Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1995/ Loðnan - skrýtinn og skondinn fiskur
Hafsteinn Guðfinnsson og Gísli Gíslason
Loðnan - skrýtinn og skondinn fiskur
INNGANGUR
Loðnan er um margt sérkennilegur fiskur. Hegðun hennar og lífshættir eru fjölbreyttir og enn virðist hún geta komið okkur Íslendingum á óvart. Fiskifræðingar hafa rannsakað hana lengi og reyndir skipstjórar spáð í hegðun hennar og reynt að segja fyrir um göngur en allt kemur fyrir ekki. Alltaf virðist hún brydda upp á einhverju nýju í hegðunarmynstri sínu.
Loðnan er afar mikilvægur fiskur í efnahagsbúskap Íslands og ekki er hún síður mikilvæg sem fæða í vistfræði sjávarins. Í þessari grein ætlum við að taka saman fróðleik um líffræði loðnunnar. Einnig verður fjallað um þær afurðir sem unnar eru úr loðnu og hvernig vægi þeirra er misjafnt eftir því á hvaða tíma loðnan er veidd.
LOÐNUSTOFNAR OG HEIMKYNNI
Loðna (Mallotus villosus) hefur valið sér búsetu í nyrstu höfum jarðarinnar. Í N-Atlantshafi og Barentshafi eru fjórir aðskildir stofnar sem talið er að hafi engan samgang, þó ekki sé hægt að útiloka slíkt. Heimkynni þeirra eru við Kanada og Nýfundnaland, Grænland, í Barenthafi og Hvítahafi og við Ísland. Útbreiðslusvæði íslensku loðnunnar er við Ísland og á svæðinu milli Íslands, Grænlands og Jan Mayen.
GÖNGUR LOÐNUNNAR VIÐ ÍSLAND
Frá vori og fram á haust heldur ókynþroska loðna sig aðallega norðan Íslands en gengur að sumarlagi norður á bóginn í ætisleit. Gengur hún þá inn í grænlensku fiskveiðilögsöguna og allt norður og vestur fyrir Jan Mayen og til baka inn í norsku lögsöguna og inn á hafsvæði norður af Íslandi þegar fer að hausta (mynd 1). Á þessari göngu er loðnan að leita sér ætis en það eru aðallega svifdýr eins og krabbaflær, ljósáta, pílormar o.fl.
Er hausta tekur fer loðnan að undirbúa hrygningargöngu sína á hrygningarsvæðin sem eru sunnan og vestan við Ísland, frá Hornafirði vestur í Breiðafjörð. Sá hluti stofnsins sem verður kynþroska hópar sig saman og byrjar hrygningargöngu sína á svæðunum norðan Íslands. Þar þéttir loðnan sig gjarnan í torfur sem síðan synda austur með Norðurlandi og með djúpkantinum suður með Austurlandi. Síðla í desember er hrygningargangan oft úti af Melrakkasléttu eða við Langanes en í janúar í djúpkantinum undan Austfjörðum. Á þessari gönguleið er loðnan í mjög köldum sjó, gjarnan 0-2° C. Fyrir sunnan land er hinsvegar sjór sem er með mun hærra hitastig (5-6° C). Við SA-land mætast því kaldur sjór austanlands og heitur sjór sunnanlands og á þessu svæði verða því mjög skörp hitaskil. Áður en loðnan getur gengið upp á grunnin við Stokksnes verður hún því að venja sig við hitabreytinguna og komast gegnum hitaskilin. Þetta gerir loðnan annað hvort með því að fara í gegnum hitaskilin við SA-land á 7 til 14 dögum og komast þannig beint upp á grunnin við Stokksnes eða með því að dýpka á sér og synda djúpt suðaustur eða suður af landinu og síðan til vesturs og smám saman mjaka sér í hlýrri sjó. En þá er eins víst að hún komi ekki upp á grunnið fyrr en við Ingólfshöfða eða jafnvel enn vestar við Suðurströndina. Rétt er einnig að geta þess að einstaka sinnum koma hrygningargöngur fyrir Vestfirði inn á Breiðafjörð og Faxaflóa. Eru þær kallaðar vesturgöngur til aðgreiningar frá göngum sem koma austan að. Dæmi eru um að slík vesturganga hafi gengið suður fyrir Reykjanes, upp undir Krísuvíkurberg og austur fyrir Grindavík eins og gerðist árið 1980.
HRYGNINGARSVÆÐI, HRYGNING OG KLAK
Hrygningarsvæði loðnunnar er frá Hornafirði vestur í Breiðafjörð. Þó hrygnir loðnan sjaldnast á öllu þessu svæði á hverju ári. Oft valda veðurfar og straumar miklu um hve vestarlega loðnan gengur áður en hún leggst í hrygningu. Síðastliðin tvö ár (1993 og 1994) hefur hún gengið alla leið inn í Faxaflóa og Breiðafjörð og að mestu hrygnt þar. Þá skiptir stærð hrygningarstofnsins oft miklu um á hve stóru svæði loðnan hrygnir. Þegar stofninn er stór koma gjarnan tvær og stundum þrjár hrygningargöngur. Sú fyrsta fer oftast lengst til vesturs en hinar skemmra og dæmi eru um að hrygningarganga hafi ekki náð nema að Ingólfshöfða. Þegar hrygningarstofninn er lítill kemur hins vegar aðeins ein aðalganga. Og eins og áður er nefnt kemur fyrir að loðna gengur suður fyrir Vestfirði til hrygningar.
Þegar líður á hrygningargönguna verða ákaflega miklar breytingar á útliti hænga og hrygna. Kynin verða mjög ólík í útliti og því auðveldara að aðgreina þau. Einnig fá þau mun sterkari liti en þau hafa á uppvaxtarskeiðinu og fá á sig einskonar hrygningarbúning. Raufaruggi hængsins stækkar og rákin á hængnum verður loðin.
Hrygningin á sér stað frá því í byrjun mars fram í byrjun apríl og er afar sérstök. Loðna hrygnir hér við land frá fjöruborði og niður á 80 metra dýpi. Hún hrygnir eggjum sínum á botninn og límast þau við sand, steina og önnur hrogn og liggja oft í þykkum breiðum.
Í athugunum sem fóru fram í Fiskasafninu í Vestmannaeyjum fyrir 21 ári kom í ljós að loðnan iðkar mjög fjöruga hrygningarleiki. Þjóta hængur og hrygna eða tveir hængar með hrygnu á sem allir gera sér gott af henni. Og ekki má gleyma nýtingu okkar Íslendinga á loðnustofninum og verður nú vikið að þeim þætti.
HAGNÝTING ÍSLENDINGA Á LOÐNU FYRR Á TÍMUM
Í Ferðabók Eggerts og Bjarna er greint frá því að bændur í Eyjafirði nýttu sjórekna loðnu til manneldis, en sú heimild þeirra félaga er frá árinu 1757. Í Ferðabókinni er fullyrt að hvergi annars staðar á landinu hafi loðna á þessum árum verið nýtt. Á nítjándu öld eru nokkrar heimildir um að sjórekin loðna sé nýtt til manneldis og dýra fóðurs, bæði á Suður- og Norðurlandi. Til eru heimildir frá því skömmu milli sín eftir botninum og þyrla upp sandi og hrognum meðan á hrygningu stendur. Láta pörin þá enga fyrirstöðu hefta sig heldur ljúka hrygningunni í einum rykk. Hrygningin hjá hverju pari tekur aðeins nokkrar sekúndur. Hrygnurnar ljúka sér af í einni ferð en hængarnir virðast geta hrygnt með fleiri hrygnum. Þegar hrygningu lýkur er loðnan ákaflega þreklítil og hefur oft hlotið töluverðan skaða á búkinn. Tilraunirnar í Fiskasafni Vestmannaeyja sýndu að þessir skaðar drógu hængana alla til dauða næstu vikur eftir hrygninguna en um 10% hrygnanna lifði af. Því er talið að langstærsti hluti hrygningastofnsins hér við land deyi að lokinni hrygningu en hugsanlega getur örlítið brot af hrygnunum náð að hrygna aftur.
Í fyrrnefndum tilraunum í Fiskasafni Vestmannaeyja tók klakið frá 18 dögum upp í 41 dag en talið er að loðnueggin í sjó klekist á rúmum þremur vikum. Við klak er lirfan um 5 mm að lengd með litla kviðpokanæringu sem endist aðeins fáeina daga. Seiðin berast síðan með straumum á uppeldissvæðin norðvestur og norður af landinu.
ALDUR, VÖXTUR OG NYTSEMI
Loðnan verður ekki eldri en fjögurra ára nema með örfáum undantekningum. Hér við land verður loðnan oftast kynþroska þriggja ára og lýkur æviskeiði sínu með hrygningu. Í einstaka árum nær hluti þriggja ára loðnu ekki að verða kynþroska og gengur því ekki með hrygningargöngunni suður fyrir land, heldur snýr við á uppvaxtarsvæðin og dvelst þar eitt ár til og gengur síðan til hrygningar fjögurra ára. Hlutfall fjögurra ára loðnu í hrygningargöngum er því mjög misjafnt frá ári til árs, stundum innan við 10% en stundum allt að 40%. Mjög hátt hlutfall fjögurra ára loðnu var í veiðinni á vetrarvertíð 1987, svo að dæmi sé tekið. Þá fundust hængar sem náðu 80 grömmum að þyngd og 22 cm að lengd (mynd 2) en þeir eru venjulega 25 til 30 gr. og 16 til 18 cm að lengd. Hrygnur voru þá mjög vænar, gjarnan 20 til 25 gr. hver fiskur en þær eru í meðalári 15 til 20 gr.
Vöxtur loðnu er afar hraður enda er hún skammlífur fiskur. Eins árs er hún 5 til 7 cm löng, tveggja ára 9 til 14 cm og þriggja ára 13 til 17 cm.
Loðnan er afar mikilvæg fæða fyrir flestar fisktegundir sem komast í tæri við hana. Þar að auki er hún mikilvæg fæða fyrir hvali, seli og sjófugla fyrir síðustu aldamót sem greina frá að loðna hafi verið háfuð í fjörunni á Höfnum á Suðurnesjum. Sú loðna var svo nýtt til beitu. Einnig eru til heimildir um að loðna væri veidd með landnót á Norðurlandi og Austfirðingar nýttu sér hana einnig eftir föngum til beitu. Þessi nýting loðnunnar getur ekki talist reglulegur þáttur í atvinnusögu landsins. Hinsvegar fara sjómenn frá Hornafirði, snemma á þessari öld, að veiða loðnu í landnætur fyrir Suðurströndinni. Þessi loðnuveiði hófst um 1920 og varð reglulegur þáttur í útgerðarsögu þeirra báta sem voru gerðir út frá Hornafirði fram yfir miðja öld. Bátarnir voru gerðir út á línu eða handfæri, það var róið á grunnmið og loðnan var notuð sem beita.
Fyrstu veiðarnar á loðnu til bræðslu voru gerðar árið 1958 fyrir tilstuðlan dr. Þórðar Þorbjarnarsonar hjá Rannsóknastofu Fiskifélagsins, en hún var forveri Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins. Þetta voru tilraunaveiðar og var tilgangur veiðanna að kanna hvort hægt væri að veiða loðnu í nót og hvort hún væri heppilegt hráefni fyrir hinn ört vaxandi fiskmjölsiðnað Íslendinga. Niðurstaðan var sú að loðnu var auðveldlega hægt að veiða að vetri til fyrir sunnan land og með smálagfæringum í fiskmjölsverksmiðjunum var loðnan ágætt hráefni fyrir iðnaðinn, þó mjölnýting væri heldur lægri en á t.d. síld. Þessar tilraunaveiðar marka á vissan hátt upphafið að því að Íslendingar fara að stunda loðnuveiðar í hringnót á sjöunda áratugnum.
NÚTÍMA VEIÐAR Á LOÐNU
Þó að til séu dæmi um að loðna væri veidd í flottroll um miðjan áttunda áratuginn hefur nær öll veiðin frá því á sjöunda áratugnum verið með hringnót. Regluleg veiði á loðnu til bræðslu hefst á sjöunda áratugnum, en árið 1964 er landað 8.600 tonnum til bræðslu. Árið 1969 er heildarveiðin um 170 þúsund tonn. Veruleg aukning verður í loðnuveiðum í byrjun áttunda áratugarins, eftir að síldveiðar Íslendingar stöðvuðust hér við land. Árið 1975 er fyrst veidd loðna að sumarlagi fyrir Norðurlandi og árið 1977 veiða Íslendingar rúmlega 833 þúsund tonn. Enn frekari þungi verður í veiðunum eftir að íslenski flotinn hættir að stunda síldveiðar í Norðursjó um miðjan áttunda átatuginn. Vaxandi nótafloti Íslendinga á sjöunda og áttunda áratugnum beindi spjótum sínum æ meir í loðnuna og loðnan hefur nú í yfir tvo áratugi verið sú fisktegund sem hringnótafloti Íslendinga hefur veitt mest af.
Þegar loðna er veidd yfir sumarmánuðina, fyrir norðan Ísland, fer hún öll í bræðslu. Loðnan er með mjög breytilegt fituinnihald eftir árstíðum. Hún er feitust yfir sumarmánuðina, en þá dvelst hún fyrir norðan land og nærist. Fituinnihaldið er um 17% í september og október, en minnkar alveg fram að hrygningu. Loðna, sem er veidd yfir sumarmánuðina, gefur því betri lýsisnýtingu fyrir fiskmjölsiðnaðinn heldur en loðna veidd yfir vetrarmánuðina. Í lok loðnuvertíðar getur fituinnihald veiddrar loðnu verið um eða innan við 1% (línurit 1). Sjómenn þekkja að hér áður fyrr fór verðmyndun á loðnu eftir fituinnihaldi farmsins, en nú er verðlag á loðnu ákveðið eftir samkomulagi kaupanda og seljanda.
Þegar loðnan er veidd yfir vetrarmánuðina fyrir Suðurlandi er hún ýmist brædd í fiskmjöl, fryst eða kreist til hrognatöku. Sumarveiði á loðnu hefur verið mjög gloppótt en vetrarveiðin er mun jafnari. Það má segja að látlaus veiði sé á loðnu eftir að hún er komin upp á grunnið fyrir Suðurlandi í byrjun febrúar og til loka mars. Í töflu 1 er að finna yfirlit yfir heildarveiði á loðnu frá 1964 til okkar dags. Árin 1982-1983 er veiðibann, en á metárunum hefur veiðin verið um 1,2 milljónir tonna. Því má segja að miklar sveiflur í veiði á milli ára hafi einkennt loðnuveiðar síðustu áratugi.
VEIÐAR ANNARRA ÞJÓÐA ÚR LOÐNUSTOFNINUM
Árið 1977 fara Færeyingar að veiða úr loðnustofninum og ári seinna Norðmenn. Þessi veiði var á hafsvæðinu í kringum Jan Mayen. Árið 1980 gerðu Íslendingar og Norðmenn tvíhliða samning um nýtingu loðnunnar. Í þeim samningi fengu Íslendingar 85% af kvótanum og Norðmenn 15%. Það varð fljótlega ljóst að Grænlendingar vildu einnig fá sinn skerf af kvótanum, enda hélt loðnan sig í grænlenskri lögsögu yfir sumarmánuðina. Árið 1989 var gerður fyrsti samningurinn milli Íslendinga, Norðmanna og Grænlendinga um loðnuveiðar. Nýr þríhliða samningur á grunni þess eldri var undirritaður árið 1994.
Íslendingar ákveða heildarkvótann á loðnu sem Norðmenn og Grænlendingar staðfesta. Norðmenn fá 11% af heildarkvótanum, Grænlendingar 11% og Íslendingar 78%. Almenna reglan er sú að allar þjóðirnar mega veiða úr stofninum í efnahagslögsögu hvers ríkis fyrir sig. Undantekningar frá þessu eru svæði sem eru lokuð vegna friðunar á smáloðnu. Einnig eru það aðeins Íslendingar sem mega veiða sunnan 64°30N eftir 15. febrúar í íslenskri lögsögu. Þar sem Grænlendingar eiga lítið af nótaskipum hafa þeir árlega framselt sinn kvóta, aðallega til Færeyinga.
Heildarveiði erlendra skipa úr loðnustofninum hefur verið mjög breytilegur. Sum árin hefur lítið veiðst en önnur verið gjöful. Norðmenn veiddu mest árin 1985 og 1986, eða liðlega 200 þúsund tonn hvort ár. Mestur afli Færeyinga var á árunum 1985-1987, en þá veiddu þeir um 65 þúsund tonn árlega (tafla 1). Útlendingarnir hafa því, eins og Íslendingar, kynnst því að enginn rær á hann vísan þegar gert er út á loðnu.
LOÐNU- OG HROGNAFRYSTING
Þegar loðna verður kynþroska hægir mjög á vextinum og sú orka sem áður fór í vöxt fer nú í að þroska hrogn og svil. Þegar vetrarveiðin hefst, stundum í byrjun janúar, er hrognafyllingin um 5% og rakainnihald hrognanna um 60%. Í lok janúar er hrognafyllingin komin í 10% og rakainnihaldið áfram 60%. Um miðjan febrúar eru þessar tölur 15% hrognafylling og rakainnihaldið 62%. Í lok febrúar er hrognafyllingin orðin um 20% og rakainnihald hrognanna 67-70%. Hrognafylling loðnu er góður mælikvarði á kynþroska hennar á meðan hrognafyllingin er undir 20%. Þegar hrognafyllingin er komin um eða yfir 20% þá er farið að losna um hrognin í loðnunni og þá tapast auðveldlega nokkuð af hrognum, bæði þegar loðnunni er dælt um borð í veiðiskipin á miðunum og eins þegar löndun á sér stað. Það er talið að hrognafylling loðnunnar sé allt að 30% rétt fyrir hrygningu, en sjaldan mælist meira en 25% hrognafylling. Rakainnihald loðnuhrognanna er betri mælikvarði á kynþroska loðnunnar heldur en hrognafylling eftir að hrognafyllingin er komin yfir 20%. Línurit 2, sem unnið er úr gögnum frá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins í Vestmannaeyjum, sýnir hrognafyllingu loðnu og rakainnihald hrogna, og sýna línurnar meðaltöl síðustu 5 ára. Ofangreindar tölur miðast við fyrstu göngu loðnunnar en seinni loðnugangan, sem er smærri loðna, er nokkru seinni í þroska en sú sem hér er lýst.
Í fyrstu voru afurðir loðnuveiðanna einvörðungu mjöl og lýsi. Árið 1969 fóru landsmenn að frysta loðnuna og árið 1977 var farið að kreista loðnuna og frysta loðnuhrognin. Kvenloðnan er fryst þegar hrognafyllingin er 15-20%, en stundum er byrjað að frysta við lægri hrognafyllingu. Hrognataka hefst þegar rakainnihald hrognanna er 69-70%, en þá er hrognafyllingin komin yfir 20%. Rakainnihald hrognanna er 71-72,5% þegar loðnan hrygnir.
Langstærstur hluti frystra loðnuafurða hefur frá upphafi farið á Japansmarkað. Tafla 2 sýnir heildarmagn frystrar kvenloönu allt frá 1969 og heildarmagn af frystum loðnuhrognum, framleiddum hér á landi, frá 1977, ásamt hlutdeild Vestmanneyinga í þessari framleiðslu á frystum afurðum úr loðnu.
NIÐURLAG
Eins og að framan greinir eru það sveiflur í veiðum og vinnslu sem hafa einkennt loðnuveiðarnar síðustu áratugi. Titill þessarar greinar er „Loðnan, skrýtinn og skondinn fiskur.“ Víst er að loðnan heldur áfram að koma mönnum á óvart. Það er við hæfi að ljúka þessari grein á orðum ónefnds útgerðarmanns hér í Eyjum sem hann viðhafði eitt sinn þegar hann í angist sinni beið eftir að loðnan gæfi sig: „Iss, þessi fiskur er eins og kvenfólk, það er ekkert hægt að stóla á þetta, en samt eru allir að eltast við þetta.“
HEIMILDIR:
Hjálmar Vilhjálmsson 1994: The Icelandic capelin stock. Rit Fiskideildar 8 (1), 281 bls.
Gunnar Jónsson 1992: íslenskir fiskar. 2. útgáfa.
Eyjólfur Friðgeirsson: Athuganir á hrygnandi loðnu. Ægir 67 (13), bls. 242-245.
Eyjólfur Friðgeirsson: Observations on spawning behaviour and embryonic development of the Icelandic capelin. Rit Fiskideildar 5 (4), 35 bls. Útvegur. Útgefandi Fiskifélag Íslands, hagdeild.
Hafsteinn Guðfinnsson, Hafrannsóknarstofnun í Vestmannaeyjum
Gísli Gíslason, Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins í Vm.