Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1995/ Breytingar á Gullbergi og Kap
Breytingar á Gullbergi og Kap
Miklar breytingar voru gerðar á Gullbergi VE 292 og annaðist Skipalyftan hf. þessar breytingar ásamt Skipaviðgerðum, sem sáu um tréverkið, og um rafmagnið. Hófst verkið um miðjan september en lauk um miðjan janúar sl. Tók því fjóra mánuði að breyta skipinu.
Helstu breytingar sem gerðar voru á skipinu eru að það var lengt um 8,25 metra með tilheyrandi lagfæringum á nóta- og losunarbúnaði. Smíðaður var bakki á skipið og brú þess hækkuð um eina hæð. Undir brúnni var gerð stakkageymsla og inngangur.
Sett var í skipið ný hliðarskrúfuvél af gerðinni Caterpillar. Við hana er 630 kw. rafall ásamt tilheyrandi rafmagnstöflu.
Nýja 340 hestafla hliðarskrúfur voru settar í stað þeirra gömlu sem voru 150 hestöfl. Þá var settur á skipið nýr þilfarskrani af gerðinni Heila og gengið frá sogdælu til losunar á afla með föstum rörum úr hverri lest. Dæluna má einnig nota til ísdreifingar.
Allur vél- og skrúfubúnaður skipsins var yfirfarinn og skipið málað frá kili og upp úr. Skipið er orðið hið glæsilegasta og á vonandi eftir að skila miklum afla á land í framtíðinni. Kap VE 4 fékk líka upplyftingu. Sett var á skipið ný brú með tilheyrandi innréttingum og nýr vistlegur borðsalur var innréttaður í skipinu. Hafa þessar breytingar tekist vel. Stálsmiðjan hf. í Reykjavík sá um þetta verk.