Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1993/Nýr Herjólfur

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
MAGNÚS JÓNASSON:


NÝR HERJÓLFUR


Það var mikið um dýrðir í Eyjum mánudaginn 8. júní 1992 sem bar upp á annan dag hvítasunnu. Þann dag kom nýr Herjólfur til Eyja, þriðja skipið með þessu nafni sem þjónað hefur okkur Eyjabúum með ferðum milli lands og Eyja.
Það var orðinn nokkuð langur aðdragandi að þessari komu. Upphafið að smíði þessa skips var að á aðalfundi Herjólfs hf. fyrir árið 1982 hreyfði Guðmundur Karlsson, síðar stjórnarformaður félagsins, þeirri hugmynd að fara að huga að nýsmíði. Það var þó ekki fyrr en 1985 að farið var að vinna að málinu af krafti. Þá var gerð athugun og samin skýrsla um þörfina. Á árunum 1986 og 1987 bárust stjórninni nokkrar hugmyndir og teikningar og fól stjórnin síðan dönsku verkfræðifyrirtæki, Dwinger Marine Consult A/S að hanna skip að þeim kröfum sem settar höfðu verið fram. Sérstaklega var hugað að öryggisþættinum, þ.e. tvær vélar o.s.frv.
Í byrjun árs 1988 skilaði fyrirtækið svo lokahönnun á 79 metra löngu skipi sem uppfyllti þær kröfur sem fram höfðu verið settar. Síðar var verkið boðið út á alþjóðavettvangi og bárust mörg tilboð. Þegar til endanlegrar ákvörðunar kom samþykkti ríkisvaldið ekki smíði skips eftir þessari hönnun, en óskaði eftir að hannað yrði 68-70 metra skip. Var Skipatækni hf. í Reykjavík falið að aðlaga fyrri hönnun að þessum hugmyndum og hanna skip af þessari stærð. Hún var svo boðin út á alþjóðavettvangi vorið 1990 og bárust á milli 15 og 20 tilboð.
Að vandlega athuguðu máli var tekið tilboði frá skipasmíðastöð í Noregi sem heitir SIMEK A/S og er í Flekkefjord. Hinn 16. apríl 1991 var svo skrifað undir smíðasamning við þetta fyrirtæki og hljóðaði samningurinn upp á um 1100 milljónir króna. Skipið átti að afhenda um mánaðamótin maí-júní 1992. Það er skemmst frá því að segja að smíði skipsins hófst mjög fljótlega og þrátt fyrir vantrú margra stóðust tímaáætlanir skipasmíðastöðvarinnar. Hinn 2. mars 1992 var skipið sjósett í Noregi.
Stóra stundin rann svo upp í Flekkefjord í Noregi fimmtudaginn 4. júní 1992, en þá var skipið afhent hinum nýju eigendum og um leið var skipinu gefið nafn. Var það að sjálfsögðu Herjólfur.
Þetta var hátíðleg stund og eftirminnileg. Lúðrasveit staðarins lék nokkur lög, ræður voru haldnar og jafnframt afhentu skólabörn í grunnskólanum í Flekkefjord skreytingu sem prýðir barnaleiksvæði um borð í skipinu. Þá var fáni skipasmíðastöðvarinnar dreginn niður og fáni skipafélagsins dreginn að húni og horfðu menn stoltir á.
Laugardaginn 6. júní lagði svo skipið af stað frá Noregi áleiðis til Vestmannaeyja og þangað kom það eins og áður segir 8. júní 1992.
Var athöfn hér á bryggjunni við komu skipsins. Lúðrasveit Vestmannaeyja lék, kór Landakirkju söng, prestur blessaði farkostinn og haldnar voru nokkrar ræður. Að því loknu var skipið almenningi til sýnis og voru við það tækifæri góðgjörðir veittar í boði Herjólfs hf.
Við komu skipsins var mikill mannfjöldi saman kominn á Básaskersbryggju til að hylla hinn nýja farkost. Svo mikill fjöldi skoðaði skipið þennan fyrsta dag að ekki verða hentar reiður á. En það var almannarómur að skipið væri hið glæsilegasta. Vandað og gott handbragð, en án íburðar.

Helstu mál og stærðir skipsins eru:
Mesta lengd 70,5 metrar
Lengd lóðlínu 68,4 metrar
Breidd 16 metrar
Dýpt á bílaþilfari 5,6 metrar
Hámarks djúprista 4,0 metrar
Brúttótonn 2222
Farþegafjöldi u.þ.b. 500 manns
Fólksbílar u.þ.b. 70
Kojur 84
Vélar, tvær Man-Alpha 0 kw hvor
Siglingahraði 17 sjómílur

Að undirbúningi smíði þessa skips hafa margir komið og lagt hönd á plóg. Væri það að æra óstöðugan ef ætti að nefna öll þau nöfn og verður það ekki reynt hér. Öllum þessum fjölda manna ber að þakka gott starf, skipið ber ljósan vott um það.
Þetta nýja skip hóf svo reglubundnar áætlunarsiglingar milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar hinn 23. júní 1992.

GAMLI HERJÓLFUR
Gamli Herjólfur, sem nú hefur hætt þessum siglingum, þjónaði okkur dyggilega í 16 ár. Hann kom til Eyja í byrjun júlí 1976 og fór á þessum tíma samtals nær 6000 ferðir milli Eyja og Þorlákshafnar. Flutti hann um það bil 750 þúsund farþega, um 164 þúsund bíla og tæplega 200 þúsund tonn af vörum.
Skip þetta var mikið happafley og var mikil samgöngubót þegar það kom. Það hefur nú lokið hlutverki sínu í okkar þágu.

HRINGFERÐ
Þegar Herjólfur kom hinn 8. júní 1992 voru hafnarmannvirkin í Eyjum og í Þorlákshöfn ekki tilbúin til notkunar. Pess vegna gat skipið ekki hafið áætlunarsiglingar strax. Var því ákveðið að skipið færi í siglingu umhverfis landið, bæði til að kynna hið nýja og glæsilega skip og einnig til að kynna Vestmannaeyjar, ekki síst með tilliti til ferðamanna.
Var ýmsum aðilum hér boðið að sigla með skipinu til að auglýsa vöru sína og þjónustu. Þá voru á bílaþilfari bílar frá tveimur bílaumboðum til sýnis. Einnig tók skipið farþega eins og svefnrýmið leyfði. Ferð þessi tók samtals um 8 sólarhringa.
Það er skemmst frá því að segja að ferðin tókst með afbrigðum vel. Komu tugþúsundir manna um borð til að skoða það. Var þetta mikil og góð kynning, bæði fyrir skipið og fyrir Eyjarnar í heild.

Magnús Jónasson