Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1995/ Vélskólinn
Jón Ingi Sigurðsson:
Vélskólinn
Skólaárið 1994-1995
Í haust var skólinn settur þann 1. september og ef marka má aðsóknina þá hafa nemendur verið orðnir ákafir í að afla sér frekari réttinda, en aðsóknin var það mikil að takmarka þurfti fjöldann sem fékk inngöngu. Alls voru skráðir 27 nemendur á haustönn og þar af voru níu skráðir
Í 1. stig þaðan sem þeir geta útskrifast sem vélaverðir eftir einnar annar nám. Í 2. stig voru skráðir 18 nemendur sem voru mislangt komnir með nám sitt, en þess ber að geta að miðað við venjulega framvindu náms er mögulegt að ljúka námi úr 2. stigi á fjórum önnum.
Þeir nemendur, sem voru að ljúka 2. stigi, fóru í námsferð til Akureyrar síðast í október þar sem þeir luku 40 tíma námskeiði í vélarrúmshermi Verkmenntaskólans á Akureyri. Þessi ferð til Akureyrar er orðin árviss viðburður í starfi skólans og er hún eingöngu ætluð þeim nemendum sem eru að ljúka 2. stigi. Þetta er því nokkurs konar útskriftarferð, og hefur jafnvel komið til tals að gera þessa ferð að skyldu fyrir nemendur því það hefur sýnt sig að sá lærdómur, sem nemendur fá úr vélherminum, er ómetanlegur.
Í október fékk skólinn afhent nýtt og fullkomið kennslutæki í kælitækni. Þetta tæki var að stórum hluta gefið af fyrirtækjum og félagasamtökum hér í bæ og vil ég þakka gefendum kærlega fyrir þessa höfðinglegu gjöf. Ég vona að skólinn og fyrirtæki og félagasamtök hér í bænum eigi eftir að eiga gott samstarf í framtíðinni við að mennta bæjarbúa þannig að fá megi sem hæfasta einstaklinga á vinnumarkaðinn.
Í byrjun desember kom formaður Vélstjórafélags Íslands í heimsókn og hélt erindi um félagsmál vélstjóra fyrr og nú. Einnig fjallaði hann um réttinda- og launamál og önnur mál sem tengjast vélstjórum.
Við annarslit þann 17. desember var brautskráður einhver stærsti nemendahópur af vélstjórnarbraut sem lokið hefur vélstjóramenntun frá Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum eða alls 13 nemendur, þ.e. fjórir vélaverðir af 1. stigi og níu vélstjórar af 2. stigi. Á vorönn var miklu fámennara lið, þrír í véla varðarnámi og níu í 2. stigi. Væntanlega útskrifast nú í vor þrír vélaverðir og þrír vélstjórar af 2. stigi. En þegar þetta er ritað stendur yfir verkfall kennara sem gæti sett strik í reikninginn. En það er þó von manna að ljúka megi önninni með lengingu skólatímans ef verkfallið dregst ekki úr hófi fram.
Í sumar sem leið var hafist handa við að byggja nýtt verknámshús og hefur byggingunni miðað vel fram og hefst kennsla í vélstjórnar- og vélsmíðagreinum í þessu nýja húsnæði á hausti komanda.
Komið hefur til tals að reyna að koma á námi í 3. stigi eftir að hið nýja hús er komið í gagnið. Mikill þrýstingur hefur verið frá nemendum og félagasamtökum að koma þessu í framkvæmd. Skólinn er nokkuð vel búinn tækjum og með tilkomu þessa nýja húsnæðis verður ennfremur ráðist í kaup á ýmsum nýjum kennslutækjum. Til að kennsla á 3. stigi verði möguleg verður þó að öllum líkindum að bæta við einum eða tveimur kennurum í vélstjórnar- og rafmagnsfræðigreinum.
- Með bestu kveðjum til sjómanna og fjölskyldna þeirra.