Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1995/ Óskar bróðir
Snorri Óskarsson
Óskar bróðir!
Óskar í Betel sótti sjó en ástundaði kristna trú með samkomuhaldi, biblíulestri og bænahaldi. Hann eignaðist aldrei stór hafskip eða landsfræg, aðeins skip þar sem hver spýta var úr tré. En fleyið hans var einnig andlegur helgidómur sem byggðist á trúnni á Jesú Krist. Svo komu einnig að landi skemmtilegar sögur sem gjarnan eru kenndar við bræðurna frá Arnarhóli. Samtímamenn Óskars þekktu vel nafngiftina „Óskar bróðir.“ Enginn lagði sér þetta orðatiltæki í munn nema „söngurinn í röddinni“ fylgdi með. Röddina átti „bróðir Einar.“ Svo nánir voru þessir bræður að enginn sá þá öðruvísi en „samvaxna“ menn í óeiginlegri merkingu nema Einar var bara soldið minni.
Óskar Magnús Gíslason fæddist 27. maí 1915 og hefði því orðið 80 ára á þessu ári. Hann lauk barnaskólanum og fór svo að stunda fiskvinnu og seinna sjómennsku. Langskólanámið var fiskimannanámskeið, á fiskimiðunum við Ísland og biblíulestrarnir í Betel. Þeir feðgar, Gísli á Arnarhóli og Óskar, unnu lengi saman við sjávarstörfin en þó fékk Óskar ekki kaupið sitt í nokkur ár. Það fór allt í að greiða tryggingarvíxlana sem Gísli faðir hans ábyrgðist í kaupfélaginu Fram. Hlutirnir áttu ekki að fara svona en í þann tíð vildu menn vera skilamenn. Þannig komu „syndir feðranna niður á börnunum.“ Einu sinni heyrði ég minnst á þessa þrælkun og þá fylgdi það sögunni að skuldir kaupfélagsins lögðust svo þungt á fáa aðila vegna þess að aðrir komust undan ábyrgðum vegna kunningsskapar og stjórnmálatengsla.
Eitt sinn heyrði ég móður mína tala um mismuninn á kaupfélaginu Fram og Edinborg, verslun Gísla J. Johnsens, síðar verslun Einars ríka. Edinborg var svo glæsileg og fín að konurnar klæddu sig jafnvel uppá til að fara að versla. En Fram var ósmekkleg og óaðlaðandi sem mest mátti. Má vera að skuldirnar sem þau þurftu að greiða hafi gert minninguna svartari en raunveruleikinn var.
Svo leið tíminn og Óskar tók við Víkingi VE 133. Þá var hann orðinn vel kunnur miðunum við Vestmannaeyjar. Júlíus Snorrason frá Hlíðarenda var vélstjóri og sameigandi í bátnum ásamt fleirum. Þegar Víkingur kom hingað frá Fredrikssund var Gísli J. Johnsen umboðsmaður bátsins og hluthafi á meðan hann var ekki að fullu borgaður. Reyndist sá bátur hin mesta happafleyta en aðeins of lítill. Eitt sinn voru þeir með netin við Einidrang og reyndust þau alveg bunkuð af fiski. Þeir fylltu bátinn og fóru í land til að losa því enn áttu þeir eftir að draga. Seinnipart sama dags var komin heilmikil snjókoma, kafald, en út fóru þeir samt, það þurfti að ná í netin, finna bauju í annarri eins snjókomu og þessari. En strikið var tekið á Einidrang og þegar þangað var komið skv. klukkunni var hægt á og þá renndi Víkingur að baujunni, hún kom að kinnungnum og var fast upp við síðuna. Bátar með GPS-tæki gerðu það ekki betur í dag. Svona gat heppnin verið.
Í einni sjóferðinni á Víkingi voru þeir í hörku ágjöf við Drangana. Allt í einu kom alda yfir bátinn og hreif einn hásetann með sér útbyrðis. Sá heitir Kristján og var lengi bóndi í Drangshlíð undir Eyjafjöllum. Óskar sá manninn hverfa í brimið, hann sló af og sagði við þá sem voru í brúnni með honum: „Takið við stýrinu.“ Síðan snaraði hann sér útfyrir borðstokkinn og skellti sér til sunds á eftir Kristjáni. Hann náði góðu taki á gallanum, svamlaði að bátnum og þá voru allar hendur tilbúnar til að taka við þeim. Óskar sagði þeim að taka Kristján, sjálfur gæti hann hugsað um sig. Á meðan bramboltast var með Kristján yfir borðstokkinn greip Óskar í lunninguna þegar báturinn valt til hans og hann lét ölduhreyfinguna lyfta sér upp úr sjónum. Hann var kominn á undan inn fyrir og strax farinn að hjálpa við að koma Kristjáni inn í bátinn. Þessu vildi hann þakka vernd Guðs og svo það hvernig hann hafði stundað sjóböð úti á Hamri í heilt ár. Hann hafði verið frekar heilsutæpur á unglingsárum og þá tók hann það upp hjá sér að fara í sjóinn hvern einasta dag í heilt ár. Heilsan lagaðist svo að hann verð ekki kvellisjúkur eftir það.
En Óskar bróðir var mikill trúmaður og þess vegna kom það upp að ekkert var sjálfsagðara en að taka sunnudaginn og aðra helgidaga fram yfír brauðstritið. Í stað þess að drepa þann gula batt hann landfestar og eyddi helginni í faðmi fjölskyldunnar og predikaði með Einari í Betel. Þetta atriði olli mesta ófriði um borð í Víkingi því að ósamkomulag var milli eigendanna um það hvort ætti að róa á sunnudögum eða ekki. Óskar gerðist snemma fylgjandi Hvítasunnusöfnuðinum og þess vegna var þetta trúarafstaða hjá honum að koma til samkomunnar á helgum degi alveg eins og meistarinn frá Nasaret. Eitt sinn er Óskari stóð til boða að kaupa nýjan og stærri bát kallaði hann á meðeigendur sína og bar þetta erindi undir þá. Eitthvað lá illa á einum svo að hann svaraði að bragði að þessi bátur væri alveg nógu stór til að liggja í landi á sunnudögum. Þetta svar varð til þess að menn sáu að ekki var hægt lengur að vera saman í útgerð svo það varð úr að Víkingur var seldur. Þá tók Óskar við Mugg VE sem Helgi Benediktsson átti og svo reru þeir bræður saman á trillunni Albert, uns þeir keyptu Gæfuna. Við þann bát tengjast flestar sögurnar sem hafa gengið um Óskar bróður og Einar. Því miður reyndist sú útgerð engin gullkista í veraldlegum gæðum. Móðir mín sagði mér það að áður en þeir festu kaup á bátnum hafi hana dreymt draum þar sem þau voru tvö á gangi yfir brú. Skyndilega steypist pabbi yfir handriðið og í vatnið. Ekki sá hún hann koma upp en þó vissi hún að hann myndi bjargast. Allt rættist þetta þannig að Gæfuútgerðin var meira tengd basli og skorti á heimilinu en góðri afkomu.
Eitt sinn misstu þeir skrúfuna úti á sjó. Einar hafði oftast orð fyrir þeim bræðrum svo hann fór í talstöðina og kallaði á aðstoð. Báturinn var stutt undan og svaraði að bragði að þeir kæmu eins og skot og drægju þá í land. „Já, allt í lagi, við verðum þá hérna“ var svarað frá Gæfunni.Hvað annað, skrúfulausir! Óskar fékk alveg úrvalsmenn í áhöfnina, t.d. Ásgeir Guðmundsson, Christian Sarinesen, ungverska flóttamenn, Færeyinga og þá Georg Stanley og Sigurð Jónsson og munu þeir vera helstu „sagnfræðingar bræðrasagna.Ekki var ég var við annað en þeir bræður kynnu vel að metaspaugið í sögunum enda margar góðar. Hins vegar sárnaði þeim er birtist í einu slúðurblaðanna að þeir létu vigta sjálfa sig með aflanum. Einn af fyrrum vinnuveitendum Óskars lét söguna á prent. Þeir bræður könnuðu málið og fundu út hvaða vigtarmaður hafði komið sögunni af stað. Þegar þeir mættu hjá honum viðurkenndi hann óþverraskapinn og baðst innilegrar afsökunar. Þeir bræður tóku það gott og gilt og höfðust ekki meira að, eingöngu vegna trúarinnar á fyrirgefninguna. Ef til vill hefði verið best fyrir þá að fá málið dæmt dautt og ómerkt en fyrirgefning og útréttar hendur til sátta nægðu þeim.
Christian Sarinesen var danskur, kokkur góður og kappsamur í veiðinni. Þeir voru á skaki og ekkert að hafa. Ásgeir setti þó alltaf í stóra þorska einhvers staðar uppi í sjó. Christian reiddist yfir að fá aldrei fisk á meðan Ásgeir kom með hverja hífuna á fætur annarri. Þá segir Christian á bjagaðri íslensku: „Hvor fik du fisken?“Ásgeir hváði á sinn einstaka hátt: „Ha-a!“ „Hvor fik du fisken?“spurði sá danski hálfu æstari og vildi fá dýpið uppgefið. „Nú í sjónum“sagði Ásgeir. Þá fleygði Christian frá sér goggnum, reif af sér vetlingana og skaust niður í lúkar. Þar var hann allan daginn og hét því að vera ekki lengur með þessum manni á sjó. Um kvöldið var hann búinn að draga stóra lúðu og eldaði danskan mat í hæsta gæðaflokki og tók á minna gerðist afleysingarmaður í lögreglunni í Vestmannaeyjum þá var það hans fyrsta verk að mæta í móti öllum um borð sem sínum vildarvinum. Allir höfðu gaman af tiltækinu eftir á.
Sem ungur drengur minnist ég þess að hafa verið spurður að því hvort ég ætlaði að vera jafnsterkur pabba. Hann tók fulla olíutunnu sem verið var að slaka niður í bátinn, en hún var að renna úr böndunum, greip hann þá í kantana á henni og setti á dekkið. „Þetta voru falleg handtök“ sagðisögumaðurinn. Spurningunni gat ég ekki svarað því ég vissi að full olíutunna var ógurlega þung og enn í dag hef ég ekki tekist á við þessa tunnuþraut. En mér var vel ljóst að hann var sterkur og beinastór. Þegar einn bræðra minna gerðist afleysingarmaður í lögreglunni í Vestmannaeyjum þá var það hans fyrsta verk að mæta í úniforminu hjá foreldrunum. Skyndilega tók hann upp handjárnin og ætlaði að skella þeim á pabba til að láta hann finna fyrir þeim. En þau komust ekki utanum úlnliðina, svo sver voru beinin.
Eftir að sjómennsku lauk gerðist hann verkstjóri hjá bæjarsjóði Vestmannaeyja í þann mund sem hafist var handa við að koma á vatnsveitu. Þá þurfti mikinn mannskap og við peyjarnir töldumst nýtilegir vinnumenn. Mikill fjöldi unglinga fékk þá vinnu hjá „bænum.“ Óskar var settur verkstjóri yfir stóran peyjahóp og fórst það vel úr hendi. Margt kom uppá eins og gerist og gengur en allir litu á Óskar sem félaga og vin. Enda kom upp það sama í peyjahópnum og á Gæfunni að ýmsar grínsögur fóru að heyrast um Óskar bróður. Ekki varð heldur hljótt um trúmálaumræðuna þó svo að hann hafi aldrei byrjað hana en mörgum svaraði hann snilldarlega án þess að særa einn eða neinn.
Ávallt var hann trúfastur við Hvítasunnusöfnuðinn og margir litu á hann sem sannan andlegan föður og hirði. Maður nokkur kom til hans og sagðist vera að hugsa um að borga tíund til safnaðarins. Hann væri búinn að kaupa happdrættismiða og ef hann fengi milljón þá ætlaði hann að borga Guði tíund. Óskar leit á hann og svaraði að bragði: „Guð segir nei. Hann ætlar sjálfur að eiga 90% en þú færð aðeins 10%.“ Maðurinn hváði við. Þá hélt Óskar áfram og sagði: „Þú átt ævinlega að borga Guði af því sem þú hefur en ekki af því sem þú ekki hefur.“
Í gosinu 1973 fannst honum hann hafa miklu hlutverki að gegna. Honum leið best þegar hann gat verið í Eyjum. Hann fékk margan gestinn inn á heimili sitt sem kveið þeirri ógn og eyðileggingu sem var í gangi. Allir fengu þeir bænastund í eldhúsinu og hughreystandi biblíuorð. Gjarnan var kjötsúpa í pottinum og þannig nærði hann bæði líkamann, andann og sálina. Oft sá ég til hans þar sem hann stóð úti á götu, upplyfti höndum sínum til himins og bað Guð um vernd. Svona fer enginn að nema full meining sé að baki. Eitt sinn bar gesti að garði sem oftar og þá var sest niður til að fá sér kaffisopa. Pabbi gerði borðbæn eins og hans var von og vísa. Þá segir gesturinn: „Óskar, er nauðsynlegt að fara með borðbæn“Þá svaraði Óskar: „Hún aðgreinir okkur frá hundunum!“Fleira þurfti gesturinn ekki að heyra, nú vissi hann að borðbænin ætti að vera sjálfsögð við hvert borðhald í heimilum manna.
Trúarglímur, sem Óskar átti í, bæði við einlæga menn jafnt og illkvittna höfðu kennt honum að orð Hallgríms Péturssonareru sönn þegar hann kvað:
Ungum er það allra best að óttast Guð sinn herra. Þeim mun viskan veitast mest og virðing aldrei þverra.
Um haustið 1990 var hann farinn að finna fyrir því meini sem dró hann til dauða. Í janúar 1991 fékk hann úrskurðinn að hann ætti fáa daga eftir. Þá sagði hann við Einar að nú væri kominn tími fyrir sig eins og Hiskía Júdakonung að ráðstafa húsi sínu því dagar hans væru taldir. Hann gekk frá málum sínum og útför sem best var og kvaddi þessa veröld í friði Jesú Krists enda hafði hann löngu áður sett stefnuna á friðarhöfn frelsarans.