Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1996/ Enginn stendur óstuddur
Gamalt spakmæli segir: „Enginn veit sína æfi fyrr en öll er.” Gjarnan má bæta við: „Því er tilgangslaust að reyna að spá í hið ókomna.“ Þegar ég nú sest niður til að rifja upp minningar um komu mína til Vestmannaeyja í byrjun ársins 1943 þá er hætt við að fari fyrir mér eins og gamla skáldinu Grími Thomsen að „svipþyrping sæki þing í sinnishljóðri borg.“
Ég, sem þessar línur rita, var þá tuttugu og eins árs og átti heima hjá foreldrum mínum austur á Eskifirði. Hafa verður í huga að öll aðstaða til sjósóknar frá höfnum Austurlands var með öðrum hætti en í sunnlenskum höfnum, sérstaklega vegna smæðar fiskibátanna og langrar siglingar á miðin. Frystihús voru þá ekki komin til sögunnar og var því tilgangslaust að flytja aflann heim til vinnslu. Stór hópur fólks reyndi því að tryggja sér atvinnu í þeim höfnum sunnanlands sem hann hafði mestan hug á hverju sinni. Var það í flestum tilfellum frágengið um hver áramót. Þorskveiðar voru nær eingöngu stundaðar með línu á öllum smærri skipum. Þó höfðu Vestmannaeyingar lengi veitt í net seinni hluta vertíðar, en voru byrjaðir veiðar með botnvörpu á smærri skipum með viðunanlegum árangri.
Ég hafði stundað sjómennsku frá Hornafirði og Sandgerði, samtals fjórar vertíðir. Nú var það vegna löngunar eftir að breyta um verstöð og veiðiaðferð, og í bland ævintýraþrá, að ég ákvað að verða í Vestmannaeyjum næstu vertíð.
Skiprúm hafði verið ákveðið hjá skipstjóra sem var þekktur sjósóknari og aflamaður, Guðna Jónssyni, sem oftast var kenndur við Ólafshús. Skipið hét Gullveig, 36 smálestir að stærð. Hét það áður Valur og var þá gert út frá Akureyri og hafði alla tíð reynst hin farsælasta fleyta.
Þess skal hér getið að æskufélagi minn, Friðrik Baldvin Jónsson, hafði einnig ákveðið að verða í Vestmannaeyjum og réðumst við báðir til þessa ágæta manns, Guðna frá Ólafshúsum. Fáeinum dögum eftir komu okkar til Eyja var hafist handa við undirbúning fyrir komandi vertíð. Gert skyldi út á botnvörpu, en það veiðarfæri höfðum við Austfirðingarnir aldrei séð.
Stýrimaður skipsins var Jón Bergur Jónsson, bróðir Guðna skipstjóra. Má með sanni segja að komið hafi í hans hlut að kenna okkur til verka. Hann kunni vissulega handtökin við allt er laut að togveiðum. Í mörg ár hafði hann starfað á togskipum og verður hann í mínum huga einn sá eftirminnilegasti sjómaður sem ég hef kynnst. Þar sló ljúft barnshjarta í sterkbyggðum líkama. Um hann mátti segja eins
og Gretti Ásmundarson að „ekki er sama gæfa og gjöfugleiki.“
Óskar Matthíasson var 1. vélstjóri. Hann átti síðar eftir að kynna sig á sviði sjómennskunnar, var um áratugi farsæll skipstjóri og afburðaaflamaður, auk þess sem hann gaf Eyjunum syni er tóku við merki föður síns og hafa haldið því á lofti með reisn. Annar vélstjóri var Erlingur Eyjólfsson. Hann var öruggur sjómaður og góður félagi sem fluttist með foreldrum sínum til Selfoss stuttu síðar. Matsveinninn var Ágúst Helgason. Hann varð seinna Eyjamönnum kunnur sem góður vélstjóri og þátttakandi í útgerð um margra ára skeið, en fyrst og fremst traustur og dugandi maður. Háseti var Sigurgeir Ólafsson (Siggi Vídó) sem mig minnir að væri yngsti maður áhafnarinnar. Hann var frændi þeirra Guðna skipstjóra og Jóns stýrimanns, systursonur þeirra bræðra. Tæpast munu það ýkjur þótt ég segi að fáir hafi þeir verið til honum jafngamlir sem tóku honum fram í verkum. „Sigga Vídó“ þarf ekki að kynna nánar hér, hann hefur sett svip á mannlífið í Eyjum um langt árabil með dugnaði og aflasæld.
Friðrik Baldvin Jónsson var Eskfirðingur og hafði frá barnæsku stundað sjó og alist upp að miklu leyti við hlið frænda síns, hins þekkta skipstjóra og mikla aflamanns Friðriks Steinarssonar. Þegar hér var komið sögu hafði hann aflað sér réttinda til skipstjórnar. Einnig hafði hann verið tvo vetur í íþróttaskóla Jóns Þorsteinssonar í Reykjavík. Næstu sumur eftir veruna á Gullveigu var hann veiðistjóri á færeyskum síldarskipum og farnaðist vel. Nú á þessi besti æskuvinur minn heima austur í Lóni hjá syni sínum og hefur sinnt skógrækt af sínum alkunna dugnaði og alúð.
Þriðji hásetinn var sá er þetta ritar. Ég undi vel hag mínum með þessum frísku og ágætu drengjum.
Vertíðin gekk vel og áfallalaust, afli var sæmilegur þótt ekki væri veiðarfærið stórt, aðeins 58" höfuðlína, en þó nógu stórt fyrir afllitla vél.
Ekki þarf að saka mannskapinn um aðgerðarleysi í landlegum. Þrír af skipverjum eignuðust þar sínar heitkonur og þykir aldrei illa að verki staðið ef menn hljóta gullið.
Vestmannaeyjar voru um þessar mundir ein stærsta og myndarlegasta höfn landsins. Þar var komið fullkomnasta lifrarsamlag sem þekktist hérlendis. Tvær dráttarbrautir voru starfræktar sem auk þess að anna daglegum viðgerðum og viðhaldi bátaflotans hleyptu af stokkunum nýsmíðuðum fiskiskipum sem að styrkleika og öllum búnaði stóðust hinar ströngustu kröfur Siglingamálastofnunar. Vélsmiðjur voru tvær er sáu um viðgerðir véla og önnuðust frágang og niðursetningu allra nýrra véla sem í bátana fóru. Það má telja fullvíst að enn séu Vestmannaeyjar ein stærsta og fullkomnasta verstöð bæði hvað snertir öflun sjávarfangs og vinnslu.
Það er því í mínum huga stórkostlegt ævintýri að hafa fengið að sjá þá hluti gerast sem standa undir því sem nú er raunin. Fylgjast með þegar byrjað var að grafa inn í sandfjöruna fyrir þeim glæsilega viðlegukanti sem umkringir skipalægi það sem hlaut hið hugþekka og sanna heiti „Friðarhöfn.“ Vinnslustöðin reis stuttu síðar, svo og Fiskiðjan, Ísfélagið og Nausthamarsbryggjan. Ekki má gleyma dýpkum hafnarinnar. Nú geta öll skip Eyjanna fengið lægi við bryggju, en áður var bátum lagt við festar úti á Botni þegar þeir voru ekki í notkun.
Hér hefur verið stiklað á stóru en þó engan veginn allt upp talið. Nú geta sjómenn sagt með sanni: „Það var okkar stétt sem flutti í land hið syndandi gull sem stóð undir fjármagninu sem þurfti til alls
þessa.“ Bæta mætti við: „En sóknin í það gull útheimti mannfórnir, andvökunætur og sorgir.“
Hverfum nú aftur til ársins 1943. Vetrarvertíð okkar félaga á Gullveigu var á enda, en við Guðni frá Ólafshúsum vorum ekki skildir að skiptum. Guðni hafði boðið mér skiprúm sem stýrimanni á komandi síldarvertíð fyrir Norðurlandi sem ég ákvað að þiggja. Við vorum saman það sumar og var það eftir atvikum góð vist. Kom það fyrir að miðnætursólin sveif yfir haffletinum og lagði gullborða á hafið alla leið til okkar sjómannanna sem ýmist köstuðum á vaðandi síld eða háfuðum skipin drekkhlaðin. Þá var gaman að vera til og líf á Grímseyjarsundi. Guðni fór vel að síld og undraðist ég oft hans miklu rósemi og kunnáttu.
Svo var umtalað að við yrðum saman á næstu vetrarvertíð. Fór ég því heim til foreldra minna um haustið. Ég hafði samband við Guðna nokkru fyrir áramót og sagði hann mér að skoðunarmunur væri á milli sín og útgerðarmannsins sem hefði leitt til þess að hann yrði ekki með Gullveigu áfram en hefði ráðið sig sem vélstjóra á bát í Njarðvík. Hann sagði að mér væri frjálst að ráða mig þar sem ég teldi fýsilegast.
Þegar ég svo í ársbyrjun 1944 kom til Eyja var Guðni í Njarðvík. Fáum dögum seinna mætti ég honum utan við Tangann. Sagðist hann þá vera ráðinn skipstjóri á m/b Njörð sem var í eigu Hraðfrystistöðvarinnar. Spurði hann mig hvort ég væri ráðinn og sagði ég sem var að það hefði gerst fyrir tveimur dögum.
Þann 12. febrúar var almennt róið. Suðaustan bræla hafði gengið niður og menn voru vongóðir með að veður mundi haldast sæmilegt út daginn.
Þetta reyndist þó aðeins stund milli stríða. Um hádegið var komið suð-vestan hvassviðri með stórsjó. Við á m/b Erlingi áttum línuna innan við Karga og náði hún austur undir Þrídrangahraun. Við náðum línunni án áfalla en þó mátti ekki miklu muna því er við vorum að enda við að draga reis upp brot á stjórnborða og lentum við í löðrinu frá því, en allt slapp. Ferðin í land gekk hægt en óhappalaust. Strax er löndun aflans var lokið lá það í loftinu að búast mætti við voveiflegum tíðindum. Það var liðið fram að kvöldmat er ég gekk austur á Skans. Nokkur hópur fólks var þangað kominn, allir störðu í sömu átt, yfir Víkina, í von um að sjá bát koma fyrir Klettinn. Tveir bátar voru enn ókomnir,Njörður og Freyr.
Ungur drengur, Eiríkur, sonur Guðna frá Ólafshúsum, stóð þarna nokkuð afsíðis. Hann starði án afláts út á sjóinn. Það leið á kvöldið og hópurinn smáþynntist. Þegar fáir voru eftir gekk ég til drengsins sem stóð þarna í sömu sporum hreyfingarlaus. Hann virtist ekki taka eftir því er ég lagði hönd mína á herðar hans og veit ég ekki enn í dag hvort hann tók nokkuð eftir mér, ég áræddi aldrei að tala við hann um það.
Oft hef ég hugsað til þessa kvölds og þá hafa ýmsar spurningar vaknað. Mun nokkur sá staður á okkar kæra landi, sem er á stærð við Skansinn í Vestmannaeyjum, þar sem stigið hafa til himins eins mörg örvæntingarfull áköll til almættisins? Þar sem liðið hafa frá brjóstum jafnmikils fjölda fólks magnþrungnar bænir um að fá að sjá ástvini sína koma aftur heim?
Kæru sjómenn, ég er forsjóninni þakklátur fyrir að hafa á örlagastundu leitt mig heilan í höfn og ykkur að lokum blessunar um alla framtíð.