Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1996/ Eyjaís 10 ára

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
EYJAÍS 10 ÁRA

Þann 25. janúar s.l. voru tíu ár liðin frá stofnun ísverksmiðju hér í Eyjum. Ég tel að ég halli ekki á neinn er ég segi að aðalfrumkvöðull að stofnuninni hafi verið Jóhannes heitinn Kristinsson. Á stofnfundinum var samþykkt tillaga um að kaupa ísstöð hingað sem gæti framleitt 30 til 60 tonn af ís á sólarhring. í fyrstu stjórn voru kosnir þeir Hilmar Rósmundsson, Magnús Kristinsson, Sigurður Óskarsson og Jóhannes Kristinsson og til vara Jóhann Halldórsson og Hilmar Sigurbjörnsson. Síðari hluta marsmánaðar var skrifað undir samning við Finsam í Noregi um að kaupa ísstöð af þeim. Var hún heldur stærri en aðalfundarsamþykkt sagði til um, en þessi reyndist vera sú skynsamlegasta. Hún var með möguleika á að bæta við ísvélum þannig að hún gæti framleitt 120 tonn á sólahring. Finsam-menn skiluðu stöðinni í byrjun september, en fyrsta ísnum var blásið um borð í Sæfaxa 3. september og formleg afgreiðsla var síðan 12. september.
Áður fyrr keyptu menn ísinn af frystihúsunum hér í bæ og var honum ekið um borð og síðan sturtað í snigil sem flutti hann um borð í skipin. En þannig fór ísinn aðeins á einn stað. Með tilkomu stöðvarinnar gátu menn tekið ís allan sólarhringinn og blásið honum um borð og hvert sem menn vildu. Eru þetta ein stærstu tímamót síðari tíma í rekstri útgerðar, eins og hver önnur bylting. Sjómenn, sem þurftu að lempa ís aftur og fram í lestinni, blása honum nú í öll skúmaskot eins og menn vilja.
Þegar ákvörðun um að reisa ísstöð er tekin var mjög mikið um að fiskur væri fluttur út á erlenda markaði, þannig að sá fiskur sem ekki fór upp í stöðvarnar var sendur út. Þeir aðilar áttu oft erfitt með að fá ís er lítill ís var til hjá húsunum. Eftir að ísstöðin tók til starfa er mun auðveldara fyrir sjómenn og útgerðarmenn að senda fiskinn út og geta þeir tekið ísinn hvenær sólarhrings sem þeim þóknast.
Á árinu 1989 var ákveðið að kaupa Stakkshúsið og hefja brettaframleiðslu þar. Frá þeim tíma hafa verið framleidd 125.000 bretti. Fram að þeim tíma höfðu menn þurft að flytja brettin hingað. Brettaframleiðslan er því svipuð bylting og er ísinn kom.
Íssala hefur alltaf gengið vel, en þó misvel. Árið 1990 voru seld tæp 30.000 tonn, en það var mikið gámaútflutningsár, en önnur ár er salan frá 21 þús. og upp í 25 þús. tonn. Heildarsala frá upphafi er 225 þús. tonn.
Núverandi stjórn: Formaður Magnús Kristinsson, Hilmar Rósmundsson, Viðar Elíasson, Ágúst Guðmundsson og Snorri Jónsson, til vara Þórarinn S. Sigurðsson og Bergvin Oddsson.
Magnús Kristinsson