Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1994/Hafið

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Hafið

Þú hjalar við strönd eins og barnið við brjóst
og blíðlega öldunum vaggar.
Með svæfandi söng uns af degi er ljóst
og skvaldrið í fuglunum þaggar.
Svo þegar röðull úr djúpinu rís
og raddir í fjörunni vakna,
sofna mun nóttin, sú draumanna dís,
en dagur af svefnrofi vakna.

Á góðvirðrisdögum er geislanna flóð
glettist við síkvikan æginn,
þá sýnist mér guð vera að syngja þér ljóð
og sólstöfum rita á sæinn.
Í kvöldroða sólin þér hnígur í skaut
og sekkur í glóandi bjarma,
en birtan, hin dumbrauða, siglir á braut
í bárunnar dúnmjúku arma.

Ægir í bræði oft herjar um höf,
með helgreipum veldur því grandi.
Sökkvir þeim feigu í fljótandi gröf,
en flestum þó fleytir að landi.
Þegar þú reiðist og hefur upp raust,
rómsterki konungur drafnar,
þá er nú betra að binda allt laust
og byrðingi stýra til hafnar.

Nú reynir á hugrekki, snilli og hönd
og heita á guð sér til bjargar.
Hrammur þinn kaldur vill veita þeim grönd
og víst eru ekkjurnar margar.
Þér alls er ei varnað, þú volduga haf
og veg þinn í ljóðum menn prísa.
Syngja þér söngva og hrífast mest af
er storkandi holskeflur rísa.

Stórbrotinn ertu, að höfðingja sið,
og stórt ertu vanur að gefa.
Bágstöddum býður, að fylla hvern kvið
og barnsgrátinn sáran að sefa.
Er kotanna harmahljóð kveða við hátt,
kveljandi sultur og seyra,
opnar þú búrdyrnar breiðar á gátt:
„Blessaðir étið þið meira".

Hilmir Högnason


Atli á skrifstofu sjúkrahússins skildi ekkert í nótu frá Vélsmiðjunni Þór
Það ég veit um þessi mál að
Þórsmenn iðnir puða. Þetta er rör og
rústfrítt stál, rær og argonsuða.

Vor í lofti
Nú er sól og sumartíð,
sólskríkja og lóa syngja dúett
hátt í hlíð, heyrist vell í spóa.

Í veislulok
Nú er lokið dýrðardegi dúnalogn er
dottið á. Finnst mér ei það vera úr
vegi veisluföng að þakka þá.
Rukkarar Rafveitunnar hrella mann
Greiddi stúf af gjaldakúf,
glaður hnúta leysti.
Lundin hrjúf varð létt og ljúf,
lífið úti geisti.