Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1994/Fiskmarkaður Vestmannaeyja
Snorri Jónsson
Fiskmarkaður Vestmannaeyja
Það var á útmánuðum 1991 að við félagarnir Sigurður Gísli Þórarinsson og undirritaður, Snorri Jónsson, fórum að ræða þann möguleika hvort ekki væri tímabært að reyna að opna fiskmarkað hér í Eyjum. Við rákum þá hvor sitt útflutningsfyrirtækið hér í bæ en vorum farnir að selja fisk bæði innan bæjar og upp á land án þess að hafa nokkra greiðslutryggingu. Þar sem okkur fannst þetta óvarlegt og ótryggt gagnvart útgerðum þeim sem við seldum fyrir ræddum við þetta oft á bryggjunum og bar allt að sama brunni, okkur fannst að þetta væri möguleiki. Hér hafði verið rekinn fiskmarkaður um nokkurra mánaða skeið tveimur árum fyrr, en hann hafði vantað tengsl upp á land því of fáir kaupendur voru á eyjunni. Eitt af því fyrsta sem ég athugaði var hvort Herjólfur, og þá sérstaklega nýr Herjólfur, mundi flytja fisk til meginlandsins ef hann seldist þangað. Svarið var jákvætt en það gekk illa að fá fiskinn fluttan þegar að kom og gekk svo langt að einu sinni var fullum vagni, sem búið var að koma um borð og ganga frá, ekið aftur í land hér og fiskurinn skilinn eftir. En þetta er nú liðin tíð og ætla má að flesta virka daga fari einhver fiskur milli lands og eyja með Herjólfi. Um tengslin við markaði uppi á landi þarf vart að fjölyrða, því nær öruggt má telja að enginn möguleiki væri á að starfrækja markað hér í Eyjum án þessara tengsla því kaupendur hér eru fáir, en með þessum tengingum margfaldast fjöldi þeirra.
Við skrifuðum bréf fiskverkendum, útgerðum og þjónustufyrirtækjum við sjávarútveginn því við töldum að þau fyrirtæki sem þjónuðu flotanum hefðu áhuga á að halda bátunum heima við, en mikið var farið að bera á því að útgerðarmenn létu báta sína landa á stóru fiskmörkuðunum í Hafnarfirði og Reykjavík. Þar með fluttist þjónusta við þessa báta að einhverju leyti úr plássinu. Einnig fannst okkur að með tilkomu markaðar hér væri líklegt að aðkomubátar kæmu til löndunar og þyrftu þar með einhverja fyrirgreiðslu. En skemmst er frá að segja að sárafá þjónustufyrirtæki sáu sér hag í því að taka þátt í opnun markaðarins. Eftir að hafa rætt við ýmsa aðila, tryggt okkur húsnæði og fleira héldum við undirbúningsfund í Alþýðuhúsinu. Þar mættu allmargir heimamenn ásamt stórum hópi Suðurnesjamanna sem hingað kom með þá hugsun að stofna hér útibú frá Fiskmarkaði Suðurnesja. Eftir á að hyggja held ég að við hefðum ekki mátt seinni vera í þessu máli því annars væri hér útibú frá fiskmarkaði frá meginlandinu og Eyjamenn hefðu ekkert með þessi mál að gera. En það varð úr að á þessum fundi var kosin undirbúningsnefnd að stofnun fiskmarkaðar.
Nefnd þessi hóf störf þá um haustið en ekki er ætlun mín að tíunda störf hennar í smáatriðum. Við ákváðum að hefja rekstur markaðar í byrjun vertíðar. En þeir voru margir sem fannst við vera rólegir og vinnast verkið seint. Það var ekki ástæðan heldur vildu menn byrja á góðum tíma og þá heldur seinna en of snemma, minnugir örlaga Fiskmarkaðar Vestmannaeyja hins eldri. Formlegur stofnfundur var svo haldinn í Akógeshúsinu þann 4. október 1991.
Fyrsta uppboðið fór fram í ársbyrjun 1992 og voru seld 418 tonn fyrsta mánuðinn. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og mikið af fiski verið selt í gegnum FMV og á tveggja ára afmæli markaðarins var svo komið að hann var búinn að sprengja utan af sér upphaflega húsnæðið, þó að mönnum þætti það gróflega stórt í upphafi. Nú um síðustu áramót fluttist markaðurinn í stærra og betra húsnæði í Stakkshúsinu, um leið og hann tengdist sameiginlegu tölvuneti margra fiskmarkaða, „Íslandsmarkaði.“
Fiskmarkaður Vestmannaeyja hefur nú fest sig í sessi og það er trú mín að markaðurinn muni styrkja bæði útgerð og vinnslu í Eyjum um ókomna framtíð.
- Snorri Jónsson