Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1997/Fyrsta sjóferðin og sjóveikin sem henni fylgdi
Hugurinn kafar í skjóðu minninganna, allt aftur til sumarsins 1967, sumarsins sem þótti svo yndislega gott í Eyjum. Sumarsins sem sólin skein svo blítt upp á hvern einasta dag og gömlu karlarnir, sem tylltu sér svo oft á pollana til að fylgjast með lífinu á bryggjunum, þeir mundu ekki annað eins blíðviðrissumar. Sumarsins sem lítill drengur fékk að fara í sína fyrstu sjóferð og þóttist þá aldeilis orðinn maður með mönnum. Já, svona sé ég minninguna úr minni fyrstu sjóferð.
Þetta sumar, eins og sumrin þar á undan, höfðu Eyjabátarnir verið á humartrolli í Háfadýpinu og fiskað ágætlega eins og svo oft áður en núna voru þeir búnir að skipta yfir á fiskitrollið enda sumri farið að halla, það var komið fram í miðjan ágúst.
Þar á meðal var áhöfnin á Sæfaxa VE 25 sem var 26 brúttólesta trébátur og þótti gott skip, enda ávallt vel við haldið. Eigendur bátsins voru þeir Þórarinn Eiríksson skipstjóri og Halldór Jónsson vélstjóri. Þeir voru mágar og búnir að vera lengi saman til sjós á Sæfaxa. Aðrir í áhöfninni höfðu lengi verið með þeim Lalla og Dóra. Þetta var því samheldin áhöfn og allt fínir karlar.
Það var laugardagur og klukkan langt gengin í þrjú þegar 10 ára drengur gekk austur Strandveginn í fylgd móður sinnar. Hann var með klofhá stígvélin undir hendinni sem hann hafði fengið að láni hjá stóra bróður sínum. Móðir hans hélt á litlum sjópoka sem í var regngalli, vettlingar, svo og föt og ullarsokkar til skiptana. Þau voru á leiðinni austur á Bæjarbryggju þar sem Sæfaxi lá bundinn ásamt bátunum Jökli og Björgvin. Drengurinn var að fara til sjós og átti að vera mættur klukkan þrjú en þá átti að leggja í hann.
Hann hafði lengi suðað í Lalla, vini pabba og mömmu, um að fá að fara með einn fiskitúr og núna var stóra stundin runnin upp. Veðurspáin var góð fyrir næstu daga eða eins og hún hafði ávallt verið um sumarið og því þótti það í lagi að leyfa drengum að koma með í þennan túr.
Enginn úr áhöfninni var mættur til skips en hinn ungi sjómaður ætlaði strax að stökkva um borð í Sæfaxa. Móðir hans kippti hins vegar í hann og spurði hvort hún fengi nú ekki einn koss að skilnaði. Drengurinn faðmaði hana og kyssti og hún tók af honum loforð um að hann yrði góður og stilltur og hlýddi körlunum í einu og öllu og væri ekkert að flækjast fyrir eða príla upp á brú eða uppi í möstrum
þegar út á sjó væri komið. Þegar drengurinn var búinn að kveðja móður sína fór hann fram í lúkkar með stígvélin og sjópokann sinn og beið þar tilhlökkunarfullur eftir því að karlarnir kæmu um borð. Hann þekkti vel til um borð í Sæfaxa því oft hafði hann fylgst með um sumarið þegar verið var að landa úr bátnum og þá leyfði Lalli honum alltaf að sitja í skipstjórastólnum en þaðan sá hann vel yfir allt dekkið og ofan í lestina þar sem karlarnir mokuðu fiskinum í löndunarmálið. Eftir löndun fékk hann yfirleitt spyrðu af ýsu til að fara með heim til mömmu og þótti honum það alltaf besta soðningin.
Á tilsettum tíma voru allir mættir um borð og var því sleppt og báturinn tók stefnuna út úr höfninni. Drengurinn settist fyrir framan lúkkarskappann og fylgdist með því er siglt var fram hjá Urðunum í blíðunni. Oft hafði hann farið í fjöruna austan við syðri hafnargarðinn með Valla vini sínum til að veiða krabba. Þarna sá hann sundlaugina og húsið hennar Sólu frænku á Bakkastígnum og þarna var Þurrkhúsið og Kirkjubæirnir sem hann hafði svo oft komið að með strákunum til að skoða beljurnar hans Tobba. Þá fannst þeim sem þeir væru komnir langt upp í sveit. Aldrei hefði hann getað ímyndað sér að þetta væri svona fallegt frá sjónum séð. Hann ætlaði sko að verða sjómaður þegar hann yrði stór. Siglt var fram hjá „verðinum í austri", Bjarnarey, en það hafði drengurinn heyrt gömlu karlana kalla hana og sögðu að hún hefði það viðurnefni af því að hún gaf innsiglingunni inn í höfnina gott skjól fyrir austanáttunum. Siglingin í Háfadýpið tók ekki langan tíma í þessari blíðu þar sem áhöfnin á Sæfaxa gat látið trollið fara. Fylgdist drengurinn vel með öllum handtökum áhafnarinnar þegar trollið fór í sjóinn og aftur með bátnum þar sem það fór í dýpið.
Á eftir fóru viðburðarríkir tímar í hönd hjá drengnum. Dóri tók hann með sér í vélarrúmið þar sem hann útskýrði fyrir honum leyndardóma vélarinnar. Dóri leyfði honum að smyrja í nokkra smurkoppa og lét hann síðan dæla upp á hæðarboxið á meðan hann lensaði úr kjölsoginu. Hann var aldeilis stoltur er hann kom upp úr vélarrúminu í stýrshúsið til Lalla og þóttist kunna mörg handtök vélstjórans. Lalli lét hann setjast í skipstjórastólinn og sagði honum að fylgjast með bátunum sem fram undan voru því hann ætlaði fram í að fá sér kaffi. Lalli sagði honum að kalla í hann þegar bátarnir væru farnir að nálgast því þá ætlaði hann að hífa. Drengurinn trúði varla sínum eigin eyrum. Átti hann að fá að stýra Sæfaxa þarna langt úti í hafi, aleinn? Lalli reyndi að útskýra fyrir honum hlutverk kompássins og hvernig stýrt væri eftir honum en sagði drengnum að reyna að stýra bara beint að bátunum. Einnig sýndi hann drengnum hvernig þessir vönu skipstjórar lásu á dýptarmælinn. Drengurinn sá marga svarta flekki á mælinum og sagði Lalli að þetta væru fiskitorfur við botninn og væri trollið um það bil að taka fiskinn. Eftir að Lalli var farinn fram í hafði drengurinn ekki augun af bátunum sem voru nokkrar mílur í burtu og fannst honum að þeir nálguðust Sæfaxa mjög hratt. Var hann orðinn hræddur um að hann myndi stíma á bátana og því kallaði hann fram í til Lalla: „Lalli, Lalli, komdu strax, við erum að stíma á, við erum að stíma á, komdu, komdu." Lalli var snöggur upp úr Iúkarnum og þegar hann sá hvað fjarlægðin var mikil í næstu báta þá gat hann ekki annað en brosað því enn voru nokkrar mílur í þá. Þegar hann kom í brúna þá klappaði hann á bakið á drengum og sagði að hann hefði staðið sig vel en núna skyldi hann klæða sig í regngallann því að nú yrði híft.
Drengurinn fékk að hjálpa einum hásetanum við að stýra vírnum inn á spilið þegar híft var og var það gert með stórum járnkarli. Fannst honum það erfitt. Þegar trollið kom upp sá drengurinn marga fiska í því og hugsaði með sér að hann hefði aldrei séð eins marga fiska og var viss um að þeir kæmust aldrei fyrir í lestinni. Vel gekk að taka trollið og fyrr en varði voru fiskarnir komnir inn á dekk og áhöfnin byrjuð að blóðga og gera að og koma þeim fyrir í lestinni. Fékk drengurinn að fara með í lestina og
hjálpa við að koma fiskinum fyrir í stíum og ísa hann. Allt komst þetta fyrir og meira til. Þegar búið var að ganga frá fiskinum var þreyta farinn að segja til sín hjá drengnum enda komið fram yfir miðnætti.
Himininn var ægifagur og stjörnubjartur þegar drengurinn lagðist í kojuna sína og var sofnaður um leið. Hann tók ekki eftir óveðursskýjunum sem hlóðust upp í austrinu.
Drengurinn vaknaði ekki fyrr en það var farið að nálgast hádegi og þar sem hann lá þarna í kojunni sinni fann hann að báturinn var byrjaður að taka dýfur og hreyfast langtum meira en hann gerði deginum áður. Hann fann til ónota í maganum. Hann var sveittur og þvalur í lófunum eftir svefninn en dreif sig samt upp því að hann þurfti að pissa. Áhöfnin var öll í aðgerð og sögðu þeir að það hefði fiskast vel um nóttina. Hann sá að það var farið að hvítna í báru og það var komin rigning. Lalli sagði að það væri kominn kaldaskítur. Við hverja dýfu sem báturinn tók þá frussaðist sjórinn aðeins yfir bátinn. Hann átti erfitt með að fóta sig, hann kunni ekki að stíga ölduna. Hann fór aftur niður og lagðist í kojuna sína, hann var eitthvað svo slappur. Þó hann hefði farið úr peysunni þá hélt hann áfram að svitna og verða slappari. Hann fann líka fyrir ógleði, grúfði andlitið ofan í koddann og reyndi að sofna aftur og gleyma sér. Hann heyrði í gegnum svefnrofin að áhöfnin kom niður í lúkkarinn eftir aðgerðina og fékk sér kaffi. Hann heyrði að þeir voru að tala um að aldrei væri hægt að treysta þessum veðurfræðingum, það hefði spáð blíðu en núna væri kominn kaldaskítur. Meira heyrði hann ekki, hann var sofnaður aftur.
Hann vaknaði upp við það að ælugusan stóð út úr honum og allt sem hann hafði fengið að borða hjá kokknum kvöldinu áður lenti á matarborðinu fyrir neðan kojuna hans og að hluta til á buxum eins úr áhöfninni. Sá spratt upp og drengurinn heyrði þegar hann sagði: „Hvað er að gerast, drengurinn bara ælir yfir mig, nú er ég aldeilis hissa." En drengnum var sama. Hann vildi bara komast heim til mömmu og pabba.
Hann sá yfir kojubríkina hvar áhöfnin var að hreinsa upp æluna eftir hann en hann var svo slappur að hann gat enga björg sér veitt. Einn úr áhöfninni lét hann hafa plastpoka og sagði honum að æla í hann ef það kæmi meira. Það var æla á koddanum hans en Dóri kom og hreinsaði hana og sneri koddanum við. Hann fann að hann var orðinn votur af svita og svo slappur að hann gat ekki hreyft höfuðið frá koddanum. Honum fannst lyktin í lúkkarnum vond, sambland af slagvatnsfýlu og kaffilykt. Annað slagið kúgaðist hann og kúgaðist en hafði ekkert til að gubba. Aðeins grænt gallið kom í pokann og þá í smáskömtum. Honum var mjög illt í maganum þegar hann kúgaðist og tárin voru farin að leka niður kinnar. Hann gleymdi sér annað slagið en hrökk upp við það að báturinn tók dýfu og hann heyrði þegar sjórinn slóst við kinnung bátsins og frussaðist yfir lúkkarskappann.
Honum fannst sem hann hefði legið í kojunni í marga tíma þegar Lalli skipstjóri kom fram í og ræsti áhöfnina og sagði þeim að hann ætlaði að taka trollið inn fyrir og fara í land því það væri kominn austan bræla.
Drengnum fannst þetta hin fegurstu orð sem hann hafði heyrt. það yrði ekki langur tími þangað til hann kæmist heim til pabba og mömmu og hefði fast land undir fótum. Hann fann fyrir endurnýjuðum krafti streyma um líkamann þegar báturinn var kominn á lensið og með strikið heim. Þegar búið var að binda Sæfaxa við Bæjarbryggjuna var drengurinn kominn upp á dekk og upp á bryggju. Á leiðinni heim
fannst honum sem hann vaggaði í hverju spori, ónotatilfinningin var ekki alveg farin. Hann var með sjóriðu. Móðir hans tók brosandi á móti honum og spurði hann hvernig hefði verið á sjónum. „Ég ætla aldrei á sjó aftur" var svarið og meira vildi hann ekki ræða um sjóferðina.
Um kvöldið kom Lalli í heimsókn. Þegar hann kom inn úr dyrunum sagði hann: ,,Ég ætlaði bara að athuga hvernig sjómaðurinn minn hefði það, hann var farinn áður en ég vissi af og tók ekki einu sinni soðningu með sér heim."