Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1995/Rannsóknarsetrið í Vestmannaeyjum
Dr. Þorsteinn I. Sigfússon, prófessor
Rannsóknarsetrið í vestmannaeyjum
Íslendingar standa um þessar mundir á tímamótum þegar horft er til framtíðarinnar um þróun atvinnulífsins. Menn hafa orðið þess áskynja að auðlindir sjávar eru takmarkaðar og viðkvæmar. Nauðsynlegt er að umgangast þær af þekkingu og nýta þær til hámörkunar framlegðar.
Með samningi háskólarektors og bæjarstjórnar í Vestmannaeyjum, sem gerður var 20. ágúst 1993, var stigið nýtt skref í skipulagi rannsókna í sjávarútvegi hér á landi. Stofnað var til samstarfs Háskólans og Vestmannaeyja með áherslu á rannsóknir á svið sjávarútvegs og náin tengsl við atvinnulífið. Þeir Árni Johnsen alþingismaður og Sveinbjörn rektor höfðu áður mótað frumhugmyndir um slíkt samstarf í samráði við ýmsa sérfróða aðila. Í stjórn verkefnisins voru skipaðir: Þorsteinn I. Sigfússon frá háskólaráði, form., Guðjón Hjörleifsson bæjarstjóri, Sighvatur Bjarnason, f.h. atvinnufyrirtækja í Eyjum, Gísli Gíslason frá RF í Eyjum, Gísli Pálsson frá Sjávarútvegsstofnun HÍ, Gísli Már Gíslason frá Líffræðistofnun HÍ. Örn D. Jónsson forstöðumaður Sjávarútvegsstofnunar HÍ var framkvæmdastjóri verkefnisins. Í ársbyrjun 1995 hóf Páll Marvin Jónsson sjávarlíffræðingur störf sem forstöðumaður setursins.
Á fjárlögum 1994 veitti Alþingi fé til kaupa á húsinu og til stofnunar stöðu sérfræðings. Vestmannaeyjabær hefur lagt fram um helming fjármagns á móti ríkissjóði, fyrirtæki og félög í Eyjum hafa lagt fram fé til verkefna og ber þar helst að nefna Íslandsbanka, Sparisjóðinn, Vinnslustöðina, Ísfélagið og Eykyndil. Rannsóknarsetrið í Vestmannaeyjum hefur verið byggt upp í samstarfi Háskóla Íslands og Vestmannaeyjabæjar með stuðningi Hafrannsóknastofnunar og Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins. Þar er nú aðstaða rannsóknarstofu RF í Vestmannaeyjum og útibús Hafró í Eyjum ásamt aðstöðu fyrir einn sérfræðing í sjávarlíffræði frá Hí sem jafnframt er forstöðumaður setursins. Þar er einnig miðstöð tölvuvinnslu í Eyjum, en fyrirtækið Tölvun hf. leigir aðstöðu í setrinu. Gert er ráð fyrir að nýtt stöðugildi Náttúrufræðistofu Suðurlands hafi aðstöðu í húsinu einnig. Nú eru í húsinu sjö rannsóknarmenn frá þremur stofnunum, nægur fjöldi til að mynda öflugan hóp til rannsókna.
Uppbygging hússins og endurbætur stóðu frá vori til hausts 1994. Margir lögðu þar hönd á plóginn, s.s. Páll Zóphóníasson, Ársæll Sveinsson og Sigurjón Sigurjónsson ásamt vöskum hópi líklega er ein sú veglegasta utan höfuðborgarinnar.
Setrið hefur sérstöðu hér á landi. Það er ekki kennslustofnun. Það er fyrst og fremst vettvangur samstarfs fræðimanna, sérfræðinga og rannsóknanemenda á mjög breiðu sviði tengdu sjávarútvegi. Meðal nýmæla í þessu samstarfi er t.d. ríkur þáttur bæjarfélags og atvinnufyrirtækja í Eyjum í stefnumörkun, stjórnun og verkefnavali.
Við vígslu rannsóknasetursins í október á síðastliðnu ári vakti sjávarútvegsráðherra athygli á þessari staðreynd og lýsti aðdáun á framtaki Vestmannaeyja.
Rannsóknasetrið í Vestmannaeyjum er vettvangur rannsókna og þróunar á svið sjávarútvegs með samvinnu þriggja meginstofnana í einu mesta sjávarútvegsplássi íslands. Starfsemin á fyrsta rekstrarári setursins var fjölbreytileg. RF í Vestmannaeyjum, sem er fjölmennasta deild setursins, sér alfarið um rannsóknir og eftirlit tengt fiskvinnslu í Eyjum. Hafróútibúið undir stjórn Hafsteins Guðfinnssonar hefur með höndum vinnu á vegum móðurstofnunarinnar en hefur sérhæft sig í rannsóknum á fiskislóðinni í nágrenni Eyja þar sem fiskverndaraðgerðir hafa verið framkvæmdar.
Við verkfræðideild HÍ hefur verið unnið meistaraverkefni af Rögnvaldi Sæmundssyni verkfræðingi tengt rannsóknum á gjörvileika samruna fyrirtækja í sjávarútvegi í Eyjum. Fimm stúdentar á lokaári í verkfræði hafa unnið verkefni um gjörvileika meltuvinnslu í fiskimjölsverksmiðju í Eyjum.
Líffræðistofnun og Tilraunastöðin að Keldum hafa unnið að undirbúningi rannsókna á fisksjúkdómum í samvinnu við rannsóknasetrið. Það verkefni mun tengjast norrænum rannsóknum á viðfangsefninu. Framhaldsskólinn í Eyjum tekur nú þátt í samkeppni ungra evrópskra vísindamanna með verkefni tveggja nemenda um hrygningu loðnu þar sem aðstaða fiskasafnsins er nýtt til tilrauna í einstakri rannsóknastofu. Rannsóknir eru í gangi í samvinnu við Vinnslustöðina um útflutning á loðnu í gjafaumbúðum til Japans. Sjávarútvegsstofnun hefur unnið að verkefni á sviði öryggismála sjómanna þar sem víða er komið við. Haldin var ráðstefna um öryggismál framtíðarinnar með þátttöku hins fjölmenna hóps áhugamanna um efnið og þróaðar hugmyndir um hinn örugglega búna sjómann. Rannsóknir á afstöðu sjómanna til öryggismála hafa verið gerðar. Nú eru í undirbúningi mælingar á áraun sjómanna á vegum lífeðlisfræðinga við HÍ.
Mannfræðistofnun HÍ er að vinna að verkefninu „fiskifræði sjómanna" sem felur í sér skráningu og greiningu á þeim reynsluheimi sem sjómenn sjálfir hafa aflað og vinna út frá. Að lokum vil ég nefna að í undirbúningi er verkefni á sviði skipulagsfræða með þátttöku Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga um þróun Suðurlands í byrjun nýrrar aldar sem orðið hefur til fyrir frumkvæði stjórnar rannsóknasetursins.
Þegar horft er til baka yfir síðast liðið ár er ljóst að töluverðu átaki hefur verið hrundið af stað í Vestmannaeyjum. Um leið og ég f.h. stjórnar rannsóknasetursins þakka Vestmanneyingum allan stuðninginn vildi ég hvetja til enn frekari dáða í næstu framtíð.