Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1994/Minning látinna

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Minning látinna

Guðjón Jónsson
Fæddur 1. sept. 1905 - Dáinn 4. mars 1994
Faðir minn, Guðjón Jónsson, fæddist að Stóru-Hildisey í Landeyjum hinn 1. september 1905. Hann varð því tæplega níræður þegar hann lést í Sjúkrahúsi Vestmannaeyja hinn 4. mars sl. eftir skamma legu þar.
Úr Landeyjum blasa Eyjarnar við manni í allri sinni dýrð, ekki síst á góðviðrisdegi að sumri til. Slík sýn hefur auðvitað sterk áhrif á ungan mann, ekki síst af hann dreymir um að verða sjómaður. Svo mun hafa verið um pabba og víst er að rúmlega tvítugur er hann kominn til Eyja og farinn að stunda sjóinn. Festi hann mikla tryggð við Eyjarnar og eirði raunar hvergi nema þar. Örlagaárið mikla, 1973, þegar eldgosið ógnaði byggðinni var hann til að mynda lengst af úti í Eyjum og endranær ef hann brá sér upp á fastalandið var hann orðinn býsna órólegur eftir tveggja daga fjarveru frá Heimaey.
Í upphafi starfsferils var pabbi háseti á ýmsum bátum en árið 1930 lauk hann prófi frá Vélskólanum í Vestmannaeyjum. Fullyrða má að þetta próf hafi markað þáttaskil í lífi pabba því upp frá þessu urðu vélar, vélsmíði og vélgæsla ekki einasta hans vinna heldur líka helsta áhugamálið. Þeir sem unnu með pabba og eru enn ofar moldu geta örugglega skrifað upp á þá fullyrðingu að hann hafi verið mjög fær á þessu sviði. Hann gat nánast gert við hvað sem var og ófá voru færiböndin og vélasamstæðurnar sem hann setti upp fyrir vin sinn, Sighvat í Ási, meðan þeir voru báðir í Vinnslustöðinni. Þar lauk reyndar starfsferli hans árið 1975 en hann valdi sjálfur að hætta og bar við að fæturnir hefðu verið farnir að gefa sig. Ég hygg að þessi ákvörðun lýsi allvel hluta af lunderni pabba: Hann kaus að hætta að vinna þegar honum varð ljóst að afköstin yrðu ekki eins mikil og hann vildi. Hann var dugnaðarforkur og gat ekki sætt sig við neitt hálfkák í starfi.
Pabbi kom víða við á sínum sjómennskuárum. Um skeið var hann á Snorra goða og fór með honum til Grænlands árið 1936. Mátti þá litlu muna að þeir lentu í aftakaveðri því sem réð örlögum rannsóknaskipsins Pourquoi pas sem fórst við Mýrar. Voru þeir komnir á leið til Íslands en þegar skipstjórinn sá hversu barómetið seig leist honum ekki á blikuna og sneri við. Lágu þeir í vari við austurströnd Grænlands meðan óveðrið gekk yfir. Þetta tafði eðlilega för þeirra og það svo að fólk var farið að óttast um bátinn. Trúlegt er að þeir hefðu aldrei náð landi ef þeir hefðu ekki snúið við. Þá má geta þess að pabbi var nokkur ár á Skaftfellingi þegar hann var í flutningum milli Eyja og Reykjavíkur. Þetta var „Herjólfur" þessa tíma og einu sinni fékk ég, barnungur, að fljóta með. Ekki get ég sagt að ég hafi notið þeirrar ferðar þó að faðir minn hafi hlúð vel að mér. Það var skítabræla og ég drullusjóveikur. Mér varð hugsað til þessa ferðalags þegar ég fór til Eyja með nýja Herjólfi um miðjan mars á þessu ári. Þá var líka hið versta veður, suðaustan 11 vindstig en skipið haggaðist varla. Breyttir tímar er óhætt að segja! Um skeið var pabbi í útgerð, fyrst með Ágústi Ólafssyni, en þeir áttu saman Blátind VE 21. Seinna, nánar tiltekið árið 1959, keypti hann í félagi við bróður minn, Jón Valgarð eða Gæsa eins og hann er oftast nefndur, blöðrubátinn Hilmi frá Keflavík og nefndu hann eftir undirrituðum, Hafþór Guðjónsson VE 265, og gerðu út í fjögur ár.
Nokkrum árum eftir að pabbi fluttist út í Eyjar kynntist hann mömmu, Mörtu Jónsdóttur. Þau bjuggu lengst af í reisulegu tvílyftu húsi við Heiðarveg 25 sem pabbi reisti á aðeins einu ári þrátt fyrir kröpp kjör. Þar fæddist undirritaður 26. maí 1947 en á undan mér komu Jón Valgarð (8. október 1931) og Addý (5. apríl 1935). Mamma dó árið 1957, aðeins 52 ára að aldri. Pabbi syrgði hana mjög og gat aldrei hugsað sér aðra konu. Hann bjó svo áfram að Heiðarvegi, allt til ársins 1991, þegar hann fór að Hraunbúðum en þar undi hann hag sínum vel allt til loka.
Pabbi var mikill áhugamaður um knattspyrnu og annálaður Týrari. Ekki svo að skilja að hann hafi verið knattspyrnukappi því hann leiddi ekki hugann að þessari íþrótt fyrr en kominn hart að sjötugu. Þá hóf hann skyndilega að stunda völlinn af miklum eldmóði og skipti engu hvort í hlut áttu eldri eða yngri Eyjapeyjar. Raunar hafði hann oft á orði hvað það væri „gaman að fylgjast með þeim litlu".
Það fór ekki mikið fyrir pabba og þeir sem þekktu lítið til hans hafa ef til vill hugsað sér að þar færi fremur hlédrægur maður og fáskiptinn. Þeir sem gerr vita, vinnufélagar hans og nánustu ættingjar, eiga hins vegar í minningunni mynd af góðlegum manni sem jafnvel átti það til að vera dulítill prakkari. Og starfsfólk á Sjúkrahúsinu í Eyjum lét þau orð falla við okkur ættingjana fáeinum dögum áður en hann dó að sjaldan eða aldrei hefði það kynnst skemmtilegri öldungi. Hann lést sáttur við Guð og menn.
Blessuð sé minning hans.

Hafþór Guðjónsson


Bjarni Bjarnason
Fæddur 12. nóv. 1903 - Dáinn 9. apríl 1993
Bjarni var fæddur 12. nóvember 1903 í Efri-Hömrum í Holtum. Foreldrar hans voru Sesselja Vigfúsdóttir og Bjarni Filippusson. Mörg voru börn þeirra hjóna og ekki auður í búi. Bjarni ólst upp frá þriggja ára aldri hjá föðurbróður sínum Sigurði bónda á Efri-Hömrum og konu hans Ingibjörgu Sigurðardóttur. Lofaði Bjarni mjög fóst-urforeldra sína á Hömrum.
Þá er Bjarni hafði aldur til fór hann í útver „suður með sjó". Var um skeið á skútu frá Hafnarfirði, unglingur og óvanur til sjós. Sagði að þá hefði hann haft það fast í hug að láta ekki „standa uppá sig" eins og stundum var komist að orði, og það tókst vonum framar. Í Hafnarfirði átti Bjarni athvarf hjá heiðurshjónum Vigdísi og Ólafi Thordersen söðlasmið, en hann var sonur séra Stefáns sem var prestur í Eyjum síðustu æviár sín.
Bjarna man ég fyrst þá er hann stóð í túni nágrannabónda og sló af kappi fram á rauðakvöld. Bóndi lá sjúkur um sláttinn og Bjarni sá um heyskapinn.
Á þjóðhátíðarári 1930 kvæntist Bjarni henni Siggu á Búðarhóli, einni af hinum myndarlegu heimasætum sveitarinnar, Sigurbjörgu Einarsdóttur Nikulássonar, bónda á Búðarhóli í A-Landeyjum og konu hans Valgerðar Oddsdóttur, bónda og formanns á Krossi.
Búskap hófu þau í Eyjum í byrjun verstu kreppu aldarinnar. Þá kom sér vel að þau voru samtaka í ráðdeild og hagsýni. Síðan hefur mikið vatn og land runnið til sjávar. Bjarni var maður fjölhæfur og bera störf hans um ævina því vitni; var m.a. sýsluskrifari, sjómaður, verkamaður, verslunarmaður og dýralæknir og mun hið síðasttalda hafa staðið næst upplagi hans; Bjarni var mikill dýravinur.
Bjarni var maður félagslyndur, var meðal annars einn stofnenda Verkalýðsfélagsins og í stjórn þess nokkur ár. Trúnaðarstörf hafði hann með höndum fyrir bæjarfélagið um árabil. Við Bjarni vorum saman í sáttanefnd í þrjá tugi ára vegna þess að það gleymdist að kjósa svo lengi. Við sinntum þessu starfi með ánægju og ekki íþyngdu nefndarlaunin í þá daga. Og sáttabókin ber því vitni hver listaskrifari Bjarni var.
Þá er ys og þys hvunndagsins var úti fór ég stundum í smiðju til Bjarna væri ég að grufla í ættum eða mannlífi í Rangárvallasýslu. Þar var ekki komið að tómum kofum hjá Bjarna; hann var fróðleiksmaður. Lengi mátti ganga að Breiðholtsbónda í kjallaraherbergi þar sem hann batt inn bækur sínar og annarra. Svo var boðið í kaffi hjá Siggu, sem fór þá að mala í könnuna eins og gert var á Búðarhóli í gamla daga, og bornar fram kræsingar, allt heimabakað, ekta. Og þegar voraði mátti kannski sjá kindurnar hans Bjarna spóka sig úti í garði. Það gladdi gömul augu sveitamanns þó ekki hafi hann „sauðarauga" eins og sumir bændur sögðu um þá sem höfði vit á fé.
Breiðholtshjóna er minnst með virðingu og þökk.

Haraldur Guðnason


Sigurgeir Sigurðsson
Fæddur 17. sept. 1920 - Dáinn 20. febr. 1994
Sigurgeir símaverkstjóri var fæddur í Vík í Myrdal en fluttist til Eyja þriggja ára. Þar dvaldist hann upp frá því nær óslitið.
Áður en Sigurgeir gerðist símamaður hafði hann stundað sjóinn og framleiðslustörf í um áratug. Hann hóf sjómennsku fimmtán ára með föðurbróður sínum, Þórði Þórðarsyni á Sléttabóli, og var með honum í nokkrar vertíðir sem háseti á þremur bátum, Hjálparanum, Olgu og Ófeigi I. Sem sumarstarf á þeim árum stundaði Sigurgeir sjóinn frá Bakkafirði með Magnúsi Tómassyni á Hrafnabjörgum.
Vestmanneyingarnir Áslaugur Stefánsson í Manndal og Magnús á Hrafnabjörgum höfðu samvinnu um sumarútgerð á trillubátum frá Bakkafirði á þeim árum. Þeir Eyjamenn Áslaugur og Magnús juku hróður Vestmanneyinga á Austfjörðum sem annars staðar. Það var hin létta lund, hjálpsemi og starfsgleði sem ávann þeim Áslaugi, Magnúsi og þeirra vertíðarfólki miklar vinsældir hins góða fólks á Bakkafirði eins og í Eyjum. Andrúmsloftið með þeim félögum voru meðal bestu minninga Sigurgeirs því að þar var hann meðal frænda og vina. Þá var líka stofnað til vináttu og góðra kynna sem hafa varað ævilangt milli Bakkfirðinga og Vestmanneyinga. Síðasta sumarið á Austfjörðum var Sigurgeir á Vopnafirði með eigin trillubátaútgerð ásamt frænda sínum Þórarni Magnússyni.
Við upphaf vertíðar 1942 hóf Sigurgeir störf sem háseti á Ófeigi II með fyrrverandi nágranna sínum, Guðfinni Guðmundssyni á Kirkjuhól, sem á þeim tíma var farsæll formaður og mikill aflamaður í Eyjum. Með komu sinni á Ófeigi II hætti Sigurgeir að fara til Austfjarða á sumrin en fór þess í stað á síldveiðar fyrir Norðurlandi á tvílembingunum Óðni og Ófeigi í nokkur sumur. Störfum sínum að sjósókn og framleiðslustörfum lauk Sigurgeir í fiskverkun hjá Jóni Ólafssyni á Hólmi sem var eigandi Ófeiganna. Það má segja að annar þátturinn í ævistarfi Sigurgeirs hafi hafist 1. mars 1946 því að þann dag hóf hann störf hjá Pósti og síma í Eyjum. Á fyrsta starfsárinu hjá Símanum í Eyjum sótti Sigurgeir ýmis námskeið á vegum Pósts og síma í Reykjavík. Að þeim loknum starfaði hann á nokkrum stöðum fyrir stofnunina á fastalandinu, en leiðin lá fljótlega aftur til Eyja. Er hann lauk hinu farsæla ævistarfi í Eyjum 31. janúar 1990 vantaði aðeins einn mánuð upp á að hann hefði starfað hjá Símanum í 44 ár.
Sigurgeir gerði ekki víðreist. Eyjarnar voru hans vettvangur, hann fór til dæmis aldrei til útlanda. Um landið ferðaðist hann aðeins vegna starfa sinna á fyrsta starfsári sínu hjá Símanum. Sjóleiðina í kringum landið hafði hann þó farið en þá var hann ýmist á leiðinni norður á síld eða á leiðinni til sumarvertíða á Austfjörðum. Sigurgeir fékk óskir sínar uppfylltar í því að eyða deginum og lífinu í Eyjum.
Þótt Sigurgeir hætti sjómennsku var hugurinn með í starfi sjómanna í Eyjum. Áhugasvið hans var að afla sér fróðleiks um sögu og fornminjar Eyjanna og njóta náttúrunnar, fuglalífsins og hinnar stórkostlegu fegurðar á öllum sviðum í Vestmannaeyjum.

Eyþór Þórðarson


Jónas Guðmundsson
Fæddur 1. ágúst 1921 - Dáinn 21. sept. 1993
Jónas Guðmundsson andaðist í Reykjavík 21. september sl. og var jarðsunginn frá Landakirkju 29. september.
Jónas fæddist 1. ágúst 1921 í Flatey á Skjálfanda. Foreldrar hans voru Guðmundur Karl Jónsson og María Jónasdóttir, hjón að Krosshúsum í Flatey. Þau hjónin eignuðust ellefu börn, en af þeim komust átta til fullorðinsára. Að Jónasi gengnum eru nú fjögur systkini á lífi, þrír bræður og ein systir. Bræðurnir búa fyrir norðan, tveir á Húsavík og einn á Akureyri. Systirin býr í Kópavogi. Um skólagöngu var ekki að ræða nema barnaskóla.
Lífsbaráttan var hörð og barnahópurinn stór. Jónas byrjaði snemma að vinna. Tíu ára gamall byrjaði hann að stokka upp og beita og svo tóku sjóróðramir við.
Árið 1941 kom Jónas hingað til Vestmannaeyja og var til sjós í tuttugu ár. Hann var á Skúla fógeta í tíu vertíðir. Sjómannsferil sinn endaði hann á Stíganda, hjá Helga Bergvinssyni. Á sjómannsárum sínum fór Jónas á mótornámskeið á vegum Fiskifélags Íslands og öðlaðist réttindi sem mótoristi, eins og það var kallað í þá daga. Jónas var verkstjóri í Fiskiðjunni frá 1961-1973. Frá því að gos hófst í janúar 1973 vann Jónas hjá Viðlaga sjóði í Reykjavík og starfaði þar til september sama ár, en þá fluttist hann aftur heim til Eyja og hóf störf hjá Kaupfélagi Vestmannaeyja. Hann var lengst af sem verslunarstjóri hjá Timbursölunni. Hann hætti störfum í lok marsmánaðar á síðastliðnu ári vegna veikinda. Veikindi sín bar hann af karlmennsku, en síðustu níu mánuðina var hann sárþjáður.
Jónas kvæntist eftirlifandi konu sinni, Söru Stefánsdóttur frá Hrísey, 21. desember 1952. Þau hófu búskap í Framnesi hér í bæ, en í maí 1953 keyptu þau svo húsið Landakot, nú Miðstræti 26. Börn þeirra eru: Stefán Óskar, verkstjóri hjá Bæjarveitum Vestmannaeyja, kvæntur Sigurlaugu Grétarsdóttur gjaldkera hjá sýslumannsembættinu hér í Eyjum. Þau eiga einn son, Grétar. Guðmundur Karl, búsettur í Reykjavík, ókvæntur. Anna María húsmóðir, búsett í Reykjavík, gift Jóhanni Valdimarssyni. Þau eiga þrjú börn: Söru, Valdimar og Rakel.
Áður átti Jónas dóttur, Ástu Maríu, með Helgu Valtýsdóttur. Ásta María er búsett hér í Eyjum, gift Hallgrími Júlíussyni netagerðarmeistara. Þau eiga þrjú börn: Þorstein, Júlíus og Þóru. Barnabörnin eru orðin sjö. Jónas var mjög barngóður og hafði yndi af að umgangast börn.
Við Jónas áttum samleið hátt í fjóra áratugi á margvíslegum vettvangi. Ég kynntist honum sem vinnufélaga þar sem græskulaust spaug bar á góma.
Ég tel mig hafa þekkt Jónas nokkuð vel. Þó er nú svo að enginn veit fullkomlega hvað í annars huga býr. Jónas var dulur og ræddi aldrei um sína persónulegu hagi. Ég hygg að þrátt fyrir létt spaug á vinnustað þá hafi Jónas, innst inni, verið mikill alvörumaður. Hann bar mikla umhyggju fyrir heimili sínu og fjölskyldu. Hann var uppalinn í kreppunni og eins og margur sem gekk í gegnum þann erfiða skóla vildi hann kunna fótum sínum forráð í efnalegu tilliti.
Nú er Jónas horfinn sjónum okkar. Ég þakka honum að leiðarlokum samfylgdina. Hann var alltaf heill í starfi, hálfvelgja var honum ekki að skapi.
Ég sendi Söru, börnunum og öllum ástvinum innilegar samúðarkveðjur.

Jóhann Björnsson


Rögnvaldur Jónsson
Fæddur 1. nóv. 1906 - Dáinn 29. sept. 1993
Rögnvaldur Jónsson frá Túnprýði á Stokkseyri lést 29. september sl. Með Rögnvaldi er fallinn í valinn einn af þessum minnisstæðu harðjöxlum sem áttu svo stóran þátt í að byggja upp okkar þjóðfélag. Hann var sannkallaður íhaldsmaður í orðsins fyllstu merkingu og sennilega væri öðruvísi komið fyrir okkar landi ef skoðanir hans hefðu fengið að ráða. Nýtni, samviskusemi og aðhaldssemi voru í hávegum höfð. Þrátt fyrir það var hann höfðingi heim að sækja og gestrisinn með afbrigðum.
Foreldrar Rögnvaldar voru hjónin Sigríður Ragnhildur Pálsdóttir og Jón Hinriksson. Þau bjuggu í Túnprýði á Stokkseyri þar sem Rögnvaldur fæddist 1. nóvember 1906.
Rögnvaldur byrjaði snemma að stunda almenn störf til sjávar og sveita og árið 1926 er hann kominn á vertíð í Vestmannaeyjum. Rögnvaldur flyst alfarið til Vestmannaeyja árið 1939 og gerist þá meðeigandi að bátnum Baldri. Útgerðina stundaði hann í samvinnu við þá Harald Hannesson og Jónas Jónsson. Rögnvaldur var alla tíð háseti á Baldri eða allt til ársins 1962 að hann seldi félögum sínum hlut sinn. Rögnvaldur stundaði því sjómennsku í samtals 36 ár.
Eftir að í land kom stundaði hann fyrst og fremst netavinnu og vann hjá Netaverkstæði Reykdals en lengst vann hann hjá Netagerð Ingólfs. Þeir sem unnu með Rögnvaldi segja að þar hafi farið einstakur vinnukraftur, dugnaður hans, kraftur og samviskusemi voru hreint ótrúleg. Orðin að hlífa sér voru ekki til í hans orðabók. Hann var einnig einstaklega góður og tryggur félagi.
Rögnvaldur kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Þuríði Sigurðardóttur frá Garðhúsum á Stokkseyri, 29. ágúst 1952. Þau voru barnlaus, en Þuríður átti þrjár dætur og sérstaklega gott samband hélst alla tíð milli Rögnvaldar og dætra Þuru og fjölskyldna þeirra.
Í gosinu 1973 urðu kaflaskipti hjá Þuru og Rögga eins og hjá öðrum Eyjamönnum. Hús þeirra að Kirkjubæjarbraut 1 eyðilagðist. Þau settust að í Hafnarfirði og bjuggu sér þar fagurt heimili.
Rögnvaldur Jónsson var einn af þessum mönnum sem settu svip á samtíð sína. Hann hafði áhrif á mann með sínum ákveðnu skoðunum, dugnaði og heiðarleika.
Ég og fjölskylda mín sendum Þuru og öðrum ástvinum samúðarkveðjur. Minningin um einstaklega heilsteyptan og góðan mann mun lifa.

Sigurður Jónsson


Andrés Þórarinsson
Fæddur 14. sept. 1945 - Dáinn 12. nóv. 1994
Andrés var fæddur í Vestmannaeyjum 14. september 1945, yngstur af fimm systkinum. Foreldrar hans voru hjónin Þórarinn Jónsson frá Ásólfsskála og Sigrún Ágústsdóttir frá Núpi, bæði ættuð undan Eyjafjöllum. Þórarinn lést árið 1959, þá aðeins 54 ára, en Sigrún lifir son sinn og býr nú í Reykjavík. Andrés ólst upp í Vestmannaeyjum og var ætíð kenndur við æskuheimili sitt og kallaður Addi í Mjölni. Þar átti hann heima þegar ég kynntist honum fyrst en við vorum fermingarbræður og vorum því samstiga í gegnum barna- og gagnfræðaskóla.
Andrés byrjaði ungur að vinna í Fiskiðjunni og var aðeins 16 ára þegar hann fór fyrst til sjós. Sjómennska varð svo hans ævistarf. Hann lauk námi við Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum vorið 1967 og var eftir það stýrimaður og skipstjóri.
Þegar ég byrjaði sem skipstjóri á Sighvati Bjarnasyni VE 81 í júlí 1981 kom Andrés með mér sem stýrimaður. Þar hófst átta ára samstarf okkar.
Andrés var mikill dugnaðarforkur og má segja að honum hafi aldrei fallið verk úr hendi. Það þurfti aldrei að hafa áhyggjur af því sem hann átti að sjá um, allt unnið með natni og snyrtimennsku. Ungu mennirnir sem voru að byrja til sjós höfðu þar góða fyrirmynd og þar fór maður sem þeim þótti vænt um og gott að vinna með en við eldri og reyndari bárum virðingu fyrir. Þegar legið var í brælum úti á landi var Andrés kominn í eldhúsið að baka flatkökur eða steikja kleinur.
Andrés var hreinskiptinn, réttsýnn og góður drengur sem stóð fast á sínum skoðunum svo það þurfti aldrei að velkjast í vafa um hvernig hann vildi hafa hlutina.
Síðustu árin, meðan heilsan leyfði, var hann stýrimaður á Baldri VE 24.
Andrés kvæntist 2. nóvember 1968 eftirlifandi eiginkonu sinni, Margréti Ingibjörgu Lárusdóttur. Eignuðust þau fimm börn, elst er Hrafnhildur fædd 1968, Þórunn, fædd 1970, Sonja, fædd 1972, Sigríður Lára, fædd 1977 og Lárus Már, fæddur 1986. Barnabörnin eru þrjú. Fyrir hjónaband átti Andrés og dótturina Ólöfu Ingu, fædda 1964. Árið 1972 réðust Andrés og Margrét í byggingu íbúðarhúss við Brimhólabraut 22, þar bjuggu þau sér og börnum sínum hlýlegt og yndislegt heimili, þar sem vel er tekið á móti gestum og þægilegt að koma inn á.
Andrés var sérlega barngóður og hafði gaman af að tala við börn, enda hændust þau að honum, jafnt hans eigin sem og önnur sem komust í kynni við hann. Missir þeirra er mikill.
Aðdáunarvert er hversu vel honum tókst að rækta í garðinum sínum. Allt virðist blómstra sem hann fór höndum um, enda bar hann virðingu fyrir náttúrunni.
Í janúar 1993 veiktist Andrés. Alltaf var hann samt jákvæður og bjartsýnn á bata. Hann tók hetjulega á móti því ranglæti sem það er að veikjast af krabbameini, maður á besta aldri. Hann lést 12. nóvember á Landspítalanum.
Ég bið góðan Guð að styrkja aðstandendur og alla hans fjölmörgu vini í sorg þeirra. Minning um góðan dreng lifir.

Guðmundur Sveinbjörnsson


Niklas Nielsen
F. 25. september 1915 - Dáinn 11. júní 1993
Á fyrri árum Hraðfrystistöðvar Vestmannaeyja komu menn og fóru eins og gengur. Einn dag árið 1947 var þar kominn til vinnu Niklas Nielsen, færeyskur maður. Við starfandi þar kölluðum hann Lása upp á íslenskan máta. Hann var maður hæglátur og viðmótsþýður.
Svo vildi til að við vorum lengi samverkamenn í ísframleiðslu. Venja var að hafa nokkur verkaskipti því að erfiðara var að hlaða upp ísnum í frystiklefa heldur en að taka hann upp úr frystikarinu. En Lási vildi heldur vinna í ísklefa en að fást við rafmagnsgræjur.
Lási var sérlega skapgóður maður, þó langt frá skaplaus, enda munu þeir fáir eða öngvir. Stundum var þessi skrifari fúll í skapi, kannski nýkominn úr vinnu og þá hringt á næturvakt í ísinn en Lási hló og var bara aufúsa í viðbót við dagsverkið.
Í næturkaffinu fræddi Lási mig um Færeyjar. Lífið var ekki dans á rósum. Fimmtán ára var hann ráðinn á skútu sem hélt á Íslandsmið. Við Grænland var leitað á fiskimið. Hann sagði mér frá selnum sem fylgdi skipi hans alla leið til Íslands. Hann kunni vel að segja frá hann Lási. Í Sjómannadagsblaðinu 1990 er vel samin frásögn hans af miklu sjóslysi við Langanes haustið 1927 þegar faðir hans komst einn af en sjö Færeyingar fórust. Um það slys segir í íslenskum annál: „25. sept. 1927 fórust sjö Færeyingar við Langanes."
Ár liðu, úthöldin mörg og löng. Svo kom stríðið og Lási tók þátt í að flytja ísaðan fisk á færeysku skipi til Englands. Loks kom þar að 1944 gerðist hann háseti á vertíðarbát sem var gerður út frá Eyjum.
Niklas var frá „byggðinni" Sumbu á Suðurey. Sú eyja var talin tiltölulega mannflest, útgerð mikil og atvinnulíf með betra móti áður fyrr. Suðureyingar þóttu fjörmeiri og örari en aðrir Færeyingar eða svo sagði skáld þeirra Jörgen-Frantz Jacobsen. Þar er fagurt og vinalegt og best fuglabjörg.
Árið 1947 kvæntist Niklas Steinunni Ólafsdóttur frá Bjargi við Miðstræti. Þau hjónin keyptu húsið og fluttu á Vesturveg og Lási breytti og bætti heimkynni þeirra.
Eftir að Lási hætti til sjós vann hann í fiskvinnslustöðvunum hér. Nokkru eftir 1970 fór heilsu hans að hraka og varð m.a. að sæta sjúkrahúsvist um sinn. Árið 1984 veiktist Steinunn og lá sárþjáð á sjúkrahúsinu hér uns hún andaðist þar 3. janúar 1988.
Niklas bjó einn í Bjargi nær áratug eftir að Steinunn átti ekki afturkvæmt þangað. Hann var því sem margur einmana og ekki varð haldið í horfi sem fyrr.
Síðustu misserin dvaldist Niklas á Hraunbúðum. Útför hans var gerð frá Landakirkju 18. júní 1993.

Haraldur Guðnason


Jóhann Bjarnason
Fæddur 16. okióber 1913 - Dáinn 6. febrúar 1994
Hinn 6. febrúar sl. lést Jóhann Bjarnason frá Hoffelli í Sjúkrahúsi Vestmannaeyja. Var útförin gerð frá Landakirkju 12. febrúar. Jóhann stóð á áttræðu, var fæddur 16. október 1913. Hann ól allan sinn aldur hér og helgaði Eyjunum starfskrafta sína.
Jóhann var sonur Jónínu Sigurðardóttur og Bjarna Bjarnasonar, elstur þriggja alsystkina, hin voru Bjarni rakari, kvæntur Kristínu Einarsdóttur, hafa þau búið í Reykjavík eftir gos, og Sigríður sem gift var Edvald Mixon, bæði látin. Sömuleiðis er hálfbróðir þeirra, Óli, látinn.
Jóhann var 11 ára er faðir hans drukknaði í hörmulegu sjóslysi við Eiðið, 16. desember 1924, en þá fórust sjö menn í blóma lífsins, þar á meðal hinn ástsæli læknir Halldór Gunnlaugsson.
Þannig fékk Jóhann ungur að reyna föðurmissi og mikla sorg, en hann stóð við hlið móður sinnar og yngri systkina og varð að taka til hendinni við alvöru lífsins er aldur og geta leyfði. Það var þeim mikil gæfa er Jónína kynntist Þórarni Ólasyni frá Húsavík. Reyndist hann Jónínu og börnum hennar hinn mesti öðlingsmaður. Eignuðust þau son eins og fyrr er greint frá.
Fönguleg stúlka frá Fáskrúðsfirði varð lífsförunautur Jóhanns og hans mesta hamingja er hann 1937 gekk að eiga Oddnýju Bjarnadóttur er við jafnan köllum Dúddu á Sóla. Hún var fyrsta forstöðukona barnaheimilisins. Hennar starfa er jafnan minnst með miklu þakklæti þeirra fjölmörgu sem nutu hjálpfýsi hennar og kærleiksverka. Voru ófá spor sem Jói átti fyrir barnaheimilið á þessum árum.
Kjördóttir Dúddu og Jóa er Hanna Mallý, búsett í Reykjavík.
Ungur að árum lá leið Jóa, eins og flestra eyjapeyja þá, til sjós. Lengst af var hann vélstjóri. Á stríðsárunum sigldi Jói á m.b. Skaftfellingi er var í ísfiskflutningum til Englands. Voru þetta áhættusamar og oft miklar svaðilfarir á þessum litla báti er var undir öruggri stjórn Páls Þorbjörnssonar. Komust þeir ávallt ferða sinna gegnum brim og boða auk ógna sem af styrjöldinni leiddi og kostaði margan sjómanninn lífið. Jói var með 20. ágúst 1942 þegar þeim félögum á Skaftfellingi tókst að bjarga þýskri skipshöfn, 51 manni, af sökkvandi kafbáti. Er ávallt í minnum haft kjarkur þeirra og æðruleysi, að hugsa fyrst um að rétta bræðrum í nauð hjálparhönd, hverjar sem afleiðingarnar yrðu.
Er Jói hætti sjómennsku eftir þrjátíu ár gerðist hann starfsmaður í vélsmiðjunni Magna og síðar hafnarvörður um árabil. Öll störf stundaði hann með alkunnri ljúfmennsku og skyldurækni, eins og allt er hann tók sér fyrir hendur.
Jói var félagslyndur og starfaði lengi í Vélstjórafélaginu og Starfsmannafélaginu, en vænst þótti honum um Oddfellowregluna þar sem hann lét sig aldrei vanta meðan kraftar leyfðu. Síðasta áratuginn var heilsan farin að gefa sig og sömuleiðis hefur Dúdda átt lengi við vanheilsu að stríða. Á miðju síðasta ári brugðu þau búi er þau fluttust frá Ásavegi 8 sem þau reistu og höfðu búið í lengst af ævinni, í næsta nágrenni Hoffells, æskuheimilis Jóa.
Lá þá leiðin á Elliheimilið. Því miður varð samveran þar ekki löng, en Jói slasaðist illa og lærbrotnaði í desember sl. og var bundinn við rúmið síðan.
Góður drengur er fallinn frá. Guð blessi minningu hans og styrki ástvini alla.

Jóhann Friðfinnsson


Geir Jónsson
Fæddur 20. des. 1954 - Dáinn 10. janúar 1994
Geir var fæddur 20. desember 1954 og fórst við strand Goðans í Vöðlavík 10. janúar 1994. Geir var sonur hjónana Laufeyjar Stefánsdóttur og Jóns Þórðarsonar og hjá þeim ólst hann upp ásamt sex systkinum á Grímsstaðaholtinu í Reykjavík. Hann gekk í Mela- og Hagaskólann og á unglingsárunum dvaldist hann í þrjú ár í Bandaríkjunum hjá systur sinni og mági og gekk þar í skóla.
Við heimkomuna hóf hann nám í Verslunarskólanum, en hafði þar stuttan stans því störfin á sjónum, sem hann hafði kynnst, tóku hug hans allan. Hann kom hingað til Eyja fljótt eftir gos og var hér á sjó í góðum skiprúmum hjá Sævari á Breka, Óla Kristins á Helgu Jóh. o.fl. Einnig vann hann töluvert á netaverkstæði. Í Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum innritaðist hann haustið 1979 og lauk 2. stigs prófi vorið 1981 með góðri 1. einkunn. Þar urðu okkar kynni. Hann var hæglátur, vinalegur og viðræðugóður og bjó yfir fínni kímnigáfu. Hann átti til lauflétt tilsvör, sem særðu ekki, og svo var hann prýðisnámsmaður sem kennarinn þurfti ekki að hafa áhyggjur af. Ég heyrði einnig mjög vel látið af honum á sjónum. Hörkuduglegur, klár og góður félagi.
Eftir skólann hélt hann áfram á sjónum í Eyjum, en svo bauðst honum stýrimannsstaða hjá Granda í Reykjavík. Hann var þó alltaf mjög ánægður hér og var farinn að huga að íbúðarbyggingu, en hætti við og fluttist til Reykjavíkur.
Eyjarnar toguðu þó í, og á síðasta ári réðst hann stýrimaður hingað á Bylgjuna, þó hann hefði enn búsetu í Reykjavík. Hann fór svo þessa örlagaríku ferð á Goðanum með Kristjáni skipstjóra, tengdaföður sínum, til þess að draga strandað skip á flot. Þar fórst hann eins og áður kom fram en öðrum skipverjum var bjargað af varnarliðsþyrlu við erfið skilyrði. Það var átakanlegt og sárt að missa þarna þennan góða og duglega dreng.
Eiginkonu hans, Elínu Hrund Kristjánsdóttur, börnum þeirra tveimur og syni Geirs af fyrri sambúð og öðrum aðstandendum sendum við í Stýrimannaskólanum dýpstu samúð.

Friðrik Ásmundsson


Haraldur Traustason
Fæddur 22. nóvember 1939 - Dáinn 13. júní 1993
Það biðu mín sorgartíðindi er ég kom heim úr stuttu fríi 18. júní sl. sumar. Hann Halli skipstjóri og útgerðarmaður á Ágústu Haraldsdóttur var dáinn. Okkur hjónum var mjög brugðið. Haraldur Traustason var fallinn frá langt um aldur fram. Af honum er sjónarsviptir og við söknum manns sem reyndist okkur afar vel.
Haraldur var fæddur 22. nóvember 1939 í Garðshorni í Vestmannaeyjum, sonur hjónanna Trausta Jónssonar og Ágústu Haraldsdóttur og var elstur átta systkina.
Eftir að kynni okkar Halla hófust í kaffispjalli á vigtinni hjá Torfa Haraldssyni komst ég fljótt að því hvað þessi annars hægláti maður var víðsýnn og ekki síst tók ég eftir að hann hafði mikla réttlætiskennd til að bera. Í þau fjölmörgu skipti, sem við áttum spjall saman á bryggjunni eða vigtinni og umræðuefnið var oftast kvótakerfið, fiskiríið eða afkoma fiskvinnslunnar, - þessi dæmigerði heimur sem við hrærumst í á bryggjunum, fann maður fljótt hvað Halli var vel að sér. Þótt honum hafi verið hæglætið eiginlegt hefði verið full ástæða til að rödd hans hefði heyrst víðar því hugmyndir hans og veruleiki var laus við hroka eða skrum. Haraldur átti gott með að skýra hugmyndir sínar með rökum og við umræður um kvótann, sem oft voru heitar, setti hann sín sjónarmið fram á einfaldan og skýran hátt. Þá var Halli hafsjór af fróðleik um fiskigengd fyrr á árum og hin margbreytilegu skilyrði í sjónum sem sjómenn einir bera skynbragð á.
Mér fannst það lýsa Haraldi vel er ég á vetrarvertíðinni 1993 kom niður í bát til hans með til-boð frá fiskvinnslufyrirtæki sem bað mig um að útvega bát í viðskipti, tonn á móti tonni. Ég vissi fyrirfram að sannfæring Haraldar sagði honum að neita slíku tilboði, en þegar menn eru með lítinn kvóta þarf oft að gera meira en gott þykir. En svar hans við boði mínu var dæmigert fyrir hann. „Ég ætla að tala við strákana," sagði hann. Þannig var Halli, og þannig höfðu hlutirnir verið hjá honum. Þeir voru saman, og skiptu hlut, þess vegna fengu strákarnir hans Halla á Ágústu Haralds að segja álit sitt. Þegar lúkkarspjallinu var lokið lá niðurstaðan fyrir sem allir höfðu átt sinn þátt í.
Ég vil þakka Haraldi Traustasyni fyrir góð kynni þann stutta tíma sem við áttum þess kost að eiga kunningsskap, þau ár voru mér lærdómsrík og til eftirbreytni. Fjölskyldu Haraldar votta ég samúð mína.
Megi góður Guð blessa minningu hans.

Ásmundur Friðriksson


Sigurgeir Kristjánsson Fæddur 30. júlí 1916 - Dáinn 5. júní 1993
Sigurgeir tengdafaðir minn var fæddur á hinu forna frægðarsetri Haukadal í Biskupstungum og var hann næstelstur barna þeirra Guðbjargar Greipsdóttur og Kristjáns Loftssonar. Hann ólst upp með foreldrum sínum í Haukadal til 13 ára aldurs en þá fluttist hann með þeim að Felli í Biskupstungum. Sigurgeir var af þeirri kynslóð sem ólst upp við erfið kjör og var því mjög ungur er hann fór að vinna við hlið foreldra sinna. Enda þó hann hafi ekki liðið skort á uppvaxtarárunum var lífsbaráttan hörð. Tel ég víst að aðstæður fólksins í kringum hann hafi markað hann mjög, en Sigurgeir hafði ríka réttlætiskennd. Varð honum jafnan að orði þegar talað var um breytta tíma „að þeir hefðu mátt batna" því hann fagnaði mjög jafnari lífskjörum. Sigurgeir fór í íþróttaskólann í Haukadal til frænda síns Sigurðar Greipssonar og lauk þaðan prófi árið 1933. Hann fór síðan í Bændaskólann á Hvanneyri og lauk prófi þaðan árið 1937 og síðan stundaði hann búnaðarnám í Svíþjóð veturinn 1946-47. Sigurgeir ræðst bústjóri að Laugardælum í Árnessýslu árið 1942 þar sem Kaupfélag Árnesinga rak stórbú, gegndi hann því starfi til ársins 1950.
Mesta hamingjan í lífi tengdapabba var þegar hann giftist henni tengdamömmu, Björgu Ágústsdóttur, en þau giftu sig árið 1947. Voru þau mjög samhent í lífinu og sýndu hvort öðru ætíð mikla ástúð og virðingu. Þau fluttust til Eyja árið 1950 og bjuggu þau mestallan sinn búskap á Boðaslóð 24 en það hús byggði Sigurgeir. Það var alltaf gott að koma á Boðaslóðina í spjall, því það var alltaf tekið á móti gestum með mikilli hlýju. Sigurgeir og Björg eignuðust fjögur börn. Þau eru Elín, Kristján, Yngvi og Guðbjörg. Sigurgeiri þótti ákaflega vænt um sína fjölskyldu og fylgdist grannt með börnunum sínum og barnabörnum og gladdist innilega þegar vel gekk.
Sigurgeir hóf störf í lögreglunni sama ár og hann kom til Eyja og starfaði hann við löggæslustörf til ársins 1968. Sigurgeir var vel liðinn lögreglumaður. Hafa starfsmenn hans frá þessum tíma sagt mér að hann hafi verið mikið góðmenni, ekkert aumt mátt sjá, athugað hvert mál af kostgæfni og verið sanngjarn og hógvær í sínum störfum. Er hann hætti í lögreglunni árið 1968 var hann ráðinn forstjóri útibús Olíufélagsins og starfaði hann þar þar til hann lét af störfum vegna aldurs árið 1990. Það voru margir sem komu á skrifstofuna hjá Sigurgeiri á Básaskerbryggjunni, þó að þeir væru ekki í beinum olíuviðskiptum. Menn fundu að þangað var gott að leita góðra ráða og úrlausna þegar þörf var á slíku.
Sigurgeir var framsóknarmaður af hugsjón og mikill félagsmálamaður. Mannkostir, góð greind og gerhygli leiddu hann til margs konar ábyrgðar -og trúnaðarstarfa fyrir Framsóknarflokkinn. Hann fylgdist vel með lands- og bæjarmálum alla tíð og var í rauninni rammpólitískur til dauðadags. Sigurgeir sat tvívegis á Alþingi sem varaþingmaður Framsóknarflokksins í Suðurlandskjördæmi, árin 1968 og 1971. Var Sigurgeir fyrsti starfandi lögreglumaðurinn sem settist á Alþingi. Sigurgeir var yfir tuttugu ár bæjarfulltrúi fyrir Framsóknarflokkinn, þar af forseti bæjarstjórnar í níu ár. Sýnir það traustið sem Eyjamenn báru til hans. Var hann forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyja í Heimaeyjargosinu, við þær aðstæður þurfti hann að taka erfiðar ákvarðanir og bera ábyrgð á þeim umfram aðra, enda kom þá dugnaður hans vel í ljós. Forseti Íslands sæmdi Sigurgeir riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu í virðingarskyni fyrir störf hans á þessum örlagatímum. Á meðan hann sat í bæjarstjórn tók hann þátt í því að hrinda af stað ýmsum framfaramálum fyrir bæjarfélagið, svo sem vatnsveitunni frá fastalandinu, uppbyggingu skipalyftu, lagningu hraunhitaveitunnar, úrbótum í umhverfismálum með lagningu skolpleiðslu út fyrir Eiði og hafnarframkvæmdum svo eitthvað sé nefnt.
Sigurgeir sat í stjórn Sparisjóðs Vestmannaeyja frá 1958-1992 og var formaður sjóðsins frá 1974. Hann sat í stjórn Herjólfs í nokkur ár og í stjórn Kaupfélags Vestmannaeyja, einnig var hann félagi í Rotaryklúbbi Vestmannaeyja frá 1970.
Sigurgeir var í útgerð í nokkur ár. Árið 1951 keypti hann með Halldóri Ágústssyni mági sínum, 24 brl. bát, Freyju VE 260, og gerðu þeir mágar hann út til ársins 1954. Síðar keypti hann lítinn bát með Ragnari Helgasyni, vinnufélaga sínum í lögreglunni, og gerðu þeir félagar hann út í nokkurn tíma samhliða löggæslustörfunum. Árið 1988 keypti Sigurgeir svo með Yngva syni sínum 73 brl. stálbát frá Eyrarbakka, Drífu ÁR 300, og var hann í útgerðinni allt til dauðadags.
Sigurgeir var ákaflega fróðleiksfús maður, alla tíð. Hann var bókhneigður og las nánast allt sem hann komst yfir enda vissi hann og mundi ótrúlega margt. Var hann hafsjór af fróðleik, sama hvort það var kveðskapur, atburðir frá Sturlungaöld, gamlar frásagnir frá uppvaxtarárunum í sveitinni eða þjóðlegur fróðleikur. Sigurgeir var vel hagmæltur og fékkst talsvert við ljóðagerð. Hafði hann mikla ánægju af að flytja ljóð af munni fram. Mörg ljóð og vísur liggja eftir Sigurgeir og vonandi eiga þau eftir að verða öðrum til ánægju eins og þau voru fjölskyldu hans og vinum, því að öll eru þau til á blöðum, skrifuð með hans hendi. Sigurgeir skrifaði mikið og liggja margar greinar og kvæði eftir hann í bæjar- og landsmálablöðum. M.a. skrifaði hann þó nokkuð í Sjómanna-dagsblað Vestmannaeyja og í því blaði er að finna eitt hans fallegasta ljóð sem heitir „Sjómannskveðja".
Það var gott að eiga Sigurgeir sem tengdaföður. Hann var ekki bara tengdapabbi, hann var ákaflega góður vinur í raun. Alltaf var hægt að leita til hans ef eitthvað bjátaði á og alltaf fór maður uppörvaður frá honum. Nú þegar við kveðjum Sigurgeir minnumst við hins vörpulega manns með allri sinni glaðværð og glettnu frásagnarlist. Elsku Björg mín, sorg þín og barnanna þinna er mikil, ég veit að góður guð stendur þér við hlið og gefur þér styrk. Við sem eftir stöndum og vorum þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að kynnast Sigurgeiri og eiga hann sem vin munum sakna hans sárt. Hafi hann þökk fyrir allt og allt.

Pétur Steingrímsson


Tómas Guðmundsson
F. 14. des. 1930 - D. 15. nóv. 1993
Kallið kom snöggt og fyrirvaralaust þegar Tómas Guðmundsson stýrimaður á Hugin VE 55 hélt á vit feðra sinna. Hann var frískur og hress í spjalli við strákana uppi á dekki þegar eldsnöggt og án nokkurs fyrirvara var klippt á lífsstreng hans og hann var allur. Huginn lá við bryggju á Eskifirði og eins og oft er í litlum höfnum þarf að færa bátana til og frá til að rýma fyrir öðrum skipum sem komast þurfa að til löndunar eða viðgerða. Þannig var það þennan dag. Þeir voru að fara að færa bátinn milli bryggja og voru komnir á dekk til að sleppa. En sigling Tomma varð lengri en áætlað var því þegar verið var að sleppa varð hann bráðkvaddur á dekkinu í Hugin og sigldi þaðan í sína hinstu för.
Tommi fæddist í Reykjavík 14. desember 1930. Hann var sonur hjónanna Steinunnar Önnu Sæmundsdóttur og Guðmundar Þórarins Tómassonar sjómanns. Tommi var næstelstur fjögurra systkina, ásamt tvíburabróður sínum Sæmundi, en elst er Ragnheiður og yngri bróðir hans er Guðmundur Ingi, útgerðarmaður Hugins.
Tommi ólst upp í Reykjavík og varð fljótt að sjá sér farborða því faðir hans lést er hann var á unglingsaldri. Hann hóf fljótt sjómennsku og valdi sér hana að ævistarfi. Sjómennskuna byrjaði Tommi á Heimakletti RE 26 á síldveiðum í Hvalfirði og upp frá því stundaði hann sjóinn nær óslitið til dauðadags að undanskildum þeim árum sem hann stundaði nám í Stýrimannaskólanum í Reykjavík, þaðan sem hann útskrifaðist árið 1955 með hið meira fiskimannapróf.
Tommi stundaði sjómennsku á ýmsum togurum frá Reykjavík til ársins 1962 er hann fluttist til Eyja að gerðist stýrimaður hjá Guðmundi Inga bróður sínum á Hugin VE 65. Frá þeim tíma starfaði Tommi nær óslitið hjá útgerð Hugins, ýmist sem stýrimaður eða skipstjóri, og átti því 30 ára starfsferil þar um borð. Það var því ekki að undra að hann væri af flestum kenndur við bátinn og best þekktur sem Tommi á Hugin. Fljótlega eftir að Tommi kom til Eyja kynntist hann eftirlifandi konu sinni, Ernu Þorsteinsdóttur. Eignuðust þau saman þrjú börn, Guðmund Þórarin, Lilju Þorsteinu og Ásdísi Steinunni en fyrir átti Erna tvo drengi, Gunnar og Gísla, og gekk Tommi þeim í föðurstað.
Tommi var á margan hátt sérstakur persónuleiki. Hann var ákaflega hreinskiptinn og talaði tæpitungulaust, bæði um menn og málefni. Hann var gæddu skemmtilegri kímnigáfu og var orðheppinn með afbrigðum. Sjaldan varð honum svarafátt og mörg svör hans og orðaleppar geymast í minningu samstarfsmanna hans. Tommi var góður verkmaður og leiddi starfið á dekkinu á Hugin. Hann var eldklár í netavinnu og þegar trollið eða nótin voru rifin göslaðist hann um á dekkinu með nálina og vasahnífinn, lagði saman, skar úr, saumaði og sá um að allir hefðu næg verkefni. Tommi var hjartað í áhöfninni, vissi hvar allir hlutir voru og hvernig átti að haga vinnunni um borð. Þá var hann hrókur alls fagnaðar á góðum stundum og það var aldrei lognmolla í kringum hann.
Tommi var sælkeri og naut góðra kræsinga enda kíkti hann oft í eldhúsið hjá kokknum svona til að athuga hvað væri verið að malla og ánægjan leyndi sér ekki þegar góður matur eða gott kaffibrauð var fram borið. Tommi var ekki allra en þeir sem kynntust honum eignuðust traustan félaga. Hann vildi að menn stæðu sig í störfum sínum og gerðu þeir það fengu þeir gott fyrir en þeir sem ekki gerðu það fengu líka að heyra það frá honum.
Víst er að áhöfninni á Hugin bregður við skyndilegt brotthvarf Tomma og það er sjónarsviptir að honum úr sjómannastéttinni í Eyjum. Skaparinn hefur örugglega ætlað Tomma önnur störf og því kallað hann til nýrra heimkynna þar sem hann mun án efa stýra himinfleyjum með myndarbrag og víst er að ekki verður þar slegið slöku við frekar en á þeim fleyjum sem Tommi sigldi í veru sinni í þessum heimi.
Tommi verður öllum þeim sem honum kynntust eftirminnilegur og minningin um góðan og traustan mann mun lifa meðal okkar.
Guð blessi minningu Tómasar Guðmundssonar.

Grímur Gíslason