Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1994/Herjólfur verður herskip
Herjólfur verður herskip
Frásögn af síðustu ferð gamla Herjólfs frá Vestmannaeyjum til Gautaborgar
Eyjamenn fjölmenntu á Báskersbryggjuna að kvöldi föstudagsins 4. júní 1993 til að kveðja gamla Herjólf sem hélt úr höfn í Eyjum í síðasta sinn, áleiðis til Svíþjóðar þar sem nýir eigendur biðu skipsins.
Herjólfur, sem hafði kallmerkið TF-VB, var smíðaður hjá Sterkoder skipasmiðastöðinni í Kristjánssundi í Noregi og kom skipið til heimahafnar í Eyjum í fyrsta skipti 4. júli 1976. Áhöfnin, sem sigldi skipinu heim, var skipuð Jóni Eyjólfssyni skipstjóra, stýrimönnunum Lárusi Gunnólfssyni og Sævaldi Elíassyni, vélstjórunum Steingrími Haraldssyni, Gísla Eiríkssyni og Guðfinni Johnsen, Eðvarð Jónssyni bryta, Reyni Böðvarssyni bátsmanni, hásetunum Óskari Elíassyni, Þorsteini Jónssyni og Grími Gíslasyni og þernunni Jóhönnu Ástvaldsdóttur. Auk áhafnarinnar voru nokkrir farþegar með í heimsiglingunni, þar á meðal stjórnarmenn Herjólfs og makar þeirra.
Herjólfur hóf fljótlega áætlunarsiglingar milli Þorlákshafnar og Eyja og þó að fyrstu vikurnar væri ekki til staðar fullnægjandi aðstaða til lestunar og losunar á farmi skipsins og hífa yrði bíla og vörur til og frá borði með skipskrananum fundu Eyjamenn strax hversu mikil bylting i samgöngumálum tilkoma þessa skips var. Eftir að hafnaraðstaða í Eyjum og Þorlákshöfn var tílbúin varð þó byltingin enn meiri fram á við í samgöngumálum Eyjamanna því þá fékkst langþráð tenging við fastalandið. Í fyrstu sigldi Herjólfur ekki alla daga vikunnar milli lands og Eyja en tíminn leiddi í ljós að þörf var fyrir siglingar alla daga vikunnar og reyndin varð síðan að fara varð tvisvar á dag nokkra daga vikunnar yfir sumartímann.
Herjólfur gegndi síðan hlutverki sínu sem samgönguæðin milli lands og Eyja frá sumrinu 1976 fram til 22. júní 1992 er skipið fór í sína síðustu áætlunarferð en eftir þá ferð tók nýi Herjólfur við hlutverki þess gamla. Skipinu var þá lagt og vonast var til að tækist að selja það sem fyrst en það hafði þá verið á sölulista um skeið. Nokkrir aðilar sýndu skipinu áhuga en úr varð að sænski sjóherinn keypti skipið og var áætlað að þeir fengju það afhent í Eyjum 1. júlí 1993. Svíarnir óskuðu eftir að fá skipið afhent fyrr og tókust samningar um að Herjólfur hf. sæi um að koma skipinu til Svíþjóðar í byrjun júni.
Fjölmenni kvaddi Herjólf þegar haldið var til Svíþjóðar klukkan 22:10 að kvöldi 4. júni var síðan landfestum sleppt í Eyjum og haldið áleiðis til Gautaborgar í Svíþjóð. Nýi Herjólfur fylgdi þeim gamla austur fyrir Eyjar þar sem fánum prýdd skipin kvöddust með virktum með lúðraþyt og fánakveðjum. Eyjamenn fjölmenntu á Básaskersbryggjuna og austur með innsiglingunni til að kveðja skipið. Bílflautur voru þeyttar og fólk veifaði til skips og skipshafnar í kveðjuskyni. Óhætt er að segja að skipið hafi verið hvatt með virðingu og talsverðum trega enda hafði skipið verið í eigu Eyjamanna í 17 ár og þau 16 ár sem það þjónaði með siglingum milli lands og eyja reyndist það afar vel og var farsælt fley.
Í áhöfn Herjólfs í siglingunni til Svíþjóðar voru, Lárus Gunnólfsson skipstjóri, stýrimennirnir Sævaldur Elíasson og Sigmar Þór Sveinbjörnsson, vélstjórarnir Gísli S. Eiríksson, Grímur Gíslason og Gústaf Ó. Guðmundsson og matsveinninn Guðríður Bjarnadóttir. Þá voru einnig með í ferð Jónatan Gíslason, sonur Gísla vélstjóra, og þrír menn frá sænska hernum, þeir Peter Kjellson, verðandi skipstjóri á skipinu, Benny Anderson, verðandi vélstjóri á skipinu, og Jan Erik „Kilen“ Johansson, tæknilegur ráðgjafi hersins. Í áhöfninni, sem sigldi skipinu út, voru því fjórir sem verið höfðu í áhöfn þess þegar það kom til landsins fyrir 17 árum, þeir Lárus, Sævaldur, Gísli og Grímur.
Þegar haldið var frá Eyjum var austan kaldi þannig að á móti blés í fyrstu. Herjólfur öslaði þó vel á móti austan öldunni og það var virkilega vinalegt að vera kominn aftur á þann gamla. Í mörg horn var að líta á útleiðinni, sérstaklega hjá þeim sem í vélinni voru því skipið hafði legið tæpt ár við bryggju í Eyjum og höfðu ýmsir hlutir stirðnað upp, skítur fest í lokum og rörum og ýmislegt fleira. Þá var af nógu að taka í þrifnaði því skemmtilegra þótti að skila skipinu í eins góðu horfi og mögulegt var.
Skipstjórinn spúlaði dekkið
Í hálfan sólarhring blés austan kaldinn á móti okkur en síðan fór að draga úr austan áttinni og vindur snérist til suðvestan áttar. Blíðuveður var því það sem eftir var ferðarinnar og gekk siglingin vel. Sunnudaginn 6. júní sigldum við framhjá Færeyjum. Okkur varð að sjálfsögðu sérstaklega hugsað heim þennan dag því þetta var sjómannadagurinn. Við létum okkur nægja í þetta skipti að hugsa heim og hafa síðan símasamband meðan það gafst í geislanum frá Færeyjum.
Síðdegis þennan sunnudag lentu vélstjórarnir í hálfgerðu sulli. Við höfðum átt í basli með eitt og annað vegna þess að skipið hafði lengi legið óhreyft, en það sem mest angraði var einhver stífla í niðurföllum og farið var að koma upp úr svelgjum í eldhúsi og kælum. Eftir talsverða leit að ástæðunni var ekki um annað að ræða en að opna affallstankann og fara inn í hann því lögn frá honum virtist stífluð og eins lögnin að tankanum. Það var allt annað en geðslegt að fara inn í tankann sem var þakinn fitu, og alls konar sulli úr vöskum og niðurföllum skipsins, en um annað var ekki að ræða. Úr tankanum náðist síðan að losa stíflur úr rörunum og það var óskemmtileg gusa sem kom niður þegar stíflan gaf sig. Eftir aðgerðirnar varð því að koma sér úr gallanum niðri í vél, koma honum í sterkt sterkt sápuvatn og trítla síðan á nærbuxunum eins og olíublaut og illa lyktandi lundapysja, beint í sturtuna. Lyktin hélst þó næstu klukkutímana í vitunum. Einhvern tímann hefur maður nú átt huggulegri stund síðdegis á sjómannadegi en þarna.
Á siglingunni aðstoðaði Simmi stýrimaður Jónatan við að senda flöskuskeyti sem dælt var út með nokkuð reglulegu millibili í þeirri von um að Jónatan fengi einhver viðbrögð seinna meir en enn hafa þó engin svör komið.
Samhent áhöfn vann þau verk sem vinna þurfti á siglingunni. Þar sem fáir voru í áhöfn, aðeins yfirmenn, gengu allir sameiginlega til þeirra verka sem skila þurfti. Skipið var skúrað frá vél og upp í brú og skipstjórinn skellti sér í stígvélin síðdegis á mánudeginum, þegar við sigldum í blíðviðri í Norðursjónum, og með uppbrettar ermar á skyrtunni spúlaði hann skipið hátt og lágt. Einhverjir hefðu eflaust kallað þetta að spúla dekkið og það með stæl.
Svíarnir, sem sigldu með, notuðu tímann til að kynna sér betur skipið og meðferð tækja og búnaðar, auk þess sem þeir unnu að skýrslugerð og úttekt á ýmsum hlutum sem ráðgert var að lagfæra þegar skipið kæmi út.
Að morgni þriðjudagsins 8. júní komum við að strönd Svíþjóðar. Þá kom siglandi á móti okkur tundurskeytabátur frá hernum og varð þá mikið pat á Svíunum. Peter Kjellson, verðandi skipstjóri, hljóp til og fann morslampa skipsins og skiptist síðan á kveðjum og skilaboðum við félaga sína úr hernum með ljósamerkjasendingum.
Engu líkt að skemmta sér með Eyjamönnum
Til hafnar í Gautaborg komum við laust fyrir klukkan tólf á hádegi á þriðjudeginum. Skipinu var lagt við hafnarkant sem var á svæði hersins rétt utan við miðborgina og þar átti Herjólfur eftir að liggja næstu vikurnar, uns hann færi í einhverja skipasmíðastöð til endurbóta og lagfæringa.
Rétt eftir að búið var að koma upp landfestum kom til fundar við okkur gamall vinnufélagi minn af Fréttum, Gunnar Kári Magnússon, sem býr í Gautaborg. Við höfðum látið hann vita af okkur um morguninn og hann mætti galvaskur að vanda. Hann aðstoðaði okkur við ýmsar afgreiðslur sem ganga þurfti frá en þegar öllu slíku var lokið bauð hann okkur heim þar sem drukkið var síðdegisöl með honum úti í garði í sól og blíðu.
Að kvöldi þriðjudagsins fór fram stutt og skemmtileg athöfn á afturþilfari skipsins. Klukkan níu var íslenski fáninn dreginn niður um leið og sænsku fánarnir á herskipunum en sérstakt merki var gefið í herstöðinni þegar draga átti fánana niður. Að því loknu buðu Svíarnir upp á léttar veitingar um borð í Herjólfi, skálað var í kampavíni og eitthvert góðgæti borið fram með því og slegið á létta strengi. Allir voru kátir eftir siglinguna og óhætt að segja að sjómannadagurinn hafi verið tekinn út með trukki á írskri krá í miðbæ Gautaborgar þá um kvöldið þar sem sungið var og dansað af miklum krafti. Að sjálfsögðu var Gunnar Kári með í fjörinu og óhætt er að fullyrða að mesta athygli vakti þegar hann og Lárus skipstjóri stigu dans saman og líklega væri besta nafnið á þeim dansi „Axlabandavalsinn“ því axla¬bönd skipstjórans spiluðu stórt hlutverk í danstöktunum. Þó einhver segulskekkja væri komin á kompásinn hjá flestum þegar leið á kvöldið voru allir komnir til skips fljótlega eftir að gleðskapnum á kránni lauk. Þó að ekki væru allir með alveg á tæru nafnið á staðnum þar sem Herjólfur lá þá björguðu því glöggir leigubílstjórar. Gunnar kom til okkar um borð á miðvikudagsmorguninn og sagði að þetta kvöld væri eitt það besta sem hann hefði átt í Gautaborg. „Það er gaman að hitta Íslendinga hér og skemmta sér með þeim. En að fá Vestmanneyinga í heimsókn er meiri háttar! Það er sko engu líkt. Þetta kallar maður að skemmta sér“ sagði Gunnar og þótt heilsan væri ekki upp á það besta þá var það alveg verjandi sökum þess hversu vel heppnað kvöldið var.
Í hestakerru um götur kóngsins Kaupmannahafnar
Þar sem formleg eigendaskipti á skipinu gátu ekki farið fram fyrr en 1. júlí var ákveðið að eftirlitsmaður frá Herjólfi yrði úti fram til þess tíma. Einnig átti hann að fara með Svíunum í gegnum vélbúnað skipsins og svara þeim spurningum sem upp kæmu varðandi hann. Gísli Eiríksson varð eftir úti, ásamt Jónatan syni sínum, en aðrir úr áhöfn héldu áleiðis heim síðdegis á miðvikudag og á fimmtudag. Farið var í gegnum Kaupmannahöfn og stoppað þar svona til að fá sér „smörrebröd og öl“ og kíkja í Tívolíið og á Strikið enda ekki annað hægt fyrst á annað borð var farið þar í gegn. Fimmtudagurinn í Kaupmannahöfn var ógleymanlegur. Veðrið var frábært, sól og hiti og við fórum þrír á rölt á Strikinu, Sævaldur, Simmi og Grímur. Með reglulegu stoppi á útiveitingastöðunum röltum við niður Strikið og þegar í Nýhöfnina var komið varð á vegi okkar hestakerra sem við leigðum til að keyra með okkur til baka á hótelið. Reyndar var Simmi dálítið stressaður, enda áttu þeir Valli von á konunum út um kvöldið, og leit hann alloft á klukkuna, en við Valli réðum ferðinni þennan daginn. Ferðin með hestvagninum varð hreint ævintýri. Við vorum eins og kóngar þar sem við ferðuðumst á hestvagni eftir götum kóngsins Kaupmannahafnar, kátir og hressir. Er við komum að einum gatnamótunum stoppaði vagnstjórinn hestinn skyndilega, leit á okkur og sagði. „Desværre, nu har vi punktered.“ Þetta var til að fullkomna ferðina. Það hafði „sprungið“ á hestinum eða réttara sagt þá losnaði undan honum skeifa svo það var ekki annað að gera fyrir vagnstjórann en að járna klárinn svo hægt væri að halda ferðinni áfram. Vagninn var því stoppaður við gatnamótin og umferðin á eftir varð að smeygja sér framhjá meðan „viðgerðin“ fór fram, en við höfðum það gott uppi í vagninum á meðan, enda hafði vagnstjórinn stoppað á veitingahúsi á leiðinni til að ná í öl svo við gætum svalað mesta þorstanum á leiðinni. Það var vel heitt í veðri og því ekki vanþörf á. Að endingu komumst við þó á hótelið og þaðan var haldið út á flugvöll því ég ætlaði að fljúga heim um kvöldið en þeir voru að fá konurnar út og ætluðu að eyða nokkrum dögum með þeim í Kaupmannahöfn.
Gísli var síðan við eftirlit í Herjólfi í Gautaborg til 20. júní en þá hélt ég aftur út, leysti hann af og var við eftirlitið fram til þess tíma er skipið var afhent nýjum eigendum og gekk þá frá þeim málum sem ganga þurfti frá við skiptin. Unnið var um borð í skipinu alla daga við ýmsar lagfæringar og prófanir á búnaði. Einnig var unnið að hönnun á breytingum og fulltrúar skipasmíðastöðva, sem ætluðu að bjóða í verkið, komu og skoðuðu. Við leigðum okkur herbergi á stúdentagarði nálægt miðbænum og þurftum því að fara inn í herstöðina á hverjum morgni þegar við komum til skips og gekk það yfirleitt vel þó stundum væru hliðverðirnir að útbúa einhverja rekistefnu og þurftu að hringja út og suður áður en okkur var hleypt í gegn. Meðan Gísli dvaldist úti og eins eftir að ég kom var Gunnar Kári okkar helsta hjálparhella og var boðinn og búinn að rétta aðstoð og hjálparhönd sem við nýttum okkur oft á tíðum. Þá var Gunnar duglegur við að halda okkur sel skap utan vinnutímans og með honum og sænskum vinum hans áttum við eftirminnilegt Jónsmessukvöld í Gautaborg.
Virðuleg og eftirminnileg fánaskiptaathöfn fimmtudaginn 1. júlí fór síðan formleg afhending skipsins fram. Ákveðið hafði verið að fánaskipti færu fram klukkan eitt eftir hádegi en pappírsvinnan varðandi eigendaskiptin og greiðslur gekk treglega um morguninn svo ekki varð ljóst fyrr en eftir klukkan tólf að allt væri að verða klárt þannig að eigendaskiptin gætu farið fram.
Blíðviðri var í Gautaborg þennan dag, heiðskír himinn, logn og hitinn 25°C. Athöfnin við fánaskiptin var formföst en ákaflega virðuleg og mun örugglega seint líða mér úr minni. Viðstaddir athöfnina voru Benny Anderson, verðandi vélstjóri á Herjólfi, Jan Erik „Kilen“ Johansson, tæknimaður hersins, Bertil Lundin, frá innkaupadeild hersins, Áke Svensson, skípamiðlari sem sá um söluna, ásamt einum fulltrúa til frá sænska hernum, og síðan Grímur Gíslason, greinarhöfundur, og kona hans Bryndís Guðmundsdóttir. Allir voru prúðbúnir og fulltrúar hersins voru klæddir einkennisbúningum sínum. Við stilltum okkur upp aftur á dekki við fánastöngina þar sem íslenski fáninn blakti við hún. Stundvíslega klukkan eitt kom borðalagður flotaforingi út á brúarvæng eins tundurskeytabátsins sem lá í höfninni með Herjólfi. Hann stillti sér upp en blés síðan í flautu til merkis um að draga ætti fánann niður. Ég dró þá íslenska fánann niður og leysti hann af flagglínunni en afhenti þeim Bertil Lundin og „Kilen“ línuna og þeir festu sænska fánann við hana og síðan dró „Kilen“ sænska fánann upp. Þegar hann var við hún var aftur flautað frá herskipinu til merkis um að fánaskiptum væri lokið. Að því loknu afhenti ég „Kilen“ íslenska fánann að gjöf. Athöfn þessi var mjög virðuleg og snerti að mér sýndist alla viðstadda. Við vorum þarna að kveðja gamla Herjólf sem var eftir fánaskiptin kominn í eigu sænska hersins og frá þeim tíma átti Herjólfur að bera nafnið Gálö. Nafnið Gálö er komið frá eyju sem sögð er vera perlan í syðri skerjagarði Stokkhólms en eyjan liggur um þrjár mílur suður frá Stokkhólmi. Nafnið Gálö er komið af nafninu Gárdö, sem á íslensku útleggst sem Garðey. Þó Gálö sé kölluð eyja er hún það samt ekki í eiginlegri merkingu því hún er landföst og er því frekar nes sem skagar út frá ströndinni, en sænskir kalla þetta eyju. Að sögn Svíanna er ákaflega fallegt í Gálö og fannst þeim þeir sýna Herjólfi mikla virðingu með þessari nafngift enda voru þeir ákaflega ánægðir með skipið og urðu reyndar ánægðari með hverjum deginum sem leið og þeir kynntust skipinu betur.
Góðar minningar fylgja gamla Herjólfi
Þegar flaggskiptum var lokið var sest niður og gengið frá þeim málum sem eftir átti að klára en síðan fórum við Bryndís að búa okkur til brottfarar því við ætluðum að leggja af stað heim síðdegis þennan dag.
Um klukkan hálfþrjú yfirgáfum við gamla Herjólf. Þegar við gengum niður landganginn stóð „Kilen“ heiðursvörð og kvaddi að hermanna sið. Við Bryndís kvöddum skipið með söknuði og það var ekki laust við að ég væri hálfklökkur. Minningar hrönnuðust upp í hugann þegr við gengum frá borði því bæði áttum við ýmsar minningar sem tengdust þessu skipi enda má segja að það hafi verið örlagavaldur í lífi beggja því upphaf kynna okkar má rekja til þess er við störfuðum þar saman sumarið 1977.
Þegar við ókum frá höfninni lá Herjólfur innan um tundurskeytabátana og það var skrýtið að sjá sænska fánann blakta við hún í skut skipsins. Herjólfs, sem þjónað hafði okkur Eyjamönnum vel og dyggilega, biðu nú önnur verkefni á nýjum slóðum.
Eftir að herinn tók við skipinu hófust breytingar á því. Það var sandblásið og ýmsar breytingar gerðar innan skips og var þeim breytingum lokið í byrjun vetrar. Þá byrjaði skipið í þeim verkefnum sem því er ætlað sem þjónustu- og birgðaskipi fyrir tundurskeytabáta og önnur skip hersins sem eru í sænska skerjagarðinum. Í skipinu eru olíu-, vatns- og matarbirgðir auk varahluta og þess háttar. Þá er um borð spítali og viðgerðarverkstæði auk hvíldaraðstöðu fyrir sjóliðana þannig að skipið sinnir margvíslegu þjónustuhlutverki. Að sögn Svíanna eru þeir mjög ánægðir með skipið og hefur það á engan hátt valdið nýjum eigendum sínum vonbrigðum.
Herjólfur var happaskip sem þjónaði Eyjamönnum vel og markaði þáttaskil í samgöngumálum Vestmanneyinga. Véladagbók var haldin í Herjólfi fram til þess tíma er skipið var afhent nýjum eigendum. Það er vel við hæfi að ljúka þessari umfjöllun um síðustu ferð Herjólfs með lokaorðunum úr véladagbókinni sem síðast var ritað í 1. júlí 1993, en þar er skrifað. „Hafi Herjólfur þökk fyrir þjónustuna við Eyjamenn í gegnum árin og þá gæfu sem fylgt hefur ferðum hans gegnum tíðina. Vonandi fylgir sú gæfa skipinu undir nafninu Gálö í nýjum verkefnum. Með þeim orðum lýkur véladagbók ms. Herjólfs TF-VB.“
Grímur Gíslason