf vel með að þetta fari greitt út. Það er hægt að tengja saman tvo eða fleiri stokka. Um leið og klárast af stokknum er hann fjarlægður og nýr settur í staðinn. Þegar búið er að leggja er beitningarvélin hreinsuð og þrifin vel því það er mikið atriði. Eftir þrifnaðinn eru stokkarnir settir á sinn stað og gert klárt til þess að fara að draga.
Línan er vanalega lögð í tvennu lagi til að nýta tímann sem best. Venjulega er lagt og dregið með straum því það er þægilegra í alltlestum tilvikum.
Þá er bara að fara að draga, allt orðið klárt um borð. Baujan er tekin. Síðan dregur línuspilið baujufærið. Eftir að drekinn er kominn upp er hægt að byrja að draga línuna. Það er hægt að gogga fiskinn af rúllunni eða lyfta undir hann, þá dettur hann af við krókahreinsinn þar sem gömul beita er fjarlægð. Síðan fer línan í gegnum rör. Þar eru hjól sem breytir stefnunni á Iínunni að uppstokkaranum. Uppstokkunarvélin skilar línunni á stokkana, krókarnir eru aðskildir og fara hver á sinn stað. Við þetta er einn maður. Hann tekur til hliðar króka sem hafa bognað eða ef taumar hafa slitnað. Svo er annar maður sem tekur við af honum og réttir krókana og bætir á línuna. Þegar stokkurinn er orðinn fullur er honum ýtt til hliðar og nýjum komið fyrir þannig að það þarf aldrei að stoppa á meðan á drætti stendur.
Það fer um 80 til 90% af tímanum um borð í það að draga línuna. Helstu kostir eru að hægt er að auka krókatjölda um 50 til 100% og vera að allan sólarhringinn.
Heimildir:
1) Guðlaugur Gíslason: Útgerð og aflamenn í Eyjum.
2) Þorsteinn Jónsson frá Laufási: Aldarhvörf í Eyjum.
3) Spjall við Þórð Rafn Sigurðsson. Útgerðarmann á Dala Rafni. VE 508.
4) Reynsla höfundar af línuveiðum.

Stefán Birgisson
(Ritgerðin var skrifuð á vorönn 1993 í íslensku á II. stigi Stýrimannaskólans í Veslmannaeyjum.)