Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1995/ Stýrimannaskólinn

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Friðrik Ásmundsson

Stýrimannaskólinn
Skólaslit 1994 og starfsemin 1994-1995

Skólaslit Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum 1994 voru 21. maí það ár. Vegna ónógrar þátttöku var ekkert 1. stig skólaárið 1993-1994 og í 2. stigi voru einungis 6 nemendur. Þetta hefur ekki gerst áður í 30 ára sögu skólans. Trúlega stafar fækkun nemenda undanfarin ár af fækkun skipa og fjölda nemenda á árinu 1990 og þar fyrst á eftir.

Hæstur varð Guðlaugur Friðþórsson, meðaleinkunn 8,73. Annar varð Stefán Geir Gunnarsson, meðaleinkunn 8,60. Þriðji varð Óskar Matthíasson, meðaleinkunn 8,59. Guðlaugur fékk í verðlaun loftvog frá Sigurði Einarssyni og Verðandiúrið frá Verðandi fyrir hæstu meðaleinkunn.

Óskar Matthíasson fékk sjónauka frá Útvegsbændafélagi Vestmannaeyja fyrir hæstu einkunn í siglingafræði og bókarverðlaun frá Rótaryklúbbi Vestmannaeyja fyrir hæsta einkunn í íslensku. Stefán Geir Gunnarsson fékk bókarverðlaun frá Bjarna Jónassyni veðurfræðikennara fyrir góðan námsárangur í veðurfræði.

Óskar Matthíasson og Stefán Geir Gunnarsson fengu bókarverðlaun frá Sigurgeiri Jónssyni kennara fyrir bestar ritgerðir á íslensku og Eiríkur Bragason bókarverðlaun frá Kristjönu og Finnboga í Eyjabúð fyrir góða ástundun í námi.

Á skólaárinu 1994-1995 hefur nemendum fjölgað aftur og eru þeir nú níu í hvoru stigi, eða samtals 18 í skólanum, þannig að fjölgunin er þreföld frá því í fyrra.

Að auki var haldið 30 rúmlesta skipstjórnarnámskeið í október og nóvember sl. og útskrifuðust þar 9 nemendur. Þeir stunduðu námið af kappi og ástundun var góð. Þarna voru samankomnir táningar og miðaldra trillusjómenn, sport- og atvinnumenn sem gott var að vera nálægt. Annað slíkt námskeið hélt skólinn um áramótin í Ólafsvík. Þar útskrifuðust 28 nemendur, þar af tvær konur. Þetta var ánægjulegur þáttur í starfinu. Undirritaður var þarna við kennslu í viku fyrir jól, Sigurgeir Jónsson var síðan milli jóla og nýárs, og báðir í viku eftir áramótin. Þarna mættum við góðu fólki sem var ánægjulegt að kynnast. Áhugi fyrir náminu var mikill og allir lögðu sig vel fram. Aldursdreifing var allnokkur, frá miðaldra breiðfirskum sjómönnum niður í unga og spræka stráka. Einn nemandanna var Vestmanneyingurinn Stefán Pétursson, sonur Péturs heitins Stefánssonar lögregluþjóns, en hann hefur búið í Ólafsvík frá því um gos. Í Ólafsvík hefur smábátum fjölgað mikið undanfarin ár og vandræði voru orðin með réttindaleysi skipstjórnarmanna á þeim. Úr því hefur verið bætt.

Við sögðum gjarnan, meðan á þessu stóð, að þarna væri útibú Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum. Þegar þessi tvö námskeið eru með talin má segja að 55 nemendur hafi stundað nám í Stýrimannaskólanum skólaárið 1994-1995.

Að síðustu óska ég öllum sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með sjómannadaginn í ár og alls hins besta á sjó og landi alla tíð.