Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1994/Virkið í norðri

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Guðjón Ármann Eyjólfsson:

Virkið í norðri

Mig langar til að vekja athygli lesenda Sjómannadagsblaðs Vestmannaeyja á ritverkinu Virkið í norðri sem ég hef m.a. stuðst við í sambandi við tvær greinar sem ég hef skrifað í Sjómannadagsblaðið um sjóslysin við Vestmannaeyjar, 1. mars 1942 og 12. febrúar 1944.
Ritverk þetta, sem er í fjórum bindum, er stórmerkilegt og fróðlegt. Úr því eru aðalheimildir um æviferil þeirra sjómanna sem minnst er í fyrrnefndum greinum um Vestmannaeyjabáta en geymast þá jafnframt í blaði sjómanna í Vestmannaeyjum, Sjómannadagsblaðinu. Það er fyrst og fremst III. bindi þessa mikla og merkilega ritverks og Viðauki um æviskrár sem ég hef stuðst við. Gunnar M. Magnúss rithöfundur tók það saman og ritaði Virkið í norðri um þátt Íslendinga í síðari heimsstyrjöldinni 1939-1945.
Fyrsta útgáfa ritverksins kom út árið 1950. Þriðja bindið fjallar fyrst og fremst um þátt íslenskra sjómanna í stríðinu og ber heitið Sæfarendur. Þar er m.a. getið um þátt Íslendinga í björgun þýskra og breskra sjómanna, m.a. þýskra á meðan hlutleysi landsins var virt og fyrir hernámið 10. maí 1940. Hér er átt við björgun skipverja á þýska flutningaskipinu Bahia Blanca sem var að koma frá Suður-Ameríku á leið til Þýskalands í lok desember árið 1939, en valdi sjóleiðina norður um Ísland vegna styrjaldarinnar. Skipið lenti í ísreki um 60 sjómílur norðvestur af Látrabjargi og skrúfaðist inn í ísinn. Við að brjótast út úr ísnum rakst skipið á ísjaka og óstöðvandi leki kom að skipinu sem sökk hinn 10. janúar 1940. Togarinn Hafsteinn undir skipstjórn Ólafs Ófeigssonar bjargaði öllum skipverjum, 62 að tölu, og flutti til Hafnarfjarðar.
Einnig er ritað um fræga björgun togarans Skallagríms undir skipstjórn Sigurðar Guðjónssonar sem bjargaði 353 mönnum af breska herskipinu Andia sem þýskur kafbátur sökkti 85 sjómílur suður af Ingólfshöfða 16. júní árið 1940. Þetta var mikið afrek, unnið í skugga þeirrar hættu sem óvænt tundurskeytaárás gat haft fyrir öll skip þarna í kring.
Ritað er um margar fleiri bjarganir í kafla sem heitir „Happadagar Íslendinga, björgunarárið mikla." Meginefni bókarinnar er um siglingar Íslendinga, sjóslys og hildarleik styrjaldarinnar hér í Norður-Atlantshafi.
Helgi Hauksson útgefandi tók að sér endurútgáfu þessa verks árið 1984 þegar það hafði verið lengi ófáanlegt. Hann endurbætti það mikið og gaf það út í nafni útgáfu sem hann nefndi Bókaútgáfan Virkið. I viðauka við III. bindið, samtals 150 bls., eru vandaðar æviskrár og myndir af öllum þeim Íslendingum sem fórust og féllu í síðari heimsstyrjöldinni 1939-1945. Helgi Hauksson útgefandi hefur þarna unnið mjög vandasamt og tímafrekt verk af mikilli alúð. Í þessari mannanafnaskrá eru ótrúlega miklar heimildir og myndirnar vandaðar. Aftan við æviskrárnar eru myndir og upplýsingar um öll skip og báta sem fórust eða urðu fyrir áföllum í stríðinu, samtals 215 blaðsíður. Á fjórum blaðsíðum eru myndir af 22 bátum og línuveiðurum. Síðan eru 42 hálfsíðumyndir af öllum stærstu flutningaskipum og togurum Íslendinga á þessum tíma.
Helgi Hauksson hefur verið sérstaklega liðlegur við undirritaðan og Sjómannadagsblað Vestmannaeyja og lánað myndir og filmur úr þessum kafla. Það hefur verið hljótt um þessa útgáfu Virkisins í Norðri og starf Helga Haukssonar, þess vegna er ástæða til að vekja athygli á þessu merka og fróðlega ritverki Virkið í norðri er ritverk sem hver einasti sjómaður myndi hafa mikla ánægju af að að lesa og eiga.

G.Á.E.