Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1997/Félag áhugamanna í Vm. um öryggismál sjómanna
Þetta er óformlegt félag sem stofnað var 1982 af nokkrum mönnum sem í mörg ár höfðu unnið saman að öryggismálum sjómanna. Engin lög eru til um starfsemina, engin sérstök stjórn hefur verið kosin og engin árgjöld eru innheimt. Þrátt fyrir þetta fyrirkomulag hefur félagið komið mörgu til leiðar og staðið fyrir margs konar tilraunum.
Eins og nafnið bendir til er markmið félagsins aðeins eitt, að auka öryggi sjómanna eins og kostur er og sameina þá sem áhuga hafa á öryggismálum sjómanna. Mikil vinna hefur farið í að reyna að kynna björgunartæki sem Sigmund Jóhannsson og Björgvin Sigurjónsson (Björgvinsbeltið) í Vestmannaeyjum hafa fundið upp. Þrátt fyrir að þessi tæki hafi margoft sannað gildi sitt hafa opinberir aðilar á sviði öryggismála sjómanna á Íslandi og reyndar fleiri staðið í vegi fyrir þeim. Má þar nefna menn frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna í Reykjavík.
Reynsla og tilraunir félagsmanna með tækin hafa sannað ágæti þeirra. Má þar nefna margar tilraunir með Sigmundsbúnaðinn, bæði í landi og á sjó, þar sem tekið hafa þátt margir menn og bæði smátrillur, bátar og skuttogarar. Þá stóð félagið fyrir því að sökkva 50 tonna bát til að prófa sjálfvirka hluta Sigmundsbúnaðar. Fjöldi manna tók þátt í undirbúningi að þeirri tilraun.
Félagið gerði einnig prófanir með gúmmíbjörgunarbáta þar sem þeim var sökkt niður á 90 - 100 m dýpi austan við Eyjar til að prófa hve mikla uppdrift þeir hafa til að slíta líflínu sína á mismunandi dýpi. Skýrsla um þá tilraun var send til Víking gúmmíbátaframleiðanda í Danmörku.
Í flestum tilfellum hafa útgerðarmenn í Vestmannaeyjum verið með í forustusveit og tekið virkan þátt í þessu starfi og þegar með þarf lánað skip sín og tæki endurgjaldslaust.
Í sundlaug Vestmannnaeyja voru m.a. gerðar tilraunir með bátslíkön til að reyna að líkja eftir þvf hvernig gúmmíbátar hegða sér þegar þeir losna óblásnir frá skipum sem eru á hvolvi og sökkva. Vídeómyndir hafa verið teknar af flestöllum tilraunum sem félagið hefur gert og í mörgum tilfellum gerðar skýrslur um árangur.
Félagið hefur staðið fyrir, ásamt öðrum, útgáfu á neyðaráætlun fyrir áhafnir skipa og spjaldi um bendingar við hífingar sem Jói listó gerði, en mörg slys til sjós verða vegna óljósra bendinga milli manna.
Þó allir félagar gefi vinnu sína þarf alltaf peninga til að gera þessar tilraunir. Það eru aðallega tvö félög sem hafa styrkt okkur í áhugamannafélaginu með peningagjöfum, það er Kiwanisklúbburinn Helgafell og Slysavarnadeildin Eykindill. Þökkum við þeim kærlega fyrir þann stuðning. Þess ber einnig að geta
að mörg fyrirtæki, sem við höfum leitað til, hafa styrkt okkur með vinnu sem unnin er endurgjaldslaust.
Félagið hefur nú fengið aðstöðu í Rannsóknarsetri Háskóla Íslands við Strandveg. Vonandi á félagið eftir að starfa um ókomin ár.
Sjómenn! Reynslan hefur sýnt að við þurfum sjálfir að berjast hart fyrir öryggismálum okkar, og það við ólíklegustu öfl í þjóðfélaginu. Þess vegna var þetta félag stofnað.
- Friðrik Ásmundsson,
- Friðrik Ásmundsson,
- Sigmar Þór Sveinbjörnsson