Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1996/ Slysavarnamál sjómanna

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Sigmar Þór Sveinbjörnsson


SLYSAVARNAMÁL SJÓMANNA


Það er oft erfitt að meta árangur af starfi þess fólks sem vinnur að slysavarnamálum. Með rökum má þó staðfesta að menn, eða björgunarsveitir, hafa bjargað mannslífum. En það gleymist oft að á bak við björgunarsveitirnar eru félagasamtök, fyrirtæki, áhugamenn og konur sem skapað hafa þessum aðilum góða aðstöðu til að geta tekist á við erfið verkefni til bjargar mannslífum, svo að ekki sé nú talað um þau slys sem komið er í veg fyrir með fyrirbyggjandi aðgerðum. Blaðaskrif og hvers konar áróður kosta mikla peninga sem ekki er hægt að meta til árangurs með tölum eða línuritum.
Ég er t.d. sannfærður um að Slysavarnadeildin Eykyndill hefur með starfi sínu bjargað tugum ef ekki hundruðum mannslífa. Engin deild á landinu hefur lagt meira af mörkum til þessara mála en Slysavarnadeildin í Vestmannaeyjum. Þetta hef ég skoðað með því að fylgjast með starfi þessara kvenna og lesa Árbækur Slysavarnafélags Íslands.
Eitt af mörgum góðum málum, sem Eykyndill hefur beitt sér fyrir á síðustu árum, er þegar gefin voru Björgvinsbelti í alla báta og skip í Vestmannaeyjum. Ég hef haft góða aðstöðu til að fylgjast með sjóslysum sem urðu kringum landið á síðustu 10 árum. Það eru mörg mannslífin sem Björgvinsbeltin hafa bjargað, og oft með beltum sem Eykyndilskonur gáfu hér í flotann. Í þessum tilfellum er hægt að meta árangur þó að það sé ekki gert, enda ganga þessar konur ekki eftir því að fá þakkir fyrir það starf sem þær vinna að öryggismálum sjómanna.
Það er mín skoðun að slysavarnadeildir um land allt ættu frekar að vinna þannig að öryggismálum heldur en að kosta áróður upp á margar milljónir króna sem því miður virðist ekki skila miklum árangri. Kiwanismenn hafa t.d unnið þannig með beinum gjöfum á tækjum sem ætluð eru til að auka öryggi. Má þar nefna öryggishnappana hér niðri við höfn. Bein fræðsla fyrir sjómenn skilar einnig miklu meiri árangri eins og Slysavarnaskóli sjómanna hefur margsannað á síðustu árum. Hann beitir sér aðallega fyrir því að sjómenn bregðast rétt við þegar slys verða, en er ekki með fræðslu um fyrirbyggjandi aðgerðir hvað varðar skipið sjálft, en það er næsta skref.
Maður heyrir oft sagt að nú sé komið nóg af öryggistækjum um borð í skipin og þau séu orðin svo örugg að nú þurfi bara fræðslu fyrir sjómenn til að koma í veg fyrir slys. Við heyrum reyndar ekki þannig talað þegar rætt er um öryggi bíla eða flugvéla. Ég fellst auðvitað á þetta með fræðsluna en það vantar töluvert á að skipin sjálf séu öll í lagi. Það kom vel í ljós þegar gert var stöðugleikaátak allt í kringum landið á öllum skipum undir 15 m. Í þessu átaki fundust margir bátar sem ekki stóðust lágmarkskröfur um stöðugleika og reyndust hættulegir. Ég hef grun um að ástandið sé ekki betra á mörgum bátum sem eru lengri en 15m.
Í Vestmannaeyjum hefur alltaf verið mikill áhugi fyrir öryggismálum sjómanna. Það er sennilega skýringin á því að héðan koma flestar nýjungar í öryggismálum. Má þar nefna talstöðvar, gúmmíbáta, tilkynningarskyldu, öryggi á netaspil, Björgvinsbelti, ljós á bryggjustiga, krafa um rannsókn á reki gúmmíbjörgunarbáta og Sigmunds-sleppibúnaðinn, svo að eitthvað sé nefnt. Það má líka nefna að margar hugmyndir eru til sem eftir er að vinna úr og prófa. En það kostar mikla vinnu og þolinmæði að koma þessum tækjum á framfæri þó kostir þeirra séu augljósir flestum mönnum. Það tók t.d. níu ár að fá öryggisloka á netaspil viðurkenndan og lögleiddan, en á þessum níu árum urðu 92 slys við netaspil. Öll slysin, sem mörg voru mjög alvarleg, urðu við spil sem ekki höfðu neyðarstopp. Þessi stoppari, sem Sigmund fann upp, útrýmdi alveg slysum við netaspil.
Sigmunds-sleppibúnaðurinn er að mínu mati álíka mikil bylting og þegar gúmmíbátarnir komu um borð í skipin. Þess vegna er það með ólíkindum undarlegt hve illa hefur gengið að fá hann gegnum kerfið. Það er að mínu mati engan veginn eðlilegt.
Þann 6. mars 1995 fékk Sigmunds-gálginn loksins fullnaðarviðurkenningu Siglingamálastofnunar, eftir 14 ára baráttu sjómanna. Þetta var að vísu annað skiptið sem hann var viðurkenndur en viðurkenningin var tekin af honum 1988. Enginn skilur nú af hverju það var gert, og er verðugt rannsóknarefni. Áður en viðurkenningin fékkst höfðu verið gerðar prófanir á gálganum sem hann stóðst allar. Þar með er það staðfest, sem Vestmannaeyingar hafa alltaf haldið fram, að gálginn stenst kröfur reglugerðar um öryggisbúnað íslenskra fiskiskipa.
Fram að þessu hefur sleppibúnaður bjargað 18 sjómönnum frá drukknun. Þetta er tala sem ég hef tekið saman úr sjóprófum þar sem sjómenn segja það beint að ef búnaðurinn hefði ekki verið um borð hefðu þeir ekki bjargast. Samt er enn verið að berjast á móti þessum tækjum.
Siglingamálastofnun er að vísu hætt því og mælir nú með búnaðinum, en nú eru það fræðingar LÍÚ sem ekki vilja búnaðinn um borð í skipin. Margt bendir til að þeir hafi alltaf unnið á móti málinu á bak við tjöldin. Það er þeirra aðferð til að ná sínu fram. En sem betur fer eigum við hér í Vestmannaeyjum framsýna útgerðarmenn sem hafa haft öryggi sjómanna í fyrirrúmi, og það sem meira er: þeir hafa haft forustu í þessum málum.
Saga Sigmunds-sleppibúnaðarins er að mörgu leyti merkileg. Hún sýnir svart á hvítu hvað sjómannslífið er í raun lítið metið af embættismönnum, og reyndar fleirum eins og áður sagði. Sú saga verður skráð þegar þessari baráttu lýkur. Það er nauðsynlegt að hún sé til á einum stað til fróðleiks fyrir þá sem á eftir koma. Ég hef nú þegar skrifað um aðdragandann að því að þessi tæki voru smíðuð og birti það 1991 í Ratsjá, blaði Styrimannaskólans í Vestmannaeyjum. Sú saga tekur yfir 12 ár, frá 1969 til 1981, þegar fyrsti gálginn var settur um borð í Kap VE 4.
Þótt illa hafi gengið að koma þessum tækjum á framfæri megum við ekki gefast upp. Við Vestmannaeyingar höfum haft forgöngu í öryggismálum sjómanna síðastliðin fimmtíu ár og við skulum halda henni áfram um ókomin ár.
Sigmar Þór Sveinbjörnsson