Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1997/Að synda í faðm fjölskyldunnar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Bjarni Jónasson


AÐ SYNDA Í FAÐM FJÖLSKYLDUNNAR


Ég held að ég hafi aldrei fengið flugdellu þó að því verði vart trúað af sumum. Aftur á móti fékk ég áhuga á flugi sem þægilegum samgöngumáta þegar ég hafði stofnað til sambands við blómarós úr þeirri afskekktu sveit Öræfum.
Lengi hef ég haft gaman af því að virða fyrir mér landakort og ég hef velt fyrir mér stefnum og fjarlægðum. Það blasti við að til að komast í Öræfasveit frá Eyjum, hér á árum áður, þurfti maður fyrst að sigla eða fljúga í öfuga átt til Reykjavíkur til að taka þar flugvél austur á Fagurhólsmýri með ærnum aukakostnaði og tímasóun sem átti illa við ungan óþolinmóðan ofurhuga.
Því skal hér skotið að, að mér hafði gengið afleitlega í kvennamálum og vestmannneyskar blómarósir töldu það ekki inni í myndinni að vera með Bjarna færeyingi. Heldur vildu þær vera í hallæri og jafnvel ganga í klaustur. Þá voru menn ekki farnir að flytja inn taílenskar konur. En það kom fyrir að saklausar sveitastúlkur slæddust hingað út og kom þá fyrir að ólíklegustu menn duttu í lukkupottinn.
Sumarið 1960 var ég fyrsti vélstjóri á Freyju VE 260 sem var 51 brúttórúmlesta trébátur, smíðaður í Frederiksund 1954. Af hagkvæmnisástæðum hafði ég ákveðið að stíga af skipinu við Ingólfshöfða á heimleið af síldarmiðunum fyrir Austurlandi þegar vertíð lyki. Með því gat ég komist til konu minnar og barna sem höfðu dvalist hjá tengdafólkinu að Litla-Hofi í Öræfum meðan ég var á síldinni. Þetta var í leiðinni og með þessu gat ég sparað fé og fyrirhöfn, orðinn önugur af einlífinu. Ekki lá það í augum uppi hvernig ég ætti að komast í land í hafnleysinu við lngólfshöfðann.
Sigurður Sigurjónsson, eða Siggi á Freyjunni eins og hann var kallaður, sá öll tormerki á því að leyfa þetta tiltæki. „Það er ég sem er með Freyjuna og ég segi alltaf nei“ var hann vanur að segja.
Adólf Magnússon, eða Dolli stýrimaður í Sjónarhól, sagði þá við Sigga: „Þú er gamall og hræddur.“ Þó að annað ætti eftir að koma í ljós.
Mannskapurinn stóð með mér og var tilbúinn að aðstoða mig við að komast í land við Höfðann og var töluvert spenntur á heimleiðinni frá Neskaupstað.
Þarna voru í áhöfn kempur eins og Einar Sigurfinnsson, eða Klinkurinn, Jens færeyingur og fleiri, auk þeirra sem þegar eru nefndir.
Siggi lét ekki sjá sig á heimleiðinni og hélt fyrir í bestykkinu. Þetta var um miðjan ágúst, algjört koppalogn og himinsins blíða og aðstæður upp á það besta. Þegar við vorum að nálgst Höfðann fór ég inn til Sigga og sagði: „Jæja, Siggi minn, við erum að komast að Höfðanum.“ Þá sagði hann: „Nú jæja, farðu þá!“ Mér svelgdist á við þetta stutta svar, en svona gat hann verið kallinn, snöggur í tilsvörum.
Nú var slegið af og tekið til við að undirbúa og hrinda í framkvæmd einu af mínum geggjuðu tiltækjum. Þetta var snemma morguns og sumir stúrnir yfir því að vera vaktir af værum blundi. Léttbát eða skekktu vorum við ekki með, en nótarbátinn höfðum við, með nótinni í, eins og tíðkaðist á þessum árum. Þetta var afar óhentugt fley en var notað samt. Það hafði verið talað um að setja í mig líflínu en það var til rúlla af 6 eða 7 mm sísallínu um borð.
Ég hafði ákveðið að synda í grænum hermannagalla einum fata til lands og draga fötin mín á eftir mér í sjópoka. Það stóð til að Dolli reyndi að komast sem næst landi á nótarbátnum til að stytta mér sundið og eins var ekki vitað hvort sísalrúllan næði til lands. Þess ber að geta að þarna rétt vestan við Ingólfshöfðann er afar grunnt langt út.
Þegar allt var til reiðu fór ég niður í nótarbátinn og strákarnir tóku til við að damla í átt til lands með tveimur árum á þessum afar þunglamalega bát. Siggi fylgdi fast eftir á stóra bátnum. Hann var ekki hræddur þá. Þegar talið var að ekki yrði komist nær landi lét ég mig vaða í sjóinn með línuna í mér og sjópokann í eftirdragi.
Eins og fram er komið var veðrið mjög gott og hafði verið sól undanfarna daga, og mér fannst sjórinn ekki mjög kaldur, jafnvel volgur.
Nú byrjuðu vandræðin. Línan flæktist og fór öll óklár út og var þá bundin fangalína við. Þetta frétti ég ekki í smáatriðum fyrr en seinna þegar ég hitti mína menn aftur í Eyjum. Eins og fólki getur boðið í grun þá var afar erfitt að synda með þessa trossu aftan í sér. En verst af öllu var þegar Siggi varð að færa sig frá á stóra bátnum. Þegar stóri báturinn fór utar þá dró hann nótarbátinn með sér og ég var þess vegna dreginn með aftur á bak út, syndandi í átt til lands!
Auðvitað fannst mér þetta vera heil eilífð, en mér datt ekki í hug að gefast upp. Um síðir, þegar ég sá öldu brotna fyrir framan mig, datt mér loksins í hug að reyna að botna. Þá var ég kominn inn á örgrunnt vatn sem náði mér vart í klof.
Mín fyrstu viðbrögð, eftir að hafa staulast í land, voru að fleygja mér í sandinn og kasta mæðinni. Ekki lá ég þarna lengi. Ég þurfti að bjarga trossunni í land sem þeir höfðu þurft að sleppa. Þessi fangalína var lengi til á Litla-Hofi og var í miklu uppáhaldi og gekk undir nafninu „níloninn“ eða sparibandið og til þess gripið þegar mikið lá við.
Ekki var sopið kálið þó í ausuna væri komið. Frá Ingólfshöfða að Fagurhólsmýri, eða að Hofsnesi, eru um 10 km og yfir gljá eða leirur að fara. Það er sandur undir grunnu vatni, með dýpri álum nær bæjunum. Sandbleytur geta leynst á stöku stað.
Þar sem enginn vissi af ferðum mínum var þýðingarmikið að komast sem fyrst í símasamband til að geta látið þá á Freyju vita að ég væri „allright“.
Ég skildi sjópokann og trossuna góðu eftir í fjörunni. Hóf ég nú gönguna til bæja í hermannagallanum einum fata auk einhvers skófatnaðar. Fyrst þurfti ég að ganga yfir eða meðfram sandöldu sem myndast hefur vestan við Höfðann í austanátt. Þessi sandur er ákaflega laus í sér og seinfarinn, en yfir þennan sand varð ég að fara til að komast á viðurkennda leið sem liggur beint frá Höfðanum miðjum að flugvellinu á Fagurhólsmýri.
Eftir að hafa farið á selfjöru með Öræfingum taldi ég mig rata, en fyrst varð ég að finna slóðina ofan við Höfðann. Leiðin er troðin og hörð og merkt með stikum, en það er það eina sem maður getur áttað sig á. Þegar ég var búinn að finna stikurnar og lausa sandinum sleppti sóttist gangan betur þrátt fyri vatnsslabbið. „Þú ert pínulítill karl“ segir í textanum góða, en mér hefur oft orðið hugsað til þess hve pínulítill ég var þarna úti í auðninni vaslandi eftir leirunum umflotinn ökladjúpu vatni svo kílómetrum skipti, líkast því að vera staddur úti á ballarhafi. Mér þykir líklegt að þessi ganga hafi tekið tvo til þrjá tíma, en tímaskyn mitt var heldur dapurt þegar hér var komið sögu.
Ég þurfti að vaða nokkra ála þegar nær dró gróna landinu þar sem leirunum sleppir. Eini gallinn við það var að vatnið í þeim var heldur kaldara en þar sem það var grynnra.
Þegar ég fór að nálgast bæi fór ég að reyna að vekja á mér athygli með því að veifa öllum skönkum, en það bar engan árangur. Einn mann sá ég á gangi, en hann virti mig ekki viðlits. Hefur sennileg ekki trúað sínum eigin augum. Þeir eru heldur ekki með neina framhleypni, Öræfingar, og eru ekkert að troða fólki um tær að óþörfu.
Þegar nær dró bænum á Hofsnesi þurfti ég að vaða yfir einhverja leirpytti eða skurði, en ég fór beint af augum. Við það varð ég nokkuð leirugur, kámugur og ófrýnilegur.
Ég get trúað ykkur fyrir því að konan, sem lauk upp fyrir mér þegar ég knúði dyra að Nesi þennan sólskinsdag seint í ágúst 1960, var nokkuð stóreygð og furðu lostin. Engu var líkara en hún hefði séð afturgöngu.
Ég geri ráð fyrir að hann Palli Bergs, mágur minn, hafi skroppið með mig á Wyllisnum sínum út á fjöru síðla dags til að sækja sjópokann og sparitógið góða sem fyrr getur.
Ólafur Schram, fyrrverandi snúningastrákur á Litla-Hofi, getur þess í minningargrein um Gunnar Þorsteinsson, bónda þar, í Morgunblaðinu 18. febrúar 1995. bls 38, að hann hafi verið sendur eftir „níloninum“ eða sparibandinu til að draga upp Fergusoninn þar sem hann sat fastur úti í Veitu. Gömlu hamptógin dugðu ekki!