Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1995/ Róið frá Landeyjasandi 1928
Haraldur Guðnason
Róið frá Landeyjarsandi
Árið 1928 var ég vertíðarmaður hjá Ágústi Einarssyni bónda í Miðey í Landeyjum. Þá var ég 17 ára. Kaup var 150 kr. í fjóra mánuði. Ágúst var að ljúka búskap og varð með vordögum kaupfélagsstjóri Kaupfélags Hallgeirseyrar, síðar Kaupfélags Rangæinga. Hann var á tímabili forstjóri Vörubifreiðastöðvarinnar hér í bæ. Miðey var stórbýli, þá hið eina í sveitinni. Mér var falið að sjá um sauðféð sem var 200, auk sauða og lamba. Mér sagt að spara ekki hey. Heldur þótti mér ami að músunum sem léku sér í fjárhúshlöðunni. Mér féll vel við húsbóndann. Hann skipaði aldrei til verka en sagði: Ég ætla að biðja þig að gera þetta eða hitt. Húsmóðirin var Helga Jónsdóttir, systir Helga læknis og alþingismanns á Hvoli. Hún andaðist vorið 1928, þá flutt að Hallgeirsey, merk kona og vel látin.
Son þeirra hjóna, Einar, var þá sex ára. Af því ég var næstyngstur á heimilinu kaus hann mig að spilafélaga. Mér var aldrei fengið neitt verk á kvöldvöku sem öðrum hjúum.
Við spiluðum marías, tuttugu og eitt, Svarta-Pétur o.fl. Eftir þennan vetur greip ég sjaldan í spil. Í Miðey voru reisulegustu byggingar í sveitinni. Þar var símstöð, miðstöð. Ágúst fékk símfréttir frá Axel Th. Þetta var nýjung í fjölmiðlun. Aðrir símabændur nutu góðs af. Sími var þá á fimm bæjum í A-Landeyjum.
Þá er kom fram á útmánuði nefndi Ágúst við mig að róa á báti Sæmundar á Lágafelli. Miðeyjarheimilið átti part í bátnum að ég held. Átti líka hlut í togaranum Ver í Hafnarfirði. Á þeirri útgerð var ýmist tap eða gróði eins og gengur.
Ekki var á það minnst við ráðningu mína sem skepnuhirðis að ég færi til sjós. Ég tók þessu vel, hugði gott til að kynnast sjólífi. Þó voru á meinbugir nokkrir, ég kunni ekki áralagið og öngva sjóferðarbæn; hafði þó minni áhyggjur af bæninni.
Sjávargatan var löng út í Bryggnasand austan við samkomustaðinn Kross. Þar var skip Sæmundar. Leiðin lá um blautar mýrar, um tveggja klukkustunda reið og farið fetið. Sandferð var svo háttað að ég skyldi halda til Lágafells, vera svo samferða formanni og Guðmundi bónda á Ljótarstöðum sem var einn háseta Sæmundar.
Þá er til máls að taka að sjóveður þótti líklegt að morgni. Eftir miðnætti bjóst ég til fyrstu sjóferðarinnar. Ég skyldi ríða hesti gráum, stólpagrip. Þá er ég hafði lagt við hann sandahnakk varð mér á að halda ekki í tauminn þegar riddarinn var tilbúinn að stíga á bak færleiknum. Og hvað haldið þið að bykkjan geri: Tekur snöggt viðbragð og þýtur út í nóttina og suður á mýri, með beislið uppi á makka sem betur fór, svo ekki flæktist hann í því.
Nú var illt í efni, tíminn of naumur til að elta klárinn. Ég tók því annan hest og sló undir nára. Og þegar bóndi kom út um morguninn var vetrarmaðurinn horfinn, reyndar kominn á haf út, og horfnir tveir reiðhestar í stað eins.
Hann var hægur á austan, vindur vaxandi er leið á morguninn. Sjór ekki steindauður en vel fær. Og þá stóðum við að í Jesúnafni að boði formanns.
Fyrsta verk mitt í fyrstu sjóferð til fiskidráttar var að hlaupa með hlunna undir skipið til að létta setninginn. Létt verk og löðurmannlegt. Landmaður átti að „hafa á öldunni gát,“ veifa að ef hann áleit tvísýnt um landtöku og veifa frá ef sjór varð ófær. Svo kallaði formaður lagið. Ég ýtti á skut, hugsaði um það að drösla mér upp í bátinn þegar hann flyti vel að framan svo ekki færi fyrir mér eins og kallinum sem fékk að róa á bátshorni með Pétri í Krosshjáleigu og Solveigu systur hans. Kallgreyið komst ekki uppí bátinn svo að Solveig fór að tosa honum upp. Það varð til þess að þau fengu uppslátt. Þá sagði Pétur: „Þú áttir að láta djángans kallinn hánga.“ Skammt frá landi voru lagðar upp árar, komið að sjóferðarbæninni. Allir tóku ofan sjóhatta og allir þögðu. Létti mér þá sem ekkert kunni. Margar útgáfur eru af sjóferðarbænum. Dæmi um hvernig menn báðu Guð sinn um vernd gegn sævardjúpunum læt ég fylgja sjóferðarbæn Magnúsar Magnússonar á Túnsbergi sem hann fór með í upphafi allra sinna mörgu sjóferða:
Almáttugi Guð. Þú ert sá vísi og góði höfuðskeppnunnar herra og undir eins minn faðir. Í trausti þinnar náðarríku handleiðslu byrja ég nú, veik og hjálparþurfi mannskepnan, þessa hættulegu sjóferð. Þú þekkir best þær hættur sem mér og voru litla skipi búnar eru af óstöðugu sjávarins hafi sem afmálar mér dauðans ímynd á hvurri öldu sem rís í kring þessu litla skipsborði sem ber mitt líf. Æ, vertu nú minn verndari, minn leiðtogi og minn besti förunautur, því hvurjum skyldi ég þora að trúa fyrir mér ef ekki þér, minn almáttugi faðir og trúfasti lífgjafari? Banna þú þínum skepnum, vindi og sjó, að granda mínu og voru allra lífi, þá hlýða þær. Gef þú oss forsjárlega að geta séð við öllum hættum af blindskerjum, boðum og grynningum, en afvend sjálfur þeim óþekktu. Uppljúk þinni hendi og send oss blessun. Bjóð sjávarins afgrunni að opna sitt ríka skaut til að uppfylla vorar nauðsynjar. Þér fel ég mig með skipi og varnaði. Leið oss farsællega og vernda oss frá öllu tjóni, þá viljum vér lofa og prísa þína gæsku sem svo dásamlega annast sín börn. En sé það þinn góður og náðugur vilji að þessi reisa skuli verða vor dauðagangur, ó, svo gef mér og oss öllum vel viðbúnum að mæta voru síðasta. Í þínum höndum er vort líf. Vertu aðeins vor faðir og gef mér og oss öllum eilífa hvíld og sælu hjá þér, fyrir þíns blessaða meðalgangara Jesú Krists forþénustu sakir. Amen.
Var nú haldið á fiskimiðin en ekki langt. Guðmundur á Ljótarstöðum, hress karl og skemmtilegur, var útnefndur kennari minn í áralagi. Ingimundur, sonur hans, var fermingarbróðir minn og vinur. Hann og Tómas bróðir hans voru miklir glímukappar, Ingi glímukóngur Íslands tvö ár. Guðmundur Helgi, bróðir þeirra, var togaraskipstjóri.
Kennslan bar árangur eftir atvikum. Ég varð að gæta þess vel að vera í takt við karlana sem voru þaulvanir ræðarar og sögðu „allir sama skellinn.“ Þó henti stöku sinnum þegar ég vildi lemja sjóinn að árin lenti í lofttómu rúmi, tók undan af því að sjór var ekki sléttur. Þetta vandist eins og annað, en ekki var það öruggt áralag fyrsta róðurinn.
Stóra stundin runnin upp, lagðar upp árar og færum rennt. Brældi við austur, ekki eins og fjölmiðlabrælan sem virðist vera frá 3 í 10 vindstig (sbr. skip í landi vegna brælu). Ég spenntur, skyldi „hann“ bíta á krókinn minn? Nei, steindautt. Formaður farinn að gefa mér auga:
—Ætli það sé ekki flækt hjá þér færið, drengur, segir formaður. Það þótti mér næsta ólíklegt því svo vel höfðum við Ágúst greitt færið úti á túni daginn áður, hafði samt uppi. Hvur fjárinn, færið var bara flækt.
—Þú hefðir eins getað verið að skaka á hlandkoppnum, segir formaður.
Ég greiddi færið, renndi, tók grunnmál, ekkert gerðist.
—Það er best þú farir í andófið, segir formaður.
Tregfiski. Nokkrar ýsupöddur, en ekki nóg til skipta.
Ekki höfðum við setið lengi þegar Tyrfingur landmaður veifaði að. Sjór hafði versnað. Við róum inn á legu, beðið eftir lagi nokkra stund. Ég réri í austurrúmi. Nú var um að gera að fatast ekki í landróðrinum.
—Á ég að róa í land, Sæmundur, spurði ég.
—Ertu vitlaus, drengur? spurði formaður.
Þá er mér varð laus árin settist ég á bitann gegnt formanni mínum og hallaði mér út í annað borðið, vankunnandi til sjós.
—Sittu réttur á bitanum drengandskoti, skipaði formaður.
Eftir nokkra bið kom lag, en þarna var ekki gott „hlið.“
—Róiði elskurnar mínar, skipar formaður, en ekki háum rómi.
Hásetar tóku ekki til ára, höfðu ekki heyrt skipun formanns vindgnauðs.
— Róið andskotarnir ykkar, skipar formaður, og mátti nú vel nema orð hans.
Lendingin heppnaðist vel. Sæmundur var ágætur formaður, sótti fast sjóinn en þó gætinn. Nú var ekki náð skiptum, svo hver fékk sem hann dró.
Komið að Lágafelli á heimleið og Sæmundur bauð yngsta og versta háseta sínum í bæinn. Þá fagnaði þurrt brjóst skjólgóðum kaffisopa eftir næturlangan þvæling á sjó og landi. Sæmundur og Guðrún kona hans voru mjög gestrisin og Sæmundur kunni frá mörgu að segja. Sumir sögðu hann sjókaldan, en hann var ekki baðstofukaldur.
Í næsta róðri aflaðist svo vel að Miðeyjarhlutur var næg nóg á klárinn minn, en ég gekk þá úr Sandi. Á leiðinni var vond kelda þar sem hesturinn lá svo illa í að fiskurinn veltist af honum ofan í. Var því ekki sem hreinlegastur þegar húsbóndinn fékk hann til aðgerðar kl. 11 um kvöldið, en nóg var af vatninu og ekkert á þetta minnst.
Næstu vertíð var ég háseti hjá Guðjóni Jónssyni hreppstjóra og róið frá Hallgeirseyjarsandi. Hann var aflasæll og virtur formaður.
Langri útgerðarsögu Landeyinga lauk nokkru fyrir miðja öldina. Ég veit ekki um aðra en okkur Jóhann Eysteinsson frá Stóru-Hildisey sem hafa róið frá A-Landeyjasandi og enn eru ofar moldu. Sá þriðji, sem hér átti að setja á blað, Páll Jónasson frá Rimakoti, andaðist 12. febrúar á hundraðasta og öðru aldursári. Síðustu skip á Austur-Landeyjasandi: Sæmundar Ólafssonar Lágafelli, Guðjóns Jónssonar í Hallgeirsey og Guðmundar Jónassonar í Hólmahjáleigu.