Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1995/ Formannavísur
Formannavísur
Formannavísur, eftir Loft Guðmundsson, kveðnar um formenn sem stunduðu róðra frá Vestmannaeyjum vetrarvertíðina 1944.
Loftur var fæddur í Þúfukoti í Kjós 6. júní 1906. Hann lauk kennaraprófi 1931. Kennari á Stokkseyri 1932-33. Lengst var Loftur kennari við Barnaskóla Vestmannaeyja, 1933-1945. Hann var blaðamaður við Alþýðublaðið frá 1947 nokkur ár. Hann orti fjölda gamankvæða og er úrval þeirra í „Ó öldinni okkar“ undir nafni „Leifur Leirs.“ Þá samdi Loftur revíur, gamanþætti og drengjasögur. Dægurlagatextar hans eru fjölmargir og bera af þeirri síbylju sem nú er í tísku. Oddgeir Kristjánsson samdi lög við suma dægurlagatexta Lofts, m.a. Sjómannsvalsinn vinsæla (Ship ohoj). Meðal þekktustu og stærri verka Lofts má nefna Brimhljóð, leikrit, sýnt 1937, og Jónsmessunæturmartröð á Fjallinu helga.
Þá þýddi Loftur allmargar bækur, t.d. um lönd og ferðir. Hann hlaut bókmenntaverðlaun Almenna bókafélagsins 1958.
Loftur kvæntist 1939 Tölu Klemensdóttur frá Görðum í Mýrdal. Börn þeirra eru: Guðmundur Marinó, f. 1941, Indriði, f. 1946, og Gunnar Heiðar, f. 1948.
(Heimildir: Kennaratal I. 1958, Sjómannadagsblað Vestm. 1969, Sjómannadagsblað Vestm. 1979, Skáldatal I. 1973.)
Ásmundur Friðriksson
F. 31. ágúst 1909
D. 17. nóvember 1963
Sjöstjarnan VE 92
Ásmundur frá öllum ber
orðstírgætni að dáða,
á sjöstjörnunni um votan ver
völd hans gæfu ráða.
Ármann Friðriksson
F. 21. nóvember 1914
D. 18. nóvember 1989
Friðrik Jónsson VE 115
Frábær að keppni, festu og ró
fár en drengilegur,
Ármann á Friðrik föng úr sjó
flestum meiri dregur
Einar Sveinn Jóhanness
F. 13. apríl 1914
D. 26. september 1994
Svanhólm VE 60
Einar að sækja unnarhót
ekki er á Svanhólm tregur,
glaður og reifur golu mót
glottir, - og þorskinn dregur
Björgvin Jónsson
F. 16. maí 1899
D. 10. desember 1984
Gotta VE 108
Björgvin Gottu um bátufax
beitir huga glöðum, um skap og svip
ei skiptir strax
þó skvampi á bylgjuröðum.
Guðlaugur Halldórsson
F. 20. maí 1898
D. 4. apríl 1977
Leifur VE 200
Með gætni og heppni um græði smó
Guðlaugur kannar sundin.
Þá er lítið líf í sjó
ef leifur í höfn er bundinn.
Óskar Gíslason
F. 27. maí 1915
D. 28. febrúar 1991
Víkingur VE 133
Drengur góður, djarfur í hug
dagsfarsprýði ræktir,
Óskar á Víking æskudug
ægir til fanga sækir
Angantýr Elíasson
F. 29. apríl 1916
D. 18. júní 1991
Hrafnkell goði VE 210
Hrafnkell goða að hafi snýr
horskur að drengjamati,
orðvar og prúður Angantýr
engum veifiskati.
Guðmundur Vigfússon
F. 10. febrúar 1906
Vonin VE 113
Að veiðum Guðmund Vigfússon
virðar telja frækinn,
hleður úr græði glæsta Von
garpur miðasækinn.
Þorsteinn K. Gíslason
F. 5. maí 1902
D. 25. maí 1971
Sjöfn VE 37
Harðskiptinn við dimma dröfn
djarfur á þorskaleiðum,
Þorsteinn Gíslason á Sjöfn
sækir fast að veiðum.
Adolf H. Magnússon
F. 12. febrúar 1922
Auður VE 3
Adolf táp og aflahug
á Auði sannað hefur,
með fasi stilltu, festu og dug
framavonir gefur.
Þorgeir Jóelsson
F. 15. júní 1903
D. 13. febrúar 1984
Lundinn VE 141
Fyrir þrótt sinn þol og fjör
Þorgeir orðstírs nýtur,
er lundinn hlaðinn heim að vör
hvíta kólgu brýtur.
Haraldur Hannesson
F. 24. júní 1911
Baldur VE 24
Horfði í æsku á unnarblik
undi við báruskvaldur,
hetjuknár við hrannarkvik
Haraldur með Baldur.
Sigurjón Ingvarsson
F. 20. desember 1895
D. 29. mars 1986
Gísli J. Johnsen VE 100
Við sjói og brim á sundi og vör
Sigurjón fangabrögð þreytir
á Gísla Johnsen greiðir för
um græði, í borg og sveitir.
Óskar Eyjólfsson
F. 10. janúar 1917
D. 23. febrúar 1953
Tjaldur VE 225
Þá er aldan iðukvik
og æðrir á faldi
ef Óskar hikar augnablik
út til miða á Tjaldi.
Ingvar Gíslason
F. 7. Júlí 1913
Kristbjörg VE 70
Harðfylginn með horskan þrótt
hvergi að veiði sefur
Ingvar á Kristbjörgu ægisdrótt
ekki friðinn gefur.
Eyjólfur Gíslason
F. 22. maí 1897
Emma VE 219
Greindur og fróður gamni ann
glöggur ef veðri breytir
Eyjólfur um öldurann
Emmu til miða beitir.
Árni Finnbogason
F. 6. desember 1893
D. 22. júní 1992
Ekki hræðir Árna á Vin
ölduslark á miðum,
löngum vosi og veðradyn
vanan á ystu sviðum.
Ástgeir ólafsson
F. 24. febrúar 1914
D. 1. maí 1985
Huginn VE 192
Hylltur söngvum hafs og blæ
Huginn að öldum brýnir,
Við ægisgarpa Ási í Bæ
ættarmótið sýnir.
Jónas Bjarnason
F. 21. júní 1899
D. 24. mars 1978
Alda VE25
Jónas Alda um öldu ber
þótt alda á miðum vaki,
hreinn til svars við hvern sem er
og harður í snöggu taki.
Kristinn Magnússon
F. 5. maí 1908
D. 5. oklóber 1984
Pipp VE 1
Karskur á Pipp um kólguskeið
Kristinn upp þorskinn grefur,
sveigir ei strax af sinni leið
né samþykkt öllum gefur.
Páll Þorbjarnarson
F. 7. oklóber 1906
D. 20. febrúar 1975
Skaftfellingur VE 33
Gáfur og ráðsnilld glæsa Pál
garp á Ránarþingi
með heppni kannar hættumál
hann á Skaftfellingi.
Stefán Guðlaugsson
F. 6. desember 1888
D. 13. febrúar 1965
Halkion VE 205
Á Halkion Stefán sækir sjá,
síst mun hyggðarefni
garpinum reynda Gerði frá
þótt gutli Rán við stefni.
Sigurjón Jónsson
F. 2. janúar 1903
D. 9. apríl 1978
Örnin VE 173
Harður í dáð með hug og þrótt
hvergi um linkind semur
á Örninni hefir Sigurjón sótt
sæinn mörgum fremur.
Þórarinn Guðmundsson
F. 13. janúar 1893
D. 30. maí 1975
Helga VE 180
Glöggur á veðra og græðisfar
greindur og snar í orðum
Þórarinn Helgu úr kvikum mar
hleður að efstu borðum.
Ólafur Vigfússon
F. 21. ágúst 1891
D. 15. maí 1974
Skúli fógeti VE 185
Ólaf á Skúla ölduslark
ægir lítt né tefur,
við sædrif, vos og veðrahark
vanist löngum hefur.
Steingrímur Björnsson
F. 1. febráar 1913
D. 17. september 1983
Jökull VE 163
Auðnuskap og ötul mund
æ mun stefnu valda
er Steingrímur Jökli stilltur í lund
stýrir um bárufalda.
Sigurður Bjarnason
F. 14. nóvember 1905
D. 4. október 1970
Kári VE 27
Gildur um herðar, glettinn á brún
gefur ei hlut án keppni,
Sigurður Kára um sævartún
siglir með aflaheppni