Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1997/10 ára afmæli útibús Hafrannsóknastofnunar í Vm.

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


HAFSTEINN GUÐFINNSSON


10 ÁRA AFMÆLI ÚTIBÚS HAFRANNSÓKNASTOFNUNAR Í VESTMANNAEYJUM



Á haustdögum 1996 átti útibú Hafrannsóknastofnunar í Vestmannaeyjum 10 ára starfsafmæli. Útibúið hóf starfsemi í nýinnréttuðu húsnæði í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum 1. október 1986 en tók formlega til starfa í byrjun desember sama ár. Einn helsti hvatamaður að stofnun útibús frá Hafrannsóknastofnun í Vestmannaeyjum var Árni Johnsen þingmaður. Má segja að hann hafi upp á eigin spýtur brotið niður alla þá múra sem þurfti til að koma málinu í höfn. Árni hafði forgöngu um fjárveitingar frá Alþingi til að innrétta húsnæðið en einnig í framhaldinu fékkst nokkurt fé fyrir milligöngu þáverandi fjármálaráðherra Þorsteins Pálssonar til kaupa á smásjám fyrir útibúið og lagði hann því þannig gott lið á bernskuárum þess.

Forsaga.
Lengi hafði blundað í mönnum í Vestmannaeyjum að koma á fót starfsemi frá Hafrannsóknastofnun í Vestmannaeyjum. Á árunum upp úr 1970 voru forystumenn Útvegsbændafélagsins og fiskvinnslustöðvanna í Eyjum farnir að ræða alvarlega að sækja um að fá til Eyja starfsemi frá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og Hafrannsóknastofnun. Á þessum tíma var komin upp umræða á Alþingi og víðar í þjóðfélaginu um að flytja starfsemi ríkisstofnana, eða að minnsta kosti hluta þeirra, út á land. Og enn er sú umræða í gangi. Boðið var fram húsnæði undir báðar stofnanirnar af Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum. Tók útibú Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins til starfa í Vinnslustöðinni haustið 1972 og var starfsemin í eigu fiskiðnaðarfyrirtækja í Vestmannaeyjum en undir faglegu eftirliti Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins í Reykjavík.
Útibú Hafrannsóknastofnunar var í burðarliðnum á þessu hausti og hefði sennilega tekið til starfa á árinu 1973 ef ekki hefði komið babb í bátinn. Eldgos hófst á Heimaey í janúar 1973, sem varð til þess að fólk og fyrirtæki höfðu um nóg annað að hugsa en að setja á stofn útibú frá Hafrannsóknastofnun. Lögðust þessi áform því í dvala, en herbergin í Vinnslustöðinni, sem ætluð höfðu verið undir starfsemina, biðu síns tíma.
Það var síðan á árinu 1985 að Árni Johnsen hóf að hreyfa við málinu aftur. Þá kom í ljós að húsnæðið, sem fyrr var boðið undir starfsemina, stóð enn ónotað og var enn í boði ef Hafrannsóknastofnun vildi koma á fót útibúi. Til að ýta enn frekar undir framgang málsins samþykkti stjórn Vinnslustöðvarinnar að Hafrannsóknastofnun skyldi fá afnot af húsnæðinu leigufrítt fyrstu fimm ár starfseminnar og gekk það eftir. Var þetta höfðinglega boðið. En að liðnum þessum tíma var greidd leiga sem þó var ákaflega væg.
Útibú Hafrannsóknastofnunar starfaði í Vinnslustöðinni til haustsins 1994 en fluttist þá á 3. hæð Hvíta hússins að Strandvegi 50. Forsaga þess er sú að haustið 1993 fóru forráðamenn Vestmannaeyjabæjar ásamt Árna Johnsen í viðræður við Háskóla Íslands, og þá aðallega prófessor Þorstein Inga Sigfússon, um að tímabært væri að Háskólinn víkkaði út starfsemi sína og hæfi rannsóknastarf í Vestmannaeyjum. En þá vantaði húsnæði fyrir slíka starfsemi. Forstöðumenn útibúa Hafrannsóknastofnunar (Hafsteinn Guðfinnsson) og Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins (Gísli Gíslason) ásamt forstöðumanni Fiska- og náttúrugripasafnsins í Eyjum (Kristján Egilsson) komu þá saman og rituðu bréf til þessara aðila þar sem bent er á að sú starfsemi, sem þeir standi fyrir, séu litlir vinnustaðir og slíkt sé ekki æskilegt í nútíma rannsóknum. Því skyldu menn hugsa sig tvisvar um áður en komið væri á fót enn einum slíkum í einu herbergi eða tveimur í bænum. Nauðsynlegt væri að tengja alla þessa vinnustaði saman og helst að flytja þá undir sama þak þannig að samvinna gæti verið meiri, samnýting tækja yrði möguleg og síðast en ekki síst að þar með tækist að skapa stærra rannsóknarumhverfi á einum stað. Er skemmst frá því að segja að þeir menn, sem höfðu forystu um að fá starfsemi frá Háskóla Íslands til Vestmannaeyja, tóku afar vel í þessar hugmyndir svo og forstjórar Hafrannsóknastofnunar og Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins. Fór svo að samstarfsnefnd Háskóla Íslands og Vestmannaeyjabæjar keypti 2. og 3. hæð Hvíta hússins svokallaða að Strandvegi 50 í apríl 1994 og var fljótlega hafist handa um breytingar. Samstarfsnefndin sá um fjármögnun kaupanna og breytinganna að langmestu leyti. Þó lögðu Hafrannsóknastofnun og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins 2,5 m.kr. hvor til húsnæðisins auk innréttinga í sín vinnusvæði, en eru annars leigjendur.
Hinn 14. okt. 1994 var hið nýja húsnæði vígt og flutti útibú Hafrannsóknastofnunar inn þann sama dag. Var þetta mikil breyting til hins betra, í nýja húsnæðinu er meira rými og öll aðstaða til muna betri en á gamla staðnum, auk þess sem aðgangur að ýmsum hlutum er miklu betri, ekki síst hvað varðar tæki og tölvusambönd.
Auk Hafrannsóknastofnunar eru í húsinu Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Háskóli Íslands. Þróunarfélag Vestmannaeyja, Tölvun, sem er þó flutt út að mestu, og Náttúrufræðistofa Suðurlands sem er nýflutt inn í húsið. Starfsmönnum í húsinu hefur því fjölgað og mun vonandi fjölga enn frekar í næstu framtíð. Og þó að fólk á þessum stofnunum sé að vinna við ýmsa mismunandi hluti tengjast rannsóknirnar saman á margvíslegan hátt.

Starfsemin.
Starfsemi útibús Hafrannsóknastofnunar hefur verið margvísleg frá byrjun. Fastur punktur í starfsemi útibúa Hafrannsóknastofnunar er að afla upplýsinga um veiðar og gera mælingar á lönduðum afla einstakra nytjategunda. Gerðar eru lengdarmælingar til að sjá lengdardreifingu atlans, teknar kvarnir til að kanna aldurssamsetningu hans og nú hin síðustu ár hefur allur fiskur, sem tekinn er til kvörnunar, einnig verið vigtaður slægður, en á vetrarvertíð einnig óslægður ef næst til hans þannig. Þessar upplýsingar eru síðan notaðar með öðrum til að reikna stofnstærð nytjastofna og fylgast með sókn í ýmsa árganga stofnanna.
Fiskmerkingar hafa aukist aftur hin síðari ár á Hafrannsóknastofnun. Þær gefa upplýsingar um göngur fiska og vaxtarhraða ef vel tekst til. Merkt hefur verið með númeruðum merkjum sem skotið er undir bakugga þorskfiska en undir roð kola á dökku hliðinni. Hin síðustu ár hafa einnig nokkrir tugir fiska á ári verið merktir með rafeindamerki sem skrá og geyma upplýsingar um dýpi og hitastig þar sem fiskurinn fer. Slík merki hafa gefið mjög góðar upplýsingar og er verið að taka saman niðurstöður um þessar merkingar. Margir sjómenn hafa samband við útibúið fái þeir merktan fisk þannig að hægt sé að mæla hann, vigta, kyngreina og safna öllum upplýsingum sem nauðsyniegar eru til að merkingin gefi hámarksvitneskju. Þá er einnig mjög nauðsynlegt að fá nákvæmar upplýsingar um veiðistað, veiðidag, veiðarfæri og dýpi þar sem hinn merkti fiskur fékkst. Ég vil hvetja sjómenn til að hafa auga með merktum fiskum því að merkingar hafa aukist svo mikið síðustu árin að nokkuð algengt er að menn fái merkta fiska.
Útibúið hefur séð um töku bóluþangs- og kræklingssýna til mengunarmælinga í mörg ár fyrir hóp sérfræðinga í Reykjavík. Fyrstu árin var safnað sýnum fjórum sinnum á ári, en síðustu árin aðeins einu sinni á ári. Slíkar sýnatökur fara fram á nokkrum völdum stöðum við Ísland. Niðurstöðum er ætlað gefa vísbendingar um hvort mengandi efni í lífverum fari vaxandi eða standi í stað. Auk áðurgreindra lífvera hefur verið safnað upplýsingum og gerðar mælingar á ýmsum fisktegundum, næringarsöltum í sjó og sjávarseti. Margir þættir eru mældir, t.d. þungmálmar (kadmíum, kopar, zink), þrávirk lífræn efni og geislavirk efni. Öll þessi efni eða efnaflokkar eiga það sameiginlegt að safnast fyrir í lífverum þegar mengun af völdum þeirra fer vaxandi. Afleiðingar þeirra eru oft vanskapnaður, ófrjósemi og sjúkdómar. Engar breytingar hafa komið fram í þessum mælingum við Vestmannaeyjar síðustu árin og níðurstöður mælinga eru vel undir viðmiðunuargildum sem stuðst er við.

Rannsóknaverkefni.
Útibúið hefur staðið fyrir nokkrum rannsóknaverkefnum eitt og sér en einnig tekið þátt í stærri verkefnum í samstarfi við sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar og fleiri. Verkefnið „Fiskgengd við Vestmannaeyjar" hefur að markmiði að safna upplýsingum um aldurs- og lengdardreifingar þorsks og ýsu við Vestmannaeyjar. Verkefnið hófst áfið 1987 og var fyrstu gögnum safnað það haust. Síðan hefur verið safnað gögnum árlega. Hin síðari ár hefur verkefnið einkum beinst að svæðinu innan þriggja mílna við Vestmannaeyjar en það svæði hefur verið lokað fyrir tog- og dragnótaveiðum frá því í febrúar 1992. Farnir hafa verið í það minnsta tveir rannsóknaleiðangrar á ári á svæðið á miðju sumri (júIí) og á haustin (okt.-nóv.). Þá hafa mælingar einnig verið gerðar úr lönduðum línuafla á þessum árum. Helstu niðurstöður eru að afli á togtíma í rannsóknatogum bæði sumar og haust hefur margfaldast hvað varðar ýsu og þorsk frá því að lokunin var sett á. Margir bátar hafa tekið þátt í þessu verki, einkum fyrir árið 1992 en síðan einkum skip Ísfélags Vestmannaeyja. Vil ég nota tækifærið og þakka skipshöfnum þeirra og útgerðum sérstaklega fyrir samstarfið.
Verkefnið „Ýsukönnun á grunnslóð við Suðurströndina" hefur verið í gangi frá haustinu 1988. Er það unnið í samvinnu við Einar Jónsson fiskifræðing en hann hefur haft málefni ýsunnar á sinni könnu innan Hafrannsóknastofnunar undanfarin ár. Í því verkefni er safnað gögnum um lengdar- og aldursdreifingu ýsu á grunnslóð frá Þorlákshöfn í vestri að Hrollaugseyjum í austri. Síðustu þrjú ár hefur visst úrtak ýsu verið vigtað slægt og óslægt, lifur vegin og gerð gróf athugun á magainnihaldi og það vegið. Skýrsla um þessar rannsóknir yfir árin 1989 til 1994 er í lokavinnslu.
Langoftast hefur verið farið í þessa leiðangra á skipum frá Ísfélaginu, þ.e. Álsey eldri og yngri og Bjarnarey, en einu sinni á Frá. Hafa þessir aðilar lánað skip sín endurgjaldslaust öll þessi ár til rannsóknanna og er full ástæða til að þakka fyrir þá velvild sem þessi fyrirtæki hafa sýnt útibúi Hafrannsóknastofnunar með þessu framtaki.
Forstöðumaður hefur tekið þátt í fimm manna rannsóknahópi um verkefni sem hefur að markmiði að kanna vistfræði á hrygningarslóð fyrir Suðvesturlandi. Verkefnið stóð yfir á árunum 1990-92 og voru farnir þrír leiðangrar hvert vor til könnunar á sjófræði (hitastigi og seltu), næringarefnum, svifþörungum, átu, fiskeggjum og fisklirfum. Úrvinnsla úr þessum gögnum hefur staðið yfir síðan og er fyrsta heildarskýrsla um rannsóknirnar væntanleg á árinu 1997.
Hluti af þeim rannsóknahóp, sem stóð fyrir fyrrgreindum rannsóknum, hélt síðan áfram með verkefni til könnunar á líffræði rauðátu og svifþörunga á árunum 1993 og 1994 og var útibússtjóri þar á meðal. Úrvinnsla á þeim gögnum stendur yfir.
Í ársbyrjun 1996 hófst verkefni við útibúið sem hefur það markmið að kanna árshringrás svifþörunga í Háfadýpi. Útbússtjóri stendur einn að verkefninu. Safnað er gögnum um hitastig, seltu, næringarefni og svifþörunga á þremur stöðvum í Háfadýpi. Gagnasöfnun hófst í janúar 1996 og hefur farið fram á rannsóknabátnum Friðriki Jessyni VE 177 og lauk í ársbyrjun 1997. Verkefnið hlaut 2,2 m.kr. í styrk úr Lýðveldissjóði. Var hluta fjárins varið til kaupa á fullkomnu hitaseltumælingartæki sem mælir hitastig og seltu samfellt þegar því er slakað frá yfirborði til botns. Úrvinnsla gagna í verkefninu er nokkuð á veg komin.
Útibúið hefur einnig tekið þátt í verkefni á árinu 1996 sem hefur að markmiði að meta framleiðni botndýra á tveimur stöðum við Vestmannaeyjar. Verkefnið er unnið í samvinnu Háskóla Íslands í Vestmannaeyjum og líffræðideildar Háskóla Íslands í Reykjavík. Gagnasöfnun fór að mestu leyti fram á rannsóknabátnum Friðrik Jessyni VE 177 en einnig á togbátum frá Vestmannaeyjum, og er lokið að hluta, en það sem eftir er fer fram á árinu 1997.
Mörg smærri verkefni hafa verið unnin við útibúið sem ekki er ætlunin að tíunda hér, þar á meðal við Fiskasafnið í Vestmannaeyjum. Þá hefur útibússtjóri tekið þátt í ýmsum leiðöngrum sem eru gerðir út af öðrum verkefnum, t.d. humri, togararalli, netaralli, Greenland Sea Project og fleiri.

Rannsóknabátur.
Í árslok 1993 bauðst útibúinu fjárveiting frá sjávarútvegsráðuneytinu (Þorsteini Pálssyni sjávarútvegsráðherra) í gegnum Hafrannsóknastofnun til kaupa á rannsóknabát. Var keyptur bátur af gerðinni Gáski 1000, um 10 tonn að stærð, og var hann nefndur Friðrik Jesson VE 177 eftir þeim manni sem stofnsetti og rak Fiskasafn Vestmannaeyja í tæp þrjátíu ár. Friðrik var sá maður á Íslandi sem mest vissi um atferli og eldi sjávarfiska og sjávarlífvera um árabil og var því vel við hæfi að báturinn bæri nafn hans. Báturinn hefur verið í notkun í þrjú ár, mismikið á hverju ári. Hann er ágætlega útbúinn til sjórannsókna og hefur reynst vel. Þó nokkur verkefni eru bókuð á hann á árinu 1997.

Framtíðarhorfur.
Varla verður svo skilist við þessa grein að ekki sé tæpt á framtíðarhorfum útibús Hafrannsóknastofnunar í Vestmannaeyjum. Útibúið er á margan hátt mjög vel sett. Það hefur gott húsnæði og góða starfsaðstöðu og hefur yfir að ráða rannsóknabát. Það hefur einnig fengið fjárveitingar öðru hverju til kaupa á tækjum. Það er komið í sambýli við aðrar rannsóknastofnanir í Vestmannaeyjum sem skapar mun frjórra umhverfi en áður. En það sem háir virkilega starfsemi útibúsins er mannekla. Verkefnin sem eru í gangi í útibúinu eru það víðamikil að bæta þyrfti við einum starfsmanni, helst tveimur, til þess að úrvinnsla gæti gengið hraðar fyrir sig. Öll starfssemi útibúsins, bæði inn á við og út á við, yrði margfalt öflugri með fleiri starfsmönnum. Í nýrri rannsóknastefnu Hafrannsóknastofnunar fyrir árin 1997 til 2001, sem nú er að líta dagsins ljós, kemur fram vilji stjórnenda stofnunarinnar til að bæta hag útibúanna með því að fjölga þar starfsmönnum. Ef þetta gengur eftir er enginn vafi að starf útibúsins í Vestmannaeyjum mun eflast og verkefni og starf næstu tíu ára verður væntanlega mun umfangsmeira en fyrstu tíu árin.
Í janúar 1997 kom nýr maður til starfa í útibúið í eitt ár og mun búa hér í Eyjum á meðan. Þessi starfsmaður, Hildur Pétursdóttir líffræðingur, mun sinna ákveðnu verkefni sem fjallar um líffræði rauðátu á hrygningarslóð og er safnað gögnum á þremur stöðvum í Háfadýpi. Söfnun fer fram tvisvar í mánuði, frá janúar til desember, á rannsóknabátnum Friðrik Jessyni og úrvinnsla sýna fer að stórum hluta fram í útibúinu í Eyjum. Ekki er að efa að þetta verkefni er tímamótaatburður fyrir útibúið. Þar með er sýnt að starfsfólk Hafrannsóknastofnunar getur, ef vilji er fyrir hendi, farið út í útibú stofnunarinnar og sinnt þaðan ákveðnum verkefnum, hvort sem er um lengri eða skemmri tíma, en það var einmitt eitt af markmiðunum með stofnun þeirra á sínum tíma.

Hafsteinn Guðfinnsson