Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1997/Fiskiðjan h.f. í 40 ár

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


GUÐJÓN ÓLAFSSON


FISKIÐJAN HF. Í 40 ÁR


Þegar ritstjóri blaðsins kom að máli við mig um að skrifa sögu Fiskiðjunnar, og bætti því við að fáir þekktu hana betur, gat ég ekki neitað því að svo væri. Því varð að samkomulagi að ég myndi stikla á því helsta í sögu fyrirtækisins. Þáttur Fiskiðjunnar spannar nær 40 ár í sögu Vestmannaeyja. Á þessum árum hafa þúsundir manna alls staðar að af landinu, ásamt hundruðum útlendinga, unnið í Fiskiðjunni, sumir í áratugi, aðrir skemur. Þótt starfsemi Fiskiðjunnar hf. sé hætt þá er viðbúið að mannvirkin við Brattagarð standi um ókomin ár sem verðugur minnisvarði um þá menn er reistu hana á sínum tíma.
Samkvæmt fyrstu fundargerð Fiskiðjunnar var félagið stofnað 3. september 1952 í húsinu Þingvöllum í Vestmannaeyjum af þeim Ágústi Matthíassyni, Gísla Þorsteinssyni og Þorsteini frá Hvoli verkstjórar, öðlingskarlar og vel liðnir af starfsfólki sínu. Þórarinn (Tóti) í Mjölni átti tryggan hóp manna undan Fjöllunum sem komu ár eftir ár og unnu hjá honum í saltfiskinum. Þegar mikið var að gera og stíurnar fullar af fiski, svo jafnvel flæddi út á götu, fór sixpensarinn hans Tóta að halla nokkuð mikið út á annað eyrað og vindillinn tottaður af miklum ákafa. Þá naut hann Tóti sín vel. Einnig átti Björgvin sitt góða fólk á efri hæðinni. Á fyrstu árunum var Símon Kristjánsson verkstjóri í tækjunum. Fyrstu vélstjórar fyrirtækisins voru þeir Óskar Jónsson frá Sunnuhvoli og Hallgrímur Pétursson frá Lambafelli A-Eyjafjöllum; bróðir hans, Guðjón, var lengi verkstjóri í vélsmiðjunni, báðir miklir hagleiksmenn og listasmiðir. Fyrsti vigtarmaður var Þorsteinn Loftsson. Meðal vigtarmanna, sem störfuðu hjá fyrirtækinu og eru manni minnisstæðir, eru Angantýr Elíasson og Einar Guðmundsson frá Málmey.
Ekki var nóg að byggja hús, það þurfti líka báta til að koma með fisk að landi. Fyrirtækið hafði Hilmi VE 282 og í fundargerð 20. des. 1953 má lesa: „Ágúst Matthíasson stakk upp á því að félagið keypti báta til starfrækslu." Það er ekki að orðlengja það að á nokkrum árum eignast fyrirtækið bátana Öðling VE 202, Ver VE 200, Sindra VE 203, Mars VE 204 og Hannes lóðs VE 201 ásamt Jóhanni Pálssyni, hét síðar Gylfi VE 201 eftir að Jóhann hætti í útgerðinni. Einnig átti Ágúst Freyju VE 260 með Sigurði Sigurjónssyni og Stíganda VE 77 með Helga Bergvinssyni. Þá átti Þorsteinn Ófeig II og Ófeig III með Ólafi Sigurðsyni frá Skuld. Allir lögðu þessir bátar upp hjá fyrirtækinu ásamt fleiri bátum og trillum og komu með mikinn afla að landi, enda miklir sjósóknarar og aflaklær með þessa báta. Iðulega var þorskaflinn átta til tólf þúsund tonn á vertíðinni.
Í sömu fundargerð og hér var vitnað í að framan leggur Þorsteinn Sigurðsson mikla áherslu á að fylgst verði náið með öllum nýjungum í framleiðslu á frystum fiski svo þeir verði alltaf samkeppnisfærir og leggur til að þeir félagar fari til Bandaríkjanna að kynna sér nýjungar í fiskiðnaði. Í fundargerð frá 6. okt. 1955 má lesa að samþykkt sé að taka tilboði S.H. um að leigja flökunarvél frá Þýskalandi. Þar með var vélvæðingin hafin. Segja má að hún hafi staðið allan starfsaldur fyrirtækisins því það var sýknt og heilagt verið að endurbæta vélakostinn svo maður tali nú ekki um þá byltingu þegar lyftarar með öllum þeim kössum og körum sem því fylgdi komu til sögunnar og Ieystu af hólmi hjólbörurnar og kerrurnar.
Þessi þróun var í samræmi við þá stefnu sem eigendurnir settu sér í upphafi, þ.e. að fylgjast grannt með öllum nýjungum og framförum í fiskiðnaði. Á fyrsta áratugnum voru ýmsar nýjungar reyndar, m.a. að sjóða gall sem notað var til lyfjagerðar og einnig var gerð tilraun með að reykja fisk. Þetta er greinarhöfundi mjög minnisstætt því hann sá um þessa starfsemi sumarlangt 1954.
Fyrstu árin var saltfiskvinnslan með hefðbundnum hætti, þ.e. saltað í stæður og síðar vaskað. Um vorið og sumarið var hann breiddur á stakkstæði og þurrkaður. Við þetta unnu unglingar og fullorðnir hlið við hlið og ekkert kynslóðabil. Oft var glatt á hjalla á stakkstæðinu, í sólinni og blíðunni, sem var alltaf í gamladaga (!!). Verkstjóri á stakkstæðunum var Hjörleifur Sveinsson frá Skálholti. Á seinni árum var fiskurinn pækilsaltaður og það nefnt tandurverkun. Síðar lagðist þurrkun á saltfiski alveg niður vegna breyttra markaða. Í Iok annars árs fyrirtækisins má lesa í fundargerðum að Gísli Þorsteinsson viðrar þær hugmyndir hvort ekki sé hægt að hálfvinna fiskinn og fullvinna hann síðan á haustin þegar lítið er um að vera. Ekki minnist greinarhöfundur að úr þessu hafi orðið. Gísli Þorsteinsson var ákaflega frjór og hugmyndaríkur, kom með margar hugmyndir sem voru bráðsnjallar en litu fæstar dagsins ljós. Maður minnist samt allra rúllufæribandanna sem var komið fyrir í frystiklefunum og létti margan burðinn á fiskkössunum.
Á þessum árum starfrækti fyrirtækið eigið netaverkstæði. Því stýrði Þórður Gíslason (Tóti meðhjálpari ) í nokkur ár. Um margra ára skeið rak Fiskiðjan mötuneyti fyrir starfsfólk. Jóhann Kristjánsson (Jói aflesari) var kokkur fyrstu árin. Þá minnist ég Láru Hlöðversdóttur, Óla Pá og Óla Run. Einnig voru verbúðir á 4. hæð. Það var oft líf og fjör á verbúðunum þegar saman voru komin á annað hundrað ungra manna og kvenna. Ekki skemmdi það stemminguna þegar ungir ofurhugar úr bænum voru að reyna að komast á verbúðirnar, ýmist hangandi á rennum eða fastir í gluggum og lyftum. Bæjarbragur breyttist mikið í janúar ár hvert þegar vertíðarfólkið var að koma. Ungir piltar og meyjar fylgdust grannt með því hvort ekki leyndist áhugaverð stelpa eða strákur í hópnum og oftar en ekki fann þetta unga fólk sér lífsförunaut sem hafa orðið gegnir borgarar og fallið vel inn í Eyjalífið.
Um árabil voru viðskipti við Austur-Evrópu í formi vöruskipta, t.d. voru viðskipti við Tékkóslóvakíu þannig að fyrir fiskafurðir komu skóhlífar, karlmannshattar og eldhúsvogir. Gústi Matt naut sín vel þegar hann var að pranga þessu inn á vertíðarkarlana, enda Gústi vanur sem innanbúðarmaður hjá Einari „ríka" í Vöruhúsinu. Það var margur sveitamaðurinn sem spíksporaði á skóhlífum og með barðastóran hatt þegar hann fór um borð í Stokkseyrarbátinn eða Esju á heimleið í vertíðarlok.
Áramótin 1963-64 urðu eigendaskipti á þriðjungshlut fyrirtækisins. Gísli Þorsteinsson seldi Friðriki Jörgensen hluta sinn. Næstu ár eru viðburðarík í sögu fyrirtækisins, nýir menn með nýjar hugmyndir komnir inn. Fiskiðjan gekk úr Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna sem hafði frá upphafi séð um sölu á frystum fiski fyrir fyrirtækið. Við afurðasölunni tóku þeir Friðrik Jörgensen og Árni Ólafsson. Ekki gengu þessi mál eftir eins og menn höfðu vonað en sú saga verður ekki rakin hér. Í október 1963 keypti Fiskiðjan fasteignir Eyjavers sf. og 1970 vélbátinn Stefán Þór VE 150 af þeim Ingólfi Arnarssyni og Áka Jakobssyni. Húsið var notað fyrir saltfiskvinnslu og síðar var gerður þar kælir á jarðhæð fyrir ferskan fisk. Stefán Þór var skírður upp og hét síðan Breki VE 206. Í ársbyrjun 1966 er Stígandi VE 77 keyptur af Helga Bergvinssyni og skömmu síðar gerðist Helgi útgerðarstjóri hjá fyrirtækinu og vann við það um nokkurra ára skeið.
Enn gerast miklir atburðir árið 1967. Þá yfirtekur Gísli Þorsteinsson hlut Friðriks Jörgensens í fyrirtækinu að nýju og 18. okt. er Guðmundur Karlsson ráðinn framkvæmdastjóri en þeir Ágúst Matthíasson og Þorsteinn Sigurðsson hætta sem framkvæmdastjórar frá sama tíma en sitja áfram í stjórn fyrirtækisins. Á þessum árum sýna ársreikningar félagsins að harðnað hefur í ári og á í rekstri fyrirtækisins. Í fundargerð frá 3. febr. 1970 kemur fram að Ágúst Matthíasson ásamt fjölskyldu sinni hefur selt Haraldi Gíslasyni og eiginkonu hans, Ólöfu Óskarsdóttur, hlut þeirra í Fiskiðjunni en áður höfðu þeir Gísli Þorsteinsson og Þorsteinn Sigurðsson lýst því yfir að þeir myndu ekki neyta forkaupsréttar á hlutabréfunum. Skömmu síðar eignast Guðmundur Karlsson 1/6 hlut í fyrirtækinu (þ.e. helmingshlut Haraldar).
Þegar fyrirtækið virðist vera komið á lygnan sjó dynja ósköpin yfir 23. jan. 1973, eldgos á Heimaey. Að sjálfsögðu lagðist öll fiskvinnsla fyrirtækisins niður. Bátarnir voru síðar gerðir út frá Þorlákshöfn og Reykjavík. Ragnar Borg, forstjóri G.Helgason & Melsteð, var svo rausnarlegur að bjóða Fiskiðjunni, FIVE og VSV, skrifstofuaðstöðu á Rauðarárstíg 1 svo lengi sem með þyrfti. Síðar fluttum við skrifstofur okkar inn í Vatnagarða. Þá var farið að flytja vélar og annan búnað þangað. Magnús Jónsson og Ágúst Óskarsson vélstjórar unnu við það allan veturinn og fram á sumar að taka upp vélarnar, hreinsa þær og lagfæra.
Dvölin í Reykjavík var, svona eftir á, heilt ævintýri. Það var oft glaumur og gleði þegar strákarnir á bátunum voru að koma að og kría út peninga. Þá var gjarnan slegið saman í eina og eina. Já, það eru margar sögurnar sem koma upp í hugann þegar hugsað er til þessa tíma, en þær verða ekki sagðar hér í þessum stiklum.
Á þessum árum var Stefán Runólfsson yfirverkstjóri; hann varð síðar framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar. Við yfirverkstjórn tóku þeir Jóhann I. Guðmundsson (Diddi á fluginu) og Hjörtur Hermannsson. Af minnisstæðum verkstjórum vil ég nefna Guðlaug Helgason, en hann var verkstjóri í tækjunum til margra ára, Sigurð Njálsson (tengdasonur Gústa Matt.) ásamt nafna hans Elíassyni frá Varmadal. Skömmu eftir gos fer Guðmundur Karlsson til Japans og veitir forstöðu söluskrifstofu S.H. þar í eitt ár; á meðan tekur Haraldur Gíslason að sér framkvæmdastjórn Fiskiðjunnar ásamt störfum sínum hjá FIVE.
Á þesssu tuttugu ára tímabili, sem stiklað hefur verið á, hafði Fiskiðjan stækkað og dafnað. M.a. hafði hún keypt Fiskimjölsverksmiðjuna í Vestmannaeyjum ásamt Vinnslustöðinni af Ástþóri Matthíassyni. Þorsteinn Sigurðsson varð framkvæmdastjóri FIVE og voru gerðar miklar umbætur á verksmiðjunni undir hans stjórn. Þorsteinn er byggingarmeistari; hann naut sín best þegar hann gat verið að vasast í byggingarframkvæmdum og sjá hús rísa af grunni.
Fiskiðjan keypti einnig Emmuhúsið af Eiríki Ásbjörnssyni og ýmsar krær, m.a. við Norðursund og Skildingaveg, og landskika, þar á meðal Breiðabakka. Einnig var Fiskiðjan hluthafi í Stakki, Ísstöðinni og eigandi í Lifrarsamlagi Vestmannaeyja.
Fljótlega eftir gosið var farið að huga að því að selja bátana. Formennirnir, ásamt vélstjórum í sumum tilvikum, sýndu áhuga á að kaupa þá báta sem þeir voru með. Forráðamenn fyrirtækisins álitu að rekstur bátanna væri betur kominn í höndum þeirra manna sem störfuðu á þeim. Þá sáu menn ekki fyrir þróunina í fiskveiðimálum þjóðarinnar, með kvóta og öllu því fári sem fylgt hefur í kjölfarið.
Með komu togarans Vestmannaeyjar VE 44 til Eyja 1973 hófst togaraútgerð aftur í Vestmannaeyjum eftir nokkurra ára hlé. Frystihúsin þrjú, þ.e. Fiskiðjan, Ísfélagið og Vinnslustöðin, aðstoðuðu Berg-Hugin hf. við þessi kaup og tryggðu sér aflainnlegg á móti. Árið 1975 stofna Fiskiðjan, Ísfélagið og VSV útgerðarfélagið Klakk hf. til kaupa á togara frá Póllandi og kom hann til landsins 3. apríl 1977 og bar nafnið Klakkur VE 103. Í júní 1977 keypti FIVE togarana Skinney SF 20, sem varð Sindri VE 60, og í nóv. sama ár fjölveiðiskipið Guðmund Jónsson GK 475 sem hét síðan Breki VE 61. Þessi þrjú skip urðu síðan grunnurinn að stofnun Samtogs hf. 1985 af Fiskiðjunni, FIVE, Ísfélagi Vestmannaeyja og VSV. Framkvæmdastjóri var ráðinn Gísli Jónasson en síðar tók við framkvæmdastjórn Hjörtur Hermannsson. Svo bættust við skipin Gidion VE 104 og Halkion VE 105. Um áramótin 1986-87 segir Ísfélag Vestmannaeyja sig úr Samtogi og fékk í sinn hlut Halkion og Gidion. Hinn 5. nóv. 1990 skrifa þau félög, sem þá standa að Samtogi, þ.e. Fiskiðjan. FIVE og VSV undir slitasamning Samtogs. Fiskiðjan fékk í sinn hlut Klakk og Sindra en VSV Breka.
Víkjum nú aftur að Fiskiðjunni. Einn er sá þáttur sem ekki hefur verið minnst á en það er sameiginleg skrifstofa frystihúsanna, Samfrost. Þessi sameiginlega starfsemi hófst í kringum 1961, í smáum stíl þó. Í minningunni kemur upp nafn Guðlaugs Stefánssonar í hlutverki „loðnubankastjóra", þ.e. hann deildi út loðnu til línubáta. Ási í Bæ sá um að veiða loðnuna á bát sínum, Hersteini. Þessi veiðiskapur þætti frumstæður í dag, háfur, um tveir metrar í þvermál, dýpt í torfurnar og háfað um borð. Síðar komst starfsemi Samfrost í fastari skorður. Meðal þeirra sem veittu skrifstofunni forstöðu var Óskar Gíslason, síðar „ríkisstjóri", en lengst af var Arnar Sigurmundsson þar í forsvari. Fyrst var það hlutverk skrifstofunnar að reikna út bónus fyrir frystihúsin. Magnús Bjarnason (Muggur í Garðshorni) var um árabil og er enn „heilinn" á bakvið bónusútreikninga með öllum sínum stöðlum, stuðlum og tímamælingum, og naut ávallt verðugs trausts, bæði launþega og atvinnurekenda. Í mjög svo viðkvæmum útreikningum. Muggur var um tíma verkstjóri í Fiskiðjunni. Brátt jukust umsvifin og sameiginlegir launaútreikningar tóku við. Þessum útreikningum fylgdu sameiginleg tölvukaup.
Gísli Friðgeirsson eðlis- og kerfisfræðingur sá um tölvuþjónustuna við frystihúsin. Það var skemmtilegur aðdragandi að því hvernig Gísli var ráðinn. Hann kom hingað til Eyja til að starfa fyrir KFUM og K en fór fljótlega að vinna í Fiskiðjunni og var settur beint í slorið. Þá er það einhverju sinni að vinur minn og skólafélagi, Helgi Hróbjartsson prestur og trúboði er á ferð í Eyjum og kemst að því að Gísli er í slorinu eins og áður sagði. „Þið eruð flottir á því hér í Eyjum" segir Helgi. „með sprenglærða eðlisfræðinga við að gogga fisk." Átti þar við Gísla. Það er ekki að orðlengja það, goggurinn er tekinn af Gísla og honum stillt upp fyrir framan tölvurnar í Samfrost! Gísli varð síðar skólastjóri Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum. Þeir sem tóku við af Gísla voru: Jónas Sigurðsson, Guðlaugur Sigurgeirsson og síðustu árin Davíð Guðmundsson. Kristín Garðarsdóttir starfaði á skrifstofu Samfrost um tuttugu ára skeið og sá um bónusútreikningana.
Á aðalfundi í júlí 1979 tilkynnti Þorsteinn Sigurðsson að hann hafi afhent dætrum sínum, þeim Sigrúnu og Stefaníu. 1/3 hluta til hvorrar, af hlutafjáreign sinni í fyrirtækinu. Á stjórnarfundi í nóv. 1979 eru þeir Guðjón Ólafsson og Hjörtur Hermannsson ráðnir aðstoðarframkvæmdastjórar þar sem Guðmundur Karlsson hafði þá verið kjörinn á þing. Á sama fundi er greint frá því að FIVE hefði keypt Eyjaberg af Sigurði Þórðarsyni.
Á árunum 1980 og 1981 var mikið rætt um það í stjórninni að reisa hús norðan við Fiskiðjuna og flytja þangað móttöku á fiski og saltfiskverkun. Fenginn var verkfræðingur til að teikna húsið og skipuleggja. En það er eins og svo margt annað að þetta komst aldrei lengra en á teikniborðið.
Laugardaginn 29. ágúst 1981 var stofnað félag um fiskeldi með þeim Sveini Snorrasyni og Ólafi Skúlasyni. Það segir einhvers staðar að „í upphafi skal endirinn skoðaður". Þessi starfsemi átti ekki Ianga lífdaga fyrir höndum og var fljótlega hætt.
Í fundargerð frá 16. jan. 1987 kemur fram að Sigrún Þorsteinsdóttir býður félaginu eignarhlut sinn í fyrirtækinu til kaups. Þeir Guðmundur Karlsson, Haraldur Gíslason og Viktor Helgason kaupa hlut Sigrúnar, þriðjung hver. Hinn 10. júlí 1987 andaðist Gísli Þorsteinsson og Gísli Már Gíslason erfir hlut föður síns í fyrirtækinu. Situr hann sinn fyrsta aðalfund í fyrirtækinu 19. sept. 1987. Á hluthafafundi 24. okt. 1988 lá fyrir bréf frá Gísla Má þar sem hann greinir frá sölu á hlut sínum í fyrirtækinu, sem er 33%, til Sæhamars hf. Hluthafar Sæhamars voru þá, eins og segir í fundargerð, þeir Þórður Rafn Sigurðsson, Bergvin Oddsson, Gunnlaugur Ólafsson, Sveinn Valdimarsson, Steindór Árnason, Guðjón Rögnvaldsson og Guðni Ólafssson. Þórður, Bergvin og Gunnlaugur eiga 1/5 hluta hver en Sveinn, Steindór, Guðjón og Guðni 1/10 hluta hver.
Þessir aðilar höfðu yfir miklum afla að ráða og voru menn bjartsýnir á að það myndi treysta stoðir fyrirtækisins. Það skal ósagt látið hvort þær vonir, sem menn gerðu sér, hafi ræst en heldur hallaði undan fæti á næstu árum og voru margir samverkandi þættir þess valdandi. T.d. var hráefnisverð mjög hátt, um og yfir 60% af framleiðsluverðmæti, vextir af lánum orðnir hærri en vinnulaun, um 25%. Þá er hægt að sjá í hendi sér að við svo búið gekk dæmið ekki upp, og því fór sem fór. Félagið var komið í öngstræti.
Í þessum skrifum mínum hefur verið stuðst nokkuð við fundargerðir fyrirtækisins og þá aðallega þar sem getið er breytinga á eignarhlut einstaklinga. Um einstakar ákvarðanir á seinni árum hefur ekki verið getið hér. Starfsemi Fiskiðjunnar lauk um áramótin 1991-92, og samrunni Fiskiðjunnar og FIVE við Vinnslustöðina orðin staðreynd.
Þess má að lokum geta að Fiskiðjan var ávallt með stærstu framleiðendum innan Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna; t.d. í 5. sæti með 3.700 tonna afurðirárið 1989.
Síðasta stjórn Fiskiðjunnar hf. var þannig skipuð: Guðjón Rögnvaldsson, Viktor Helgason, Haraldur Gíslason, Þórður Rafn Sigurðsson og Guðmundur Karlsson; í varastjórn: Guðni Ólafsson og Steindór Árnason.
Í þessum greinarstúf um Fiskiðjuna hefur ekki verið minnst á allan þann fjölda fólks sem unnið hefur í Fiskiðjunni. Margur unglingurinn byrjaði sinn starfsferil á að slíta humar á sumrin og náði vart upp á borðið öðruvísi en að standa á kössum. Það kemur glampi í augun á fólki þegar rætt er um þessi tímabil og það minnist fyrstu útborgunarinnar. Það er af sem áður var; nú stefnir allt í að enginn megi dýfa hendi í kalt vatn fyrr en hann er hálffullorðinn, sem getur svo af sér iðjuleysi og unglingavandamál.
Þar sem getið hefur verið um fyrstu verkstjóra fyrirtækisins þá er rétt að nefna þá sem fóru með verkstjórn þegar starfseminni var hætt. Þau voru: Sigurgeir Sigurjónsson yfirverkstjóri, Lárus Long, Sandra Ísleifsdóttir, Ísleifur Vignisson, Jakob Möller, Jóhann Ólafsson, Davíð Helgason, Viðar Óskarsson rafvirki, Hörður Runólfsson vélsmiður, Þorsteinn Jónsson smiður og Ágúst Óskarsson vélstjóri. Þorsteinn Guðjónsson (Steini á Lögbergi „stappari") sá um að mata flökunarvélarnar af mikilli samviskusemi.
Fram að þessu hefur ekkert verið minnst á skrifstofuhaldið. Fyrst var skrifstofa félagsins í kjallaranum í Valhöll. Þórarinn Jónsson frá Ármóti var skrifstofustjóri og bókari. Með honum vann Margrét (Lilla) í Þinghól. Á þriðja ári var flutt á III. hæð Útvegsbankans og verið þar í tíu ár. Þá var flutt í Drífanda og verið þar önnur tíu ár; síðan aftur í Útvegsbankann og árið 1982 var loks flutt í eigið húsnæði á þriðju hæð Fiskiðjunnar. Lengst af vann Valgerður Ragnarsdóttir á skrifstofunni. Eigi skulu nefnd hér fleiri nöfn því að viðbúið er að þeir gleymist sem síst eiga það skilið. Samt eru það nokkur sem ekki verður komist hjá að minnast á og voru svo samtvinnuð fyrirtækinu að þau voru nokkurs konar samnefnarar Fiskiðjunnar. Fyrstan skal nefna Anton Bjarnasen. Hann var yfirbókari í áratugi, góður bókhaldsmaður og vandaður mjög. Við áttum saman langt og gott samstarf. Anton lést 23. júlí 1994, blessuð sé minning hans. Engilbert Þorvaldsson hætti ekki að vinna fyrr en á níræðisaldri og enn þá líður vart sá dagur að hann líti ekki inn í Fiskiðjuna „sína” þótt kominn sé á tíræðisaldur. Enn þá er það leyndarmál hvaða tilburði Engli hafði í frammi við að kæsa skötuna sína sem þótti með afbrigðum góð. Páll Jónsson vann í áratugi í saltfiskinum. Það var eins með Palla og Engla að hann kom daglega í heimsókn meðan heilsan leyfði. Ingólfur Þórarinsson var fyrst bílstjóri, síðan verkstjóri í saltfiski og saltsíldinni. Natni hans og samviskusemi var alkunn. Að lokum Kristný Ólafsdóttir sem skrifaði meira og betur en nokkur annar þar á bæ. Þau höfðu unnið í Fiskiðjunni nær öll árin sem hún var starfrækt, þetta fólk, ásamt fjölda annarra góðra manna og kvenna, voru ávallt vakandi um velferð Fiskiðjunnar.
Af þeim þremur, sem stofnuðu Fiskiðjuna á sínum tíma, er Þorsteinn einn á lífi og dvelst á Hraunbúðum hér í bæ. Eins og komið hefur fram lést Gísli 10. júlí 1987 og Ágúst andaðist 21.jan. 1988, þá búsettur í Reykjavík.
Og læt ég þá hér með lokið þessum stiklum úr sögu Fiskiðjunnar, ásamt eigin hugrenningum. Að lokum vil ég þakka öllum þeim fjölda fólks, vítt og breitt um landið, sem ég hef kynnst á löngum starfsferli, fyrir góð kynni. Guð blessi ykkur. Einnig hvarflar hugurinn til þeirra sem hafa gengið veginn á enda. Blessuð sé minning þeirra.
Skrifað um jól og áramót 1996-97.