Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1994/Slysavarnaskólinn
Slysavarnaskólinn í Vestmannaeyjum
Námskeiðahald á vegum Slysavarnaskóla sjómanna í janúarmánuði í Vestmannaeyjum er einn af föstu þáttunum í starfsemi skólans. Það er fátt sem getur raskað þessari hefð og má leiða að því líkum að meira að segja verkföll eru leyst til að ekki verði hætt við námskeiðahaldið. Herjólfsdeilan var nýleyst en verkfall fiskimanna stóð sem hæst þegar við komum siglandi með Herjólfi inn í Vestmannaeyjahöfn í annarri viku janúar. Haldin voru þrjú námskeið næstu tvær vikur, fyrst grunnnámskeið fyrir nemendur á vélstjórnarbraut FBÍV og sjómenn, þá smábátanámskeið og að lokum leiðbeinendanámskeið fyrir nemendur á II. stigi í Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum. Mjög góð þátttaka var á grunnnámskeiðinu en samtals nýttu sér 19 sjómenn verkfallið til að sækja öryggisfræðslu auk vélstjóraefnanna. Nauðsyn þess að fara á slíkt námskeið er mikil fyrir sjómenn, en allt of oft hafa röng viðbrögð á raunarstundu orðið mörgum afdrifarík.
Starf Slysavarnaskóla sjómanna, sem er í eigu Slysavarnafélags Íslands, hefur fyrir löngu sannað gildi sitt í þágu aukins öryggis sjómanna. Þegar er ljóst að það fræðslustarf, sem unnið hefur verið við skólann, hefur skilað góðum árangri og í ljósi þess er óviðunandi að þeir sem gera út eða eiga skip láti áhafnir sínar eða skipverja komast upp með að sækja sér ekki fræðslu um öryggismál. Stjórnvöldum hefur lengi verið þetta ljóst og því var lagt fram á Alþingi breytingarfrumvarp við lögskráningarlög sjómanna þar sem sett var inn ákvæði í lögin sem setur það sem skilyrði fyrir því að sjómenn fái lögskráningu í skiprúm að þeir hafi sótt námskeið í öryggisfræðslu. Frumvarpið varð að lögum 3. mars 1994 og má segja að þá hafi verið stigið eitt stærsta skref í þá veru að gera sjómenn hæfari í starfi. Þekking á eigin öryggi og öryggi skipsins er veigamikill þáttur í sjómennskustarfinu og sú fræðsla verður aldrei metin til fjár. Sjómenn fá aðlögunartíma að lögunum og þurfa skipstjórnarmenn að hafa lokið grunnnámskeiði fyrir árslok 1995 en aðrir skipverjar fyrir árslok 1996.
Því miður taka lögin ekki til endurmenntunar sjómanna. Það ætti að vera öllum augljóst að þau fræði sem kennd eru við skólann verða aldrei fullnumin og því er þörf á að menn sæki sér endurmenntun. Nemendur sem framvísa átta ára gömlu skírteini hafa ekki sömu hæfni og þekkingu og þeir sem framvísa skírteinum yngri en þriggja ára. Þekking gleymist, sérstaklega ef sjaldan eða aldrei þarf að nota hana og engar æfingar haldnar um borð í skipum. Sjómenn þurfa því sjálfir að finna það hjá sér hvenær þeir sæki upprifjun og ættu þeir sem gömul skírteini hafa að huga að nýju námskeiði sér til aukins fróðleiks. Ástæða þess að skipstjórnarmenn hafa skemmri aðlögunartíma til að ljúka öryggisfræðslu er á þeim forsendum byggð að þeir bera ábyrgð á öryggismálum og æfingum um borð í hverju skipi. Af þeim sökum eigi að gera strangari kröfur til þeirra. Í kjölfar þessa ákvæðis í lögskráningarlögunum er full þörf á að útgerðir fari að gera strangari kröfur til skipa sinna hvað varðar öryggismálin, fræðsluna og æfingarnar um borð.
Nokkuð margir hafa ekki enn lokið námskeiðum en í Vestmannaeyjum urðu sem áður sagði 19 menn þessari fræðslu ríkari. Skólaskipið Sæbjörg kom að vísu ekki, þar sem skipið liggur yfir vetrarmánuðina í Reykjavík, og voru námskeiðin haldin í Básum. Grunnnámskeiðið, sem og önnur námskeið, byggist bæði á bóklegu námi og verklegum æfingum og er tíminn æði fljótur að líða, sérstaklega á verklegu æfingunum. Bóklegt efni sem farið er yfir er að sjálfsögðu undirstaða að unnt sé að halda æfingar. Það efni sem Eyjasjómennirnir fengu fræðslu í á námskeiðinu var m.a. neyðaráætlun, ofkæling, endurlífgun, gúmmíbátar, flotbúnaður, eldvarnir og slökkvitækni svo fátt eitt sé upptalið. Æfing með þyrlu Landhelgisgæslunnar TF-SIF er ómetanlegur þáttur á námskeiðinu og kom hún í lok námskeiðsins. Þyrluæfingin er fjórþætt, þ.e. móttaka á lækni og sjúkrabörum, hífa upp menn frá skipi, taka menn úr sjó og að lokum úr gúmmíbjörgunarbát.
Vestmannaey VE 54 var mikið notuð í tengslum við námskeiðið en reykköfunaræfingar fóru fram þar um borð en einnig var skipið notað við þyrluæfinguna og æfingu með gúmmíbát. Nemendur á smábátanámskeiðinu voru allir frá Björgunarfélaginu en því miður létu trillusjómenn ekki sjá sig.
Smábátanámskeiðin eru sniðin að bátum undir 30 brt. og urðu þessi námskeið til í tengslum við 30 tonna réttindanám. Miðast kennslan m.a. við búnað þessara báta. Leiðbeinendanámskeið var haldið fyrir nemendur á II. stigi stýrimannanáms en þetta námskeið er liður í að undirbúa þá í að halda björgunar- og öryggisæfingar og skipulagningu öryggismála um borð. Eru nemendurnir m.a. látnir gera neyðaráætlanir fyrir skip. Ljóst er að full þörf er á að halda námskeið í æfingastjórnun og skipulagningu fyrir starfandi skipstjórnarmenn og hefur Slysavarnaskólinn boðið upp á slík námskeið en því miður hefur ekki fengist nægileg þátttaka til þessa. Tilvalið er fyrir nokkra skipstjórnarmenn að taka sig saman og falast eftir slíku námskeiði. Áður en starfsmenn Slysavarnaskólans héldu aftur upp á land var haldið fræðslunámskeið í meðferð og notkun handslökkvitækja fyrir Eykyndilskonur. Verklega æfingin í að slökkva elda fór fram á Eiðinu og það sama kvöld var komið hið versta veður og er víst að sú æfing á eftir að verða konunum eftirminnileg. Af mikilli hörku börðust þær við eldinn, hver á fætur annarri, við hinar verstu aðstæður en að lokum höfðu þær betur eftir frábæra baráttu.
Á leið okkar upp á land með Herjólfi eftir tveggja vikna námskeiðahald leitaði hugurinn til baka og von okkar er sú að nemendur okkar þurfi aldrei að standa frammi fyrir því að nota nokkuð af því sem þeir lærðu hjá okkur nema það sem lýtur að fyrirbyggjandi aðgerðum. Jú, tilgangurinn er að sjálfsögðu að stuðla að slysa- og óhappalausum starfsvettvangi en það er auðvitað undir hverri áhöfn komið að halda starfinu áfram um borð.
- Hilmar Snorrason, skólastjóri