Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1992/Sjóminjasafnið í Grimsby

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Sigurgeir Jónsson


Sjóminjasafnið í Grimsby


Fordyrið lætur lítið yfir sér.

Ef spurt væri á götu í Vestmannaeyjum í dag, hvað mönnum dytti fyrst í hug ef spurt væri um England, væri ekki ósennilegt að nefnd yrðu ensk knattspyrna og verslunargötur í Lundúnum. Þetta er langt í frá óeðlilegt, sjónvarp og auknar samgöngur hafa vakið athygli á báðum þessum þáttum bresks þjóðlífs og raunar fleirum sem hefði mátt nefna hér að framan.
Hefði á móti verið spurt sömu spurningar á götu í Vestmannaeyjum, fyrir svo sem tveimur, þremur áratugum, er hætt við að önnur svör hefðu fengist. Líkast til hefðu viðmælendur svarað eitthvað á þessa leið:
„Bjór, enskar sígarettur, togaraútgerð, þorskastríð, Grimsby.“ Já, Grimsby, síðast en ekki síst Grimsby og líkast til hefðu margir nefnt Grimsby fyrst alls þess. Og á sama hátt og fyrri svörin eru eðlileg á okkar tímum, hefðu þessi verið fullkomlega eðlileg á sínum tíma. Ímynd Bretaveldis var nefnilega á þeim tíma verulega bundin við bjór, enskar sígarettur, togaraútgerð, þorskastríð og - Grimsby -.
Um langt árabil sigldu skip úr Vestmannaeyjaflotanum til Bretlands með fisk, til Aberdeen, Fleetwood, Hull og Grimsby. Og aðallega Grimsby. Ekki veit sá, er þetta ritar, hvers vegna Grimsby varð oftar fyrir valinu meðal Vestmannaeyjaskipa en hinar hafnirnar en einhver hlýtur ástæðan að hafa verið. Raunar var oftlega farið til Hull, raunar mjög oft en alltaf hafði Grimsby vinninginn.
Nú er Grimsby ekki stór bær á breskan mælikvarða en býsna stór á íslenskan. Og ýmislegt var það sem staðurinn þótti hafa upp á að bjóða, langsigldum íslenskum sjómönnum, m.a. fjölbreytt verslanaúrval, svo og mikla skemmtan, þó svo að margir hverjir kæmust aldrei lengra en upp á Rauða ljónið. Sú ágæta og sáluga krá varð oftlega fyrsti og um leið síðasti viðkomustaður margra ágætra manna sem lítið sáu af lystisemdum Bretaveldis annað en þessa víðfrægu krá og fastagesti hennar.
Þetta var á þeim tímum sem Grimsby var miðpunktur Bretaveldis í augum margra góðra sjómanna; og þá sérstaklega Rauða ljónið.
Nú er öldin önnur. Siglingar til Grimsby frá Vestmannaeyjum eru ekki svipur hjá sjón, gámaflutningar hafa tekið við og sterkt umboðsmannakerfi í Hull hefur meira aðdráttarafl þegar minnst er á sölu fisks.
Grimsby var útgerðarbær, ekki ósvipaður Vestmannaeyjum, þar sem allt byggðist á útgerð og sjósókn. Enn er sú raunin á í Eyjum en í Grimsby snýst lífið ekki lengur um slíka hluti, nema að litlu leyti, aðrir atvinnuvegir hafa leyst sjávarútveginn af hólmi að verulegu leyti, þótt enn sé vissulega sjórinn stundaður frá bænum.

Aðgerð á dekki. Vaxbrúður eru í „hlutverkum“ hvar sem er á safninu.
Stýrimaðurinn leysir frá pokanum. Sérlega eðlileg uppstilling þar sem pokinn er á sífelldri hreyfingu vegna öldugangs.
Bæting aftur við hlera.
Ísöxin notuð. Barist við ísingu um borð.
Í anddyrinu er sviðsett brottför togara. Togarasjómaður er að koma um borð í leigubíl. Útgerðarmaðurinn kveður hann á „kajanum“.


En íbúar Grimsby hafa ekki gleymt þeim gósen- og gullaldarárum þegar þorskur af Íslandsmiðum, bæði veiddur af enskum og íslenskum, var uppistaða bæjarbrags og velgengni og allt snerist um fisk, fisk og aftur fisk. Þótt undirstöðurnar séu aðrar í dag, hafa þeir ekki gleymt þeim góðu gömlu dögum. Og á síðasta ári sýndu Grimsbybúar í verki að þeir hafa í engu gleymt því sem lagði grunninn að bænum þeirra. Þá opnuðu þeir nefnilega nýtt og glæsilegt sjóminjasafn, til minningar um þá glæstu togaraútgerð sem lyfti nafni bæjarins í hæðir.
Nú hefur sá, er þetta ritar, ekki verið sérlega tíður gestur í Grimsby. Hans siglingar voru flestar til Hull og Fleetwood og hann varð aldrei svo frægur að berja Rauða ljónið augum. En þegar hann var á ferð í Englandi í sumar er leið og fregnaði að nýtt og óvenjulega glæsilegt safn hefði verið opnað í Grimsby, stóðst hann ekki mátið, hoppaði upp í strætó í Hull og lagði á sig ríflega klukkutíma ferðalag til þess eins að skoða safnið. Sú skoðun var fest á filmu og olli ekki vonbrigðum. Hér á eftir verður þeirri skoðunarferð lýst í myndum og máli.
Safnið er staðsett ekki langt frá miðbænum, á árbakkanum, í nýlegri byggingu. Aðgangurinn er góður, verslunarmiðstöð á vinstri hönd og iðandi mannlíf bæjarins á hægri með umferðarmiðstöðinni rétt við hliðina.
Þetta er svokallað lifandi safn, þar sem meiri áhersla er lögð á það sem á vondri íslensku er kallað „aksjón“ þ.e. að skoðandinn lifi sig inn í atburði, heldur en það sem við erum vanari á söfnum að skoða forna hluti í dauðakyrrð og þurfa sjálf að lifa okkur inn í atburðarásina. Í Grimsby þarf ekki að kvíða slíku, þar eru menn bornir inn í rás atburðanna, næstum sjálfkrafa.

Þegar komið er um borð tekur kapteinninn við mannskapnum. Nafn togarans. „Grimsby Town“ blasir við.


Sjálft anddyrið lætur ekki mikið yfir sér og satt best að segja hélt ég fyrst í stað að ég væri kominn inn á ofurvenjulegt safn. Þarna trónaði nefnilega eldgamall enskur taxi, ásamt tveimur vaxbrúðum, annarri vinnuklæddri, hinni í spariförum. Rauður símaklefi í baksýn. Mér þótti þetta svo sem allt í lagi, að sýna gamla enska hluti en fannst þetta samt svolítið furðulegt, eins og það hefði átt betur heima á póstminjasafni eða einhverju því um líku. Ég uppgötvaði ekki fyrr en ég var langt kominn með gönguna gegnum safnið, hvaða hlutverki þessir tveir herramenn í anddyrinu, ásamt leigubílnum þjónuðu. Hér var upphafið að fullkominni leiksýningu um togarasjómennsku. Sjómaður að koma um borð í leigubíl og útgerðarmaðurinn við hliðið á dokkinni að kveðja skip og skipshöfn.
Rétt þarna fyrir innan var miðasala. Þar voru miðar seldir með nokkuð öðru sniði en maður á að venjast á söfnum. Þarna eru menn ekki rukkaðir um aðgangseyri, heldur „munstraðir“ um borð. Aðgöngumiðasölunni hefur nefnilega verið breytt í skráningarskrifstofu og menn fá „sjóferðabók“ í hendur í stað aðgöngumiða eins og í öðrum söfnum. Þessi skráningarskrifstofa er og að því leyti frábrugðin öðrum slíkum að þar ráða menn sjálfir hvaða stöðu þeir taka um borð. Hægt er að velja hvort menn vilja skrá sig á skipið sem háseta eða skipstjóra og raunar allt þar á milli. Þessi skráningarskírteini vöktu mikinn áhuga yngri kynslóðarinnar sem þarna var fjölmenn, fimmtudaginn sem ég valdi til að skoða safnið. Voru þeir margir, ungir menn, sem þarna hömpuðu skírteinum, stimpluðum í bak og fyrir með þessum orðum. „I'm a deckhand, I'm a cook, I'm the captain!!“
Yfirleitt hefur undirritaður þá reynslu af söfnum, hvers konar, að þar sé ráfað um nokkuð stefnulaust (og stundum áhugalaust) gegnum sali og ganga þar sem maður á stundum fær á tilfinninguna að maður sé staddur í nokkurs konar völundarhúsi sem erfitt sé út úr að komast og skoðar oft og margsinnis sömu hlutina á eilífu hringsóli um sali og ganga í leit að leið til útgöngu.
En í Grimsby er engin hætta á slíku. Leiðin er kyrfilega vörðuð með hvítum sporum og sýna manni ávallt þá leið er valin skal. Til frekara öryggis eru dyr merktar óyggjandi með upphrópunum er merkja að annað hvort skuli fara inn um þær eða ekki.

Afgreiðslukonan á „æöbbnum“. Þéttholda, þrýstin og glaðlynd, ekta bresk.
„Á pöbbnum.“ Spjallað og þvargað. Óvenjurólegt yfir mannskapnum.
Götumynd frá safninu. Utandyra. Einstaklega falleg leikmynd með verslunum og krám á aðra hlið og dokkina á hina.
Snurvoðabáturinn í forgrunn, með mannskap við að „skvera.“ Safngestir í forgrunni. Erfitt reyndist að ná myndum án þess að þeir væru með, enda troðfullt á safninu alla daga.
Í loftskeytaklefanum blasir við hinn mesti fjöldi tækja.


Og nú hófst sjálf förin um safnið. Strax og inn var komið um fyrstu dyr, var maður staddur á „kajanum“, horfði upp á keisinn á síðutogara sem greinilega var tilbúinn til brottfarar, kapteinninn stóð á brúarvæng, dökkklæddur með sixpensara og pípustert og leit árvökrum augum eftir því að allt væri í lagi með mannskapinn. Og að sjálfsögðu stóð stórum stöfum á björgunarhring við hlið hans GRIMSBY TOWN, nafnið á togararanum.
Hér var nefnilega að byrja heill túr á togara, förin gegnum safnið átti að sýna gestum hvað það var sem togarasjómenn þurftu að ganga gegnum, bæði á sjó og landi.
Strax þarna á hafnarbakkanum skall á eyrunum það sem átti eftir að glymja alla ferðina gegnum safnið; hin ýmsu hljóð sem tilheyra hverjum stað. Þarna heyrðist bílflaut, óp og öskur bæði ofan af kaja og frá borði, ískur í vindum og blökkum og yfir allt yfirgnæfði rödd kapteinsins: „Get on board, hurry on board!“
Næst var haldið upp virkilegan skipsstiga, upp í brú. Fyrst var komið í klefa loftskeytamannsins, þar sem hin ýmsu tæki voru frammi og að sjálfsögðu allt á fullu, tilkynningar bæði á mæltu máli og morsi sem flugu um loftið. Ýlfur, urg og sarg fylltu að sjálfsögðu upp í pásurnar eins og sæmir í loftskeytaviðskiptum.
Úr klefa loftskeytamanns var farið inn í brú. Þar gaf á að líta. Forráðamenn safnsins hafa ekkert látið eftir liggja til að gera ímyndina sem sannasta og réttasta. Heil brú af síðutogara var þarna komin með öllum gögnum og gæðum. Raunar þætti „tækjafríkum“ úr flotanum fátæklegt um að litast þarna; stýrishjól af gömlu gerðinni, kompás, vélsími, stýrismælir, vindmælir. Raunar var radar plantað í einu horninu en hann virkaði eins og furðuhlutur utan úr geimnum í þessu fornfálega stýrishúsi.
Greinilegt var að í brúnni var siglt í náttmyrkri. Raunar var ljós inni en væri litið út um glugga kom í ljós að náttmyrkur var á. Siglingaljós og fiskiljós annarra skipa sáust þar og allt var það á hreyfingu, rétt til að líkja eftir því sem virkilega er og gerist á miðunum. Það lá við að maður fengi fiðring í magann að sjá rautt ljós á stjórnborða. Litlu munaði að sá, sem þetta skrifar ryki að stýrishjólinu til að snúa á.
Út var farið úr brúnni, stjórnborðsmegin, út á brúarvæng og þaðan litið niður á dekkið. Þar var allt á fullu, verið að taka trollið, mannskapur í aðgerð, stýrimaður að leysa frá poka, netamenn í bætingu; sem sagt allt eins og í gamla daga.

Brúin er „live“ eins og sagt er, allt er ekta, öll tæki og út um gluggann sést til skipaferða.


Til að fá betri yfirsýn yfir vinnuna á dekkinu var farið niður „keisstigann“ og þá var komið beint á dekkið, raunar þó ekki, því við áhorfendurnir vorum staddir „utan lunningar“ og horfðum inn á dekkið. Þar var, eins og áður segir, allt á „fullu svingi“, verið að taka troll, leysa frá, gera að og bæta. Og til að gera allt raunverulegra var þessi hluti skipsins látinn vera á hreyfingu, gekk upp og niður, rétt eins og í ólgusjó; veðurhljóð og vindgnauð léku undir og einstaka hróp úr brúnni gerðu sitt til að auka á raunveruleikann; óhljóð frá gufuspili, marr í blökkum og öldugnýr. Með reglubundnu millibili heyrðist síðan hið hefðbundna holhljóð og hviss þegar skipið stingur sér í ölduna. Hreint meistaraleg hljómkviða.
Veltingurinn á skipinu skilaði sér vel; sérstaklega var það tilkomumikið að sjá pokann slettast til og frá, hálffullan af þorski og pokamanninn í svörtum olíustakki og með gulan sjóhatt að leysa frá; netamenn aftur við hlera að bæta. Þetta vakti upp minningar frá gömlu dögunum á Karlsefni.
En áfram skyldi haldið. Næst tók við sérstakur þáttur togaramennsku og vel hannaður. Gengið var inn um dyr aftur við keis en í stað þess að koma inn í eldhús, var brugðið upp mynd af því sem togaramenn máttu una á siglingu í ísingu. Klakabrynjaður reiði blasti við, gallaður sjómaður með exi í hönd að mölva ís, vindur og veðurhljóð í stíl; hitastig lækkað í þessum salarkynnum til að auka enn á tilfinninguna fyrir þeirri vá sem ísing er.
Og næst var farið niður stiga. Hækkandi hitastig og skarkali gaf nokkuð til kynna hvert nú skyldi haldið. Við blasti fírplássið með alvöru katli úr togara og kyndara á fullu, léttklæddum við kolamokstur; andstæða við kuldann og ísinn uppi fyrir. Og við hliðina sást inn í kolageymsluna þar sem hinn kyndarinn hafði lagst til svefns í kolabinginn, klár að taka við þegar hinn var örmagnaður.
Á dekkinu fyrir ofan (þar sem gengið var inn í safnið) var svo stútur til þess ætlaður að hífa upp öskuna og máttu gestir raunar æfa sig á því verki.

Á fírplássinu. Kyndarinn hamast við að moka kolum inn á fírinn.

Nú var haldið í borðsal. Raunar var fámennt þar, aðeins skipstjórinn sem sat við borðið, klæddur duggarapeysu og brók; þreytulegur og syfjulegur, enda var ekki óalgengt að hann stæði meira og minna allan túrinn; treysti ekki stýrimanninum fyrir togi; jafnvel hræddur um að sá fiskaði meira; ekki ósvipað og var hér á bátaflotanum fyrir svo sem tuttugu árum; það hefði getað kostað skipstjórann plássið og því vöktu menn sig vitlausa. Algengt var að skipstjóri svæfi svo sem 2-3 tíma eða eitt tog á sólarhring, slík var baráttan.
Og enn áfram. Nú var komið í eldhúsið. Og hér var mikið sjónarspil. Allt var á hreyfingu, raunar ekki hreyfingu heldur veltingi og það veltingi eins og hann gerist verstur. Hér mátti glöggIega sjá hvílíkar raunir kokksins eru til sjós. Báðar hendur á fullu við að halda potti á vél og leirtaui á borði og þar að auki allt annað á ferð og flugi í „gallíinu“. Glamur, skark og brothljóð glumdu í eyrum safngesta meðan á þessari skoðun stóð, auk þess sem heyra mátti óánægjuöskur úr borðsal frá mannskapnum hvort maturinn væri ekki að koma á borðið, ásamt miður prenthæfum athugasemdum um matsveininn.
Úr eldhúsi leiddu hvít spor safngesti inn í hásetaklefa, öðru nafni lúkar. Um borð í síðutogurum voru ekki þægindi slík sem menn þekkja í dag á skuttogurum. Hita fengu menn með kolaofni og rörið frá honum gegndi góðu hlutveki í þessari sýningu. Þar héngu flíkur skipverja til þerris og lá við að maður fyndi á ný dauninn af misvel þvegnum sokkum og nærflíkum. Þarna í lúkarnum voru þrír hásetar á frívakt, tveir við spil og einn við lestur. Svo sem nærri má geta voru myndverk á veggjum mestmegnis af kvenpeningi í lostafullum stellingum. Eina hljóðið, sem hér heyrðist, var suð í ofni og marr ofan af dekki. Hásetaklefar gömlu síðutogaranna voru einkar hljóðlátir staðir, frammi undir stefni þar sem einungis veðurguðirnir höfðu áhrif.
Og nú var hoppað inn í allt aðra veröld. Túrinn búinn og komið í land. Næstu dyr buðu upp á allt annað andrúmsloft og umhverfi. Nú tóku „bobbararnir“ við. Næstu þrep safnsins sýndu hin ýmsu stig löndunar úr togurum, allt frá lestarkarlinum og spilmanninum til „weigh off“ sem skyldi vera klár að grípa körfuna og hella úr henni í „kittið“. Hluti af Grimsby sem margir muna enn mæta vel.

Kafteinninn í borðsal, vansvefta eftir að hafa vakað megnið af túrnum.
„Kokkurinn við kabyssuna stóð, fallera“. einkar lifandi mynd af eldhúsi til sjós.
Svipmynd úr hásetaklefa. Lesið, spilað, spjallað, þvargað, horft á myndir af Marilyn, sálugu Monroe á veggjum.


Og í næsta herbergi hélt ég að ég hefði villst inn í kolvitlausan bás. Þar stóð nefnilega dökkklæddur maður með húfu í hendi inni í þokkalegri stofu og var á honum sorgarsvipur. Eftir skamma stund komst ég þó að því að hér var komið að þætti togarasjómanns í landi; það er að segja þess sem ekki komst í land. Sviðsett var stofa á heimili sjómanns sem var talinn af ásamt skipshöfn sinni. Þarna var presturinn mættur að tilkynna ekkjunni sorgartíðindin og yfir glumdi fréttaþáttur BBC um stórfelldan skipsskaða á Íslandsmiðum þar sem flestir væru taldir af. Þetta var einkar áhrifaríkt herbergi.
Og enn kom herbergi, sem sá er þetta ritar, var ekki klár á hvað væri. Með hjálp prentaðra upplýsinga á vegg kom þó í ljós að hér var um útborgun að ráða. Heldur þurrkuntulegt andlit kven-persónu var í lúgugati, svipuðu því sem Steinn heitinn Ingvarsson afgreiddi ballmiða gegnum á gullaldarárum Samkomuhúss Vestmannaeyja, meðan sá staður hafði einokun á skemmtanahaldi Eyjamanna. Raunar man ég að Steinn heitinn var alla jafna glaðlegur og góðlegur á svip við afgreiðslu sinna miða en sú var ekki raunin á með aldlitssvip þeirrar frúar sem hér var í lúgu og skyldi reiða af hendi laun skipverja. Sú hafði einkar skírlífan og púrítanskan svip á andliti og greinilega húsbóndaholl. Viðeigandi humm og ræskingar heyrðust af segulbandi, ásamt einstaka blótsyrði skipverja og lá við að enn frekari púritanasvipur færðist á svip „ladyarinnar“ í gatinu við það.

Bobbarinn tekur á móti körfu.

En nú fóru betri tímar í hönd. Næstu skref leiddu gesti inn á krá, nokkuð sem var órjúfandi hluti af lífi bresks togarasjómanns á síðutogara. Margir þeirra eyddu mestum hluta af lífi sínu í landi (og fé) á slíkum stöðum. Og hér fær kráin sinn stað. Þybbin, ljóshærð kona við afgreiðslu, gestir á barnum á léttu spjalli, raunar afskaplega friðsælt á að líta og gjörólíkt því sem raunin var oftast á. Hefði sennilega verið erfitt að setja á við slagsmál og drykkjuraus. Þarna var þægileg tónlist leikin, stríðsáramúsík en féll vel inn í þá stemmingu sem maður gæti gert sér í hugarlund af breskri krá frá þessum tíma, nema hvað þetta hefur sennilega verið rétt um opnunartíma. Það hefði verið meira spennandi að sjá „lebenið“ undir lokin, en líklega gert við hæfi ungra barna sem eru tíðir gestir á safninu.
Og af kránni er svo gengið beint út á götu. Jafn heilsteypta mynd og þeir Grimsbymenn hafa gefið af flestum þáttum togarasjómennsku, setja þeir þó lokapunktinn yfir með götumyndinni sem er hreint út sagt einstæð; slær við flestum leikmyndum í amerískum myndum. Þarna blasa við, auk kráarinnar, hinar ýmsu verslanir, kvenfata-, sælgætis-, áfengis- og guð má vita hvað. Og hinum megin götunnar er sjálf smábátahöfnin. Gamall snurvoðarbátur (smack) hefur verið fluttur þangað í heilu lagi og þar má sjá mannskap við lagfæringar á dekki og í reiða.
Frá þessum gamla tíma gengur maður svo út í sjálfan raunveruleikann, út í tuttugustu öldina og liggur við mann langi til að snúa við.
Þetta safn þeirra Grimsbymanna er, satt best að segja, þeim til mikils sóma. Nú hefur sá, sem þetta ritar, sótt æði mörg söfn heim um dagana og haft af því mismikla ánægju, í besta falli nokkurn fróðleik. Oftar en ekki hefur hann þó verið þeirri stund fegnastur þegar heimsókn hefur lokið.
Hins vegar brá nú til hins nýrra við skoðun þessa safns er nú hefur frá verið greint. Söguritari þessa þáttar þekkir ekki til þeirra aðila er skópu og fullgerðu safnið í Grimsby en leyfir sér að fullyrða að þar hafi vel til tekist. Glöggu ljósi er varpað á sögu togaraútgerðar frá Grimsby, sérstaklega að því er varðar kjör, aðbúnað og líf sjómanna. Ljóst er að uppsetning þessa safns hefur kostað gífurlegt fé og hefur í engu verið til sparað. Enda er árangurinn eftir því. Aðsókn er mikil, hefst vart undan enn sem komið er, þótt sjálfsagt eigi hún eftir að jafnast.
Í upphafi þessa greinarkorns sagði höfundur að hann hefði aldrei augum barið annað eins safn. Það stendur enn og mun væntanlega lengi standa. Slíkur er glæsileiki Grimsby-safnsins. Þar hafa menn ekki farið troðnar slóðir um varðveislu gamalla muna (þótt slíkt sé allra góðra gjalda vert) heldur farið út í að útbúa lifandi safn, safn sem sameinar fjölleikahús og fornminjar. Hafið þökk fyrir Grimsby-menn.

P.s. Mér finnst ástæða til að hvetja sjómenn íslenska og aðra þá sem Ieið eiga um Humber-svæðið til að sækja þetta safn heim. Ég er ekki í eðli mínu maður mikilla loforða en leyfi mér að telja að þeir verði ekki fyrir vonbrigðum, sæki þeir heim safnið í Grimsby.