Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1994/Hafrannsóknarstofnun kaupir bát
Hafrannsóknarstofnun í Eyjum kaupir rannsóknarbát
Um síðustu áramót festi Hafrannsóknarstofnun kaup á bátnum Aðalbjörgu Þorkelsdóttur VE 282, sem er tæplega 10 tonna bátur af gerðinni Gáski 1000. Forsaga málsins er sú að allt frá því að skóla- og rannsóknabáturinn Mímir RE fórst hefur verið til tryggingarfé sem ekki hafði verið ráðstafað. Síðastliðið vor, þegar farið var að huga að samstarfi Háskóla Íslands og Vestmannaeyjabæjar með þátttöku útibús Hafrannsóknastofnunar, útibús Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og Fiska- og náttúrugripasafnsins í Vestmannaeyjum, skrifuðu forstöðumenn þriggja síðasttöldu stofnana bæjarráði bréf með ítarlegri samantekt um margs konar verkefni sem hægt væri að sinna með því að hafa slíkan bát til umráða. Einnig bentum við á að fé væri til óráðstafað hjá sjávarútvegsráðuneytinu sem mögulegt væri að krækja í. Bæjarstjóri og bæjarráð tóku undir þessar hugmyndir og studdu þetta mál með ráðum og dáð. Þegar ljóst var í haust að eyða ætti fénu til bátakaupa var þessi greinargerð send sjávarútvegsráðuneytinu. Stuttu síðar ákvað svo Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra að þessu fé skyldi varið til kaupa á tveimur rannsóknabátum fyrir Hafrannsóknastofnun. Skal annar vera staðsettur í Vestmannaeyjum en hinn á Akureyri. Báðir bátarnir munu nýtast háskólarannsóknum, hvor á sínum stað, auk annarra aðila sem eftir því leita. Fé úr sömu fjárveitingu, til að útbúa bátinn fyrir slíkar rannsóknir, liggur fyrir og verður ráðist í að kaupa þann búnað sem á þarf að halda nú í vor.
Bátinn á að nýta til ýmiss konar rannsóknastarfa kringum Eyjar, einkum á grunnslóð. Er hann talinn mjög heppilegur kostur til ýmiss konar sjó- og svifrannsókna, botndýrarannsókna og jafnvel til fiskirannsókna. Auk nota Hafrannsóknastofnunar af bátnum er fyrirhugað að aðrir aðilar geti nýtt sér bátinn til rannsókna og kennslustarfa. Er þar einkum átt við hið nýja samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Vestmannaeyjabæjar sem nú er að stíga sín fyrstu skref, bæði á grundvelli rannsókna og kennslu háskólastúdenta. Einnig er hugsanlegt að fleiri aðilar geti nýtt sér bátinn, t.d. Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins í Vestmannaeyjum til sýnatöku fyrir sig og Heilbrigðiseftirlitið, Náttúrugripasafnið til söfnunar dýra á grunnsævi, Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum við líffræðikennslu og síðast en ekki síst Náttúrufræðistofa sem hefur starfsemi í Vestmannaeyjum í ársbyrjun 1995.
Enginn vafi leikur á að tilkoma slíks báts gerbreytir allri aðstöðu til sjávarrannsókna frá Eyjum til hins betra og víkkar það starfssvið sem hægt er að sinna frá útibúi Hafrannsóknastofnunar og leggur um leið grunn að því að aðrir aðilar geti unnið að sjávarrannsóknum frá Eyjum. Þó báturinn sé ekki stór býður hann upp á mikla möguleika á tilteknum sviðum rannsókna. Öðrum þáttum verður að sjálfsögðu sinnt áfram á stærri skipum.
Ákveðið hefur verið að báturinn heiti Friðrik Jesson VE 177. Heitir hann eftir Friðriki Jessyni, fyrrverandi forstöðumanni Fiska- og náttúrugripasafnsins í Vestmannaeyjum. Friðrik er öllum Eyjamönnum að góðu kunnur fyrir starf sitt á safninu. Þar vann hann brautryðjandastarf varðandi eldi sjávarfiska og annarra sjávardýra og kom upp einstæðu safni lifandi sjávarvera á landsvísu og þó víðar væri leitað. Hann safnaði miklum fróðleik um atferli fiska og fleiri sjávarbúa og vissi meira um þau mál um tíma en lærðustu menn hér á landi. Mér finnst fara sérstaklega vel á því að báturinn beri nafn þessa manns og að Hafrannsóknastofnun sé heiður að því að fá að nota nafn hans á þennan fyrsta rannsóknabát Vestmannaeyja.
Hafsteinn Guðfinnsson, útibússtjóri Hafrannsóknastofnunar