Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1994/Mayday

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Mayday

Mayday er alþjóðaorð, merking þess er allsstaðar sú sama í öllum tungumálum veraldar, og þýðir NEYÐARKALL, að alvarleg og yfirvofandi hœtta ógni þeim sem það sendir. Til þess að tryggja að allir skildu hvað við væri átt þyrftu menn að senda út neyðarkall, var sökum hinna mörgu tungumála búið til alþjóðaorð, orð sem allsstaðar þýddi það sama á öllum tungum veraldar og hefði sama eða líkan framburð að því yrði ekki ruglað saman við eitthvert annað orð. Þrátt fyrir þetta er talið að mayday sé dregið af franska orðinu M'aidez sem þýðir „hjálpið mér.“
NEYÐARTÍÐNIR
Til þess að neyðarkallið kæmist nú áreiðanlega til skila var ákveðið að nota fastákveðnar alþjóðlegar tíðnir, svokallaðar neyðar- og kalltíðnir. Í skipaþjónustunni er aðallega um tvær tíðnir að ræða, önnur er á svokallaðri milli- eða miðbylgju, 2182 Kílóhertz (skammst. Khz). Á þessari tíðni eru að auki teknar frá þrjár mínútur, svonefnd þagnartímabil, tvisvar sinnum á hverri klukkustund, þegar allar sendingar eru bannaðar nema neyðarköll, frá 0-3 mínútur yfir heilan tíma, og á hverjum hálfum tíma, 30-33 mínútur yfir. Þessi þagnartímabil eru hugsuð þannig að á þessum tímabilum geti veikar stöðvar kallað sín neyðarköll og sé þá tryggt að allir geti hlustað. Hin tíðnin er á metrabylgju, eða örbylgjusviðinu. 156.800 Khz, eða rás 16 sem algengast er notað. Neyðarkall hefur algjöran forgang fram yfir önnur radíóviðskipti.

HLUSTVARSLA
Talsvert hefur borið á því að neyðarköllin hafi ekki verið send á neyðartíðnunum, heldur hafa menn treyst á að kalla jafnvel á tíðni sem fáir hlusta á og jafnvel á lokuðum rásum eins og farsíma. Menn gera sér oft ekki grein fyrir takmörkunum farsímans, hann nær aðeins í númerið sem hringt er í og nær auðvitað ekki sambandi ef það númer er á tali. Þannig getur oft tapast þýðingarmikill tími. Björgunaraðilinn, eða sá sem hringt var í, verður svo að koma boðunum til strandstöðvanna. Þetta getur oft valdið óbætanlegum töfum á því að hjálp berist nægilega fljótt.

BJÖRGUN
Um leið og orðið Mayday heyrist byrja framkvæmdir. Björgunaraðilar eru látnir vita, allt er sett í gang. Auðvitað fylgir á eftir neyðarkallinu neyðarskeytið sjálft þar sem fram kemur staðarákvörðun, í hverju hættan er fólgin og hvernig hjálpar sé óskað. Það er þó nægilegt að þetta orð heyrist, þá eru menn vissir um að eitthvað mjög alvarlegt er að gerast. Oftlega hefur tekist að bjarga mönnum þótt lítið meira en neyðarkallið hafi heyrst.
Strandstöðvar í radíóþjónustunni eru fyrst og fremst til öryggis enda halda þær stöðugan hlustvörð á neyðartíðnunum. Heyrist neyðarkall frá einhverjum þá sjá þær um að koma boðunum til björgunaraðila umsvifalaust. Jafnframt endurtaka þær neyðarkallið þannig að allir, sem hugsanlega geta veitt einhverja hjálp, viti af aðstæðunum.
Apríl 1994
Kjartan Bergsteinsson TFV