Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1995/ Cantat-3 sæsímakerfið
Björn Indriðason
Cantat-3 sæsímakerfið
Árið 1994 varð mikil bylting í fjarskiptum Íslands við útlönd. Hún fólst í því að hingað var lagður ljósleiðarasæstrengur. Strengurinn var tekinn upp í Höfðavík í Vestmannaeyjum og tengdur inn í sama tengihúsi og gamh Scotlce/IceCanstrengurinn tengdist áður. Þaðan var lagður landstrengur í símstöð þar sem endabúnaðurinn ásamt stjórnstöð er. Þetta nýja sæsímakerfi kallast CANTAT-3 og tengir það saman sex lönd. Þau eru Kanada, Ísland, Færeyjar, Danmörk, Þýskaland og England.
Undirbúningur kerfisins hófst í október árið 1992 þegar skrifað var undir samning milli eignaraðila sem eru 24 símafyrirtæki en samtímis var skrifað undir samning við fyrirtækið STC Submarine Systems í Bretlandi um framleiðslu og lögn sæstrengsins.
Heildarkostnaður kerfisins var um 400 milljónir bandaríkjadala og hlutur Íslands í kerfinu er um 23 milljónir dala. Hlutverk kerfisins er að fjölga talsímarásum til útlanda og að bæta gæði og öryggi þeirra en með síaukinni tækni vex fjarskiptaþörf okkar við útlönd ört.
Sæstrengurinn er í heild um 7800 km langur með öllum greiningum. Í strengnum eru sex ljósleiðarar (þrjú pör). Tvö pör eru notuð fyrir umferð en eitt par er til vara og er hægt að skipta allri umferð yfir á varaparið án þess að notendur verði varir við það. Heildarflutningsgeta kerfisins er 2,6 Gbit/s sem samsvarar um 30000 talsímarásum á einu ljósleiðarapari eða 60000 rásir í heild. Hlutur Íslands í kerfinu er 155 Mbit/s sem samsvarar um 2000 talsímarásum og er hægt að tvöfalda það ef þörf verður á. Þetta er mikil aukning ef miðað er við gamla Scotlce/IceCan-strenginn, en í honum voru um 30 talsímarásir. Til þess að koma samböndunum frá Vestmannaeyjum í land er notað tvöfalt örbylgjukerfi, eitt til Hvolsvallar og hitt á Hraunhól við Vík í Mýrdal.
Til þess að merkið dofni ekki á leiðinni eru magnarastöðvar með u.þ.b. 80 km millibili. Magnarastöðvarnar í CANTAT eru 89 og eru þær orkuvæddar frá strandsímastöðvunum í hverju landi fyrir sig. T.d. þá orkuvæðir stöðin í Vestmannaeyjum greinina frá Eyjum út í greinitengingu BUl. Orkan er flutt eftir innra koparlagi í strengnum og getur spennan verið allt að 9000 volta jafnspenna.
Fjarskipti á ljósleiðara eru mjög hraðvirk og gæði sambandsins mjög mikil þannig að þegar talað er í gegnum þetta nýja kerfi er það eins gott samband og að tala á milli húsa innanbæjar.
Ljósleiðarinn sjálfur, sem öll fjarskiptin fara eftir, er gerður úr mjög hreinu gleri. Ef hafið væri úr jafnhreinu efni þá sæist auðveldlega niður á hafsbotn þar sem dýpst er. Leiðarinn sjálfur er ekki nema á við mannshár á þykkt þannig að uppbygging kapalsins sjálfs byggist á því að verja hann sem best. En þar sem ljósleiðarinn er mjög viðkvæmur er það mjög mikilvægt að kapallinn verði ekki fyrir neinu hnjaski og að ýtrustu varúðar sé gætt ef minnsti grunur liggur á því að verið sé að vinna í námunda við hann. Þess má geta að á undanförnum árum hefur verið gert stórt átak í því að ljósleiðaravæða landið. Lokið var við hringtengingu ljósleiðara umhverfis landið árið 1993 og nú eru flestallir þéttbýlisstaðir á landinu tengdir við ljósleiðarakerfið. Þetta gerir það að verkum að öll byggðarlög á landinu munu njóta góðs af betri fjarskiptum til útlanda.
Á þessari upplýsingaöld er mikilvægt fyrir þjóðir heims að hafa gott og afkastamikið fjarskiptanet. Þetta á ekki síst við um eyland eins og Ísland sem byggir afkomu sína á viðskiptum við þjóðir beggja vegna Atlantshafsins. Það er því mjög mikilvægt að atvinnuvegir okkar séu í beinu sambandi við þá markaði sem þeir vilja eiga viðskipti við og geta þannig sniðið viðskiptin að þörfum markaðarins á hverjum tíma. Mikil aukning er nú á neðansjávarljósleiðarastrengjum í heiminum og er ekki langt að bíða að þeir geti annað allri fjarskiptaþörf yfir helstu úthöf. Frá þessum stóru fjarskiptakerfum má síðan útvíkka kerfin enn frekar og tengja þau lönd sem ekki hafa enn tengst við þessi stóru kerfi.