Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1993/Hinn íslenski aflaskipstjóri

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
ANNA MARGRÉT VALGEIRSDÓTTIR:


HINN ÍSLENSKI AFLASKIPSTJÓRI


GOÐSÖGN BYGGÐ Á ÍMYNDUN EÐA RAUNVERULEIKA


INNGANGUR
Er hinn eini og sanni íslenski aflaskipstjóri, sem skarar fram úr öðrum skipstjórum, einungis tilbúningur í hugarheimi fólks eða er hann raunverulega til? Þessu leitast Gísli Pálsson við að svara í bók sinni „Sambúð manns og sjávar.“ Hann telur að það séu fyrir hendi tvær alþýðlegar skýringar á því aflamagni sem bátar koma með að landi. Annars vegar tæknilega kenningu og gengur hún út frá því að „aflasæld ráðist af mælanlegum efnislegum stærðum eins og stærð báts, fjölda veiðarfæra eða fjölda skipverja.“ Tæknilegu kenningarnar telur hann að taki mið af hversdagslegri reynslu. Hinsvegar talar Gísli um sálfræðilega kenningu en hún gengur út frá því að það séu „persónueinkenni skipstjórans sem ráða úrslitum um aflabrögð hans þegar til lengdar lætur.“ Hátterni skipstjórans og eiginleikar hans eru það sem ölu máli skipta. Sálfræðilegu kenninguna telur Gísli taka mið af fáum þekktum dæmum. Að vera „fiskinn“ er eitthvað sem skipstjórinn hefur í blóðinu, þ.e.a.s. varanlegur eðlislægur eiginleiki. Þessar kenningar telur hann reyndar ekki vera formlega aðgreindar í hugmyndaheimi sjómanna „heldur fléttast saman í vitund þeirra og birtast með ýmsum hætti í samræmi við viðfangsefni, stað og stund.“ Gísli telur að það sé annaðhvort skipstjórinn sem ræður mestu um það hvað kemur að landi eða ekki þannig að hann virðist telja að aðeins önnur kenningin geti staðist en ekki að um sé að ræða samspil milli þeirra.
Í öllu því sem skrifað hefur verið um skipstjóra stendur upp úr að veiðiaðferðir og fiskni skipstjórans, þ.e.a.s. framlag hans, ráði mestu um það hvað komi að landi.
Í rannsókn sinni athugar Gísli afkastagetu skipstjóra og miðar í því sambandi við þann afla sem þeir koma með að landi. Tilgáta Gísla gerir ráð fyrir því að það séu þrjár breytur sem hafa áhrif á það hve mikinn afla bátar koma með að landi en þær eru stærð báts, sjósókn og veiðarfæri. Þegar hann hefur fundið hve mikið þessar þrjár breytur skýra þá gerir hann ráð fyrir að það sem þær skýra ekki, þ.e.a.s. afgangurinn, sé að einhverju leyti hlutur skipstjórans.
Niðurstaða Gísla er því sú að stærð báts og hve oft þeir róa skýri nánast aflamun milli báta og framlag skipstjórans sé nánast ekkert.
Ekki þarf að lesa mikið af þeim bókmenntum sem kenndar eru við sjómenn og þá sérstaklega skipstjóra til að efast um sannleiksgildi þessara niðurstaðna. Gísli leiðir að því líkur að hinn eini sanni skipstjóri verði til af félags- og efnahagslegum forsendum. Skipstjórinn eigi afkomu sína undir því hvaða orðstír hann hefur. Sá raunveruleiki búi til þá villandi mynd sem menn gera sér af skipstjórum og af sömu ástæðum sé henni haldið við. Hann segir þó ekki vera ástæðu til að ætla að skipstjórar dragi fram þessa mynd sjálfir heldur sé það frekar almenningur.
Þó að sé hægt að fá fyrrgreindar niðurstöður með hjálp tölfræðinnar er erfitt að trúa þeim og treysta. Hvernig ætla menn t.d. að útskýra velgengni manna sem eru á toppnum ár eftir ár, og séu þeir ekki á toppnum þá eru þeir í einhverjum af efstu sætunum í keppninni um aflakóngsnafnbótina? Dæmin eru fjölmörg og má nefna Binna í Gröf, Eggert Gíslason, Sigurjón Óskarsson og marga fleiri. Þegar einn skipstjóri getur fært til hafnar sama aflamagn og frystitogari á aðeins einum mánuði og það er alls ekki neitt einsdæmi hjá þeim skipstjóra þá hlýtur maður að efast um réttmæti niðurstaðna Gísla. Ætli aflakóngsdekrið sé einungis „villandi hugmynd“ eins og Gísli heldur fram? Ég held ekki. Til að rökstyðja þá skoðun mína mun ég rekja feril eins skipstjóra sem hefur fengið það orð á sig að vera lifandi goðsögn fyrir hve vel hann aflar. Þessi skipstjóri er hinn landskunni aflaskipstjóri Sigurjón Óskarsson. Auk þess að rekja feril hans mun ég nota tölfræðina til að sína enn betur fram á að aflaskipstjórinn íslenski er til. Eitt dæmi um slíkan skipstjóra dugar engan veginn til að sanna að goðsögnin um skipstjórann sé annað og meira en „villandi hugmynd“ en það kemur þó vonandi til með að varpa ljósi á þá skoðun mína að Gísli sé á villigötum með niðurstöður sínar. Áður en ég ræði um Sigurjón Óskarsson er þó eðlilegt að varpa ljósi á þær hugmyndir sem Gísli hefur af hinum dæmigerða skipstjóra.

HVERNIG ER HINN ÍSLENSKI SKIPSTJÓRI?
Gísli Pálsson telur að sú félagsmótun, sem ungir drengir verða fyrir í fiskiplássum, hafi áhrif á hlutverk þeirra sem skipstjóra. Athafnasvæði þeirra sé oft við höfnina frá unga aldri og þar læri þeir hvernig líf sjómannsins er. Síðar öðlist þeir þekkinguna á sjómennskunni sem hásetar og stýrimenn hjá reyndum skipstjórum og við formlegt nám.
Hlutverk skipstjórans er alveg skýrt samkvæmt Gísla Pálssyni. „Réttindi hans og skyldur eru bundin í lögum. Hann ákveður hvenær skuldi róið og hvert skuli sótt og yfirleitt ræður hann því hvaða veiðarfœri skuli notuð. Þó er hlutverk skipstjórans breytilegt eftir því hvers konar veiðiskap er um að ræða og hvernig eignarhaldi útgerðar er háttað. Á smærri bátum er aðgreining hlutverka fremur óljós. Skipstjórinn vinnur á dekki með áhöfninni meðan verið er að fiska og aðstoðar sömuleiðis við löndun aflans og viðhald veiðarfæra. ... Á stærri bátum er skipstjóranafnbótin notuð mun oftar. Skipstjórinn vinnur sjaldan á dekki og stýrimaðurinn stendur gjarnan við stjórnvölinn þegar siglt er á miðin og aftur í land. Oft stígur skipstjórinn af skipsfjöl strax og komið er að landi en áhöfnin sér um að landa aflanum.“
Gísli segir Íslendinga hafa sveipað skipstjórastarfið hetjuljóma. Hann segir einnig að „skipstjórar freisti þess að láta líta svo út sem ýmsir mannkostir, sem samfélagið í landi hefur eignað þeim..., séu samofnir starfinu, nánast eðlislægir þættir í fari þeirra. Þetta má sjá á hegðun skipstjóra og samskiptum þeirra og áhafnar.“
Það eru nokkrir eiginleikar sem Gísli telur einkenna skipstjóra og má þar nefna að þeir leggi ríka áherslu á virðingu sína og sjálfstæði gagnvart öðrum, þeir forðast t.d. að ofmeta aflann og leita ekki ráða hjá öðrum. Samskipti skipstjóra við áhafnir þeirra eru oft hlaðnar nokkurri spennu. Gísli segir hann eiga það til að ásaka hásetana um það sem miður fer. Skipstjórinn heldur sig oft í glugga brúarinnar og gefur skipanir þaðan og Gísli telur mannfélagsstigann í hávegum hafðan um borð. Skipstjórinn er eins og fram hefur komið einráður um borð og það er algjörlega hans hvert haldið er. Áhöfnin skiptir sér í engu af því hvað skipstjórinn gerir og hún vogar sér ekki að vefengja það sem hann gerir, hans ákvarðanir eru heilagar, enda ekki talin ástæða til að vefengja það sem hann gerir svo framarlega að hann fiski.
Gísli segir sjómenn setja fram eigin kenningar um ástæður fyrir hversu vel skipstjórar fiska. Einnig að það séu persónulegir þættir sem ráði úrslitum um aflabrögð og telur hann þetta eiga við um umræðuna frá degi til dags. Hann segir menn velja sér skipsrúm miðað við það orð sem af skipstjóranum fer og að skipstjóri sem er ofarlega á blaði í umræðunni um aflaskipstjóra fái betri fyrirgreiðslu og eigi því auðveldara með að vera ávallt með bestu og dýrustu tækin. Þeir fái einnig betri mannskap og séu með sömu mennina ár eftir ár.
Að framan má sjá að Gísli telur eitt og annað í umhverfi skipstjórans valda því hve góð aðstaða hans sé svo sem hve gott skip hann hefur til umráða, hve auðvelt hann á með að fá fyrirgreiðslu, t.d. til tækjakaupa, og hve auðvelt hann á með að fá góðan mannskap. Allt þetta ræðst af því hve góðan orðstír skipstjórinn hefur. Þetta hefur síðan áhrif á það hvort honum vegnar vel eða illa í keppninni um að koma með mestan afla að landi. Niðurstaða mín er sú af framansögðu að þarna hafi Gísli fallið í þann hættulega pytt að vera kominn með klifun því að góður orðstír veit á góðan mannskap sem aftur er ávísun á góðan afla, en það að afla vel er undirstaða þess að hafa góðan orðstír. Þetta getum við sett upp myndrænt til betri skilnings:
Gísli spyr hvað valdi því að aflaskipstjórar skara fram úr? Hann spyr hvort það sé næmi þeirra eða hæfileikar til að túlka ýmis teikn í náttúrunni eða eðlislæg spásagnargáfa. Hafi þeir hæfileika til að festa sér í minni ótal smáatriði og vega og meta ýmis atriði sem varða veiðarnar eða er þetta sérstakt hugarástand?
Allt þetta útilokar Gísli að geti átt sér stað því hann telur skipstjórann ekki skipta neinu verulegu máli í því aflamagni sem bátar koma með að landi heldur sé það fyrst og fremst stærð báts sem ræður mestu um afköst. Einnig segir Gísli stærð báts vera mælikvarða á margt annað, t.d. fjölda veiðarfæra, stærð áhafnar o.fl. Hann segir að það að stærð báts skipti mestu um aflamagn skýri einnig að sömu skipstjórarnir séu aflahæstir ár eftir ár.
Þegar skipstjórar eru að byrja eru litlar líkur á að þeir hafi allt það sem til þarf til að geta verið góður skipstjóri samkvæmt kenningum Gísla. Þeir hafa ekki orðstír frá fyrri árum nema þá sem dugandi stýrimenn eða hásetar og það hefur ekkert með það að gera að vera góður skipstjóri. Margur byrjar á litlum bátum og vegnar engu að síður vel. Alþekkt dæmi um það er Eggert Gíslason á Víði II, sem var einn minnsti bátur flotans, en engu að síður var með ólíkindum hvað hann aflaði frá upphafi ferils síns. Hvernig má það vera að menn eins og Sigurjón Óskarsson komast á toppinn strax án orðstírsins og þar af leiðandi án „góðrar áhafnar“ því þeir sem bestir eru ráða sig hjá þeim sem hafa orðstír samkvæmt hugmyndum Gísla. Getum við sagt að hann hafi verið heppinn? Það er vel hugsanlegt en það eru of margir aflaskipstjórar sem hafa komist á toppinn á fyrstu árum ferils síns, og þar með án orðstírs, til að hægt sé að afgreiða málið með heppni. Get ég þar enn og aftur vísað í Eggert Gíslason. Ekki njóta menn fyrirgreiðslunnar frá fyrsta skipstjórnarári sínu þótt Sigurjón hafi sjálfsagt haft hana þar sem hann hafði föður sinn á bak við sig en hann var þekkt aflakló.

ELLEFU SINNUM AFLAKÓNGUR
Hvað getur valdið því að einn og sami maðurinn getur fært mestan afla að landi vertíð eftir vertíð og þegar hann er ekki efstur, sem eru undantekningar, þá er hann örugglega með þeim efstu?
Er hægt að afgreiða málið með því að segja að hann hafi stærsta bátinn, sæki stífast af öllum eða að hann hafi bestu og mestan fjölda veiðarfæra?
Þetta er einfalt að athuga. Það er langt frá því að Sigurjón Óskarsson, skipstjóri á Þórunni Sveinsdóttur, sé á stærsta bátnum því hún er aðeins 125 rúmlestir, en engu að síður aflar hún á við frystitogara.
Hvað varðar úthald þá er hann vissulega mikið á sjó, en ekki meira en aðrir og það má án efa færa fyrir því rök að það að geta fært meiri afla að landi en aðrir og vera meira á sjó sé hluti af því að vera góður skipstjóri. Þegar borinn er saman sá afli sem Þórunn Sveinsdóttir kom með í hverri veiðiferð að meðaltali yfir vertíðarmánuðina (janúar til maí) árið 1981 og sá afli sem aðrir bátar að svipaðri stærð eru að koma með, koma eftirfarandi niðurstöður í ljós:
Tölurnar undir súlunum sýna stærð bátanna í brúttólestum (Fiskifélag Íslands).
Þetta súlurit segir okkur að Sigurjón kemur með 32 tonn að meðaltali í veiðiferð á Þórunni sem er aðeins 125 brúttólesta bátur en bátar af svipaðri stærð, svo sem Gandí VE-171 sem er 131 brúttólest. kemur með 12,7 tonn að meðaltali. Árni í Görðum, sem er 103 brl. og því aðeins minni er Þórunn, kemur einungis með 10,7 tonn að meðaltali í ferð. Tekið skal fram að ekki voru teknir aðrir þættir en stærð inn í myndina svo sem tæki, en samkvæmt kenningum Gísla er það stærðin sem mest skýrir og því var hún látin ráða að þessu sinni.
Athyglisvert er að skoða hver er meðaltalsafli Eyjabáta af svipaðri stærð og Þórunn Sveinsdóttir er annars vegar og hins vegar þann afla sem Þórunn kemur með. Notað var sama úrtak og þegar borið var saman aflamagn í veiðiferð (tekið skal fram að Dala-Rafn stundaði ekki netaveiðar 1981 á vetrarvertíð og er því ekki á myndinni hér að framan en hann er 15. báturinn í úrtakinu). Eins og sjá má eru bátarnir á bilinu frá 73 brúttólestum og upp í 217. Úrtakið var þannig valið að allir bátar, sem stunduðu netaveiðar á vetrarvertíð 1983 frá Vestmannaeyjum og voru innan fyrrnefndra stærðarmarka, var fylgt eftir þessi fjögur ár sem athuguð voru og voru þeir alls 15. Þegar þessir bátar voru ekki á sjó alla vertíðina voru þeir ekki teknir með og einnig ef þeir skiptu um veiðar, t.d. fóru á loðnu eða síld. Það ber að nefna að Sigurjón Óskarsson er aflahæstur öll árin nema 1983 en þá var Heimaey aflahæsti vertíðarbátur í Vestmannaeyjum.
Eins og sjá má er Þórunn með umtalsvert meiri afla en aðrir bátar eru með að meðaltali. Árið 1983 er hvað athyglisverðast því það ár var Heimaey VE með 1106 tonn en Þórunn ekki nema 807,5 tonn á sama tíma eða 300 tonnum minna. Þessi mynd þarf engra frekari útskýringa með, hún sýnir svo ekki verður um villst að sumir skipstjórar eru betri en aðrir jafnvel þó þeir hafi minni bát til umráða.

SJÓSÓKNARFERILL SIGURJÓNS ÓSKARSSONAR
Sigurjón Óskarsson byrjaði til sjós 1963 aðeins 17 ára gamall og hefur verið til sjós frá því ef undan er skilinn sá tími sem hann var við skipstjórnar- og vélstjórnarnám. Sigurjón hefur einungis verið í tveimur skipsrúmum þegar þetta er ritað en er að taka við nýrri Þórunni Sveinsdóttur sem verður þriðji báturinn sem hann hefur verið á og þykir það nokkuð sérstakt. Hann byrjaði með föður sínum á m.b. Leó árið 1963. Í fyrstu var hann ýmist stýrimaður eða vélstjóri hjá föður sínum. Árið 1968 hóf hann skipstjórnarferil sinn á Leó en hann var með hann á sumrin. Á þeim árum sem Sigurjón var á Leó varð hann aflahæstur þrisvar, árin 1965, 1966 og 1970. Árið 1971 kom Þórunn Sveinsdóttir til Eyja en þá vertíð var Óskar Matthíasson skipstjóri og Sigurjón stýrimaður. Þá vertíð var báturinn aflahæstur. Um vorið tók Sigurjón við bátnum og hefur verið með hann síðan. Á annarri vertíð sinni árið 1973 varð Sigurjón aflahæstur Eyjaskipstjóra og var hann yngsti skipstjórinn sem hafði krækt sér í þá nafnbót, aðeins 28 ára gamall. Er það ótrúlega góður árangur af svo ungum manni og má nefna að aðstæður hafa ekki verið neitt venjulegar þessa vertíð hjá Eyjabátunum því þetta var gosárið og það var langt að sækja fyrir þá og engin föst heimahöfn.
Velgengni Sigurjóns virðast engin takmörk vera sett. Árið 1989 varð Sigurjón aflahæstur í 11. sinn á vetrarvertíð og þá vertíðina sló hann Íslandsmet því hann kom með mestan afla að landi á vetrarvertíð sem einn bátur hefur komið með eða alls 1917 tonn. Gamla metið átti Hilmar Rósmundsson er hann kom með að landi 1645 tonn á vertíðinni 1969. Í flest skiptin sem hann hefur verið aflakóngur í Eyjum hefur hann einnig verið aflahæstur yfir landið.
Sigurjón fer ekki troðnar slóðir. Hann tók ekki við silfurskipinu, sem fiskikóngar í Vestmannaeyjum hafa jafnan fengið afhent á sjómannadaginn þegar hann varð aflakóngur í 11. skipti árið 1989 því hann telur menn ekki keppa á jafnréttisgrundvelli meðan kvótakerfi er við lýði. Hann lagði til að það yrði varðveitt á Byggðarsafni Vestmannaeyja á meðan aðstæður eru þær sem þær eru nú. Hins vegar sagði hann ekkert mæla á móti því að krýna aflakónga þegar að því kemur að menn geti keppt á jafnréttisgrundvelli. Því jarðsetti Sigurjón þessa gömlu hefð og hafa því ekki verið krýndir aflakóngar í Eyjum sl. ár.
Sigurjón hefur stjórnað björgun á 27 mönnum af fjórum bátum úr sjávarháska. 1974 bjargaði Sigurjón og áhöfn hans 11 mönnum af Bylgjunni RE er hún fórst út af Alviðruhömrum. 1981 strandaði Katrín á Skeiðarársandi. Í hífandi roki sigldi Sigurjón inn á milli brota og innfyrir þau. Eftir nokkrar tilraunir tókst að koma taug út í Katrínu og eftir það gekk vel að koma henni á flot aftur. Nokkrir skipverja voru komnir í land en þrír voru enn um borð. Árið 1983 bjargaði hann áhöfninni af Jóhönnu Magnúsdóttur þegar hún brann til kaldra kola en þar björguðust fimm menn. Að síðustu bjargaði Sigurjón bróður sínum þegar Nanna VE-300 sökk árið 1989. Það var lán að Sigurjón var á sömu slóðum og Nanna og segir hann sjálfur að það hafi í raun verið „mistök“. Þegar hann kom að var báturinn farinn niður en mennirnir höfðu komist í bátana. Sigurjón sá bátinn aldrei, ekki einu sinni í radar. Það voru engir bátar nærri, u.þ.b. þriggja tíma sigling fyrir þá næstu og björgunarbátarnir sem til eru í Eyjum gátu ekkert aðhafst því veður var of slæmt til að þeir kæmust út.
Eins og fyrr var nefnt var Sigurjón að taka við nýrri Þórunni Sveinsdóttur og var hún afhent í Slippstöðinni á Akureyri þann 19. júlí 1991. Það verður gaman að fylgjast með hvernig honum vegnar á nýjum bát.

HVERNIG SKIPSTJÓRI ER SIGURJÓN?
Sigurjón segist hafa fengið sitt helsta vegarnesti frá föður sínum, Óskari Matthíassyni, og þegar hann hóf skipstjórnarferil sinn fékk hann dagbækur hans. Engu að síður hefur hann farið á allt aðrar slóðir en faðir hans gerði en segir þó aldrei svo að bækurnar hafi ekki hjálpað honum eitthvað. Hins vegar er skóli reynslunnar sá dýrmætasti og sá sem alltaf stendur upp úr.
Skipstjóri þarf að kunna vel á atferli fisksins og vita hvar hann heldur sig á hverjum tíma. Sigurjón segir vera mynstur í þessu. Fiskurinn skilar sér aftur á sömu slóðirnar til að hrygna líkt og laxinn. Hann heldur dagbækur sem hann skráir í hvar hann leggur veiðarfærin og er hver einasta netatrossa samviskusamlega skráð, hvar hún er lögð og hvenær. Þegar netin eru svo aftur dregin er skráð hvað kom í þau. Þegar Sigurjón hefur verið á trolli skráir hann hvar hann lætur trollið fara, dýpið og síðan nákvæmlega hvernig dregið er. Hann segir þetta nokkuð ganga upp ár frá ári. Sigurjón segir bækurnar sínar vera óttalegt krass, en þegar þær eru athugaðar kemur í ljós að þær eru hávísindalega unnar og greinilega ekki kastað til þess höndunum við að geyma upplýsingarnar á þeim bænum. Hins vegar er það ekki fyrir aðra en Sigurjón að botna í bókunum hans þannig að það komi að gagni. Í viðtali, sem tekið var við Sigurjón fyrir Sjómannadagsblað Vestmannaeyja þegar hann varð aflakóngur í fyrsta skipti, komst ritstjóri blaðsins í „Biblíu“ Sigurjóns eins og hann tekur til orða. Þar bregður hann „upp mynd af því hvernig góðir aflamenn vinna, og að ekkert sem varðar veiðarnar er tilviljun háð“ segir hann þegar hann fjallar um bækurnar. Sigurjón hefur alltaf hjá sér bækur 2-3 ár aftur í tímann og segist fara aftur á þá staði þar sem honum hefur gengið best. En það er ekki nóg að kunna á atferli fisksins heldur þurfa menn að þekkja strauma, botnlag, kunna að lesa á ætið og margt fleira. Sigurjón segir margt hafa breyst á síðustu árum. Nú orðið sé verið á mun meira dýpi en áður var, nú sé meira verið utan í köntunum allt niður á 300 faðma, en þegar hann var að byrja voru menn aðeins á um 30-40 og mest 60 föðmum. Kunnáttan á tækin er geysimikilvæg núorðið. Það er hægt að segja að tækin vegi að hluta til upp á móti því hvað það er orðið erfiðara að ná í fiskinn. Lóraninn og nú síðast „plotterinn“ gjörbylta því hvað það tekur styttri tíma að finna veiðarfærin og þar með er hægt að nota meiri tíma til að leita að fiski, enda segja menn að nú orðið eigi þorskurinn hvergi griðland. Veiðarfærin eru líka orðin mun betri þannig að nú geta þeir lagt netin nær hvar sem er, t.d. er það engum vandkvæðum háð að leggja netin ofan á hraun, en það hafi menn hins vegar ekki getað hér áður því þá hefðu þeir ekki náð þeim upp.
Sigurjón heldur því fram að þeir sem skara fram úr í veiðimennsku geri það ekki síst af því að þeir hafi geysilegan áhuga og svo sé með sig. Það sé verið yfir þessu meira og minna alla daga. T.d. segist Sigurjón nánast ekkert lesa nema aflaskýrslur og fiskifréttir, — kannski líka jólabækurnar!
Oft er vitnað í að draumar hafi vísað mönnum á fisk. Slíkt segist Sigurjón ekki kannast við, hann hafi jú dreymt tvisvar eða þrisvar en vanalega fari hann ekki eftir slíku. Hann segist reyndar oft vera stressaður yfir því hvert hann eigi að fara og hvar hann eigi að leggja netin en einhvern veginn gangi þetta oftast upp. Hann á vinkonu í landi sem dreymir og segir honum hvort það komi en hún vísar honum aldrei á fisk, einungis að hann geti alveg verið rólegur því það eigi allt eftir að vera í lagi og hann hefur aldrei spurt hana hvernig draumarnir séu.
Oft heyrir maður því fleygt að sumir hafi þetta meira í sér en aðrir og það sé það sem geri gæfumuninn. Sigurjón telur það vera svo og það má án efa til sanns vegar færa að sumir hafa eitt fram yfir aðra og hinir eitthvað annað, því ekki líka með sjómennskuna? Það sem stendur upp úr eftir að hafa athugað feril Sigurjóns er að hann hefur gífurlegan áhuga, fylgist vel með nýjungum, t.d. var hann fyrstur til að fá sér lóran sem var tæki sem skipti sköpum varðandi veiðarnar því með honum sparaðist mikill tími þar sem allar staðsetningar urðu mun nákvæmari. Þá er hægt að nota tímann í að leita að fiski í stað þess að vera að leita að veiðarfærunum. Sigurjón hefur fyrsta flokks mannskap. Faðir hans segir í viðtali, sem við hann var tekið, að þetta geri enginn einn enda er ekki ástæða að ætla annað en það sé gott að vinna fyrir Sigurjón. Hann er sagður mikill hæglætismaður og einstakt ljúfmenni.

NIÐURSTÖÐUR
Samkvæmt niðurstöðum Gísla Pálssonar, sem voru raktar hér fyrr, eru menn, sem skara fram úr til lengri tíma í fiskveiðum, ekki til. Þar af leiðandi eru menn eins og Sigurjón Óskarsson ekki til. Einstök velgengni hans er einungis hugmynd sem við höfum búið okkur til í því augnarmiði að uppfylla þörf okkur til að skýra ýmsa hluti sem okkur virðast óskýranlegir. Samkvæmt niðurstöðum Gísla eru ástæðurnar fyrir velgengni Sigurjóns fyrst og fremst til komnar af því að hann hefur stærri bát og fleiri veiðarfæri í sjó en aðrir. Hann nýtur meiri hylli meðal sjómanna sem eru eftirsóttir í skipsrúm og því fær hann alltaf afburðaráhöfn. Hann er með stærra skip og betur búið en aðrir af því að hann nýtur meiri og betri fyrirgreiðslu en aðrir.
Ekkert af þessu á við um Sigurjón. Hann hefur verið með nánast sömu áhöfnina frá byrjun þótt hann hafi ekki fengið orðstírinn fyrr en eftir að hann hóf skipstjórnarferil sinn. Hann er langt frá því að vera á stærsta bátnum, þ.e. þangað til nú, og þrátt fyrir að ætla mætti að hann eigi manna mest undir „aflakóngsdekrinu“ samkvæmt kenningum Gísla þá er það hann sjálfur sem leggur það af í einni stærstu verstöð landsins þar sem allt byggist á fiskveiðum. Alhæfingar Gísla um hinn dæmigerða skipstjóra eiga því engan veginn við um Sigurjón Óskarsson. Hann er langt frá því að vera á stærsta bátnum. Hann nær í langmestan afla í hverri veiðiferð. Og að endingu aflar hann umtalsvert meira en aðrir gera að meðaltali og jafnvel þau ár sem hann er ekki aflahæstur. Hann er talinn vera mikið prúðmenni og er ekki einn af þeim sem hangir í glugganum. Honum dettur ekki í hug að fara í land með spottanum eins og hann tekur sjálfur til orða enda er hann alltaf sjálfur á vörubílnum og sér sjálfur um að koma veiðarfærunum um borð og er alltaf með strákunum í löndunum — eða eins og hann segir: Annaðhvort er maður í þessu eða ekki.
Þessar niðurstöður, sem hér hafa verið kynntar, sýna svo að óyggjandi er að Sigurjón hefur ekki einungis fengið það orð á sig að vera goðsögn í lifanda lífi af því að fólk hafi þurft að skýra þetta fyrirbrigði sem erfitt er að skýra, heldur fer þarna afburðaskipstjóri og það þarf ekki nema fáa slíka til að renna styrkum stoðum undir goðsögnina íslensku um aflaskipstjórann. Sigurjón Óskarsson er til, það er óhrekjanlegt og hann er einn af þessum afburðaskipstjórum, það er einnig óhrekjanlegt.
Afburðamenn eru til á öllum sviðum. Má þar nefna íþróttir, skák, kveðskap og svo mætti lengi telja. Því ekki í sjómennsku líka? Við vitum að menn standa sig misvel, eftir því við hvað er verið að glíma, og að halda því fram að svo sé ekki um eitt svið gengur einfaldlega ekki upp eins og dæmið um Sigurjón Óskarsson sýnir. Eins og tekið var fram í upphafi þarf fleiri dæmi til að sýna fram á að hinn eini sanni aflaskipstjóri sé raunverulega til. Þegar hefur Þórólfur Þórlindsson sýnt fram á að slíkir skipstjórar eru til. Í grein hans „Að vera eða látast: Er aflaskipstjórinn aðeins goðsögn?“ tekur hann dæmi af síldveiðum og hvernig Eggert Gíslason var langt fyrir ofan meðaltal og aflahæstur á síldinni ár eftir ár þótt hann hafi verið á einum af minnstu bátum flotans. Við þekkjum öll dæmi um menn sem hafa skarað fram úr á sjónum og vonandi verður tækifæri til að gera einhverjum skil eins og reynt hefur verið að gera í þessari grein með Sigurjón til að renna enn styrkari stoðum undir þá skoðun mína að aflaskipstjórinn íslenski sé raunverulega til.

Anna Margrét Valgeirsdóttir

HEIMILDASKRÁ
Gísli Pálsson (1987): Sambúð manns og sjávar. Reykjavík: Svart á hvítu.
Guðjón Ármann Eyjólfsson (1974): Aflakóngur á vetrarvertíð 1973. Sjómannadagsblað Vestmannaeyja, bls. 19-23.
Hjörtur Gíslason (1988): Aflakóngar og athafnamenn I-II. Reykjavík: Hörpuútgáfan.
Sigurgeir Jónsson (1989): Ég hef alltaf verið lélegur sportveiðimaður. Sjómannadagsblað Vestmannaeyja, bls. 76-80.
Sigurgeir Jónsson (1980): Ég á nóg af öllu. Sjómannadagsblað Vestmannaeyja, bls. 99-104.
Þórólfur Þórlindsson (1987): Að vera eða látast: Er aflaskipstjórinn aðeins goðsögn?, Gefið og þegið, afmælisrit helgað Brodda Jóhannessyni sjötugum. Reykjavík: Iðunn.
Skýrslur: Aflaskýrslurfyrir einstaka báta. Tölvuútprentun, Fiskifélag Íslands 1980-1983.
Blaðagreinar: Keyrði eins og vélin þoldi, DV 11. mars 1989.
Viðtal tekið við Sigurjón Óskarsson 25. febrúar 1991.
Vildi taka 140 kör en fékk bara 8. Dagur 11. júní 1991. Þórunn Sveinsdóttir fiskar eins og frystitogari. Morgunblaðið 13. maí 1989.