Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1992/Þar var oft þröng á þingi
Greinarhöfundurinn, Sigurgeir Pétursson, er Vopnfirðingur að uppruna, sennilega hvað kunnastur fyrir að vera bróðir Lindu Pétursdóttur, fegurðardrottningar. Sigurgeir lauk námi frá Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum 1983, var þar hæstur og var síðan um nokkurra ára skeið með skip hjá útgerð föður síns á Vopnafirði. En fyrir þremur árum söðlaði hann yfir, þreyttur á kvótamálum og annarri óáran á Íslandi og hélt yfir hálfan hnöttinn til Nýja Sjálands ásamt eiginkonu sinni sem þaðan er ættuð. Þar hefur hann stundað sjó sem stýrimaður og þessa dagana stendur hann í viðræðum við íslenskt fyrirtæki sem sýnt hefur áhuga á að fjárfesta í útgerð á Nýja Sjálandi, ásamt kynningarstarfsemi á útgerð og fiskveiðum þar.
...og heimtaði grein
Um sólbjartan sumardag í lok febrúar sl. barst mér bréf, þar sem ég lá úti í garði í mestu makindum og sleikti sólskinið. Sá ég fljótt að þetta var frá nafna mínum, vini og skólabróður Sigurgeir Jónssyni frá Þorlaugargerði. Varð ég mjög ánægður að fá frá honum bréf, fullt af hinum margfræga íslenska bölmóð. Í bréfi sínu fræddi hann mig m.a. á sameiningu fyrirtækja í Eyjum og var helst að honum að skilja að mest allt atvinnulífið snerist orðið um aðeins þrjú fyrirtæki, Vinnslustöðina, Ísfélagið og Oddinn.
Ekki skildi ég þó af hverju svo störfum hlaðinn maður gaf sér tíma til að skrifa mér, hér hinum megin á hnettinum. Þetta skýrðist þó þegar ég kom að niðurlagi bréfsins þar sem hann, af sinni alkunnu orðsnilld, skipaði mér í formi spurningar að skrifa grein í Sjómannadagsblað Vestmannaeyja um fiskveiðar á framandi slóðum. Ekki lét hann þó þar við sitja, heldur bætti við að ég yrði að drífa í þessu því tíminn væri að verða naumur.
Grænfriðungar gera mönnum lífið leitt
Segja má að fiskveiðar hér á Nýja Sjálandi séu á margan hátt líkar því sem gerist á Íslandi.
Hér er langstærstur hluti aflans veiddur í troll en þó eru einnig stundaðar línu- og netaveiðar. Einnig eru hér nokkrir nótabátar og veiða þeir aðallega túnfisk og makríl.
Mjög mikil óvissa ríkir um framhald netaveiða hér við land. Árið 1990 voru allar reknetaveiðar í S-Kyrrahafi bannaðar, að undirlagi Grænfriðunga. Á þessu ári eru þeir svo að berjast fyrir algjöru banni á lagnetaveiðar og er allt útlit fyrir að þeir muni ná því fram. Áhugavert verður að sjá hvaða veiðarfæri verður næst fyrir valinu hjá þessum áhrifamikla vitleysingahópi.
Veðrið talsvert betra
Það sem mér kemur fyrst í hug, við samanburð fiskveiða hér við Nýja Sjáland og Ísland, er veðráttan. Veðurfarið hér gerir sjómannsstarfið svo miklu auðveldara en menn eru vanir á Íslandsmiðum.
Mestan hluta ársins eru veður góð, umhleypingar mjög fátíðir og hitastigið á bilinu 15-25 stig á C. Yfir vetrarmánuðina (júní-sept) geta þó verið miklir vindar og býsna þrálátar brælur. Veðurkerfið er þó mjög einfalt og ferðast nánast allar lægðir eftir sömu braut og allflestar brælur blása úr áttum milli S og V. Fyrir skip, sem hafa veðurkortaritara, þarf veðrið því nánast aldrei að koma á óvart. Töluverðan tíma tók mig þó að venjast því að lesa út úr veðurkortunum hérna þar sem vindur snýst réttsælis kringum lægðir og rangsælis kringum hæðir, öfugt við það sem er á norðurhveli jarðar. Vegna þess hve mikið opið hafsvæði er allt í kringum Nýja Sjáland, þá myndast í þessum vetrarbrælum oft mikill sjór og er 5-8 metra ölduhæð ekki óalgeng. Þessir sjóir eru þó yfirleitt reglulegir og brotsjóir mjög fátíðir.
Ekkert kemur klárt um borð
Menntunarmál sjómanna hér eru í þokkalegu lagi. Skipstjórnar- og vélstjórnarnám er þó mun styttra en á Íslandi. Hér þurfa menn, áður en þeir geta orðið fullgildir hásetar á stærri skipum, að hafa lokið þriggja vikna námskeiði þar sem kennd eru algengustu sjómannsstörf, svo sem netabæting, hnýtingar og vírasplæsningar, auk þess sem kennd eru undirstöðuatriði við stöðu stímvakta. Þessi námskeið geta verið mjög hagnýt og æskileg, sérstaklega þegar haft er í huga að hér fara allar vírasplæsingar fram um borð, svo og netavinna. Ekkert kemur tilbúið um borð og því fer mikill tími í uppsetningu veiðarfæra, grandarasplæsningar og þess háttar.
Þeir eru reknir sem ekki standa sig
Aðbúnaður um borð er misjafn og langt frá því að vera sambærilegur við það sem tíðkast í íslenskum skipum. Mikill munur er gerður á yfir- og undirmönnum, bæði hvað varðar laun og aðstöðu um borð. Litlu rými er yfirleitt eytt fyrir íbúðir og vistarverur. Menn eru margir saman í litlum og þröngum klefum.
Um borð í togurunum er unnið á vöktum, líkt og þekkist á íslenskum skipum. Ef lítið er að gera í fiski eða veiðarfæravinnu er áhöfnin látin grípa í allt sem til fellur, málningarvinnu, þrif og þess háttar og eru menn undantekningarlaust vinnandi alla vaktina. Nýsjálenskir sjómenn eru yfirleitt hörkuduglegir og vel starfi sínu vaxnir og leggja sig alla fram um að gegna starfi sínu sem best. Mikið atvinnuleysi er í stéttinni og ýtir það líka á menn að standa sig því menn eru miskunnarlaust reknir, séu þeir slakir og á það jafnt við um undir- sem yfirmenn. Laun sjómanna hér eru auðvitað misjöfn eins og annars staðar en þó held ég að yfir heildina litið verði þau að teljast mjög þokkaleg á nýsjálenskan mælikvarða.
Lítil enskukunnátta Asíumanna
Mestu viðbrigðin fyrir mig persónulega held ég þó að séu samskiptin við skip alls staðar að úr heiminum. Mikið er af stórum og aflmiklum útlendum skipum á miðunum hérna, aðallega Rússar, Japanar og Kóreumenn. Skipstjórnarmenn þessara skipa tala oft takmarkaða og illskiljanlega ensku og er því oft fjör á miðunum þegar þröngt er á þingi. Eina setningu virðast þeir þó samt allir hafa á hreinu ef kallað er í þá og þeim bent á að hegðun þeirra sé ekki í samræmi við siglingareglur, en það er: „I do not understand English.“ Vegna þessa er töluvert um að notuð séu ljós- og hljóðmerki. Þrátt fyrir það virðast þeir skáeygðu oft á tíðum aðeins hafa eina reglu og er hún sú að sá sem er hræddastur víki fyrst.
Meðferð aflans ekki til fyrirmyndar
Hvað varðar veiðarnar sjálfar, má segja að veiðarfærin séru mjög góð og vel í takt við tímann. Hið sama má segja um tæki í brú sem eru yfirleitt nýtískuleg og góð. Algengt er að togarar fái stór hol og fylla þeir sig oft á skömmum tíma. Hvorki er gert að fiski né hann blóðgaður, heldur er hann settur beint niður í lest, yfirleitt í stórar stíur og finnst mér gæðin oft ekki vera til að hrópa húrra fyrir. Ekki er þó eingöngu við sjómenn að sakast. Enginn virðist hafa áhuga á að auka gæðin, hvorki útgerðarmenn né fiskverkendur.
Ég hef hér reynt að stikla á stóru í samanburði fiskveiða við Ísland og Nýja Sjáland. Ég vil taka fram að síðan ég fluttist hingað hef ég eingöngu starfað á togurum og þekki því lítið til veiða á smærri skipum hér.
Nýsjálenska lögsagan nær yfir óhemjustórt hafsvæði og eru stórir hlutar þess lítt kannaðír. Ég hef þá trú að fiskveiðar við Nýja Sjáland geti átt sér bjarta framtíð og þeir geti orðið ein af mestu fiskveiðiþjóðum heims á næstu árum eða áratugum.
Ég vil að lokum óska sjómönnum í Eyjum til hamingju með daginn með ósk um farsæld á komandi árum.
Hamilton 28. febrúar 1992
Sigurgeir Pétursson.