Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1996/ Háseti á Sjöstjörnunni

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
ÁRNI Á EIÐUM
HÁSETI Á SJÖSTJÖRNUNNI

Árið 1941 var mótorskipið Sjöstjarnan keypt til Eyja. Eigendur voru þeir feðgar Martin og Tómas Guðjónsson, ásamt Ásmundi Friðrikssyni frá Löndum sem jafnframt var skipstjórinn.
Mér tókst að kría út síldarpláss sumarið 1942 og sjálfsagt naut ég þess að amma mín, Ólöf í Byggðarholti, og Elín á Löndum, móðir Ásmundar, voru vinkonur.
Skráð var til síldveiða 3. júlí og komið til Siglufjarðar eftir tveggja sólarhringa siglingu í ágætisveðri. Nú var drifið í því að búa skipið til veiða og haldið út á Grímseyjarsund því þar hafði síldar orðið vart. Vel byrjaði úthaldið því við fengum 300 tunnur í mynni Eyjafjarðar strax fyrsta daginn.
Aflabrögðin gengu vel yfir sumarið og vorum við með hærri skipum af sömu stærð þegar úthaldi lauk. Nú fór í hönd dauður tími þar til vetrarvertíð hæfist. Því var ákveðið að báturinn færi á troll. Ekki var þó mikil aflavon en allt er betra en að sitja á rassinum aðgerðarlaus. Það fór líka svo að afli var sáralítill um haustið enda sífelld austanátt og því ónæðissamt.
Í desember var ákveðið að Sjöstjarnan færi nokkrar ferðir til Reykjavíkur að sækja vörur og annað sem til félli. Það mun hafa verið 20. desember að lestað var í Reykjavík og var það síðasta ferðin. Lokið var að lesta um kvöldmatarleytið og sjóbúið svo sem kostur var því veðurútlit var ljótt. Þar sem heimsstyrjöldin síðari stóð sem hæst var erfitt að afla veðurfregna og urðu sjómenn að treysta á loftvogina og gæta að skýjafari í upphafi hverrar sjóferðar. Ásmundur fékk þær upplýsingar að búast mætti við vaxandi suðvestanátt undir morgun.
Þegar leystar voru landfestar var enn hæglætisveður, en loft þungbúið og loftvog ört fallandi. Þegar komið var út fyrir Engey fór að kula á móti og sjór tók að ýfast að sama skapi. Ef veðurspáin stæðist átti heimferðin að ganga að óskum, ekki átti að hvessa af suðvestri fyrr en við værum komnir fyrir Reykjanes.