Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1993/Komu saman eftir 30 ár
Í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja 1963 er að finna frásögn af því þegar Bergur VE-44 fórst. Þar segir meðal annars:
„Fimmtudaginn 6. desember 1962 var mb. Bergur VE 44 á síldveiðum út af Snæfellsnesi. Síðdegis þennan dag fékkst gott kast eða ca. 800 tunnur. Suðaustan kaldi var og kröpp alda. Eftir að búið var að háfa og gera sjóklárt var stefnan sett inn með Snæfellsnesi að sunnan áleiðis til Reykjavíkur. Á þessari stefnu var siglt í gegnum síldveiðiflotann, sem var þarna að veiðum. Korteri til hálftíma eftir að siglt hafði verið frá síldveiðiflotanum eða kl. átta e.h. skall kröpp kvika á bátinn með þeim afleiðingum að stjórnborðssíðan keyrðist í kaf og rétti báturinn sig ekki eftir það. Var skipshöfn þá sagt að yfirgefa skipið og fara í gúmmíbát sem staðsettur var á stýrishúsþaki. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður tókst fljótlega að blása gúmmíbátinn upp en varla mun hann hafa verið uppblásinn er allir voru komnir í hann og má segja að Bergur hafi horfið í djúpið um leið. Áður hafði skipstjóra tekist að senda út neyðarkall til nærstaddra báta. Ekki þurftu skipverjar að hrekjast lengi í gúmmíbátnum því nærstaddir bátar voru þegar byrjaðir að leita þeirra og tuttugu mínútum seinna var öll skipshöfn mb. Bergs komin um borð í Halkion.“
BAUÐ ÁHÖFNINNI
Hinn 5. desember s.l. bauð Kristinn Pálsson skipstjóri og kona hans, Þóra Magnúsdóttir, áhöfninni sem var á Bergi og eiginkonum þeirra til samkvæmis. Átta af ellefu manna áhöfn mættu og rifjuðu upp þessa eftirminnilegu og giftusamlegu björgun fyrir þrjátíu árum. Meðfylgjandi mynd var tekin við það tækifæri.